Stefnuyfirlýsing:
Héraðssambandið Hrafna-Flóki stendur vörð um að fræðslu- og forvarnarstefna sé til, virk og virt innan aðildarfélaga sambandsins. Einstaklingar sem eru virkir í íþróttastarfi reiðir betur af í daglegu lífi, standa sig betur í námi og neyta síður skaðlegra efna. Neysla áfengis og annarra vímuefna og íþróttir fara ekki saman og hefur skaðleg áhrif á ímynd íþrótta sem og árangur.
HHF leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í samskiptum allra þeirra aðila sem við koma hreyfingunni. HHF gerir vináttu og jákvæða uppbyggingu að markmiði en ekki leið að marki, þannig miðar HHF að því að styrkja einstaklinga ekki eingöngu til íþróttastarfs heldur skili þátttakan í starfinu sterkari einstaklingum með reynslu sem nýtist samfélaginu.
Stefnan eykur fagmennsku innan hreyfingarinnar á svæðinu og þar af leiðandi samfélagsins í heild.
Markmið:
Gagnkvæm virðing skal einkenna öll samskipti.
HHF hvetur til aukinnar menntunar þjálfara og annarra starfsmanna
HHF stuðlar að aukinni þekkingu aðila innan hreyfingarinnar með námskeiðshaldi og framboði á fyrirlestrum á sambandssvæðinu.
HHF stuðlar að og hvetur á jákvæðan hátt þátttöku einstaklinga í starfi sambandsins og aðildarfélaga þess.
HHF fagnar fjölbreytileika í framboði hreyfingar því þannig tryggjum við að sem flestir einstaklingar fái tækifæri til að stunda íþróttir og hreyfingu í samræmi við eigin þarfir, getu og áhuga.
HHF vinnur að því að auka þekkingu á skaðsemi vímuefna með eflingu á forvörnum hreyfingarinnar.
Stjórn og starfsfólk HHF og aðildarfélaga þess fræða iðkendur sína um áhrif áfengis, tóbaks og annarra skaðlegra efna á heilbrigði og árangur.
Útgefið efni inniheldur umfjöllun um skaðleg efni.
Neysla skaðlegra efna á ekki að eiga sér stað í tenglsum við íþróttastarf.
Sala slíkra efna er bönnuð við íþróttakeppni.
Neysla skaðlegra efna á lokahófum barna og unglinga er bönnuð.
Tóbaksnotkun, þar með talið rafrettur og munntóbak á íþróttasvæðum.
Áfengisauglýsingar á eða við íþróttasvæði.
Tekið skal á vanda tengdum skaðlegum efnum á vettvangi íþróttahreyfingarinnar samkvæmt viðbragðsáætlun HHF.
Einelti
Einelti er ekki liðið innan starfs HHF og/eða aðildarfélaga þess. Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast við málum sem upp kunna að koma í starfinu og leita allra leiða til að leysa úr því hratt og vel.
Með hugtakinu einelti er átt við síendurtekna hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa, hunsa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Einelti er endurtekið andlegt ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast endurtekið á ákveðinn einstakling.
Einelti er ofbeldi og félagsleg útskúfun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann og gerandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps. Einelti birtist með ýmsum hætti, t.d. með stöðugri stríðni á einn eða annan hátt, illu umtali, fórnarlambið gert að aðhlátursefni, því sýnd vanþóknun og hæðst er að því. Einelti er útskúfun og upplifir fórnarlambið sig óvelkomið og útilokað af hópi sem það tilheyrir. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Ef grunur um einelti vaknar skal það tilkynnt þjálfara og/eða formanni viðkomandi félags og unnið í samræmi við viðbragðsáætlun HHF.
Kynbundin áreitni og ofbeldi
Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Með hugtakinu kynbundið ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Ef grunur um kynferðislega eða kynbundna áreitni vaknar skal það tilkynnt þjálfara og/eða formanni viðkomandi félags og unnið í samræmi við viðbragðsáætlun HHF.