Sunnudagur 19. september 2004
Ein gömul:
Slappað af yfir kvöldverði á Hótel Höfn, - eftir útskrift úr Iðnskóla Siglufjarðar árið 1981.
Margrét Einarsdóttir - Gunnar Gottskálksson - Gunnar Björn Rögnvaldsson - Steingrímur Kristinsson - Bylgja Hauksdóttir og Óttar Möller.
Sunnudagur 19. september 2004 -- Suðusprittið. Lögreglustjórinn hefur beitt sér fyrir því að allir þeir sem leyfi hafa til verslunar hér í Siglufirði, hafi með undirskriftum skuldbundið sig til þess og sektir viðlagðar, að selja ekki suðu spíritus, hárvötn og fleiri vökva nema gegn seðlum, sem bæjarstjórn úthluti. Hefur nokkrum orðið bilt við ráðstöfun þessa, því næstu daga og meðan þetta ekki komst í gildi, var suðuspritt auglýst á götum bæjarins með krónu afslætti á potti, frá því sem almennt verið hafði. Vonandi tekst lögreglustjóra með þessu að stemma stigu fyrir því að kogesinn verði drukkinn eins og mann grunar að hafi verið gjört og á hann þakkir skildar fyrir uppástunguna, því samkvæmt lögum vorum er það ekki skaðvænt að staupa sig á kogesnum og ekki hægt að koma í veg fyrir að svo sé gjört þó á hinn bóginn löggjafar vorir hafi af einskærri föðurlandsást og náungans kærleika lagt þvert bann fyrir, lagi við tukthús og missir æru og eigna, ef einhver vildi gleðja sál sína og skerpa vitið, með glasi af fínu þrúguvíni. Þetta er nú rotið! -- Úr vikublaðinu Fram 1918
Mánudagur 20. september 2004
Ein gömul:
Tómas Kárason - Gunnar Björn Rögnvaldsson og man ekki nafnið
Mánudagur 20. september 2004 Talsími til Siglufjarðar. Sýslufundur Skagfirðinga hefir nú veitt 2.000 kr. úr -sýslusjóði til símalínu frá Vatnsleysu út Höfðaströnd til Siglufjarðar. Áætlað er að lína þessi muni kosta 30.000 kr. og hefir verið ætlazt til að héröðin sem línan á að liggja um, legðu til 10.000 en landssjóður 20,000 kr. Líklegt má telja að Eyjafjarðarsýsla leggi eitthvað af mörkum, þótt síður sé ástæða til þess nú en áður en Ólafsfjarðarlínan var lögð, því að Siglufjarðarlínan mun óefað rýra tekjurnar af þeirri línu. Hreppafélög þau 6 er línan á að liggja um, munu að sjálfsögðu eitthvað til línunnar leggja, einkum Hvanneyrarhreppur (Siglufjörður), enda er honum mest nauðsyn á línunni. Vonandi er að allir er hér eiga hlut að máli, sýni þann dugnað að koma þessu þarfamáli í framkvæmd.
Úr blaðinu Mjölnir á Akureyri 4. febrúar 1909
Mánudagur 20. september 2004
Aðsent: Ég sendi þér hér nokkrar myndir að gamni mínu sem teknar voru í Kína í sumar ( Júní ) Fyrstu þrjár myndirnar eru teknar við stærstu virkjun heims, þriggja gljúfra virkjunina í Jangtze fljóti. Í virkjun þessari verða 26 hverflar og hver þeirra framleiðir jafn mikið og öll Kárahnjúkavirkjun, nú þegar er búið að taka 10 eða 11 hverfla í notkun en fullbúin verður hún árið 2009. Síðasta myndin er af okkur Mögnu á Kínamúrnum. Á fyrstu myndinni eru talin frá vinstri; Hjálmar Stefánsson, Halla Haraldsdóttir, Stella Baldvinsdóttir, Ómar Möller, og Magna Sigbjörnsdóttir.
Á myndina vantar mann Stellu , Magnús Guðmundsson. Til gamans get ég sagt þér að í þessari ferð sem farin var með Kínaklúbbi Unnar voru 20 ferðalangar og þar af 5 Siglfirðingar. Bestu kveðjur. Ómar Möller
Mánudagur 20. september 2004
Varðskipið Týr kom í morgun og lagðist að Hafnarbryggjunni.
Mánudagur 20. september 2004 -- Erlenda flutningaskipið Trinket lestaði hér hjá Síldarvinnslunni 515 tonn af loðnumjöli sem fer til Englands.
Þriðjudagur 21. september 2004
Ein gömul:
Dagurinn sem Nýja frystihús Þormóðs Ramma hf var vígt með prump og prakt, fögrum ræðuhöldum þingmanna og annarra embættismanna árið 1975. --
Að auki var öllum Siglfirðingum boðið til þessa fagnaðar.
Þetta eru:
Aðalsteinn Arnarsson - Kári Hreinsson og þáverandi kærasta hans og núverandi eiginkona, Helga Sverrisdóttir.
Þriðjudagur 21. september 2004 Aðsent: Frá Lionsklúbbi Siglufjarðar. - Klúbburinn fékk styrk frá menningarsjóði KEA í vor, til að laga til í kring um leiðin og minnisvarða á Hvanneyri. Hér eru myndir frá því fyrir og eftir tiltekt í sumar og er þetta fyrsti áfangi í þessu verki. Okkur þætti vænt um að þessar myndir birtust á vefnum þínum.
Með kveðju og þökk Hörður Þór Hjálmarsson formaður.
GB Þriðjudagur 21. september 2004
Ath. Ekki birt núna 2016: Á gömlu síðunni voru bit nánast öll netföng sem tengd voru Siglfirðingum beint og óbeint. Þetta var að mestu bit ásamt ljósmyndum af viðkomandi, var flokkað eftir stafrófsröð þannig að hver síða hélt utan um fyrsta bókstaf viðkomandi nafna og náði yfir margar síður. Þar sem þetta er mikið magn í síðum og megabætum talið, þá birti ég þennan hluta síunnar Lífið á Sigló 2004 til að spara takmarkað pláss sem er til reiðu (samtals 100GB) vegna verksins hér í uppfærslunni hjá Google.
Þriðjudagur 21. september 2004
Aðsent og: Ég sendi hér þrjár myndir af flóðum í Skútuá. Sú gamla sem vanalegast er sem tær og blíðlyndur lækur byltist fram kolmórauð og illúðleg. Svo hátt stendur í ósnum við gamla flugvöllinn að það flæðir suður um allar Saurbæjarmýrar og er þar eins og fjörð yfir að líta og allir varphólmar á svæðinu horfnir á kaf í vatnsflauminn. Hólsá er í sömuleiðis miklum vexti og flæðir Grísará við dæluskúrinn yfir veginn og er farin að naga úr honum á parti. Myndirnar eru teknar frá Árósi og sýnir ein þeirra uppundir Skútuárbrú og hinar niður eftir lóninu þar sem Árós-báturinn er bundinn. Bátseigandinn bíður nú spenntur eftir því hvað verða vill í straumnum. - kveðja ök --
Til viðbótar hefi ég (SK) sett nokkrar myndir atburðum þessum tengdum. Smelltu HÉR
Þriðjudagur 21. september 2004
Sjávarútvegsnefnd Alþingis á ferðalagi sínu í dag og á morgun; Siglufjörður–Ólafsfjörður–Dalvík–Hrísey–Akureyri.
Nefndarmenn komu til Siglufjarðar rétt fyrir hádegið í dag og byrjuðu á því að skoða Bátahúsið undir leiðsögn safnvarðarins Örlygs Kristfinnssonar.
Þaðan var síðan haldið til að skoða Gránu og síðan í aðalsafnhúsið, Róaldsbraggann þar sem nefndin naut hádegisverðar. Myndir HÉR
Miðvikudagur 22. september 2004
Ein gömul:
Um borð í Siglfirðing SI 150, einhversstaðar úti á sjó á veiðum.
Anton Eyþórsson og Steingrímur Örn.
Ljósmynd: Kristinn Steingrímsson
Miðvikudagur 22. september 2004
Aðsent: -- Golf -- Verðlaunaafhending Unglingabikars Siglósports:
sæti Þórhallur Dúi Ingvarsson -
sæti Sævar Örn Kárason - og
sæti Grétar Bragi Hallgrímsson
Lið bóndans Ólínu Þóreyjar Guðjónsdóttur sem sigraði í Bændaglímunni sem haldið var 18. september. Sigurður Benóný Þorkelsson fór holu í höggi í sumar. Verðlaunaafhending í Kaffi Torgs mótaröðinni. 2. sæti Róbert Haraldsson, 1. sæti Vigfús Ingi Hauksson og 3. sæti Þórhallur Dúi Ingvarsson.
kveðja Ólafur Þór Ólafsson Myndir HÉR
Fimmtudagur 23. september 2004
Ein gömul 1978:
Óskar Sveinsson og Guðmundur Bjarnason, þarna á hlaðinu ofan við heimili Guðmundar; Bakki.
Fimmtudagur 23. september 2004
Skemmtileg grein til aflestrar úr Norðra útg á Akureyri 1911-
Reynt er að hafa stafsetninguna þá sömu og þá tíðkaðist. ------
Siglufjörður.
Fyrirfarandi ár hafa mátt heita kyrrstöðuár hér norðanlands, að vísu hefir landbúnaðurinn þokað fremur áfram og túnrækt víða verið aukin.
Sjávarútvegurinn hefir og heldur aukist og lagast að því leyti, að útgerðarmenn og fiskimenn eru betur og betur að læra að hagnýta sér vélbátana, sem keyptir voru fyrir nokkrum árum. Vöruvöndun hefur og tekið nokkrum framförum einkum á fiski og kjöti. Hvergi hér norðan lands er þó framfaravísinn jafn auðsær og á Siglufirði. auk þeirra bráðu framfara, sem kauptúnið tók þar, er hin mikla síldveiði hófst þar á sumrin fyrir nokkrum árum, eru ................. Greinin í heild er neðst hér á síðunni
Fimmtudagur 23. september 2004
Verulega hefur sjatnað í Hólsánni og brúarstólparnir vestanverðu eru komnir í ljós og einnig sést að landslagið hefur tekið stakkaskiptum.
Gras og annað hefur flækst í járnabindingunni og jarðvegur sem þarna var er horfinn og komið í staðinn mold og leir sem væntanlega þarf að fjarlægja.
Fimmtudagur 23. september 2004 Bátadokkin.
Unnið var á fjörunni eftir hádegið í dag , við að setja upp ljósastaura á nýju bryggjuna í bátadokkinni. Myndir hér fyrir neðan.
Föstudagur 24. september 2004 --- Ein gömul:
Sigurður Elefsen og Kristinn Georgsson. -- Myndin er tekin á Raufarhöfn í apríl 1959
Föstudagur 24. september 2004 Aðsent:
Eins og flestum Siglfirðingum er væntanlega kunnugt, þá munu Lionsmenn ganga í hús nú um helgina, laugardag og sunnudag, til söfnunar fyrir nýjum líkbíl. Bíllinn kom í bæinn í gærkveldi um kl. 18:00 og meðfylgjandi mynd var tekin um það leiti framan við kirkjuna. Fleiri myndir af bílnum koma í ljós ef þú smellir HÉR
Föstudagur 24. september 2004
Kvöldstemming.
Upplýst kirkja og kirkjutröppur.
Þessa mynd tók Júlíus Hraunberg í gærkveldi og sendi mér.
Föstudagur 24. september 2004 Aðsend fréttatilkynning: Kammerkór Norðurlands
Um næstu helgi 25. og 26. september heldur Kammerkór Norðurlands tónleika á Löngumýri í Skagafirði, Siglufjarðarkirkju og Ketilhúsinu á Akureyri.
Á fjölbreyttri söngskrá kórsins eru að þessu sinni verk frá ýmsum löndum, meðal annars frá Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Nýfundnalandi, Þýskalandi auk Íslands.
Má til gamans geta þess að kórinn syngur á sjö tungumálum. Kammerkór Norðurlands var stofnaður í nóvember 1998. Í honum er söngfólk af Norðurlandi, allt frá Sauðárkróki til Kópaskers, auk félaga sem fluttur er til Reykjavíkur en félagarnir eru ýmist atvinnutónlistarfólk eða áhugamenn með mjög mikla reynslu af kórstarfi.
Markmið kórsins er að flytja veraldleg og kirkjuleg verk sem veita kórfélögum tækifæri til að takast á við erfiðari verk en þeir eru að syngja venjulega og þá þannig að flutningurinn sé í samræmi við getu hópsins.
Meðal efnis sem kórinn hefur fengist við eru kirkjulegt efni, íslensk þjóðlög, enskir madrigalar og íslensk og erlend samtímaverk. Einnig hefur kórinn unnið og komið fram með öðrum t.d. þegar Krýningarmessa Mozarts var flutt í Mývatnssveit og þegar Sálumessa Verdis var flutt á stórtónleikum á Akureyri.
Guðmundur Óli Gunnarsson hefur verið stjórnandi kórsins frá árinu 2000.
Föstudagur 24. september 2004
Svanir: Alls eru nú 8 svanir að spóka sig og leita ætis á tjörnum inni í botni Siglufjarðar, það er 6 eru á Langeyrartjörn og 2 eru innarlega í Hólsdal.
Föstudagur 24. september 2004
Neysluvatn þeirra sem heima eiga í suðurbænum spilltist örlítið í vatnsveðrinu á dögunum, en lónið innan við vatnsstífluna inni í Hólsdal fylltist af aur og grjóti. Þó mun minna en búast hefði mátt við. Sjálf vatnsinntökin sem eru nokkuð langt neðanjarðar og vatnið sigtað í gegnum jarðveginn sem fyrir var. Verið var að vinna með stórri gröfu við að hreinsa sjálft lónið er ég kom á staðinn. Greinilegt er að áin hefur mjög víða farið uppá og yfir bakka sína á leið sinni til sjávar, þar sem gróðurinn meðfram ánni hefur lagst niður í straumáttina.
Laugardagur 25. september 2004
Ein gömul:
Símon Helgason og Stefán Sigmarsson, á SR-árshátíð 1982 +/-
Laugardagur 25. september 2004
Óspektir á Siglufirði. - Okkur, hinum almennu borgurum gefst ekki oft tækifæri til að berja augum það helsta sem lögreglan á Siglufirði skrifar í sínar dagbækur, svona eins og allir geta lesið á netinu um það helsta sem hefur verið að ske í öðrum byggðarlögum, hvað lögreglumál varðar. En það hefur ekki alltaf verið svo, því hér er krassandi frásögn sem að mestu byggð á dagbók lögreglunnar af óspektum á Siglufirði. Þú getur lesið um eitt alvarlegt lögreglumál hér á minni síðu. Greinin HÉR ásamt fleiri greinum/fréttum frá árinu 1911
Sunnudagur 26. september 2004
Mánafoss losaði og lestaði hér vörugáma í morgun. -
Senn fer að líða að þeim tímamótum er þetta skip hættir áætlunarferðum hingað, sem og til landsbyggðarinnar.
Eimskip er ekki lengur óskabarn og stolt þjóðarinnar, heldur virðist stoltið byggjast á hagnaðarkúrfu stjórnandanna, kúrfu sem helst þarf að vísa upp, ekki minna en 30°
Sunnudagur 26. september 2004
Aðsent:
Laugardaginn 18 september voru fjárgöngur hér í Siglufirði í mjög góðu veðri og tók ég nokkrar myndir við það tækifæri.
Myndirnar eru teknar á leiðinni frá Ófæruskál og suður að rétt.
Einnig eru myndir sem voru teknar á föstudaginn og síðan aftur um hádegisbil í dag sunnudag. Myndir eru frá upphafi ferðar sem menn á vegum skíðafélagsins fóru í fjárgöngur til Héðinsfjarðar og síðan við lok ferðar þegar þeir komu um hádegisbil í dag sunnudag.
Eins og sjá má á myndunum hefði veðrið mátt vera betra en þetta eru hörku kallar. Alli.
Mánudagur 27. september 2004 Ein gömul: Þegar síldin var og hét ! Tekið ofan frá löndunarkrana Rauðku, í júnímánuði árið 1959
Mánudagur 27. september 2004
Aðsent:
Ég var á fundi hjá félagi eldri borgara í gær sunnudag, sem var fyrsti fundurinn á þessu starfsári- og tók þar nokkrar myndir.
Júlíus Hraunberg.
Mánudagur 27. september 2004
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson losaði hér í morgun um 25 tonn af blönduðum fiski. Þetta er í annað sinn sem skipið landar hér í þessum mánuði, eða samtals um 50 tonnum.
Skipið er að rannsaka hegðun botnvörpu með mismunandi búnaði í vísindalegum tilgangi. Þessar rannsóknir hafa átt sér stað hér fyrir norðurlandi.
Skipið sigldi aftur til frekari rannsókna klukkan 13:53 í dag, þá er myndin var tekin.
Þriðjudagur 28. september 2004 Gömul "grein" úr Akureyrarblaði (?) frá árinu 1910
Flugvélar. Það vantar ekki nú á dögum, að öll blöð eru full al flugvélasögum. Hver flugmaðurinn eftir annan veður uppi og þeir drepa sig hópunum saman. Edison hefir nýlega látið álit sitt uppi um flugvélar þessar og sagt svo: "Ég hefi ekki trú á þessu lagi á flugvélunum, þær þjóta upp eins og gorkúlur. Ég er nú samt sannfærður um að þær eiga mikla framtíð fyrir hendi, breyta öllum samgöngum, og flytja bæði póst og farþega. En þær vélar verða ekki með því lagi sem nú þykir mest til koma.
Eins og hún er enn, er hún ekki nema til gamans. Þrír fjórðungar hennar ganga til þess að bera hana sjálfa, aðeins einn verður manninum að liði.
Og þeim er ekki auðstýrt. Þær verða að láta svo vel að stjórn, að hver maður með meðalviti gæti alveg haft þær í hendi sér, og lært að fljúga fyrirhafnarlaust.
Ég held meira að segja, að þessar vélar sem nú eru gerðar, sé byggðar á rammvitlausri niðurstöðu.
Þær geta ekki lifts upp af sjálfum sér. Menn neyðast til að láta þær renna svo lengi eftir jörðinni, þangað til mótstaðan á móti vindfleti þeirra er orðin svo mikil, að þær geta lyfst upp.
En ég er þeirrar skoðunar að, að 10 árum liðnum verði gerð flugvél, sem lyftist upp af sjálfri sér, og kemst áfram um 100 (enskar) mílur á hverri klukkustund, hvernig sem veður er. Úr því að einhver uppgötvun er komin á rekspölinn, er þess sjaldan langt að bíða að hún nái sér að verða fullkomin og nothæf." ---
Gaman væri að vita, hvort nokkur lifir það, að við fáum flugvéla póst, sem skýzt á milli Akureyrar og Reykjavíkur á svo sem 2 dögum og kemur þó við á svo sem 20-30 stöðum í hverri leið.
Þriðjudagur 28. september 2004
Aðsend ábending.
Viltu setja inn ábendingu og hvatningu til allra framhaldsskólanemenda og foreldra þeirra með áminningu um að sækja um jöfnunarstyrk hjá LÍN. Þetta er eitthvað um 160 þúsund krónur á ári sem hver nemandi á rétt á sem stundar framhaldsnám utan sinnar heimabyggðar.
Um að gera að sækja um þetta, og ekki er hægt að gera það eftir umsóknarfrestinn, þá einfaldlega fellur þetta niður fyrir fyrri hluta ársins ( ca 85.000 kr ) Hér er slóðin til að sækja um á netinu. http://www.lin.is/ -- Velunnari.
Þriðjudagur 28. september 2004
Ein gömul auglýsing frá árinu 1910, svona á haustdögum til að ylja hjartaræturnar.
Þriðjudagur 28. september 2004
Fiskmarkaður Siglufjarðar.
Nýtt hlutafélag hefur endanlega verið stofnað og frágengið. Stofnendur eru; Fiskmarkaður Suðurnesja, Norðurfrakt, Þormóður Rammi Sæberg, Guðrún María fiskverkun og Steingrímur Óli Hákonarson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri. Fyrirtækið er og verður til húsa í húsnæði sem upphaflega var byggt fyrir Sigló síld, en nýlega eignaðist Þormóður Rammi Sæberg þessi húsakynni, sem eru ákjósanleg fyrir þessa starfsemi.
Þarna mun auk markaðar fara fram slægingarþjónusta.
Félagið verður beintengt við Fiskmarkað Íslands, þannig að fiskkaupendur og salar allt í kring um landið hafa aðgang að kerfinu.
Á myndinni eru Steingrímur Óli og Ásmundur Einarsson
Myndin er tekin frá norður horni syðri Hverfisgötu.
Þriðjudagur 28. september 2004
Eins og lesendum síðu minnar ætti að vera kunnugt, þá hafa staðið yfir í sumar miklar framkvæmdir, við tengingu hluta Hverfisgötu við Háveg, það er stefnum og áherslum breytt miðað við fyrstu hugmyndir.
Deilur hafa skapast varðandi þessar framkvæmdir sem ekki er fullkomin sátt um. En ljóst er að fyrir ókunnuga gæti það valdið óþægilegum vandræðum ætli einhver að heimsækja íbúa í Hverfisgötu 25 td. og álpast upp á Hverfisgötu frá Kirkjustíg,
þessi möguleiki var að vísu fyrir hendi, -en eðlilegt hefði verið finnst sumum íbúum þessa svæðis að göturnar hefðu verið tengdar saman en ekki endanlega slitnar úr samhengi.
Það ætti amk. að huga að því að gefa syðri hluta götunnar nýtt nafn, til að eyða misræmi. Svo er annað sem íbúar nágrennis velta fyrir sér. Hvar ætla þeir að koma snjónum fyrir, ef náttúrunni þóknaðist að láta fara að snjóa aftur, lítið pláss virðist vera fyrir snjóruðning.
En vonandi verða allir ánægðir að lokum, þegar göngustígurinn upp á Háveg er kominn og gengið hefur verið frá öllu.
Þriðjudagur 28. september 2004
Síldarminjasafnið. Það var gestkvæmt eftir hádegið í dag á Síldarminjasafninu.
Klukkan 13:00 komu eldri borgarar á Siglufirði í heimsókn og áður enn þeirri heimsókn lauk komu 73 eldri borgarar úr Skagafirði um klukkan 14:00 og heimsóttu safnið.
Ég tók nokkrar myndir við þetta tækifæri.- Smelltu Hér til að skoða
Miðvikudagur 29. september 2004
Ein gömul:
Hvað ætli þeir séu að velta fyrir sér. Jóhannes Þórðarson (sem á afmæli í dag: 1919-09-29) -
Guðmundur Kristjánsson og Þorsteinn Gottskálksson (báðir látnir).
Myndin er tekin árið 1966, úr mikilli fjarlægð með 800mm linsu.
Miðvikudagur 29. september 2004 -- Morgunblaðið: Fyrir 50 árum. >>>
Miðvikudaginn 29. september 1954 -
Miðvikudagur 29. september 2004
Sérstök kveðja til Guðna Gestssonar sem ýmist er staddur á Thailandi eða USA --- Það biðja allir Siglfirðingar að heilsa þér Guðni.
Smelltu HÉR , þeir sem þá koma í ljós eru nokkrir af fastagestum í molakaffi hjá Jóni Andrjesar hjá Olís á Sigló, sem voru þar mætti í þessum mánuði, á sama tíma og ég.
Miðvikudagur 29. september 2004
Skógræktin. Myndir HÉR
Talsverðar skemmdir og eyðing varð á trjám og runnum meðfram Leyningsá sem rennur meðfram og í gegn um skóginn.
Ég skrapp í dag með Anton Jóhannssyni fráfarandi formanni Skógræktarfélagsins, fram í Skógrækt til að skoða ummerkin og tók nokkrar myndir.
Þarna er Anton með fossinn í bak, fossinn sem nú er eins og lækjarspræna í samanburði við þegar mest var á dögunum í rigningunum.
Við formennsku Skógræktarfélagsins tók Kristrún Halldórsdóttir.
Anton heldur á braut til Danmerkur á næstunni, þar sem hann mun halda til næstu 7 mánuði ásamt sambýliskonu sinni, eins undanfarin ár.
Fimmtudagur 30. september 2004 Ein gömul:
Á 1. maí hátíðarfundi í Nýja Bíó árið 1981
Fimmtudagur 30. september 2004
Hjólað með stæl. Þessir drengir voru í sólskinsskapi er ég mætti þeim á Aðalgötunni og þeir voru fúsir til að stoppa á meðan á myndatökunni stóð.
En strákar, þið gleymduð einu. Hvar eru hjálmarnir ykkar?
Fimmtudagur 30. september 2004
Garða-verðlaun.
Um klukkan 17:00 voru hin árlegu Garða-verðlaun veitt að Kaffi Torg.
Verðlaun fyrir fallega og vel hirta garða hlutu þau Svanhildur Freysteinsdóttir og Ragnar Guðmundsson Hafnargötu 32 og Anna Marie Jónsdóttir og Steingrímur Garðarsson Fossvegi 35.
Lífið: 19.-30. September 2004 >
Skemmtileg grein Grein í blaðinu Norðri, útgefið á Akureyri 30. júní árið 1911
Siglufjörður.
Fyrirfarandi ár hafa mátt heita kyrrstöðuár hér norðanlands, að vísu hefir landbúnaðurinn þokað fremur áfram og túnrækt víða verið aukin. Sjávarútvegurinn hefir og heldur aukist og lagast að því leyti, að útgerðarmenn og fiskimenn eru betur og betur að læra að hagnýta sér vélbátana, sem keyptir voru fyrir nokkrum árum. Vöruvöndun hefir og tekið nokkrum framförum einkum á fiski og kjöti.
Hvergi hér norðan lands er þó framfaravísinn jafn auðsær og á Siglufirði. auk þeirra bráðu framfara, sem kauptúnið tók þar, er hin mikla síldveiði hófst þar á sumrin fyrir nokkrum árum, eru einmitt nú á þessu ári að rísa þar upp meiriháttar atvinnu og framleiðslufyrirtæki, sem geta haft mikil áhrif fyrir fjörðinn og allan Norðlendingafjórðung, ef þau fá staðið og svara kostnaði.
Siglufjörður hefir lengi verið bezta hákarlastöð landsins, og er sú einasta, þaðan sem sá útvegur er rekinn með nokkrum þrótti, þar var sett upp gufubræðsla í vor fyrir hákarlalifur, og er það framför í vöruvöndunaráttina, enda fæst með því ódýrari bræðsla. En Siglufjörður liggur jafnhliða ágætlega fyrir þorskaveiði á sumrum, besta höfn er þar fyrir vélabáta og skemmra að fara þaðan á djúpmið en úr veiðistöðvunum við Eyjafjörð. Nú í vor hafa sótt þaðan 22 mótorbátar, og hafa fengið til jafnaðar síðan 12. þ.m. undir 20 skip pund hver bátur.
Auk þess hafa haldið þar til í vor 5 mótorskip, sem fiskað er frá á svonefndar “doríur”.
Þrjár fastar verzlanir eru nú á Siglufirði, og fleiri á sumrum, því að þar eru tvær eða þrjár selstöðuverzlanir frá Akureyri, sem lokaðar eru á vetrum.
Það sem þó á þessu vori mest þykir horfa til framfara þar í firðinum, er að farið er að reisa þar verksmiðju mikla, til þess að vinna lýsi og fóðurmjöl og áburðarefni úr síld svo og að vinna mjöl úr þorskhausum og dálkum. Er verið að byggja verksmiðjuhúsið austan megin fjarðarins, inn og yfir af Siglufjarðareyri, sem kauptúnið stendur á. Húsið er 50 álnir á lengd og 20 álnir á breidd, tvílyft með háu porti. Á verksmiðja þessi að vera hin fullkomnasta og mun kosta fram undir hálfa miljón króna með öllum útbúnaði.
Evanger heitir sá er fyrir þessu fyrirtæki stendur, og er ungur Norðmaður. Alt féð sem til þessa verður varið er frá útlöndum og standa Norðmenn fyrir þessari verksmiðjustofnun. Tefja mun það fyrir að verksmiðja þessi verði fullger og geti tekið til starfa, að skip sem hafði efni til hennar fórst í hafísnum fyrir Austurlandi í vor, svo fórst og sumt efni til hennar með “Fanney” á dögunum.
Það má geta nærri að slík verksmiðja og hér er stofnað til veitir mikla atvinnu og verzlun á Siglufirði, ef hún fær nóg að gera, sem varla er hætt við öðru mikinn hluta sumarsins meðan síldveiðin er mest fyrir Norðurlandi. Það eru um 400 tunnur af síld, sem slík verksmiðja getur tekið við á morgnana og skilað aftur að kvöldi, sem lýsi í tunnum og þurrkuðu fóðurmjöli í pokum.
Sá sem þetta skrifar átti nýlega tal við herra Evanger um þetta fyrirtæki, og var hann hinn vonbezti um að það mundi heppnast vel. Ég spurði hann hvort hann mundi eigi reyna við hákarlinn þeirra Siglfirðinganna að vinna úr honum fóðurmjöl. Kvaðst hann hafa hug á því, en verkfæri til þess væru dýr. Hann hélt að lítil feiti væri í hákarlakjötinu, en næringarefni, sem væri milli fisks og kjöts, byggði hann þetta álit sitt á lauslegri rannsókn.
Norskur síldarútvegsmaður, Bakkevig að nafni, sem um nokkur ár hefir rekið síldveiði af Siglufirði er og að setja upp litla síldarvinnsluverksmiðju í húsum sínum í kauptúninu, á hún að vera svo fullkomin, að hún geti bæði fengið hreint lýsi úr síldinni og þurrkað hana svo og gert hana að fóðurmjöli. Verkstjóri hans sagði mér, að í þeirri verksmiðju mundi mega vinna úr 60 tn. á dag. Sagði hann að vandameira væri að vinna úr nýrri síld en saltaðri.
Auk þessara tveggja verksmiðja til síldarvinnslu, sem hér er skýrt frá, er norskt félag með peningum frá Bergen, að setja upp síldarvinnsluverksmiðju mikla í stóru skipi, sem ættar að taka móti síldinni hjá veiðiskipunum út á hafi og vinna hana þar. Danskt félag er og að koma upp slíkri fljótandi verksmiðju, en í miklu minni stíl.
Norðmenn segja að það sé enginn vandi að fá markað erlendis fyrir síldarfóðurmjöl og áburðarmjöl. En þá kemur jafnframt til álita, hvort vér Íslendingar mundum eigi hafa hag af því að kaupa þessa vöru. Það er eigi lítið, sem keypt er af kornvöru til gripafóðurs hér á landi, og það verður hér dýrara en erlendis sakir flutnings.
Síldarfóðurmjöl, sem framleitt væri hér á landi ætti fremur að verða ódýrara hér norðanlands en erlendis. Sé þessi vara eftirsótt erlendis ætti hún að geta orðið notadrjúg hér, þar sem alt kraftfóður handa búfé er innflutt, og hér því dýrara en erlendis, nema ef til vill hvalmjöl, en kraftfóður telja margir nauðsynlegt handa gripum einkum með léttu eða hröktu heyi.
Þessar verksmiðjustofnanir gera því fyrst og fremst það gagn, að innleiða framleiðslu á útgengilegum varningi, sem unnin er úr hrávöru, sem venjulegast er verðlítil og oft og einatt verðlaus (því slíkar verksmiðjur geta unnið úr síldinni, þótt hún sé eigi hæf til útflutnings), og í öðru lagi að framleiða vörur, sem allar líkur eru til að verði nothæfar og notadrjúgar í landinu til eflingar kvikfjárræktinni.
Sama er að segja um áburðarefnið, sem verksmiðjur þessar ætla að framleiða, líklega mest úr fiskbeinum, það er eigi ólíklegt að nokkuð yrði notað af því hér á landi, og sumir fengju það til að létta fyrir sér grasrækt og garðrækt. Borgi það sig fyrir Norðmenn að kaupa slík áburðarefni til jarðyrkju, á það eins að geta borgað sig fyrir Íslendinga þegar þá skortir áburð.
Það er rúmgott kaupstaðarstæði á Siglufjarðareyri og fallegt þar á sumrum, en á einu hefir þar verið tilfinnanlegur, skortur, á góðu neyzluvatni. Nú eru þeir að leggja vandaða vatnsleiðslu ofan úr fjalli, sem áætlað er að kosti 12000 kr taka þeir vatnið úr uppsprettulynd er aldrei þrýtur. Er hetta hið þarfasta fyrirtæki fyrir kauptúnið og auðsær hagnaður að selja þeim mörgu skipum vatn, sem þar koma eða hafast við á sumrum.
Landbúnaður og túnrækt hefir litlum framförum tekið á Siglufirði, hugir fjarðarbúa hafa stefnt út á sjóinn. Sauðfé er vænt í firðinum og sumstaðar létt á fóðrum t.d. á Siglunesi. Mjólk er dýr á Siglufirði og fæst eigi, þegar þar ofan á hefir nú bæzt skortur á góðu vatni, þarf engan að undra, þótt Siglfirðingar og aðrir er þar vinna á sumrum, oft nótt og dag, erfiða vinnu við síldina, drekki drjúgum hið ljúffenga norska öl, sem hægt er einhvernvegin að fá þar á sumrum, þykir það bæði hressandi og svalandi, og svo úr garði gert að það skemmist ekki þótt geymt sé í vikur og mánuði, eins og nauðsynlegt er.
Bót er það í máli að vatnsleiðslan kemst á í sumar, ef aðflutningsbannið færi að amast við ölinu þeirra fyrir þá einu sök, að það skemmist eigi, þótt það geymist nokkrar vikur.
Heimild: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pubId=201&lang=is