epla og engifer sorbet

Epla- og engifersorbet

(Breytt uppskrift frá David Lebovitz: The Perfect Scoop)

  • 4 stór rauð epli, ca. 1 kg
  • 500 ml síder, helst þurr (brut) með eða án áfengis eða þurrt riesling vín
  • 130 g sykur
  • vatn
  • 15 g bútur af engifer

Aðferð:

Skerið hvert epli í fjóra bita. Skrælið hvern bita þannig að hýðið sé í ágætlega stórum hlutum (þetta gerir manni auðveldara að veiða þá upp úr blöndunni seinna). Kjarnhreinsið og skerið svo niður í 3 sm bita. Kremjið engiferbútinn með flötu hliðinni á stórum hníf eða berjið hann létt með kökukefli.

Hitið sykur og síder í meðalstórum potti yfir meðalháum hita þangað til suðan kemur upp. Hrærið aðeins í pottinum til að hjálpa sykrinum að leysast upp.

Setjið eplabitana, eplahýðið og engiferið í pottinn, lækkið hitann og leyfið að malla með lokinu á í 15 mínútur eða þar til eplin eru orðin mjúk. Slökkvið undir pottinum og leyfið blöndunni að ná stofuhita.

Hellið blöndunni í gegnum grófa síu ofan í stóra skál. Veiðið engiferið og eplahýðið upp úr og hendið. Þrýstið eplunum í gegnum síuna með stórri skeið (ég varð mjög óþolinmóð á þessum tímapunkti og skellti eplunum ásamt smá búta af engiferinu í matvinnsluvélina þar til allt var orðið að mjúku mauki).

Kælið blönduna alveg inn í kæli, helst yfir nótt.

Setjið í ísvélina og frystið samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda.

[Ef þið eigið ekki ísvél þá getið þið sleppt því að kæla blönduna alveg í kæli. Setjið blönduna í lítið form - ég nota brauðformið mitt - og skellið í frystinn. Takið blönduna út eftir hálftíma, hrærið og skrapið vel með gaffli. Endurtakið nokkrum sinnum þar til blandan er frosin. Þetta kemur í veg fyrir að ískristallar myndist og sorbetinn verður mýkri.]

Gerir tæpan 1 lítra

Comments