Fréttabréf frá Grunnskólanum á Ísafirði

Nóvember 2017

Uppeldi í önnum dagsins

Það er svo gaman að vera innan um krakka, þeir eru svo frjóir í hugsun og yfirleitt alltaf með réttlætiskenndina á sínum stað. Þetta á bæði við um þá sem eru að byrja í grunnskóla og þá sem brátt munu útskrifast hjá okkur. En auðvitað eru oft ýmis verkefni á veginum sem glíma þarf við, sum stór en önnur smávægileg. Það eru forréttindi að fá að ala upp barn, en samt fylgja börnum engar leiðbeiningar þegar þau koma í heiminn. Uppeldi er eitt vandasamasta og mikilvægasta verkefni sem foreldrar taka sér fyrir hendur á lífsleiðinni og því má segja að það sé nokkuð sérstakt að þeir eigi bara að finna einhvern veginn út úr því hvernig er best að sinna því. Auðvitað er ekki til nein einföld algild uppskrift og það þarf að laga aðferðir að hverjum og einum og aðstæðum hverju sinni. En það er alveg víst að öll börn þurfa á uppeldi að halda. Ef þau fá það ekki læra þau ekki viðeigandi hegðun og geta orðið öryggislaus fyrir vikið. Þegar talað er um uppeldi er mikilvægt að velta fyrir sér stöðu foreldra, þeim er ætlað að hafa vit fyrir börnum sínum meðan þau hafa ekki þroska til að meta aðstæður sjálf eða draga rökréttar ályktanir af því sem þau sjá og heyra í umhverfi sínu. Það er því mikilvægt að foreldrar hiki ekki við að taka sér það vald að setja börnum mörk. Það getur stundum litið út fyrir að vera auðveldara að leyfa barninu bara að gera það sem það vill en oftast kemur það manni í koll síðar. Ef barnið leiðist út í eitthvað sem er ekki uppbyggilegt fyrir það þarf foreldrið að taka í taumana og þá þarf barninu að vera ljóst að foreldrið hefur ákveðið vald, foreldravald, yfir því. Ef foreldri hefur ekki sett barni sínu mörk og staðið við þau er erfitt að ætla sér að gera það þegar eitthvað er komið í óefni. Það er alls ekki svo að ég mæli með því að börn fá ekkert sjálfræði en það er jafn mikilvægt fyrir þau að vita það er einhver sem hefur vald yfir þeim og getur tekið í taumana ef þau fara út af sporinu. Það að ala upp barn krefst þess að við hugsum um hvað er best fyrir barnið þegar litið er til lengri tíma og tökum ákvarðanir í samræmi við það.


Samræmd próf

Niðurstöður úr samræmdum prófum í 4. og 7.bekk eru komnar til okkar og við byrjuð að vinna með þær.

Í 7.bekk var niðurstaðan nokkuð góð í íslensku eða 0.2 undir landsmeðaltali en ekki nógu góð í stærðfræði þar sem við vorum 3,3 undir landsmeðaltali. Þrátt fyrir þetta er árgangurinn að bæta sig frá því sem hann fékk á prófum í 4.bekk í báðum greinum. Í íslensku er þetta bæting um 1,2 og í stærðfræði er þetta bæting um 1,1 frá því sem sami árgangur fékk í fjórða bekk.

Í 4.bekk var árangurinn vel yfir landsmeðaltali í báðum greinunum, 1,9 yfir í íslensku og 2,2 yfir í stærðfræði. Þetta er besti árangur sem 4.bekkur í okkar skóla hefur náð og tengjum við hann við marga þætti. Þessi árgangur byrjaði í verkefninu ,,Stillum saman strengi" þegar hann var á síðasta ári í leikskóla og var jafnframt á fimm ára deild þar. Sú ráðstöfun hafði jákvæð áhrif á skólabyrjun. Í árganginum hefur líka verið unnið með hópaskiptingu og mikill stöðugleiki og metnaður hefur verið í kringum hann í skólanum. Við erum að vonum mjög ánægð með þessa góðu uppskeru og þökkum öllum sem þar hafa lagt hönd á plóg.

Skapandi skólastarf

Á hverjum degi reyna kennarar að veita nemendum tækifæri til sköpunar af eihverju tagi í skólanum. Stundum við vinnu með orð eða tölur, eða við að leysa úr samskiptavanda sem stundum kemur upp á fjölmennum vinnustöðum eins og hjá okkur. Verkgreinarkennararnir okkar eru líka ákaflega duglegir við að skpa þessi tækifæri fyrir nemendur. Hér er dæmi um vinnu í Hræringi sem er valið okkar fyrir 5.-7. bekk. Nemendur hönnuðu og smíðuðu sitt eigið kúluspil. Í þessu verkefni má sjá hvernig stærðfræðin er tengd smíðavinnunni og svo ráða nemendur sjálfir hvernig spilið þeirra lítur út.


Bókagjöf

Skólanum barst nýverið gjöf frá pólska sendiráðinu. Það var kassi með sögubókum. Þetta er kærkomin viðbót á bókasafnið hjá okkur, og sjálfsagt er að geta þess að það var pólskur kennari í skólanum sem hafði milligöngu um þetta. Bestu þakkir.


Nemendaþing

Þann 13.október héldum við þriðja nemendaþing skólans og að þessu sinni var fjallað um samfélagsmiðla. Nemendur 7.-10. bekkjar ræddu hvað væri gott og gagnlegt við samfélagsmiðla og hvað bæri að varast. Fyrirfram höfðum við gert okkur vonir um að geta sent heim til allra nemenda ísskápssegul með niðurstöðunum. En það er nú þannig þegar lagt er af stað í svona verkefni að maður veit aldrei hvernig útkoman verður. Það hefur reynst okkur flókið að ná niðurstöðum nemenda saman í þjappaðan texta sem gæti náð öllu sem þeir vildu koma til skila. Nemendaráð skólans er byrjað að vinna með niðurstöðurnar og vonandi getum við sent ykkur fljótlega eitthvað sem hægt er að hafa til umræðu við kvöldverðarborðið, já eða annarsstaðar. Þessi umræða er ákaflega mikilvæg því allt of mörg dæmi eru um óskynsamlega notkun. Til dæmis það að foreldrar leyfa börnum sem eru langt undir viðmiðunaraldri að vera á samfélagsmiðlum. Það eru ástæður fyrir aldurstakmörkunum og við finnum glögglega fyrir því að ynrgi nemendur hafa alls ekki þroska til að umgangast þessa miðla. Annað sem veldur mörgum fjölskyldum vanda er notkun sem keyrir úr hófi, því miður eru sumir nemendur illa hvíldir vegna stöðugs áreitis og geta því lítið einbeitt sér. Það er því ákaflega mikilvægt að ræða þetta við nemendur og setja þeim skynsamleg mörk í þessu eins og öðru. Hér fylgir með mynd af vinnu nemendaráðs við forgangsröðun á þeim atriðum sem krakkarnir telja mikilvægast að fjalla um í væntanlegum sáttmála um skynsamlega notkun. Vinstra megin á myndinni er það sem þau meta sem gott og gagnlegt en til hægri það sem ber að varast. Allt er þetta mikilvægt. Þið eigið svo von á segli frá okkur með megin niðurstöðu þessa málþings, sem setja má á ísskápinn.

Súpukeppni

Nemendur í heimilisfræðivali tóku þátt í súpukeppni í síðustu viku. Í keppninni reyndi bæði á verkþekkingu og skapandi hugsun. Þátttakendur voru 31 og dómarar voru fagmenn á sviðinu. Lagt var mat á áferð, bit og bragð. Keppendur gáfu súpunum sínum nöfn og þær þrjár súpur sem fengu besta matið af hálfu dómaranna voru: Súpa meistaranna, sem Linda Rós Hannesdóttir eldaði, Ungfrú Vestfirðir sem þær Rebekka Skarphéðinsdóttir og Sigrún Brynja Gunnarsdóttir elduðu og Skógarsveppasúpa sem Sara Emily Newman eldaði. Allir nemendur fengu svuntu í þátttökuverðlaun og þeir sem voru hlutskarpastir fengu matreiðslubók að auki.

Foreldranámskeið

Þann 29.nóvember fengum við hana Árnýju Ingvarsdóttur til aðhalda námskeið fyrir foreldra sem vilja vinna sérstaklega með kvíða eða reiði með börnum sínum. Námskeiðin voru ágætlega sótt og þátttakendur ánægðir með að fá fleiri verkfæri til að nota við vinnu með börnum sínum. Árný hefur þýtt bókaflokkinn ,,Hvað get ég gert" sem ætlaður er fyrir foreldra til að hjálpa börnum að takast á við ýmis vandamál. Við höfum einnig notað þessar bækur talsvert hér í skólanum og því þótti okkur tilvalið að bjóða foreldrum kynningu á efninu svo hægt væri að vinna með svipuðum áherslum bæði heima og í skólanum.

Að lokum

Mánudaginn 4.desember verður haldinn samræðufundur um endurskoðun skólastefnu Ísafjarðarbæjar. Það er mikilvægt að foreldrar láti sig þessa stefnumótun varða og láti skoðanir sínar í ljós. Í upphafi fundar verða stutt innlegg frá sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs og formanni fræðslunefndar og svo ætlar Ingvi Hrannar Ómarsson að leyfa okkur að veita okkur innsýn í skóla framtíðarinnar. Boðið verður upp á veitingar um kl. 19 og í framhaldi verður vinna í hópum. Við munum ljúka fundinum fyrir kl. 21. Mikilvægt er að fólk skrái sig svo hægt sé að gera ráð fyrir fjölda í mat. Skráning fer fram á Facebook síðu Ísafjarðarbæjar.