Árið 2020 byrjuðu umsjónarkennarar 2. bekkjar í Naustaskóla, Sigríður Jóna Ingólfsdóttir og Vala Björt Harðardóttir, að nýta myndbönd Classdojo til að stuðla að því að nemendur tileinkuðu sér vaxandi hugarfar í námi sínu. Þetta gaf góða raun og sást mikil munur á sjálfstrausti og trú á eigin getu hjá þessum ungu nemendum. Galli var þó að myndböndin voru á ensku og kviknaði þá sú hugmynd að talsetja mynböndin. Leyfi var fengið hjá Classdojo og handrit myndbandanna var þýtt yfir á íslensku. Þrír nemendur í 6. bekk í Naustaskóla skóla sáu um að talsetja og þótti þeim gaman að rifja upp þessi myndbönd sem þau horfðu á í 2.-4. bekk. Fyrsti þátturinn er tekin upp við frumstæðar aðstæður með aðeins einum hljóðnema. Hinir fjórir þættirnir eru teknir upp í Giljaskóla við betri aðstæður. Emilía Guðjónsdóttir kennari í Brekkuskóla aðstoðaði við upptökur, hún kom inn í verkefnið á loka metrunum og átti stóran þátt í að það tókst að koma öllum þáttunum fimm yfir á íslensku. Bergmann Guðmundsson með sína einstöku hjálpsemi og velvilja fær bestu þakkir fyrir lánið á upptökuaðstöðunni.
Þar sem upptökustjóri og hljóðvinnslumaður er óbreyttur umsjónarkennari, þó með vaxandi hugarfar að leiðarljósi, má búast við því að hljóðvinnslan sé langt frá því að vera fullkomin en myndböndin eru nothæf og það skiptir mestu þegar kemur að því að breiða út boðskap hugarfars vaxtar. Mikilvægasta fólkið í verkefninu eru auðvitað þau Sólveig, Silja og Jóhann, nemendurnir sem sáu um að gefa persónunum íslenskar raddir. Þau sýndu og sönnuðu að með þrautsegju og vaxandi hugarfari er ýmislegt hægt, og þau létu ekkert aftra sér þótt þyrfti að reyna aftur og aftur við sama textann.
Með von um að þessi myndbönd nýtist sem flestum ungum nemendum, mín trú er sú að vaxandi hugarfar og þrautseigja sé það mikilvægasta sem hægt er að hafa með sér út í lífið!
Vala Björt Harðardóttir