bandarísk hjónabandssæla

Bandarísk hjónabandssæla

(Uppskrift frá 17 and baking)

  • 1 1/4 bolli [160 g] hveiti 
  • 1/3 bolli [65 g] púðursykur (ég notaði ljósan púðursykur)
  • 1/2 tsk salt
  • 140 g smjör, kalt og skorið í litla bita
  • 1 msk mjólk
  • 1 1/2 bolli [135 g] haframjöl
  • 3/4 bolli [180 ml] hindberjasulta*
[*Í rauninni má nota hvaða sultu sem ykkur dettur í hug. Ef sultan er mjög sæt er ágætt að minnka magn sykurs í uppskriftinni - deigið er frekar sætt.] 

Aðferð:

Hitið ofninn í 375 F/ 190 C. 

Blandið saman hveiti, sykri og salti í matvinnsluvél. Bætið síðan smjörinu út í og blandið þar til deigið byrjar að myndast. Hellið mjólkinni út í og blandið. [Ef þið eigið ekki matvinnsluvél má líka gera þetta með handþeytara eða gera þetta í höndunum með gaffal að vopni.] 

Flytjið deigið yfir í meðalstóra skál og blandið haframjölinu saman við. Hnoðið þar til allt hefur blandast vel saman. 

Setjið 3/4 bolla [2 dl] af deiginu til hliðar. Þrýstið restinni af deiginu þétt og jafnt ofan í smurt bökunarform 9 x 9" [23 x 23cm] að stærð. Smyrjið sultunni jafnt yfir deigið (ef sultan er mjög þykk í sér þá er gott að hita hana aðeins í potti áður en henni er smurt á). Myljið restina af deiginu jafnt yfir allt saman.

Bakið í miðjum ofni þar til deigið verður gyllt á litinn, ca. 20-25 mínútur. Leyfið að kólna alveg á grind. Notið hníf og skerið með fram forminu til að losa kökuna frá, lyftið henni upp úr forminu og flytjið yfir á skurðarbretti. Skerið í bita.  

Comments