Inngangur


Ísland býr við stjórnarskrá sem Kristján IX danakonungur afhenti Alþingi árið 1874. Því hefur í raun og veru aldri verið samin eiginleg stjórnarskrá fyrir lýðveldið heldur einungis gerðar endurbætur á þeirri upprunalegu. Í þá daga var konungurinn óumdeilanlega stjórnarskrárgjafinn en sterk rök eru fyrir því nú að þjóðin sjálf sé í því hlutverki fremur en Alþingi.
 
Búsáhaldabyltingin byggðist að miklu leyti á kröfum um lýðræðisumbætur, stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Því var það eðlilega á samstarfssáttmála nýrrar ríkisstjórnar að uppfylla þær kröfur. Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um ráðgefandi stjórnlagaþing 12. nóvember 2009 þar sem gert er ráð fyrir að 25-31 fulltrúar verði kjörnir persónukjöri til að taka sæti á þinginu. Tilgreindir eru vissir þættir stjórnarskrárinnar sem stjórnlagaþinginu eru ætlaðir sem viðfangsefni, en Alþingi hyggst að því loknu sjálft taka niðurstöður þingsins til hefðbundinnar meðferðar.
 
Margir hafa gagnrýnt þessa nálgun harðlega og óttast að útkoman verði vart nema til málamynda. Augljóst er að fyrirhuguðu ráðgefandi stjórnlagaþingi er ætlað að starfa með svipuðu fyrirkomulagi og Alþingi, þ.e. nefndafyrirkomulagi. Lítið sé lagt upp úr aðkomu almennings að þinginu og því meiri hætta á að stjórnmálaflokkar og öflug hagsmunasamtök ráði þar miklu.
 
Eftir margra mánaða dvöl frumvarpsins hjá allsherjarnefnd gaf meirihluti nefndarinnar út nefndarálit og breytingartillögur við frumvarpið í trássi við vilja minnihluta nefndarinnar. Minnihlutinn gaf út 2 nefndarálit, annars vegar fulltrúar Sjálfstæðisflokks og hins vegar fulltrúi Framsóknarflokks. Eftir mikið þref og málsþóf gaf allsherjarnefnd svo að lokum út sameiginlegar breytingartillögur og allir fulltrúar annarra en Sjálfstæðisflokksins þar að auki út breytingartillögu um skipan 7 manna nefndar sem undirbúa á 1000 manna þjóðfund um stjórnarskrármálefni.

Þann 12. júní að lokinni 2. umræðu samþykkti Alþingi samhljóða frumvarpið ásamt breytingartillögum. Ljóst er að þverpólitísk sátt hefur náðst um málið en hvort sátt ríki utan Alþingis um þessa leið er auðvitað annað mál.

Þess vegna mun hópur áhugamanna og sérfræðinga halda áfram undirbúningi við "Sjálfsprottið stjórnlagaþing" þar sem gengið er út frá því að vilji þjóðarinnar endurspeglist í nýrri stjórnarskrá. Þrjú meginmarkmið eru lögð til grundvallar:
  • Ný stjórnarskrá - ekki endurbætur á þeirri sem nú gildir.
  • Á stjórnlagaþingi sé að finna þverskurð Íslendinga, eða því sem næst, sem útfærir tillögur með aðstoð sérfræðinga.
  • Tillögur að nýrri stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði að lokinni ítarlegri kynningu og umræðum.