eplaskonsur með osti

Eplaskonsur með osti

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 2 græn epli (ca. 450 g)
  • 195 g hveiti
  • 60 g sykur (+1 msk)
  • 1/2 msk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 85 g smjör, kalt og skorið í 2 cm teninga
  • 65 g ostur, rifinn (ég notaði cheddar en það er hægt að nota gouda eða annan hvítan harðan ost)
  • 0.6 dl [1/4 bolli] rjómi
  • 2 stór egg

Aðferð:

Hitið ofninn í 190°C/375°F. Leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar.

Skrælið eplin, hreinsið kjarnann frá og skerið hvert epli í 16 bita. Leggið eplabitana á ofnplötuna og bakið í ofni í ca. 20 mínútur, eða þar til þau taka á sig smá lit og eru þurr að snerta. Leyfið að eplunum að kólna alveg (t.d. inni í ísskáp til að flýta fyrir). Ekki slökkva á ofninum.

Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft og salt í skál og blandið saman. Setjið til hliðar.

Setjið smjörið, ostinn, eplabitana, rjómann og annað eggið í hrærivélarskál. Dreifið hveitiblöndunni yfir og blandið hægt saman. Passið að hræra deigið ekki of lengi, stoppið strax og hráefnin hafa blandast saman.

Sáldrið hveiti yfir borðflöt og hellið deiginu úr skálinni á flötinn. Sáldrið hveiti yfir deigið og notið kökukefli eða hendurnar til að búa til 3 cm þykkan disk með 15 cm í þvermál. Skerið í 6 bita (ég skar í 8 bita) og leggið bitana á ofnplötu með (hreinum) bökunarpappír. Hafið gott bil á milli bitanna.

Hrærið egg í skál með smá klípu af salti. Burstið skonskurnar með egginu og sáldrið 1 msk af sykri yfir þær.

Setjið skonsurnar inn í miðjan ofn og bakið í ca. 25 - 30 mínútur, eða þar til þær verða stífar og gylltar. Leyfið þeim að kólna á grind í 10 mínútur

[*Skonsurnar eru langbestar samdægurs. Ef þið haldið að þær klárist ekki daginn sem þið bakið þær þá má frysta óbakaða bita og baka þá þegar ykkur langar í nýbakaðar skonsur. Setjið bitana, frosna, inn í ofn og bakið í 2-3 mínútur aukalega.]

Comments