#12dagaTwitter er átak á Twitter í nóvember fyrir skólafólk. Um er að ræða dagatal 🗓️ þar sem eitt umfjöllunarefni (oftast tengt menntamálum) birtist á hverjum virkum degi í 12 daga og fólk tístir svörum. Fjöldi fólks hefur tekið þátt síðustu ár og er fjársjóðurinn og fróðleikurinn í tístunum mikill. ✨ Mannauðurinn í íslenskum skólum er nefnilega svo frábær, skólasamfélagið er fullt af kröftugu, skapandi og fjölbreyttu fólki sem vill deila hugmyndum. 💡
Í byrjun desember 2018 rakst ég á dagatal sem Tamara Letter gerði á Twitter og bar heitið #12daystwitter og ákvað ég að þýða og staðfæra dagatalið. 🧩 Þannig hófst #12dagaTwitter, eiginlega fyrir tilviljun. Undirtektirnar voru nokkuð góðar fyrsta árið enda margir kennarar virkir á Twitter. Ég fékk hvatningu til að endurtaka leikinn árið 2019 og þá var ekki aftur snúið, svo hefur hópurinn bara stækkað ár frá ári. 💥 En galdurinn er svo sem enginn af minni hálfu, ég skelli þessu bara inn á Twitter og svo taka kennararnir við og búa til bylgju af innblæstri og sögum úr starfinu. Þeirra er heiðurinn og hrósið. 🏆