affogato

Affogato með karamellugljáðum heslihnetum

  • 4 kúlur vanilluís
  • 1 dl espressó (eða sterkt kaffi)
  • 1 handfylli heslihnetur
  • 1 dl vatn
  • 1 dl sykur

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C.

Byrjið á því að afhýða heslihneturnar ef þarf. Besta aðferð sem ég hef notað er að setja vatn í lítinn pott og ná upp suðu, bæta síðan við 2 msk af matarsóda og sejtahneturnar út í. Sjóðið í 3 - 5 mínútur - vatnið verður mjög dökkt, það er í lagi. Setjið kalt vatn í skál á meðan og bætið nokkrum ísmolum út í. Til að gá hvort að hneturnar séu tilbúnar er gott að veiða eina hnetu upp úr, setja hana út í ískalt vatnið og reyna að ná hýðinu af. Ef það rennur auðveldlega af eru hneturnar tilbúnar. Takið allar hneturnar upp úr sjóðandi vatninu og setjið í ískalt vatnið. Nuddið hýðið af hnetunum með fingrunum. Setjið hneturnar á eldhúspappír og leyfið að þorna. 

Setjið 1 dl af vatni og 1 dl af sykri í lítinn pott yfir meðalháum hita. Leyfið sykrinum að bráðna saman við vatnið. Ekki hræra í pottinum en það er í lagi að hreyfa hann af og til svo að sykurinn bráðni jafnt. Þegar blandan fer að taka smá lit á að setja heslihneturnar út í pottinn. Hreyfið pottinn til að heslihneturnar veltist upp úr karamellunni. Leyfið að sjóða þar til karamellan verður fallega rafgul á litinn. Veiðið heslihneturnar upp úr pottinum með gaffli og setjið á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið í ofni í 15 - 20 mínútur eða þar til heslihneturnar eru  farnar að gyllast og ilma. Setjið til hliðar og leyfið að kólna. Setjið svo eldhúspappír (eða viskustykki) undir og yfir hneturnar og berjið þær léttilega með kökukefli. Setjið hneturnar til hliðar á meðan þið takið til ísinn og kaffið eða geymið í loftþéttum umbúðum. 

Skiptið vanilluísnum í tvær skálar. Hellið 1/2 dl af espressói yfir hvora skálina. Sáldrið karamellugljáðu heslihnetunum yfir. Berið strax fram. 

Fyrir tvo

Comments