Sunnudagur 16. október 2005 -- Systkinin
Erna Rósmundsdóttir og Hilmar Rósmundsson eru 80 ára í dag
Sunnudagur 16. október 2005 --
Ein gömul:
Á myndinni eru Ari Már Þorkelsson - Jón Sæmundsson og Guðbrandur Jónsson. --
En hvaða hús er verið að byggja þarna árið 1976?
Sunnudagur 16. október 2005 -- Ekki veit ég hvað þeir heita þessir drengir - Þeir voru við leik við Langeyrartjörn og voru fúsir til að brosa framan í myndavélina mína seinni partinn í gær.
Sunnudagur 16. október 2005 -- Og þessir drengir við Hverfisgötu syðri, voru einnig fúsir til að brosa framan við myndavélina.
Sunnudagur 16. október 2005 -- Undanfarið - allt að fyrir mánuði höfðu menn tekið eftir því að ein og yfirgefin rolla hafi haldið til í klettabeltinu fyrir ofan og norðan við austari enda Strákaganga. Og í morgun var staðsetning hennar slík að menn töldu fyrir víst að hún væri þar í sjálfheldu. -- Vaskir menn, í fylgd lögreglu og fjáreiganda gerðu sig klára til að reyna að bjarga rollunni - og eða skjóta hana, á staðnum ef það tækist ekki. En þegar hópurinn var tilbúinn til aðgerða, hafði rollan farið á annað svæði norðar í klettabeltinu og fylgdist greinilega vel með atferli manna. Eftir smá stund rauk hún aftur af stað og hélt lengra upp og fór létt með.- Mannfólkið fylgdist með smá stund og ákváðu síðan að björgunaraðgerðum væri lokið að sinni. (myndirnar eru teknar klukkan 14:10> í dag)
Mánudagur 17. október 2005 -- Ein gömul: Frá uppsetningu véla og búnaðar í Neðri virkjun Skeiðsfoss árið 1976 --
Skarphéðinn Guðmundsson byggingameistari - Jón Dýrfjörð vélsmíðameistari - kranastjórinn Steingrímur - einn óþekktur og Sigurbjörn Jóhannsson rafvirki.
Mánudagur 17. október 2005
Þessa fallegu mynd sendi mér Hrönn Einarsdóttir -
Hún tók myndina síðastliðið laugardagskvöld.
Þriðjudagur 18. október 2005 -- Ein gömul: Mér sýnist þetta vera Kristján Hauksson og örugglega Þórleifur Haraldsson. En spurningin er Hvar, og hvað eru þeir að bauka þarna uppi á þaki, árið 1976?
Þriðjudagur 18. október 2005 - Til Mexico Undanfarna daga hafa starfsmenn Þormóðs Ramma Sæberg hf. verið að vinna við að koma fyrir í gámum allskonar búnaði til frystingar ofl. sem aflagt hefur verið hér og á Ólafsfirði hjá fyrirtækinu vegna breytinga. Gámarnir verða síðan fluttir til Mexico þar sem áður nefndur búnaður hefur verið seldur til og þar þjóna nýjum eigendum. Myndin var tekin í gær.
Þriðjudagur 18. október 2005 -- Eins og áður hefur komið fram var þakið á húsinu við Aðalgötu 15 rifið vegna breytinga - en nú er verið að reisa þakið að nýju með einingum sem smíðaðar voru hjá Berg hf.
Verkið gengur vel, sem búast má við þar sem röskir menn ganga til verka.
Þriðjudagur 18. október 2005 - Þessi fallegi bátur Brimill SH 31 7474 Stykkishólmi, var sjósettur fyrir hádegið, eftir að hafa verið lengdur um 2 metra og sett utan á hann síðustokkar, sem eykur bæði burðargetu og stöðuleika. --- Verkið var unnið hjá JE-Vélaverkstæði, en þar á bæ ætla nú starfsmenn að taka sér smá pásu á morgun og næstu daga og skreppa með sína heittelskuðu maka til Kaupmannahafnar.
Þriðjudagur 18. október 2005
Nýlega frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur Sölku Völku eftir. Halldór Laxness í nýrri leikgerð eftir Hrafnhildi Hagalín. ---
Sýningin hefur fengið frábæra dóma hjá gagnrýnendum sem og áhorfendum:
“Theodór Júlíusson og Guðrún Ásmundsdóttir gengu inní hjarta manns í einfaldleika sínum í hlutverkum Eyjólfs blinda og Steinunnar gömlu,,”
“Í heild fannst mér þetta metnaðarfull, hugmyndarík sýning og unnin af alúð,,”
María Kristjánsdóttir/MBL ---
Miðvikudagur 19. október 2005 -- Ein gömul: Þarna er örugglega verið að ræða um fótbolta: Arnar Ólafsson og Tómas Hallgrímsson fyrir utan verslun Gests Fanndal, baka til er Kristján Hauksson að koma út frá Gesti - og enn aftar er Björn Magnússon bifreiðarstjóri og fleiri að vinna við hitaveitulögn.
Miðvikudagur 19. október 2005 - Frétt úr Morgunblaðinu 17. október: Bíll valt á Kjalvegi -- Tvær japanskar konur sem hér eru á ferðalagi sluppu með skrámur eftir að bíll þeirra valt á Kjalvegi um klukkan 17.30 í dag. Lögreglan á Blönduósi segir að svo virðist sem ökumaður hafi misst stjórn á bílnum á ójöfnum vegi. Bíllinn valt um 8 kílómetrum sunnan við Áfangafell og var mikil þoka á svæðinu auk þess sem þar er símasambandslaust, að sögn lögreglu. Það varð konunum til happs að rjúpnaveiðimenn sem höfðu þurft að hætta veiðum vegna þokunnar, óku fram á þær. -- Lögregla segir að bíllinn sem konurnar voru á hafi gereyðilagst við veltuna, en um var að ræða bílaleigubíl. --- -------------------------------------------------
Við vorum í gær staddir á Kjalvegi í Rjúpnahugleiðingum --- þegar við ókum fram á þessar Japönsku konur sem voru á leið "suður Kjöl til að skoða Geysi" --- Blessaðir Túristarnir fá góða tilsögn og leiðsögn þegar þeir fá sér bíl á leigu um miðjan október á Íslandi. Þær lögðu upp frá Akureyri um hádegisbilið. - Kveðja Birgir Hauksson. -- með í för voru Valdi Gosa, Halldór Bogi og Óli H. Henriksen --- Es. lítið af rjúpu. (mynd: Birgir Hauksson)
Miðvikudagur 19. október 2005
Oft hefi ég orðið hissa á málflutningi manna þegar minnst hefur verið á Héðinsfjarðargöng, en eftir lestur "greinar" farandverkamannsins Guðmundar Karls Jónssonar - þá átti ég vart orð yfir þeim málflutningi sem hann setur fram, málflutningi sem að mínu mati samanstendur af hreinu rugli og fávisku, vægt til orða tekið, enda hvarflar ekki að mér að eyða tíma mínum í að svara frekar. -
Hann lítur alls ekki út fyrir að vera með lága greindarvísitölu, en það er auðvitað ekki á mínu færi að meta það. En til að sem flestir viti af og geti metið með sjálfum sér hvort hér er á ferðinni eitthvert undrabarn á ritvellinum eða hvort þarna er bara um óvenjulegt rugl að ræða.
Smellið HÉR og metið sjálf ritsmíðina. -- Frá Bæjarins Besta - Því miður fann ég ekk þess grein.
Fimmtudagur 20. október 2005
Frá Ólafsfirði: Bæjarráð - 19. október 2005
1713. fundur bæjarráðs Ólafsfjarðar, sem jafnframt var sameiginlegur fundur með bæjarráði Siglufjarðar, var haldinn á bæjarskrifstofunni miðvikudaginn 19. október 2005 og hófst kl. 18.00. --
Mættir: Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, Rögnvaldur Ingólfsson og Ásgeir Logi Ásgeirsson.
Frá Siglufirði mættu Ólafur Kárason, Egill Rögnvaldsson, Haukur Ómarsson og Skarphéðinn Guðmundsson.
Einnig sátu fundinn Stefanía Traustadóttir, Runólfur Birgisson og Kristinn Hreinsson. Fundarefni var Sameining Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og hagsmunir, . -- Jóna Vilhelmína bauð fundarmenn velkomna.
Fimmtudagur 20. október 2005 - Ein gömul:
Ljósmynd: Margrét M Steingrímsdóttir
Kjartan Stefánsson og Þórsteinn Ragnarsson 1968 (?)
Fimmtudagur 20. október 2005 Snerpa: Þessi hópur kemur saman tvisvar í viku Íþróttahúsinu á Sigufirði til að spila Bossía.
Aftari röð: Guðbjörg Friðriksdóttir - Svava Baldvinsdóttir - Rósa Jónsdóttir þjálfari- Íris Gunnarsdóttir - Heiðrún Sólveig Jónasdóttir - Hugljúf Sigtryggsdóttir - Helga Hermannsdóttir þjálfari - Árni Bjarnason
Fremri röð: Unnur Jónsdóttir - Guðný Ósk Friðriksdóttir - Vilborg Jónsdóttir - Kristveig Skúladóttir - Hrefna Hermannsdóttir - Ásta Jónsdóttir - Jóhanna Þorsteinsdóttir - Anna Lára Hertevíg og Erla Jóhannesdóttir.
Lilja Guðmundsdóttir hélt á myndavélinni fyrir Guðný Ósk, í morgun
Fimmtudagur 20. október 2005 -- Frá vef Siglufjarðarkaupstaðar 20. október 2005
Uppskeruhátíð Ferðaþjónustunnar á Norðurlandi (Tengill Siglufjarðarkaupstaðar ekki virkir í dag 2019)
Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi bjóða til Uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar þann 10. nóvember. Þangað eru boðnir allir sem starfa að ferðamálum á Norðurlandi. --- Markmiðið með hátíðinni er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að ferðaþjónustuaðilar kynnist því sem að önnur svæði hafa upp á að bjóða.
Að þessu sinni eru Þingeyingar gestgjafar en áætlað er að þessi hátíð verði haldin árlega og þá á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Þingeyjarsýslu lagt sitt af mörkum til að gera hátíðina sem glæsilegasta. ----- Dagskráin hefst á Húsavík og í framhaldinu verður farið í hringferð um nágrennið með ýmsum skemmtilegum uppákomum á leiðinni. Um kvöldið verður svo dagskrá sem kætir bæði líkama og sál.
Allar nánari upplýsingar og skráning eru á www.nordurland.is
Föstudagur 21. október 2005 Ein gömul: - Þessa kappa þekkja allir ! Siglfirðingar- En þetta eru Alfreð Hallgrímsson og Hrafnkell Hall - Þarna að vinnu við uppbyggingu neðri virkjun við Skeiðsfoss árið 1976
Föstudagur 21. október 2005 -- Norðan kaldi á oss blés. Þessi mynd var tekin stuttu eftir hádegið í gær, en þá sást í nokkrar mínútur í heiðskíran depil í norð norð austri á milli skýhnoðranna sem voru á fleygi ferð um himinhvolfið, rétt eins og sólin væri á norðurhveli, og að brjótast í gegn.
Föstudagur 21. október 2005 En hvað við erum heppin, að sumir skuli ekki hafa áhuga á að flytja til Siglufjarðar, fólk sem hatar Siglufjörð og raunar allt það sem það ekki þekkir, og dæmir og ruglar um "hluti" - Fólk sem dæmir umhverfi sitt samkvæmt hatri á sjálfum sér og því sem því er ekki þóknanlegt. Á vefnum www.barnaland.is - vef sem samkvæmt nafni ætti að vera, hefði maður haldið, ímynd barngæsku og jákvæðri umfjöllun henni tengt. - Það er sko aldeilis ekki ef lesið er margt af þeim óhróðri, orðaflaumi og heimsku sem er að finna HÉR Það er á vefnum sem ber titilinn Mbl.is - Barnaland. Ég hvet fólk til að lesa það sem þar stendur skrifað, óhróður um Siglufjörð og raunar má finna þar andúð á flestu sem er utan hins svokallaða stór Reykjavíkursvæðis. -- Skrítið hvað ein sakleysisleg og vinaleg spurning getur framkallað mikið hatur. (Því miður þá fann ég ekki þesa grein nú árið 2019)
Föstudagur 21. október 2005 Aðsent: ÁFRAM STELPUR --- Höldum saman upp á kvennafrídaginn mánudaginn 24. október næstkomandi. -- Hittumst við kirkjuna kl. 14.30 --- Gaman væri ef einhverjar kæmu með kröfuspjöld eins og í denn.--- Svo höldum við áfram niður tröppurnar og marserum að Bíó Café (samkvæmt auglýsingu frá þeim). -- Mætum saman og fáum allar með okkur. --- Baráttukveðjur - Áhugafólk um jafnréttisbaráttu :) Karlar, ungir sem gamlir: Styðjum stelpurnar, við getum ekki án þeirra verið. SK
Laugardagur 22. október 2005
Ein gömul:
Hangandi í kranabómu vegna vinnu við að klæða kirkjuturninn árið 1976.
Í vinnustólnum eru Friðrik Hannesson - man ekki nafnið - og Jón Dýrfjörð sem veifar hjálmi sínum.
En JE Vélaverkstæði sá um verkið.