Fréttabréf frá Grunnskólanum á Ísafirði


Við erum að fikra okkur áfram með fréttabréf á google.com og eins og í öðrum nýjum verkefnum hafa verið nokkrir hnökrar á þessu í byrjun hjá okkur, en síðan tackk sem við notuðum fyrir fréttabréfin okkar fór á hausinn og því er allt eldra efni frá okkur tapað. Nú gerum við tilraun með að senda ykkur hlekk þar sem nokkrir foreldrar hafa látið okkur vita að þeir geti ekki opnað fréttabréfin. Vonandi gengur þetta betur núna.

Samstarf heimila og skóla

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi góðs samstarfs heimila og skóla og áhrifaríkan þátt foreldra í námsgengi barna sinna. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur í skólanum að geta leitað samstarfs við foreldra um fjölbreytta þætti sem varða uppeldi og menntun barna. Við sem búum hér á Ísafirði erum öll í þessu sama samfélagi og skyldur okkar eru að hjálpast að við að gera það eins gott og við getum fyrir börnin okkar allra. Sjónarmið foreldra eiga að vega þungt í skólastarfinu og nauðsynlegt er að hafa formlegan samræðuvettvang heimila og skóla til að ræða starfið og hvernig þörfum nemenda verður best mætt. Eftir áramótin boðar foreldrafélagið til aðalfundar og ég hvet foreldra til að fjölmenna á hann og bjóða sig fram til starfa svo félagið geti vaxið og dafnað. Það er ekki mjög mikið starf að vera í stjórn foreldrafélagins en það er mjög mikilvægt starf og aðeins með almennri þátttöku ykkar getur félagið verið sá spegill sem skólinn, og þar með börnin ykkar, þarf á að halda.

Verkefni nemenda

Okkur finnst alltaf jafn gaman að geta sýnt ykkur verkefni sem nemendur gera. Margir standa enn í þeirri trú að nemendur sitji og lesi og skrifi í skólum landsins en þetta verkefni um vistkerfi mannsins er gott dæmi um hvenig nemendur skila gjarnan verkefnum í skólanum okkar í dag.Samfélagsmiðlanir

Þið hafið nú fengið sendan heim segulinn með niðurstöðum nemendaþingsins frá því í október. Von okkar er að þessi segull verði á öllum ísskápum og ábendingin á honum tekin reglulega til umræðu á hverju heimili.

Samráðshópur nemenda á miðstigi

Stofnaður hefur verið samráðshópur nemenda á miðstigi. Þessi hópur er hugsaður sem formlegur vettvangur sem hægt er að kalla til samráðs um eitt og annað er varðar skólastarfið. Svo sem skiptingu á fótboltavelli, val á árshátíðarþema, skipulag skólalóðar og annars sem upp kann að koma. Hópinn skipa fjórir nemendur úr hverjum árgangi úr röðum nemenda 5.-7. bekkjar, tvær stúlkur og tveir drengir. Tveir fulltrúar eru valdir af nemendum í leynilegum kosningum og tveir eru tilnefndir af kennara. Hópurinn mun funda í byrjun janúar til að kynna sér væntanlegt skipulag skólalóðar þar sem jafnframt verður óskað eftir tillögum frá nemendum.


Bókakaup

Það er mikilvægt að börn og unglingar hafi aðgang að lesefni sem höfðar til þeirra. Nú í haust prófuðum við að leyfa nemendum sjálfum að velja bækur inn á skólabókasafnið. Nemendur 4. og 7. bekkjar fóru með kennurum sínum og bókaverðinum okkar út í bókabúð og hver nemandi valdi eina bók sem hann fær svo að lesa fyrstur.


Mannabreytingar

Nokkuð verður um mannabreytingar hjá okkur um áramót. Það er alltaf erfitt þegar svo er en stundum eru aðstæður þannig að ekki verður hjá því komist að bregðast við. Langtímaveikindi setja strik í reikninginn og í öðrum tilvikum hafa aðstæður breyst hjá fólki. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að fjórir til sex nýir starfsmenn komi til starfa í skólann eftir áramót. Ekki hefur tekist að ganga frá ráðningum vegna allra þessara forfalla ennþá en það verður búið áður en skóli hefst að loknu jólafríi.

Samstarf við Rauða krossinn

Í nokkur ár höfum við verið með samstarf við Rauða krossinn um námskeiðið Börn og umhverfi sem er ætlað nemendum í 6. og 7. bekk. Nú höfum við aukið samstarfið og tveir sjálfboðaliðar koma nú og hjálpa okkur við að hlusta á krakka lesa tvisvar í viku. Við erum ákaflega þakklát fyrir þessa hjálp.

Jólaundirbúningur

Í aðdraganda jólanna þarf margt að stússa og flest er það skemmtilegt. Nemendur okkar taka þátt í fjölbreyttum listviðburðum víðsvegar um bæinn í tengslum við dans eða tónlistarnám. Barnakór Tónlistarskólans söng fyrir okkur í anddyri skólans á pólsku og íslensku og nemendur okkar fóru á danssýningu hjá Listaskóla Rögnvaldar, svo fátt eitt sé nefnt..

Að lokum

Jólaleyfi nemenda og starfsmanna er nú rétt að hefjast.

Eftir áramótin verður væntanlega komið í notkun nýtt kerfi vegna mataráskriftar og munuð þið fá póst um það frá okkur milli hátíðanna. Það þýðir væntanlega að allir sem eru í mat munu þurfa að skrá sig aftur. Nokkuð hefur verið spurt um hvort hægt verði að kaupa staka daga en svo verður ekki heldur í nýja kerfinu og fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er sú að við höfum ekki mannskap til að halda utan um hvaða nemendur eru í mat á hverjum degi og hin að verð máltíðanna er meðalverð og það er mun flóknara að verðleggja hverja máltíð eftir matseðli.

Starfsfólk skólans óskar ykkur gleðilegrar hátíðar og við hittumst svo kát á nýju ári, þann fjórða janúar kl 8:00, hver og einn samkvæmt eigin stundatöflu.