Fréttabréf Grunnskólans á Ísafirði

Febrúar 2019


Þá er komið að fyrsta fréttabréfi ársins 2019. Að venju er margt um að vera í skólanum og er stiklað á stóru hér í fréttabréfinu. Ný persónuverndarlög setja okkar vissar skorður, þar sem við verðum að gæta að því að birta ekki myndir af nemendum nema með samþykki forráðamanna. Við vonum að það komi ekki að sök og meðfylgjandi myndir endurspegli það starf sem fram fer hér hjá okkur. Næsta fréttabréf kemur út í lok apríl.

Dagur stærðfræðinnar

Þann 1. febrúar var dagur stærðfræðinnar og var áherslan á rúmfræði þetta árið, sem hentaði 9. bekk fullkomlega því hann var í miðjum rúmfræðikafla. Nemendur unnu tveir og tveir saman og mældu og reiknuðu rúmmál og yfirborðsflatarmál hinna ýmsu forma.

Árni Tero, Stefán og Kristján Hrafn.

Skákmót í 5. bekk

Í 5. bekk var fyrsta skákmót vetrarins haldið í janúar og febrúar og því lauk föstudaginn 8. febrúar. Tefldar voru fjórar æsispennandi umferðir þar sem leikgleðin réð ríkjum. Góð tilþrif sáust oft á skákborðinu og er það mat skákstjóra mótsins að margir efnilegir skákmenn séu í árganginum. Fróðlegt verður að fylgjast með framförum krakkanna. Leikar fóru svo að Stefán varð efstur með fjóra vinninga af fjórum mögulegum, Kristján Hrafn annar með þrjá vinninga og Árni Tero þriðji, einnig með þrjá vinninga (svokölluð Buchholz-stig skáru þar úr um).

Næsta mót hófst 22. febrúar og verða einnig fjórar umferðir, ein á viku.

Skólanum færð gjöf

Önundur Jónsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn og hagleikssmiður kom færandi hendi í skólann og færði skólanum tifsög og forláta saumavél. Einnig gaf hann skólanum ýmsa smíðamuni sem faðir hans var byrjaður á áður en hann lést og nemendur skólans geta nýtt sér við ýmsa vinnu og muni í framtíðinni. Við færum Önundi kærar þakkir fyrir höfðinglegar gjafir og hlýhug.

Það má til gamans geta þess að faðir Önundar var Jón H. Guðmundsson sem var skólastjóri Barnaskólans á Ísafirði hér áður fyrr.

Fjöltefli

Þann 25. janúar s.l. var haldið upp á Skákdaginn, sem tileinkaður er Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fv. forseta Alþjóða skáksambandsins. Smári Rafn Teitsson, kennari við skólann, bauð nemendum 5. - 10. bekkjar upp á fjöltefli og freistuðu 60 nemendur þess að sigra hann. Ekki tókst það í þetta skiptið, en Smári þurfti þó að hafa verulega fyrir nokkrum sigrum.

Augljóst var að nemendur höfðu virkilega gaman af þessu framtaki og vonandi verður framhald á við tækifæri.

Þorrablót 10. bekkjar

Föstudaginn 25. janúar buðu foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldum mættu í sínu fínasta pússi og áttu saman ánægjulega kvöldstund, ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Foreldrar önnuðust skipulagningu og skemmtiatriði og að borðhaldi loknu var svo stiginn dans sem nemendur höfðu æft af kappi undanfarnar vikur. Einnig hafði foreldrum verið boðin dansþjálfun sem skilaði sér svo sannarlega á dansgólfinu.

Dansinn æfður fyrir þorrablótið

Á Instagram síðu myndmenntar birtast reglulega myndir af verkum nemenda og hvetjum við áhugasama til að kíkja þar við.


Viðvera nemenda

Mikið hefur verið rætt um flensuna í vetur og höfum við ekki varið varhluta af áhrifum hennar á skólastarfið. Auk þess hefur verið nokkuð mikið um leyfisbeiðnir það sem af er skólaárinu. Við höfum nú tekið saman viðveru nemenda haustið 2018 okkur til glöggvunar.

Á súluritinu hér til hliðar má sjá hlutfall þeirra sem mættu alla daga í skólann fram að áramótum og eru bæði veikindadagar og leyfisdagar meðtaldir.

Í 1. bekk náðu flestir að mæta alla skóladaga haustsins, eða 8 nemendur, sem gera 16% árgangsins. Í 8. bekk voru allir nemendur með einhverja fjarveru og því enginn sem mætti alla skóladagana.

Hér má sjá leyfisdaga nemenda haustið 2018.

Athygli vekur að 8. bekkur sker sig nokkuð úr hvað fjölda leyfisdaga snertir þar sem 94% nemenda er með 4 eða fleiri og einungis 1 nemandi árgangsins ekki með neinn leyfisdag að hausti.


Valgreinar

Valgreinin ,,Hundar sem gæludýr" er alltaf vinsæl hjá okkur á miðstiginu, þar sem Auður Yngvadóttir kennir nemendum undirstöðuatriði í umhirðu hunda. Hundurinn Kári er orðinn skólavanur og leit við hjá okkur á dögunum, öllum til ánægju. Hann lét ekki sitt eftir liggja í náminu og kíkti aðeins í stærðfræðina með krökkunum í 5. AY.

Við leggjum mikið upp úr fjölbreytni valgreina á miðstigi og unglingastigi, þar sem allir nemendur geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á miðstiginu eru eftirtalin námskeið í boði í vetur: FabLab, tæknilegó, fimleikar, nýsköpun, matur og menning frá ýmsum löndum, smíðar og föndur, leikbrúðugerð, börn og umhverfi - námskeið í samstarfi við Rauða krossinn, Makey makey, verkleg vísindi, Scratch forritun, dans, skák og borðspil, leður og roð, skrautskrift, teiknimyndasögugerð, útivist og leikir, hundar sem gæludýr, spænska, yndislestur og skólahreysti.

Á unglingastiginu bjóðum við upp á: Aðstoð í Dægradvöl, aðstoð við nemendur á yngsta stigi, dans, FabLab, fatasaum, forritun, fornám ökunáms, DIY (Do it yourself), hárgreiðslu, heimilisfræði, leiklist, líkamsrækt og þjálfun, ljósmyndun, Makey makey, myndmennt, námsaðstoð í stærðfræði, næringarfræði, prjón og hönnun, smáskipanám, skák, skólahreysti, spænsku, sund, trésmíði, tölvuval, tæknilegó, tækniráð og frönsku.