Greining kvikmynda

kvikmynd.comA Bout de Souffle (Á öndinni)

1960 – Jean-Luc Godard


Michael (Belmondo) er sá sami í lokin og hann var í byrjun, siðlaus og stefnulaus þjófur og morðingi, sem stendur ekki fyrir neitt og er ekki að berjast fyrir neinu. Hann hefur ekkert sér til málsbóta. Patricia (Seberg) er að reyna feta rétta veginn, vinna fyrir sér með blaðsölu og skrifum og vera innrituð í skóla til þess að foreldrarnir heima í BNA verði rólegir. Hún er veik fyrir Michael og veit ekki hvað hún á að gera við hann. Hún ákveður að segja til hans - losa sig við hann.

Hver er sagan? Michael stelur bíl og ekur út í sveit. Hann verður lögreglumanni að bana með skammbyssu, sem af tilviljun er í hanskahólfinu. Rannsóknarlögreglan kemst fljótt á sporið. Michael fer í felur hjá Patricia, sem selur blöð. Í herbergi hennar dvelur hann stærstan hluta myndarinnar og langar til að sofa hjá henni. Hún ekki viss hvort hún elski hann. Hann bíður henni í bíltúr og þau halda á stolnum bíl í ökuferð sem endar á því að hún segir til hans. Lögreglan birtist og enn fær Michael skammbyssu í hendurnar fyrir tilviljun, þegar vinur hans Tony ekur hjá. Michael fellur fyrir skoti lögreglunnar og haltrar góðan spöl að næstum gatnamótum. Patricia stendur yfir honum föllnum sviplaus og í stað ástarjátningar kemur þessi setning frá Michael: Að sjá þig fær mig til að æla.

Þetta er sagan sem var tímamót og kom Frönsku Nýbylgjunni rækilega á heimskortið með mikilli aðsókn heima og erlendis. Francois Truffaut er skrifaður fyrir handritinu og Godard er leikstjóri.

Nú verður maður að spyrja, hvað var svona merkilegt? Þarna var á ferðinni hópur blaðamanna á Cachiers de cinema sem var framsæknasta kvikmyndablaðið á þessum tíma og þeir vissu betur en gömlu mennirnir hvernig átti að gera kvikmyndir. Nýbylgjan var ekki skipulögð hreyfing en hún var uppreisn gegn formfestu. Með henni kom inn í franska kvikmyndagerð ferskleiki götunnar og nýr tíðarandi og kjarkur til að klippa villt og sleppa þrífætinum. Höfundar Nýbylgjunnar voru ólíkir menn. Godard var upptekinn af því að gefa sögunni og byggingunni á kjaftinn og brjóta reglurnar. Patricia horfir á „ástina sína“ eins og rusl í göturæsinu. Á vissan hátt er Godard þarna að gefa tilfinningunum á kjaftinn eins og sögunni og byggingunni, en tilfinningar eru auðvitað hið raunverulega byggingarefni kvikmynda. Áhorfendur létu bjóða sér groddalegri frásögn og sagan og tilfinningarnar skiptu engu máli. Í staðinn kom galdur höfundarins. Til sannindamerkis voru „nýjungar“ eins og langar tökur og senur, þar sem klippt hafði burt leiðinlegir kaflar, persónurnar eltar um götur og stræti - allt saman mjög „svalt“. Áhorfendur, sem voru leiðir á gömlu aðferðunum, tóku þessu fagnandi. Nú 55 árum síðar hrópar hins vegar fátæktin í innihaldi og meiningu. Og spurningin vakir enn hvernig hægt er að hafa myndirnar ferskar og spennandi en segja eitthvað? Leitin að „réttri“ aðferð er eðlilegri ef innihaldið er nýtt og mikilvægt.

Flótti Michaels undan löggunni og löngun hans til að sofa hjá Patriciu getur ekki talist saga. Atriði Michaels eru fremur ein rútína sem gengur alla myndina. Ef hann hefði ekki fallið fyrir kúlu lögreglunnar, hefði hann haldið áfram sömu braut. Skipti Patricia einhverju máli fyrir hann? Ekki gaf lokasetningin það til kynna. Patricia er nær því að geta talist sögupersóna. Hún hittir þennan aula og verður skotin í honum og er næstum því fallin fyrir honum og verður að prófa sjálfa sig. Hún stendur frammi fyrir einhvers konar ákvörðun, þegar hún hefur samband við lögguna. En úrvinnslan úr þessu er brandari og það er því ekkert uppgjör í hennar sögu. Samt er hún nær því að geta talist aðalpersóna.

A Bout de Souffle hét á ensku Breathless og á dönsku Andeløs og fékk á íslensku nafnið „Með lögguna á hælunum“. Þó myndin sé við nánari skoðun hálfgert andleysi þá má þakka fyrir hressilegan andblæ hennar. Hún geymir franskan tíðaranda og kemur með nýjar týpur og blandar ljúfengan Parísarkokkteil á nýjan hátt.

Godard tókst að selja myndina sem meistaraverk. Menningarelítan lá kylliflöt og Belmondo og Seberg voru nýjar stjörnur. Ný kynslóð var komin til valda í franskri kvikmyndagerð. Völlurinn var þeirra og þeir áttu eftir að verða fyrirmyndir hjá Evrópskum leikstjórum.

ÞJ 26. jan 2016

 

Listi 

Act Normal


2007 - Ólafur Jóhannesson 

Þessi mynd vekur margar spurningar. Einnig spurningar um það hvernig er hægt að tala um hana sem kvikmynd. Er meiningin að hún uppfylli skilyrði sem áhorfandi getur búist við að kvikmynd uppfylli líkt og önnur dramatísk verk, skáldsögur, leikrit? Ég geri þessar kröfur til heimildamynda, en ekki til fræðslumynda eða tilraunamynda. En þessi mynd er hvorki fræðslumynd né tilraunamynd. Eðlilegt er að byrja á því að leita að sögu, aðalpersónu, efni og meiningu. Í sögu er venjulega einhver vandi eða spurning, tekst aðalpersónunni að leysa vandann eða ekki? Vandinn þarf út af fyrir sig ekki að vera merkilegur, en áhorfandinn nær í basli aðalpersónunnar tilfinningalegu sambandi við hana og fær áhuga á því hvernig fer. Hérna erum við með persónu sem er viljalaus. Hann hefur ekkert “want” eins og stundum er sagt. Hann lendir hér og þar og mátar sig í aðstæðunum. Svo endar hann eftir að hafa prófað eitt og annað í sömu aðstæðum og í byrjn. Maðurinn er búddisti og hefur tileinkað sér eitt og annað af hugmyndum búddismansn en maður sér ekki að hann hafi neitt sérstakt markmið í sambandi við það. Hann vill forðast ástríður. Hann vill losna við að langa í eitthvað, en þessi afneitun langana felur eiginlega ekki í sér neina stefnu. Hann virðist afneita þeirri áskorun, sem lífið er. Hann ástundar það sem kalla mætti uppgjöf. Af einhverjum ástæðum hefur hann fundið sér stað í búddareglu í Austur-Asíu, en staðurinn virðist ekki skipta máli þannig lagað. En svo er það hin hliðin, að vilja kerfisbundið ekki neitt, er það ekki einhvers konar vilji. Að minnsta kosti er það löngun. En það er einmitt það sem hann segist forðast. Hvað á maður þá að segja um aðalpersónuna? Sagan, ef þetta er sagan, er einhvers konar mótsögn. En myndin fjallar ekki um þetta. Aðferð myndarinnar er líka einhvers konar viljaleysi. Höfundurinn eltir aðalpersónuna í sínu tilviljanakennda amstri og velur það sem kitlar hégómataugina. 

Aðalpersónan hittir konu. Það hlýtur að vera löngun, jafnvel ástríða. Hann kvænist henni. Svo vill hún hann ekki lengur og þá er það allt í lagi. Hann hverfur aftur í það sama og áður. 

Ekki er hægt að líta á myndina sem fræðslu um búddisma. Og ekki skýrir hún aðalpersónuna. Hvers vegna gerist maðurinn búddamunkur? Það er gáta. 

Kannski nennti hann ekki að vinna og vera eins og aðrir, sem væri gott og gilt. En það verður ekki séð að efni myndarinnar sé einhvers konar afneitun af því tagi eða andóf við venjubundnum lífsstíl t.d. vesturlanda. Maðurinn er einkennilegur, sem er ekki ókostur, en hann segir því miður ekkert af einlægni. Ég les ekkert út úr því, að hann gerist Búddamúnkur, hætti því og byrji aftur. Hliðarsporið með rússnesku konunni er líka aðeins spurning. Flestar sögur hans enda á innantómum hlátri, hvert sem samhengið er. Allt er jafn hlægilegt, hvort sem það eru hermenn að fara að kasta sprengjum eða eiginmaður að fá sér hjákonu. Er hann að segja eitthvað markvert um þjóðfélagið? Ef svo er á það ekki grunn í frásögn myndarinnar. Hvers vegna er höfundurinn að segja okkur þessa sögu? Aðalpersónan varpar frá sér ábyrgð og hefur engan vilja - eða þannig! Maður er ekki viss. Úr hvaða aðstæðum kemur hann og hvað finnst honum um það? Það er ekki skýrt. Rútínuna vantar. Maðurinn kemur hvorki með eigin upplifun af heiminum né tengir upplifun áhorfandans. Samhengið er ekki ljóst. Aðalpersónan er svona, og hvað með það? 

Hver er vandinn sem myndin fjallar um? Það er ómögulegt að segja. Hver er þá niðurstaðan, þegar manni tekst ekki að sjá neitt, hvorki fallegt, fróðlegt, sniðugt né skapandi í níutíu mínútur? Vonbrigði og depurð. Og það er ekki einu sinni hægt að koma með tillögur til höfundarins því hvergi er að finna vísbendingar um hvað hann ætlaði sér. 

ÞJ 4. júní 2010
American Beauty


1999 - Sam Mendes

Við vorum svo heppin að fá Donald Bohlinger til að greina American Beauty í Bíóparadís fyrir kvikmyndafólk í Reykjavík. Bohlinger hafði verið á námskeiði hjá Frank Daniel sem er besti handritskennari, sem ég hef kynnst og lært mikið af og notaði orðabókina hans. Troðfullur salur og mikill áhugi. Hann sagði frá því sem hann vissi um upphaf handritsins. Handritshöfundurinn hafði unnið við amerískar sápur og kom heim fullur vonbrigða, settist niður við að skrifa frjálst allt sem honum fannst. Úr því varð handritið að þessari mynd. Og allir elskuðu það í Hollywood. Spielberg og Dreamworks. Í fyrsta uppkasti voru senur sem var hent, t.d. sena þar sem pabbi Rick var á ástarfundi með karlmanni rétt áður en ástmaðurinn var drepinn. Senan fór út, ljósmynd varð eftir. Eftir þetta hataði pabbinn homma. Hvers vegna veit ég ekki. Hann var semsagt með hommafóbíu, en var sjálfur hommi. Þarna er strax athyglisvert, að maður á að taka því sem góðri vöru að maður sem er hommi hati homma. Hann hatar hommann í sjálfum sér og þar af leiðandi alla aðra homma, eða hvað? Mér finnst það ekki ganga upp, en ég skal ekki fullyrða neitt um það.

Lester, aðalpersónan, gerir uppreisn með því að fara að drekka bjór. Hvers konar uppreisn er það? Og reykja mariuana. Er það uppreisn í Ameríku? Í vímunni og fullur fer Lester að tala um það sem býr houm í brjósti. Þannig er uppreisnin. Semsagt auli drekkur sig fullan til að geta sagt það sem honum býr í brjósti. Ein tegund af hetju. Það sem hann segir eftir að uppreisn hans byrjar virkar hins vegar ekki einlægt á mig og ekki heldur það sem hann segir á undan í rútínunni, þegar hann talar eins og konan hans vill að hann tali. Kannski hefur þetta eitthvað með aðferð leikarans (Kevin Spacey) að gera. Hann er að leika að hann sé að leika eins og hann sé að herma eftir íslenskum ráðherra í í áramótaskaupi. Sá leikstíll tekur söguna út úr raunsæi og mikið veltur á því hvort áhorfandinn kannast við týpuna sem hann er að líkja eftir. Eins og Bohlinger sagði, þetta er ekki Casavetes (Casavetes vildi vera raunsær). Þetta er ekki realismi heldur er farið út fyrir veruleikann og dæmið sem Bohlinger nefndi, myndavélin sér gegnum loftið í svefnherbergi hjónanna (!). Já.

Sagan er þessi. Lester, maður á miðjum aldri, verður ástfanginn af 16 ára stúlku og ákveður að breyta lífi sínu.

Dóttirin er kynnt til sögunnar. Hún vill að pabbi sinn sé fyrirmynd (role model) en ekki fífl. Vill ungur maður, Rick, sem er að taka hana upp á video vera svo vænn að drepa hann? Og á yfirnáttúrulegan hátt veit pabbinn (Lester) að hann muni deyja innan árs. Persóna hans talar um það sem draugur eða upprisinn. Semsagt ekki realismi, heldur hyper realismi eða eitthvað.

Í byrjun myndarinnar er sena þar sem myndavélin svífur niður í hverfið. Í handritinu átti Lester að svífa eins og superman. Atriðið varð aðhlátursefni og var hent.

Persónurnar eru kynntar með merkingarberandi setningum. Vinkona dótturinnar, Madlen, segir: Það versta er að vera venjulegur (ordinary). Hún sem er 16 ára þykist vera reynd í kynferðismálum og talar eins og hún hafi prófað allt og finni sig í að þjóna karlmönnum til hins ýtrasta, t.d. ljósmyndurum og fullorðnum karlmönnum. Svo á maður að trúa því í lokasenunni, þegar Lester uppsker eftir æfingarnar í bílskúrnum, bjórdrykkju og maríúanareykingar - búinn að vinna Madlen, stúlkuna sem hann elskar - að þá allt í einu reynist hún óreynd. En löngun hans er allt í einu horfin. Hún verður leið og hann reynir að hugga hana með því að löngunarleysi sitt sé ekki út af henni (!).

1. þáttur. Við kynnumst dótturinni og hatri hennar á foreldrum sínum. Hún vill fá einhvern til að drepa föður sinn. Faðirinn, Lester, segir, hún hatar mig og hún hatar þig. Hvað er vandamálið? Það er ekki á hreinu. Pabbinn er ekki role model. Ekki nákvæmlega eins og hún vill að hann sé. Dóttirin er í dansliðinu á íþróttaleiknum og foreldrarnir mæta á staðinn henni til hrellingar. Lester lætur sig hafa það til að styðja dóttur sína, en einmitt þarna verður hann ástfanginn af Madlen í bjánalegu dansatriði sem Donald Bochlinger fannst stórkostlegt. Síðan kemur samtal eftir leikinn, þar sem Lester getur ekki leynt hrifingu sinni á Madlen og í lok 1. þáttar gistir Madlen hjá þeim og hann er á hleri, þegar Madlen talar um, að hún mundi vilja sofa hjá honum, ef hann væri stæltari. Fram að því hefur Leser verið hokinn og þreytulegur með magann upp úr buxunum en nú hefur hann aldeilis fengið markmið.

Hliðarsaga er ástarsamband húsmóðurinnar og Buddys. Hann er fyrirmynd hennar í fasteignabransanum og í partíinu segist hún vilja „éta heilann úr honum” ef ég skildi það rétt, kannski eignast hlutdeild í velgengni hans. Hann er til í það og þau fara að hittast. Hann trúir henni fyrir því að hann fari á skotbrautina til að hleypa af nokkrum hleðslum, ekkert sé betra fyrir sjálfstraustið (nema eitt). Þannig kemst húsmóðirin í byssudýrkunarheiminn og byssa komin inn í söguna. Samband hennar og Buddy endar á því að þau koma á hamborgarastaðinn þar sem Lester er búinn að ráða sig og Lester sér þau og er sama. Buddy er ekki sama. Þarna brestur mig aftur skilning. Buddy heldur við eiginkonuna. Þau eru alsæl. Lester kemst að öllu saman og er sama. En Buddy (fyrst Lester er sama) hættir við allt saman og ber fyrir sig dýrum skilnaði!

Í 2. Þætti er haldið áfram með aðalsöguna, Lester æfir og drekkur bjór og reykir maríúana, sem hann fær hjá Rick, en samband myndast með Rick og dótturinni, sem endar á því að hún er tilbúin að flýja með honum til New York í 3. þætti.

Inn í söguna kemur fyrrnefndur faðir Rick sem þolir ekki homma en er hommi og „kemst að því” að sonur hans er í sambandi við Lester og vill frekar að hann sé dauður en hommi. Í framhaldinu reynir hann síðan að komast í ástarsamband við Lester. En framhald aðalsögunnar (fyrir utan bjórinn og æfingarnar og að hann kúgar eigandann um leið og honum er sagt upp á auglýsingastofunni) kemur ekki fyrr en þegar ósætti kemur upp milli dótturinar og Madlen og Lester rekst á Madlen og stóra senan kemur milli þeirra (3. þáttur). Hann fer að „haga sér eins og maður” eða „lifa lífinu” með því að gefa Madlen morgunverð og horfa mikið á gamla ljósmynd af fjölskyldunni eins og hún var meðan allt lék í lyndi. Og svo nálgast byssa húsmóðurinnar hausinn á honum og myndavélin fer til hliðar til að sjá blóðsletturnar gusast á vegginn. Þessi hápúnktur sögnnar, þegar aðalpersónan er drepin er ein þoka. Mann grunar konuna. Hún á byssuna, en dóttirin hefur talað um að fá hann drepinn, Rick væri líklegur til að gera það fyrir hana (þó hann missi viðskiptavin). Pabbi Ricks væri líklegur til að drepa Lester fyrir að táldraga son hans (sem var misskilningur) eða vilja hann ekki sem hommavin. En á óvart kemur, að eiginkonan fer að faðma föt Lesters, eftir morðið. Svo líklega var það ekki hún.

Þetta er sama dellan, hvernig sem á það er litið. Og hver nákvæmlega var ástæðan fyrir því að maðurinn þurfti að deyja. Var það kannski bara þörf handrishðfundarins fyrir að hafa time frame. Það er að segja að búa áhorfandann undir endirinn.

Út frá þörfum handritshöfundarins og leikstjórans gengur allt upp sem skemmmtilegur leikur með verkfærin í handritasmiðjunni, en fyrir áhorfandann er þetta dauður hlutur, þar sem manni er sama um allar persónurnar, hvort þær lifa eða deyja, hvernig kynlífi þær lifa eða í hvaða neyslu þær eru í eða hvaða tónlist þær spila yfir kvöldmatnum.

Leikurinn er ein kategoria. Lárus Ýmir Óskarsson sagði á kynningu Bohlingers þegar hann talaði um að eiginkonan væri undirskrifuð, hvort hún væri ekki bara ofleikin. Nokkuð til í því. Hún og allir nema Rick eru ofleiknir, tilgerðarlegir í túlkun leikaranna og uppsetningu leikstjórans. Þetta er sett upp eins og leiksýning með þykjustuleik. Alveg laust við tilfinningu eða einlægni, en algerlega byggt á eftirhermu og þykjustu. 
Eitt mótíf í myndinni er til fyrirmyndar, gægjuþörfin. Það er oftast einhver á gægjum. Rick er með videovélina og fylgist með dótturinni og öðru, pokanum á flugi sem listrænu innskoti, og svo Lester að æfa vöðvana. Pabbi hans fylgist með honum.

ÞJ 10 des 2013Andið eðlilega

2018 - Ísold Uggadóttir

Ung einstæð móðir, Lára, (Kristín Þóra Haraldsdóttir) á ekki fyrir innkaupum í Bónusi og þarf að rýma leiguíbúðina og búa í gömlu bíldruslunni með syni sínum Eldari sex ára (Patrekur Nökkvi Pétursson). En það er ekki öll von úti. Í innheimtubréfasúpunni leynist bréf um að hún hafi fengið starf hjá löggunni við útlendingaeftirlit í flugstöðinni í Keflavík.

Starfið byrjar á námi og hún er svo heppin að geta bent leiðbeinanda sínum á mistök. Kona frá Ginea-Bissá, Adja (Babetida Sadjo) er með fösluð skilríki.

Adja fær fangelsisdóm og er komið fyrir í flóttamannabúðum meðan hún bíður úrskurðar um landvist á Íslandi. Annað er ekki í spilunum, því vegabréfslaus kemst hún ekkert. Adja er á flótta frá heimalandinu, þar sem kærsta hennar var barinn til bana fyrir kynhneygð. Útlendingaeftirlitið á Íslandi sér hins vegar enga hættu á ferðum.

Þegar neikvæður úrskurður berst, gerir Adja áætlun um að flýja í flutningagámi, en hættir við. Framundan er ekki annað en brottvísun í stórvandræði, jafnvel dauðann.

Þessar tvær konur hefðu í framhaldinu ekki vitað hvor af annarri ef Adja hefði ekki bjargað ketti Eldars, sem strýkur úr bílnum. Það þróast svolítill kunningskapur með Láru og Adja og ekki síður með Adja og Eldari í þessu kalda og nöturlega umhverfi flugvallarins. Adja lætur þau Láru og Eldar sofa í þröngu herbergi sínu í flóttamannabúðunum og hún hjálpar Láru með Eldar, þó hún hafi fyllstu ástæðu til að reiðast henni og þessri kaldlyndu þjóð fyrir að halda sér þarna bjargarlausri og meðhöndla sig eins og réttlausan útlaga. Jafnvel óskilakötturinn Músi, sem hafði lent í búri hjá stofnun ásamt tugum útlægra katta er nú í betri stöðu en Adja, elskaður af bjargvætti sínum Eldari.

Hver er vandi Láru, sem er í stöðu aðalpersónunnar og áhorfandinn fylgir? Hún er að vísu fátæk og einstæð móðir og á engan að og er í húsnæðisvandræðum og þarf að leysa gamlan vímuvanda. Og svo er hún samkynhneygð. Einhvernvegin virðist vandi hennar ekki stór við hliðina á vandræðum Adja. En við upplifum söguna frá bæjardyrum Láru, og fljótlega er ljóst að myndin er ekki fyrst og fremst að fjalla um þessi vandamál hennar. Hún snýst um ennþá stærra mál.

Lára er að ósekju orðin fulltrúi kerfis sem er óréttlátt. Rangur litur á blaðsíðu í vegabréfi veldur harmi í fjölskyldu saklauss fólks og jafnvel ævilangri kvöl eða dauða. Reglan fær merkingu langt út fyrir þessa einu blaðsíðu og þessa litlu sögu. Og Lára er sek. Hún kom Adja í þessi vandræði.

Myndin er semsagt um samviskuna. Raunverulegur vandi Láru er sá að hún er með samvisku íslensku þjóðarinnar á herðunum, jafnvel alls hins vestræna heims. Þess vegna verður hún að leiða hina saklausu Adja úr vandanum. Og hún getur leyst málið og lausnin er skemmtilega einföld. Þarna er skýringin á því, að myndin gengur svona skemmtilega upp þó stóru vandræðin beinist ekki að aðalpersónunni eins og venjan er.

Í Andið eðlilega er margt sem gleður augað og nærir sálina. Senur, hvort sem þær eru með samtölum eða án orða, fá að njóta sín á fínlegum viðkunnanlegum nótum, líka í þögn og kyrrð. Og þó Lára og Adja tilheyri tveimur minnihlutahópum (samkynhneygðar og einstæðar mæður), gleymir höfundur sér ekki í umkvörtunarefnum, heldur lætur persónurnar fyrst og fremst njóta sín eins og almennilegar manneskjur sem reyna að skilja næsta mann. Oft fáum við að sjá börn sem aukapersónur litlaus og klisjukennd. Þarna er Eldar gerandi persóna í sögunni og er á sinn sérstaka hátt rödd réttlætisins með sínum náttúrulegu spurningum og óskum. Það er spenna í naumum samtölum í allri myndinni og falleg samtöl og samskipti til dæmis milli Láru og Eldars. Hún gefur þá skýringu á húsnæðisleysinu að þau séu í ævintýraferð. Að það sé ævintýri fyrir barn að sofa í bílnum og losna við allar plágur hins venjulega góða lífs, er ekki aðeins góður brandari, heldur læðir í samanburðinum við stöðu flóttamannsins samviskubiti inn hjá áhorfanda sem skemmtir sér.

Hámark 2. þáttar er aksjón. Hlaup inni á bannsvæði, innlit í gáminn og nærmyndir af Láru og Adja inni í bílnum þar sem íslensk lárétt rigning lemur rúðurnar og þurrkurnar hamast. Einfalt, en virkar betur en eldspúandi herdeildir í amerískri spennumynd. Og aðra skemmtilega notkun á íslensku roki er að finna daginn, sem þau yfirgefa íbúðina til að flytjast í bílinn.

Fljótt á litið er ekki annað uppgjör en senan þegar Lára stimplar Adja út úr landinu. Senan í lokin - einfalda lausnin á vandanum - hefur þó þunga undiröldu. Hún kemur sem eðlileg afleiðing af tilfinningum persóna sem finna til hver með annarri og hafa ekki tapað mennsku sinni ólíkt því sem virðist hafa gerst hjá þeim sem búa til kerfi eins og það sem Adja lendir í. Og þegar betur er að gáð, er skammta af uppgjöri að finna hér og þar í myndinni, þar sem vestrænn áhorfandi upplifir skömmina að vera á einhvern hátt ábyrgur fyrir þessu rangláta kerfi. Skilaboðin eru, þú ert líka sekur. Við sem búum við öryggi, við erum öll sek.

ÞJ 180323

Á annan veg


2011 - Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

Alfreð er að leita að stúlku til að sofa hjá. Honum finnst þær misjafnar. Sigga er getnaðarleg, ein er með feita og stutta leggi og Dísa dugar bara í hallæri. Nú ber það við að Dísa verður ólétt og enginn vafi um föðurinn.
Finnbogi fær bréf frá Rannveigu sem hann elskar, að hún sé hætt með honum.

Finnbogi sannfærir Alfreð um að barnið sé guðsgjöf og að það að verða faðir sé eðlilegt næsta skef og hann eigi segja Dísu að hún geti átt barnið og hann muni taka einhvern þátt í því.

Stendur þetta innihald undir heilli bíómynd? Nei. Er þá eitthvert annars konar innihald í myndinni? Já. Það eru fallegar stemningar hjá þeim tveimur þarna í óbyggðunum í sumarvinnunni. Það er einhvers konar von um að þetta fari allt vel. Vonin er reyndar óljós og alls ekki grunduð í þessum atriðum þarna í fjöllunum. Eiginlega þvert á móti. Þess vegna eru það vonbrigði þegar myndin endar eftir 89 mínútna 1. þátt, þar sem 2. þáttur ætti að byrja með sögunni um það hvernig til tekst hjá Alfreð og Dísu og barninu.

Þarna eru fyndin samtöl í handriti, fallegar stemningar í myndatöku, skemmtillegar senur í leikstjórninni og góðir sprettir í leik en allan tímann er maður að bíða eftir einhverjum straumi eða undirtóni sem gæfi til kynna hvað höfundurinn er að fara. Persónur hans eru í einhverju limbói í fjöllunum og við finnum vel fyrir lífi þeirra í þéttbýlinu og öllum vandamálunum þar. Kannski hefur plan höfundar verið að hafa efni 2. og 3. þáttar innifalið í 1. þætti. En til þess hefði þurft meiri botn í persónu Alfreðs - eitthvað sem mundi gefa áhorfandanum hugmynd um hvernig honum mundi takast með barnið. Dæmi um slíkt er í Submarino hér á síðunni. Í einangruninni í fjöllunum er spurningin vakandi um ábyrgð Alfreðs á gerðum sínum. Sagan er um ábyrgð eða ætti að vera það. Eins og endirinn er settur upp er niðurstaðan hins vegar svona er þetta saga. Finnbogi missir sína konu, sem hann elskar. Alfreð eignast sína konu sem hann elskar ekki. Hvað með það, er ekki rétta hugsunin hjá áhorfanda eftir að sjá fallega mynd. Sorglegt hvað þessi mynd er nálægt því að vera mjög góð.

ÞJ 16. feb 2012

Til baka


Bakka-Baldur

2011 Þorfinnur Guðnason

Baldur hefur tamið hest og sigrað á honum heimsmeistarakeppni. Nú er hesturinn orðinn gamall og er staðsettur á Hawai. Baldur fær nokkra sveitunga í lið með sér að heimsækja þennan vin sinn. Til gamans er áhorfandinn ekki upplýstur um, að vinurinn sé hestur fyrr en komið er til Hawai.

Í byrjun ausa nokkrar persónur Baldur lofi eins og eigi að fara að jarða hann eða veita honum orðu. En ekkert slíkt er í gangi. Baldur situr eða stendur og hlustar á aðra tala og syngja og hvaðeina, en hvergi verður vart neins konar vanda, sem hann stendur frammi fyrir. Að taka ákvörðun um það, hvort hann fari til Hawai er eiginlega eini þráðurinn. Önnur aðalpersóna kemur ekki til álita. 

Síðan eru þarna langir innskotskaflar, þar sem samfélagið er kynnt. Við upplifum samfélagið ekki með augum Baldurs. Áhorfandanum er boðið upp á sýnishorn af söng- matarmenningu. Og svo er boðið upp á göngur og þorrablót. Þetta er athyglisvert samfélag. Gallinn er bara sá, kannski vegna þessa væntanlega brandara, að myndin fær ekki neina dýpt eða stefnu og hefur sig ekki upp úr stíl kynningarbanda. Myndinni lýkur án þess að áhorfandi sé miklu nær um aðalpersónuna. Og þegar brandarinn hefur verið opinberaður, verða það eiginlega vonbrigði frekar en hitt. Lítið fengið fyrir allan þennan söng og máltíðir, sérstaklega vegna þess að ekki verður séð hvernig atriðin á undan tengjast andlagi brandarans. Hvert er leyndarmálið um þennan mann? Kannski er hann galdramaður með hesta? En út í það er ekki farið í myndinni, nema í mýflugumynd, í smágælum við hesta á tveim stöðum. Þessi tvö atriði verða vandræðaleg og myndin í heild líður fyrir efnislitla sögu, fjarlægð aðalpersónu og þunna meginhugmynd, sem stendur ekki undir 63 mínútum. 

ÞJ 30 jan 2012
Battle Royale

2000 - Kinji Fukasako

Rútínan lýsir þjóðfélagsástandi, þar sem hver einstaklingur bekkjarins þarf að berjast fyrir lífi sínu með einhverju vopni, þangað til einn er eftir- leikur eins og í tölvu en kvikmyndaformið gerir hann raunverulegri.

Það koma upp spurningar.  Vegna formsins - finnur maður til með persónunum? Vegna byggingar sögunnar - hver er aðalpersónan?

Aðalpersonan gæti verið stúlkan Noriko eða strákrinn Shuya. Noriko þarf að vernda ástvin sinn Shuya. Og Shuya þarf líka að vernda Noriko.

Hvort þeirra stendur frammi fyrir mikilvægustu spurningunni í tengslum við efni myndarinnar? Hver tekur mikilvægustu ákvörðunina? Það gæti verið hvort þeirra sem er.

Þriðja mikilvæga persónan er bardagamaðurinn Kawada. Hann verður af sérstökum ástæðum bandamaður þeirra og þau læra að treysta honum.

Þetta gæti verið einföld ástarsaga, en svo er ekki. Hún fjallar um tengslin milli þess að treysta einhverjum og/eða elska. Skilaboðin eru kannski ekki skýr en vangavelturnar eru þarna (2. Þáttur). Spurningarnar eru tvær: Geturðu treyst án þess að elska? Geturðu elskað án þess að treysta.

Myndin er dæmisaga. Dregin er upp dæmisaga til að varpa ljósi á tiltekna þætti í samfélaginu. Ríkið (hinir fullorðnu) lætur (unga fólkið) berjast um - ja, leyfi til að lifa. Unga fólkið á að berjast hvert við annað eins og villidýr til þess að lifa af. Og skilaboðin þá - ástin/vináttan og traustið eru mikilvægari (en ofbeldið) og geta sigrað.

Oft er talað um hvort mynd sé góð eða vond. Þessi mynd er áhugaverð í því ljósi. Hún er góð. Hún er vel gerð og efni hennar er umhugsunarvert. En getur hún verið góð án þess að manni líki hún? Svarið er já. Hún er vond í þeim skilningi að hún fyllir mann svartsýni og það sem er dapurlegra, hún upphefur bardagann, þar sem heilalausir bardagamenn eru sigurvegararnir. Maður fær velgju af þessum Kawada sem er flinkur með byssuna og enn frekar kennaranum, sem leikin er af þekktum leikstjóra Takeshi Kitano. Myndin virkar sem næring fyrir ákveðna tegund af siðleysi og miskunnarleysi, sem finnst til dæmis hjá mönnum, sem aðhyllast hugmyndir nasista og bókstafstrúarmanna af öllum gerðum. Á að banna þessa mynd? Er hún hættuleg? Hvetur hún til ofbeldis? Slíkar spuringar vakna. Er ofbeldið skemmtun? Það góða við myndina er hins vegar, að hún er næring fyrir frjósama umræðu um félagslegan raunveruleika og hlutverk siðgæðis í honum. Þegar siðgæðið hefur verið tekið burt, hvað er þá eftir? Blóðugur bardagi um síðustu bitana. Og það kemur upp einhvers konar söknuður eftir einlægum tilfinningum, að gefa af sér fyrir aðra. Og þrátt fyrir andblæ ofbeldisdýrkunar setur sagan áhorfandann í stöðu þess sem vill þetta ekki og leitar einhvers betra. Myndin er andstyggileg og maður vill ekki sjá hana. En um leið verður maður að viðurkenna að hún tekur á vanda, sem er raunverulegur og hver borgari hefur gott af því að takast á við.


ÞJ 24 júli 2011

Til bakaBless Lenin (Good bye Lenin)


2003 – Wolfgang Becker


Sagan um góða soninn, sem vill forða því að hjartveik mamma hans verði fyrir áfalli og telur henni þess vegna trú um að hún lifi enn í sósjalismanum, er mögnuð. Sonurinn, Alex, falsar veuleikann innan veggja heimilisins og í sjónvarpinu. Allt gengur vel þangað til móðir hans kemst á fætur og sér að ekki er allt með felldu. En hún deyr án þess að komast að sannleikanum.

Tími sögunnar eru 8 mánuðir í kringum fall Berlínarmúrsins 1989, meðan mamman er í dái. Hún er fyrirmyndarkommúnisti og tekur ábyrgan þátt í samfélaginu og lifir í vissunni um að Austur-þýski sósjalisminn sé það besta. Faðir þeirra er ekki á heimilinu og mamma hefur sagt börnunum, að hann hafi svikið þau, flúið til óvinarins og ekkert látið frá sér heyra. Í seinni hluta sögunnar fær hún annað hjartaáfall og ákveður að segja börnunum sannleikann. Ákvörðunin um flótta var sameiginleg, hún ætlaði líka að flýja en hafði ekki kjark til þess eða gat það ekki. Þess í stað gaf hún yfirlýsingu um að eiginmaðurinn væri svikari og gekk inn í sósjalíska leikritið af öllu afli – að hún væri ánægð og sannfærð. Bréfin frá heittelskuðum eiginmanninum, sem hann skrifaði staðfastlega í þrjú ár, faldi hún í eldhússkápnum. Hrifningu sína á sósjalismanum lék hún svo vel, að sonurinn trúði því að vitneskjan um fall sósjalsimans gæti orðið henni lífshættuleg.

Þegar hún deyr hefur ætlunarverk sonarins tekist, en ánægjan er blandin því nú þekkir hann raunverulegu afstöðu móður sinnar, og hann hefur hitt föður sinn, sem gafst upp á að bíða. Hann er kominn með nýja konu og börn og veit ekki annað en að fjölskylda hans hafi snúið við honum baki.

Hefði efnispilturinn Alex ekki haft minna fyrir því að útskýra fyrir mömmu sinni hvað hafði gerst en að búa til falsaðan heim? Vissulega, en þá hefðum við ekki þessa skemmtilegu sögu. Falsheimurinn er nauðsynlegur vegna þess að mamma trúði á sósjalismann. En kaupir áhorfandinn það í svona nánu og góðu sambandi sonar og móður? Hvernig gat hún leynt því hvað henni fannst í raun og veru? Þegar bakkað er í svona spurningar er kannski hægt að finna veilur í sögunni – mismiklar eftir því hversu kunngir áhorfendur eru pólitísku sögunni, veruleika sósjalismans og atburðunum sem leiddu til falls kerfisins. Vandinn er að einhverju leyti að í samanburði við amerísku kvikmyndina, þar sem áhorfendur alls heimsins þykjast vel heima í smæstu núönsum í sögu og menningu, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir sama skilningi á meningu og sögu Austur-Þýskalands.

Á köflum upplifum við söguna með heimildaefni og rifjum upp stemningar úr barnæsku, fréttamyndum frá fundum valdamanna, mótmælum á götunum og hruni múrsins. En stæstur hluti hennar er leiknar senur þar sem við höfum tilfinningar fjölskyldumeðlima. Þar ber hæst sterkt samband Alex og mömmu og átökin við systurina, Láru, sem hefur verið fljót að laga sig að vestrinu og búin að ná sér í kærasta að vestan og lítið hrifin af því að taka aftur upp lífshætti sósjalsimans á heimilinu. En Alex sannfærir hana og góðan hóp nágranna og barna að taka þátt í leiknum með sér og lykilmaður er vinur hans Denis sem setur saman sjónvarpsfréttaþættina sem Alex spilar af bandi. Grínið er beitt og þarna eru kostulegar senur eins og þegar mamma upplifir gamlan draum, að keyra í bústaðinn í fjölskyldubíl sósjalismans – Trabant. Vestur-þýski kærastinn hefur keypt trabantinn sem vestrænan sérviskudraum og Alex hefur bundið fyrir augu mömmu svo hún sjái ekki vestræna umhverfið í sósjalismanum.

Í grínið er blandað samanburði á gildismatinu í sósjalismanum og vestrinu gegnum gamla fólkið sem virðist jafnvel sakna þess sem var og glæsilegi neysluvarningur vestursins fær litla aðdáun en höfundur bendir fingri á hroða sem flýtur með eins og kynlífsiðnað.

Og hver er svo niðurstaðan? Alex tókst ætlunarverkið, en var rétt af Alex að gera þetta? Það er spurning sem situr eftir hjá áhorfandanum vegna þess að við fáum ekki viðbrögð mömmunnar við raunveruleikanum. Sagan um það hvort mamma komist að sannleikanum um falsveruleikann hverfur því í svolitla móðu. Uppgjörið í þriðja þætti er því ekki fullkomið og það bjargar ekki málinu að reynt er að ljúka sögunni í munnlegri frásögn Alex, sem maður fyrirgefur fram að þessu, en dugar ekki sem uppgjör.

Aðalefnið er annað hvort 1) ást sonar á móður eða 2) falsveruleikinn. Alex virðist hafa tekist að blekkja mömmu með tilbúnum veruleika. Efinn er samt vakandi vegna þess að hún laug um tilfinningar sínar og vitneskju fram að því. Þessi efi um mömmuna í lokin skemmir 3. þátt í báðum sögum, meira þó 2) vegna þess að svarið er mikilvægara þar. Ef áherslan er á 1) vantar líka einhverskonar niðurstöðu um það hvort mamma hafi keypt sýninguna eða ekki og hvað henni hefði fundist um breytingarnar og hvað henni hefði fundist um verk Alex ef hún hefði áttað sig á þeim. Þriðji þráðurinn í myndinni er svo samjöfnuðinn milli sósjalismans og markaðshyggjunnar. Hann gerir því miður lítið fyrir sögu 1) vegna þess að svarið um gildi hvors um sig skiptir í raun engu máli í sögunni um góða soninn. Sú saga er þó nær því að fá lyktir en saga 2) um falsveruleikann sem endar í sínum 2. þætti og skilur áhorfandann eftir í vandræðum. Þarna hefði kannski þurft að vinna meira í endinum til þess að ljúka myndinni á meira fullnægjandi hátt. 

En takk fyrir þessa mynd. Hún er veisla. Mér finnst ofangreind atriði spennandi álitamál. Að líta á þau sem hreina galla er líklega óþörf fljótfærni og einföldun. Sama gildir um flest umtalsefni á þessum síðum.


ÞJ 8 mars 2014

Til bakaBlessuð vertu sumarsól


2014 - Lars Emil Árnason

Þessi tveggja þátta sjónvarpsmynd byggir á einum litlum brandara. Pabbinn hefur fengið sér Tæju á gamalsaldri og það kemur barn og börn hans af fyrra hjónabandi hyggjast losa sig við þessa mellu með því að sanna að hann eigi ekki barnið. Áfall pabba eftir lífsýnaprófið er ekki vegna þess að hann eigi ekki barnið heldur kemur í ljós að hann er ekki faðir hinna barnanna.

Sagan er sögð með heljarinnar gribbu (Ólafíu Hrönn) sem geranda og aðalpersónu og hún stýrir systur sinni Sigrúnu sem vinnur á spítalanum og Áka sem er á bótum og drekkur út á væntanlegan arf. Gribban er gift prestinum sem hefur ekki „náð honum upp" í tvö ár og þau fyrirlíta póstinn Reyni, sem er með þykk gleraugu og skrollar og safnar flöskum, greinilega mesti aulinn í þorpinu, og reynist einmitt faðirinn. „Pabbi” sleppir ekki hendinni af Tæjunni sinni. Hann er eins og í lélegu leikriti - tilgangurinn ljóslega að leiða áhorfandann í villu. En þetta verður kauðst vegna þess að íslenskir áhorfendur vita að Theodór getur betur.

Það skemmtilega við leikstjórnaraðferðina almennt er að sagan er sögð í litlum oft fyndnum senum, sem tengjast reyndar ekki vel saman, en gefa fyrirheit um skemmtun fyrir áhorfandann við að pæla í því hvað sé í vændum. Persónulýsingarnar eru ekki jafnheppnaðar allar, t.d. er Reynir og Tæjan (ég náði ekki nafninu) og pabbinn í fyrri hlutanum alls ekki sannfærandi, en aðrir sleppa og Áki er eiginlega mjög fínn karakter. Fyrri þátturinn endar án þess að það komi fram, hver sagan sé eða hvað sé viðfangsefni myndarinnar. En áhorfandinn hefur bara gott af því að leita svolítið og hugsa um þetta allt saman eins og í góðu pússli. Það er að segja ef hann fær laun erfiðisins í seinni hlutanum.

Í seinni hlutanum kemur sagan um barnið og smám saman skýrist málið, að þetta snýst um arfinn, þó það sé ekki nefnt. Áki er búinn að vera og sést í lokin hlaupa alsber í burt frá bænum. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki ástæðunni, en allavega var hann á flótta undan sjálfum sér allan tímann og þetta hlaup gat alveg verið birtingarmynd á því. Gribban búin að drepa hundinn sinn óvart með steininum sem hún ætlaði að brjóta bílrúðu meints pabba síns með og ekki man ég hvað varð um Sigrúnu. Pabbinn sigldur út á sjó og „vondu Tæjuna" sjáum við ekki í uppgjöri fremur en fyrr í myndinni nema í þessum heimskulegu faðmlögum. Uppgjörið semsagt í skötulíki. Systkinin sitja á stéttinni og drekka og Gribban fer að sofa og presturinn segir henni skilaboðin frá mömmu hennar, að hún sé ekki dóttir pabba síns. Semsagt hreinn ósigur okkar konu í þessu máli, og áhorfandinn með þessa frægu hvað-með-það spurningu. Hvað finnst henni? Hvað á manni að finnast? Hver er niðurstaðan? Þetta eru út af fyrir sig punkturinn í brandarnaum. En tilfinningin er leiði eftir að hafa verið plataður - lofað kvöldverði en fengið kleinu. Þetta hefði getað verið skemmtileg mynd, ef höfundur hefði ákveðið að koma með eitthvað sem honum lá á hjarta um eitthvert mál. Hvað var hann að tala um? Innflytjendur? Giftingar Íslendinga og útlendinga? Innihaldsleysi lífsins í íslensku þorpi? Græðgi fátæklinga? Íslensku fjölskylduna? Íslenska föðurinn? Íslensku móðurina? Ekki veit ég það. En eins og studum áður er ekki hægt að kvarta yfir frammistöðu leikaranna, hvað þeim tekst að gera úr litlu hráefni, Áki (Vignir Rafn Valþórsson) býr til sannfærandi flóttamann frá sjálfum sér, og Gribban hefur sjarma í túlkun Ólafíu Hrannar, þó persónan sé einkar fráhrindandi. Ekkert að presti Þorsteins Backmans nema hann hefði mátt eiga stærr hlut í sögunni. Það eru líka ljósgeislar á ferðinni í litlum senum, þar sem svipbrigði og viðbrögð og einfaldar setningar bera með sér tilfinningu eða athugun. Leikstjórinn getur því fengið plús fyrir það, þó heildarhugsunina vanti.

ÞJ 140504


Bonnie and Clyde


1967 - Arthur Penn

Hver er sársaukafyllsta ákvörðun Clyde? Hann tekur enga erfiða ákvörðun. Hann sleppur úr fangelsi og heldur áfram fyrri iðju, að ræna verslanir og banka. Hann heldur því áfram þangað til hann er aflífaður. Bonní aftur á móti stendur í baráttu - fyrst hvort hún á að leggja lag sitt við mann sem girnist hana ekki kynferðislega til þess að komast burt, síðan hvort hún á að standa með sínum manni og fórna fjölskyldunni (aldraðri móður) og venjulegu lífi sem almennur borgari. Barátta hennar, þó hún fái lítið pláss, er eina dramað í sögunni. Þessi harkalega skotbardagamynd er því saga einfaldrar stúlku, sem lætur heillast af huggulegum bankaræningja og á ekki afturkvæmt til venjulegs lífs.

Þessi mynd sló algerlega í gegn um allan heim og varð umsvifalaust að költi. Meðal þess sem heillaði voru sterkar myndrænar skírskotanir. Skambyssan er látin fá kynferðislega merkingu í ástleysinu. Beatty og Dunaway verða fyrirmyndir í klæðnaði og fasi og jafnvel afstöðu til ýnissa hluta eins og til dæmis lögreglunnar, fjármálastofnana, atvinnuleysingja, kreppunnar. Myndn er tjáning á andstöðu við kerfið og hatur á peningavaldinu.
Niðurstaðan er óumflýjanleg og kemur ekki á óvart.

Lokasenan er athygli verð. Þar slær fyrir undarlegri dýrkun á mætti byssunnar. Skothríðin rís í innantómar hæðir - tilgangurinn kannski að bæta einhverju við verðleika þessa baráttufólks gegn bankakerfinu. Allar byssukúlurnar, sem þurfti til að sálga þeim, eru nú löngu síðar aðeins hlægilegar. 

ÞJ 24 júlí 2011

Til baka


Brim2010 - Árni Ásgeirsson

Að þrjátíu mínútum liðnum veit maður ekki hver aðalpersónan er, sagan né efnið. Myndinni lýkur í sömu þoku. Hver var tilgangurinn með þessari mynd?

Við kynnumst nokkrum karakterum sem koma óvænt heim úr túr eftir að einhver hefur látist úti á sjó. Þeir eru allir mjög hugsi yfir þessu og síðan er nokkur tími tekinn í að lýsa hátterni þeirra. Einn sér um að útvega klámspólur, einn sér um söfnunina fyrir Úganda, einn smíðar tréskip í frístundum, einn er afbrýðisamur eiginmaður osfrv. Kallinn er þungur og traustur eins og fjall og dallurinn ryðgaður. Talað er um að útgerðarmaðurinn sé nýskur. Áhöfnin lætur fara illa með sig og sættir sig við strípaða trygginguna. Þetta er skítatilvera semsagt fyrir þessa sjómenn. Ekkert óvenjulegt gerist nema ókunn stúlka ræður sig um borð gegnum kunningskap við kallinn. Hún verður sjóveik og horfir með þeim á klámmynd og þegar vélin bilar í vondu veðri spyr hún, hvort þau verði sótt. Afbrýðisami eiginmaðurinn ræðst á þrjá saklausa menn að tilefnislausu. Vélstjórinn er ómögulegur í að halda vélinni gangandi. Menn virðast nokkuð sáttir við hlutskipti sitt. Að minnsta kosti gerir enginn neitt skiljanlegt í málunum. Tveir menn taka hins vegar óskiljanlegar ákvarðanir. Sá dauði hefur kastað sér í sjóinn vegna þess að hann fékk ekki að tala við dóttur sína í síma nákvæmlega á því augnabliki sem honum hentaði, en hann hafði ekki hringt í hana á afmælisdaginn. Og Úgandamaðurinn fer upp úr þurru í sundskýlu og kastar sér fyrir borð af ókunnum ástæðum. Myndinni lýkur án þess að reyni á nokkra persónu eða samúð myndist. Reyndar er ein persóna óaðfinnanleg, skipstjórinn (Ingvar Sigurðsson). Hann er þarna traustur eins og klettur á sínum stað í sínu hlutverki og aðeins meistari gæti gert þessa persónu úr því litla sem hann hefur að moða úr handritinu.

Myndin í heild er 1. þáttur sögu sem ekki er sögð. Búast hefði mátt við því að einhver saga kæmi með konunni. Hvers vegna má áhorfandinn ekki vita hver hún er eða hvað hún er að gera á skipinu? Hvað vill hún? Fyrir hvað stendur hún? Sömu spurninga má spyrja um hina karakterana. Í myndinni er að finna góðar einstakar senur með góðum leik og stjórn sem njóta sín ekki vegna þess að framhaldið vantar. Ástæðan er semsagt ekki sú, að leikarararnir bregðist. Það er 
sársaukafullt að sjá og það er mótsagnakennt að aftur og aftur séu verkefnin kvikmyndamegin lakar af hendi leyst í íslenskum kvikmyndum en leiklistin.

ÞJ 10 sep 2011

Til bakaBrottfarir (Okuribito)


2008 - Yojiro Takita

Eftir að Daigo missir starfið í symfóníuhljómsveitinni sem sellóisti er hann stefnulaus. Pabbi hans hvarf, þegar hann var 6 ára og mamma hans er dáin. Hann vill fara heim í þorpið og þau Mika setjast að í húsi foreldranna. Hann fer í viðtal hjá fyrirtæki sem hann heldur að starfi í ferðaþjónustu. Eigandinn treystir á innsæið og ræður Daigo um leið og hann sér hann. Starfið felst í því að snyrta lík og búa þau undir útför. Eftir fyrsta hrollinn tekst Daigo af kappi á við verkefnið og áður en yfir líkur hefur honum tekist að gera starfið að hreinni listgrein, sem hreyfir við aðstandendunum og ljáir húskveðjunum virðulegt og fagurt yfirbragð.

Aðalsagan er saga Daigo sem dettur niður á starf, sem hann finnur tilgang í að vinna af vandvirkni en er fyrirlitið af samfélaginu. Að snerta lík er í Japan talið óhreint og Daigo leynir starfinu fyrir Mika, konunni sinni. 2. þáttur hefst þegar gamli vinur hans sonur baðkonunnar snýr sér undan og Miko skoðar myndbandið og uppgötvar hvað Daigo fæst við og fer frá honum. Í hennar augum er hann óhreinn og verður að segja upp starfi sínu. Svo þegar hryllingurinn mætir Daigo er hann að því kominn að gefast upp. En eigandinn er viss um að hann eigi að takast á við verkefnið. Daigo sigrast á erfiðleikunum í starfinu en stendur andspænis skilningsleysi samfélagsins.

Daigo fer að taka eftir lífinu í kringum sig. Hann staðnæmist á brúnni og fylgist með löxunum synda upp strauminn og svo koma þeir dauðir til baka niður strauminn. Þeir eru að leita uppruna síns til að deyja, segir gamli maðurinn úr baðinu. Dauðinn er ferð yfir á annað tilverustig. Gamli maðurinn birtist á brúnni og í lokin í líkbrennslunni, þar sem starfs hans er að senda hina dauðu í ferðina í brennsluofninum. Eigandinn og lærifaðir hans útskýrir gang lífsins yfir kræsingum sem hann hefur eldað. Hann er ekkill og heimili hans líkist meira gróðurhúsi en bústað. -Þeir sem lifa borða líkin af þeim dauðu nema þeir séu plöntur. -Ég borða kræsingar, sem eru lík, og hata sjálfan mig fyrir það.

Barátta Daigo er líka barátta við eitthvað í honum sjálfum. Hann þarf að finna hvað skiptir máli í lífinu. Að geta helgað sig einhverju. Með því sýnir hann virðingu sína fyrir lífinu. Í hans tilfelli eru viðfangsefnið hinir dauðu. Með því að búa hina dauðu undir förina burt og sætta eftirlifendur við brottför þeirra, hvernig sem hún hefur borið að, er hann að votta lífinu virðingu. Hann fullkomnar starfið og líf hans fær meiningu sem hluti lífkerfisins.

Þarna er hugmyndafræði Búddismans í hnotskurn. Að þessu leyti minnir þessi saga á tvær myndir Ozu, Banshun (Seint um vor) og Ukigusha (Fljótandi þang). Þú ert gestur í heiminum, hvorki þræll eða húsbóndi, og umgengst hann af virðingu, bæði lífið (náttúruna) og mennina (samfélagið). Verkefni Daigo er að helga sig því starfi sem hann valdi og ekki bara það. Til þess að ná þessu jafnvægi og finna þennan stað í veröldnni þarf hann að sigrast á öðrum vanda sem er inni í honum sjálfum, rótleysinu og hatrinu á föður sínum.

Mika, konan hans, er í byrjun á skemmtilegan hátt fulltrúi hins óvinveitta samfélags. Þegar hún kemur aftur til Daigo gengur hún með barni hans. Hún vill vita hvort hann verði stoltur faðir í virtu starfi, en Daigo er ekki tilbúinn að kveðja starf sitt. Uppgjörið í 3 þætti er sigur hans í atriði, þegar konan á baðhúsinu, sem einnig sinnti sínu starfi af vandvirkni og tilfinningu, deyr. Þá uppgötvar gamli vinur hans, sem hafði snúið við honum baki, fegurðina í starfi Daigo. Mika verður einnig vitni að þeirri alúð sem Daigo gæðir verkefni sitt. Hún hrífst af því og tekur hann í sátt.

Hliðarsaga Daigo fyllir og magnar upp aðalsöguna. Það er barátta hans við hatrið á föður sínum, sem yfirgaf hann. Daigo finnur stein vafinn í klút, þegar hann tekur upp gamla barnasellóið sitt. Hann segir Mika söguna um steinana, en áður en menn fóru að skrifa notuðu þeir steina til að senda skilaboð sín á milli, hvernig þeim liði. Lítill mjúkur steinn táknaði ást en sá sem sendi stóran grófan stein, honum leið illa.

Daigo berst bréf, faðir hans er látinn. Fyrst vill hann ekkert af honum vita. Stúlkan á skrifstofunn, Yuriko, biðu hann að fara. Hún hafði nefnilega farið frá barninu sínu og gat ekki fundið aðferðina til að taka upp þráðinn að nýju. Fúskarar eru að byrja að husla líkinu í kistuna, þegar Daigo grípur inn í og gerir útför föður síns að fallegri stund. Í höndum pabba síns finnur hann lítinn mjúkan stein. Þegar Daigo ákveður að kveðja föður sinn tekst honum að sigrast á hatrinu . Að launum fær hann skilaboðin, að föður hans hafi þótt vænt um hann. Hann hafði farið burt með nýrri konu og eftir að það var búið hafði hann ekki fundið leiðina til baka. Ekki frekar en Yuriko.

Efnið í aðalsögunni er um mikilvægi þessa að finna starfið sem maður getur sinnt af alúð og í hliðarsögunni er fjallað um sambad föður og sonar. Til viðbótar eru tvær sögur eða mótíf. Þær eru almennar, sú fyrri um það hvernig maður sættir sig við náttúruna, að hinir lifandi éti hina dauðu og hin síðari um örlögin.

Efsta lagið er 1) sagan um starfið sem Daigo helgar sér en er fyrirlitinn fyrir, næst er hliðarsagan 2) um hatur Daigo á föður sínum sem hann sigrast á. Þriðja er almenna sagan er 3) hvernig maður verður að sætta sig við lög náttúrunnar, að hinir lifandi éti hina dauðu og að lokum er 4) almenna sagan um örlögin - er það Daigo sem velur starfið eða velur starfið Daigo? Mynin er þannig á fjórum plönum og sögurnar fjalla um fjögur efni sem tengjast innbirðis á skemmtilegan hátt. Í fyrstu sögunni er efnið 1) að finna starf og helga sig starfinu, í annarri sögunni 2) böndin milli föður og sonar, í þriðju sögunni 3) lífið andspænis dauðanum og í fjórðu sögunni 4) að taka örlögunum sínum.

Daigo finnur starf sem hann er góður í og finnir sig í - eiginlega köllun. Hann vinnur það af alúð og dugnaði viðskiptavinum til hags og gleði. Gamla baðkonan gat ekki hugsað sér að hætta vegna kúnnanna. Hvert ættu þeir að fara, sem höfðu vanist baðhúsinu hennar? Böndin milli föður og sonar standa fyrir fjölskylduböndin, það er að segja nauðsyn fyrir börnin að hafa foreldrana til að treysta á og læra af og þykja vænt um. Faðirinn var kannski ekki fullkominn, en hann gaf syni sínum fyrsta steininn og lofaði að það myndu verða fleiri. Loforðið efndi hann eftir að hann var dáinn. Dauðinn er hluti af lífinu. Hinir lifandi borða hina dauðu. Fiskarnir leita upprunans til að deyja. Örlögin er það þema sem margir mundu kalla trúarlegt af þessum fjórum. Það sem gerist án þess að náttúran eða mennirnir virðist stjórna því. Orsakakeðjan er svo flókin að enginn sér hana fyrir. Næstum eins og annað vald utan þessa heims sé þar að verki. Daigo endar í þorpinu sínu í líksnyrtingum af orsökum sem hann virðist ekki stjórna sjálfur. Hljómsveitin fer á hausinn og auglýsingin er fyrir tilviljun með misritun. Vangavelturnar eru skemmtilegar á hvor veginn sem það er. Selló var uppáhaldshljóðfæri pabba Daigo. Daigo vildi fullkomna draum föður síns með sellóleik. Annað starf lauk sögu þeirra með fallegum endi.


ÞJ 17 nóv 2013
Desember


2009 - Hilmar Oddsson

Myndin byrjar á stússi alþýðufjölskyldu vegna heimkomu Jonna (Tómas Lemarquis), sem hefur verið í Suður Ameríku í þrjú ár að vinna við tónlist. Hann heldur stílnum úr hitanum og sker sig nokkuð úr fjöldanum þess vegna, en hann er líka einlægari og saklausari en hinir. 20 mínútur líða án vísbendinga um stefnu myndarinnar, en svo byrjar 2 þáttur á því að Jonni uppgötvar, þegar mamma hans deyr, að fjölskyldan hefur lifað í sárustu fátækt meðan hann hefur verið að frílista sig í útlöndum áhyggjulaus. Ástæða fátæktarinnar reynist vera falið vandamál í fjölskyldunni - áfengisfíkn dótturinnar, sem hefur fyrir tveimur börnum að sjá. Og áður en yfir líkur þarf Jonni að sýna að í honum býr manneskja, sem er fær um að taka ábyrgð. Hann þarf að senda lögregluna á systur sína til þess að stöðva hana á brennivínsbrautinni í þeirri von að hún fari að sinna börnuunm sínum. Vandamál systurinnar er falið fyir börnunum sem eiga að trúa því að mamma sé lasin og þreytt. Þessi ákvörðun er stór í hinum þrönga heimi Jonna. Nú er hann höfuð fjölskyldu, sem hann hefur tekið að sér. Þangað til hann tekur stóru ákvörðunina, er sannfærandi 2. þáttur, þar sem hann tekur á sig skyldurnar, sem mamma hafði á sínum herðum - að sjá um að fjölskyldan hafi í sig og á af engum efnum. Á meðan reynir hann að rækta tónlist sína, en þar kemur ástin hans - sem hann hefur reyndar gleymt í 3 ár - við sögu. En hún hefur fundið sér þægilegan stað í tilverunni sem væntanleg eiginkona útfararstjóra sem kann að græða á þörf og neyð meðborgaranna.

Hvernig leysist úr málinu er kannski ekki alveg hnökralaust, en skilið er við persónur á góðri leið við jólaborðið. Uppgjörið er eiginlega fólgið í því að ástin hans, sem er lykilmannesja í tónlistinni, er á leið til hans aftur. Hún verður eins konar siðgæðismælikvarði sem jafngildir fullkomnu uppgjöri.

Þarna er á sannfærandi hátt sagt frá neðri lögum þjóðfélagsins, þar sem persónur takast á við sjúkdóma, alkohólisma, fátækt og niðurlægingu. Sagan fjallar um mikilvægi þess að viðurkenna raunveruleikann. Í þessari fjölskyldu hefur grafið um sig sú lygi að allt sé í besta lagi. Gerandinn í þeirri sögu er mamman, sem af hreinni elskusemi stingur sannleikanum undir stól og vonar að allt fari vel að lokum. Pabbinn er sjúklingur og kemur eiginlega lítið við sögu nema hann heldur þessari glansmynd mömmu sálugu við með því að gera Jonna erfiðara að stöðva dauðagöngu dótturinnar. Þarna er ekki illur vilji á bakvið heldur góðvild. Sagan kemur þarna með sannfærandi sýn á fyrirbærið meðvirkni. Afinn á elliheimilinu tekur líka þátt í afneituninni á sinn skemmtilega hátt.

Að láta áhorfandann kynnast þessum veruleika gegnum bróðurinn, sem hefur verið stikkfrí í annarri heimsálfu í 3 ár er góð lausn. Það má finna að samtölum og einu og öðru smálegu en aðalatriðin eru í góðu lagi. Sagan er heil og trúverðug og felur í sér mikilsvert efni, sem fær sannfærandi umfjöllun. Þessa lýsingu er aðeins hægt að nota um örfáar íslenskar leiknar kvikmyndir síðustu áratuga. Að Desember uppfylli þessar sjálfsögðu kröfur gerir hana að einni af bestu myndunum. Hér á þessum síðum eru ekki stundaðar einkunnagjafir, en vegna þess fálætis sem myndin hefur mætt er við hæfi að tala um gæði. Hvers vegna sambandið milli gæða og vinsælda er svona skakkt, er svo sérstök umræða, sem verður ekki farið út í hér.

ÞJ 21 Jan 2012


Easy Rider


1969 - Dennis Hooper 
Þessi mynd er varða í kvikmyndasögunni og minnismerki um ákveðna þætti hippatímabilsins. Þetta er vegamynd, en vegasagan er gömul, nægir að nefna t.d. Ódyseifskviðu. 

Það athyglisverða við Easy Rider er að hún er í sínum einfaldleika 1) atlaga að þjóðernisstefnu og 2) litskrúðug og samsett bæn um frelsi líkt og hippahugsjónin var. Tveir náúngar, (Peter Fonda og Dennis Hopper) sem við fáum ekkert að vita um annað en fötin sem þeir bera, kaupa „varnig” og selja með miklum hagnaði. Þeir hyggjast nota peningana til að komast burt, verða frjálsir. Þeir eru í raun og veru ekki að gera neitt rangt, nema svo vill til að varningurinn er ólöglegt dóp. Ef þeir hefðu til dæmis keypt fyrirtæki, blásið það út með lofti og selt það með miljarðahagnaði, hefði það verið samkvæmt reglunum. 

Þeir hafa einhverstaðar kynnst „frelsinu” og sem slíkir nota þeir ólögleg vímuefni. Hvar þeir lærðu að nota þau vitum við ekkert um. Þeir telja það greinilega í lagi og hluta af frelsinu. 
Þeir ferðast á mótorhjólum og hitta skemmtilegan brennivínsbelg (Jack Nicholson) sem fær að sitja aftan á, og leið þeirra liggur um suðurríki Bandaríkjanna. 

Heimamönnum líkar ekki útlit þeirra og í ónefndum bæ er þeim stungið í steininn. Í þeim næsta eru móttökurnar ennþá kuldalegri. Þeir yfirgefa krána án þess að ljúka af diskunum og leggja á flótta út í skóg. Heimamenn gera fólskulega árás á þá í svefni með barefnlum, sem lýkur þannig að Wyatt (Fonda) og Billy (Hooper) halda lífi, en Nicholson ekki. 

Wyatt og Billy ferðast áfram og í afskekktri sveit verða þeir á vegi bænda, sem skjóta þá hjólandi á þjóðveginum eins og hver önnur meindýr. 

Efni myndarinnar er umburðarlyndi. Hafa menn leyfi til að haga lífi sínu öðruvísi en hinir? Áherslan á eitrið er tískan þá. Fjöldi ungmenna trúði því af ýmsum ástæðum að hass og maríúana væru skaðlaus og víman var notuð til að gera þessar tilraunir með óhefðbundið ástalíf, sem þessi kynslóð hafði af einhverjum ástæðum tekið að sér. Eldri kynslóðin notaði sitt löglega vímuefni, brennivín, líka með dapurlegum afleiðingum. Hvers vegna átti unga kynslóðin að samþykkja og taka upp alla delluna hjá eldri kynslóðinni? Þetta voru löglegar spurningar. Þarna voru átök um einhvers konar frelsi og á sínum tíma hafði Easy Rider slagkraft og fór í fínu taugarnar á varðhundum kerfisins en einnig góðu fólki, sem vildi halda í fagra siði og mannlíf. 

Í dag eru tilfinningarnar blendnar. Uppreisnarandinn er fölnaður og sá hluti hippamenningarinnar, sem mest er haldið á lofti í myndinni er barnalegur í ljósi sögunnar. 

Hver er Wyatt og hvað vill hann? Um það veit maður lítið eða ekkert. Hann er óskrifað blað. Hann gæti orðið eitthvað. En hann virðist aðallega vera að skemmta sér, kannski svolítið að kynnast lífinu eftir að hafa verið alinn upp á „góðu” íhaldsömu heimili. Hann langaði kannski til að kynnast öðru fólki og þetta var tíðarandinn þá. Þetta voru nýjar svalar hugmyndir. Það er hægt að lifa öðruvísi lífi. Fyrirmyndir hippanna voru frá fátæku fólki í Asíu, leður af kindunum, bústaðir eins og hjá hirðingjum, hass þegar mat og drykk skorti, frjálslegt kynlíf, sem reyndar átti sér ekki uppruna hjá fátækum hirðingjum líkt og hitt. 
Þetta var of mikið fyrir sveitalúðana í Suðurríkjum Bandaríkjanna, sem voru alls ekki með á nótunum. Kannski hefur þeim fundist sér ógnað og tóku upp byssuna þess vegna. 

Myndin hefur ekki mikla efnislega umfjöllun. Hún stefnir þessum gildum saman í brennipunkt á þjóðveginum, þar sem byssurnar tala. Um hvað stóð deilan? Leður eða hvíta skirtu, makka eða rakaðan háls, hass eða brennivín. Ekkert kemur fram um þessa morðingja. Af bílnum að dæma eru þetta menn úr landbúnaði. 
Myndin dvelur í yfirborðinu og táknmyndunum. Þessi hópur mætir þessum hóp og það verður hvellur. Hvað gerði hana að vörðu í kvikmyndasögunni? Því er erfitt að svara. Kannski einfaldleikinn. Kannski týpurnar, Wyatt og Billi, Fonda og Hooper. Þeir voru svalir. 

ÞJ 23. sept 2010 


Eldfjall


2011 - Rúnar Rúnarsson

Fullorðnum karli er sagt upp sem húsverði í unglingaskóla, þar sem hann hefur starfað öllum til leiðinda. Hann reynir að kála sér á leiðinni heim, en hættir við. Hann er kuldalegur við eiginkonu sína og börn. Eiginkonan er hlý persóna og leikur við barnabörnin ólíkt okkar manni. Höfundinum hefur þarna tekist að gera einkar fráhrindandi persónu, sem áhorfendum gest ekki að. Sennilega er hugmyndin, að persónan sé góð innst inni, en hafi ekki komist upp á lag með að umgangast aðra menn. Ekki einu sinni börnin sín. Ástæðuna vantar -  nema að hann sé fyrrverandi sjómaður, sem er klisja.

Áhugamál hans nú er að róa til fiskjar á gamalli trillu. Við þá iðju ber það til að trillan fyllist af sjó og honum er naumlega bjargað í land. Eftir það breytir hann um hegðun við konuna og sýnir henni blíðuhót. Auk þess reynir hann að eiga samskipti við sonarson sinn og kenna honum að vinna „eins og karlmaður". Hann gefur eiginkonunni lúðu til að laga lúðusúpu, sem er hennar uppáhald. Yfir lúðuborðinu fær eiginkonan heilablóðfall. Hún verður ósjálfbjarga og getur hvorki tjáð sig eða hreyft. Okkar maður tekur að sér að hjúkra henni heima, öllum til undrunar. Hann legggur allt kapp á að standa sig sem best með hag eiginkonunnar fyrir brjósti - ekki annað að sjá en þarna sé ástin að verki. Þá tekur hann allt í einu upp á því að kæfa hana til ólífis. Það er ekki hægt að segja að maður fylgi honum þennan rúma klukkutíma fram að morðinu, en það undarlega er samt, að það kemur ekki að sök. Persónan er á einhvern skemmtilegan hátt sannfærandi þó ekki sé það samúð sem lýsir sambandi áhorfandans við persónuna. Stóran hlut í því á einstaklega vel útfærður leikur Teódórs Júlíussonar og skemmtileg naumhyggja í leikstjórninni. En þegar þarna er komið, samkvæmt klukkunni ætti að vera komið að kjarna myndarinnar. Maður mundi búast við einhverri spurningu eða vanda og í framhaldi af því einhverri niðurstöðu. En í staðinn skellir höfundur undirbúningslaust framan í áhorfandann spurningunni, er líknarmorð réttlætanlegt? Athyglisvert er að áhorfandinn situr uppi með spurninguna, ekki aðalpersónan. Aðalpersónan svarar spurningunni án þess að deila mótífi sínu með áhorfandanum. Þess vegna slitnar sambandið við þessa að mörgu leyti skemmtilegu persónu þarna á þessum punkti. Áhorfandinn veit ekkert um það, hvað persónunni finnst um líknarmorð. Áhorfandinn hefur engar forsendur til að meta þessa ákvörðun persónunnar. Þess vegna er áhorfandinn í sjokki. Hvers vegna gerir blessaður maðurinn þetta? Þetta á sér ekkert mótíf eða aðdraganda. Úr erfidrykkjunni hverfur hann niður í fjöru og horfir út á sjóinn. Fyrst heldur maður að hann ætli að gera alvöru úr því sem hann reyndi í byrjun myndarinnar. Þá væri komið visst samræmi hvort sem maður væri sáttur við það eða ekki. Og tilgangurinn þá að hittast hinum megin eða álíka della. En nei, hann stendur þarna bara og tekur svo ferjuna heim. Þetta er enginn endir á dramatískri sögu.


1. þáttur er fram að heilablóðfalli eiginkonunnar. Hjúkrun hans á eiginkonunni í dái er einhvers konar innskotskafli. Að minnsta kosti verður ekki annað ráðið af framhaldinu. Svo kemur morðið sem ætti að vera lok 2. þáttar. en 2. þátt vantar. Það er engin umfjöllun eða barátta um þetta mál. Á hann að drepa eiginkonu sína eða ekki? Hann bara gerir það og svo er sagan búin.


Sagan er ekki um ástina. Ekki heldur um kuldann. Hún er ekki sálfræðileg útekt á brotinni manneskju. Ekkert sérstakt efni er til umfjöllunar. Við sögu kemur líknarmorð, tilfinningakuldi, misheppnaður pabbi, einmana sál lokuð í eigin fangelsi. Aðferðin er aðferð listamannsins án sönnunar eða óvefengjanlegra röksemda. Persónan elskar konuna sína en er vondur við hana. (1. þáttur). Svar persónunnar við stóra vandanum í myndinni er líknarmorð. Ef sagan á að vera um sál sem hefur lokast inni í sjálfri sér, á persónan þá að drepa næstu manneskju? 
Hann er óhæfur til að umgangast lifandi fólk. Kannski heldur hann að hann sé betri í að umgangast lík? Það er auðvitað ekki réttlátt að setja þetta svona fram. En ef hugsunin er sú að áhorfandinn eigi að bera saman einsemd gamla mannsins og einsemd konunnar í dái, þá hjálpar byggingin ekki til þess. Það er auðvelt að sjá slík hugmyndatengsl fyrir sér í ljóði eða skáldsögu. Kvikmyndin er nær raunveruleikanum. Í þessari mynd gengur þetta ekki upp. Þetta er ekki heil dramatísk saga og meiningin þess vegna hulin. Hvað er höfundurinn að segja? Það er merki um fúsk, ef meiningin er augljós og ómerkileg. En ef maður brýtur heilann og greinir myndina og kemst aldrei að neinni niðurstöu, þá er líka eitthvað að.


ÞJ 12. nóv 2011

Til baka


Enn eitt ár

Another Year
2010 - Mike Leigh

Læknaritarinn Mary tapar í baráttunni fyrir hamingu í lífi sínu. Hún deyfir sársaukan með víni í stað þess að gera eitthvað í málinu. Mary sekkur djúpt og horfir í hyldýpi óhamingjunnar. Hvort Bakkus er orsökin eða afleiðingin er ekki á dagskrá. Myndin er rannsókn á ástandi hjá alþýðufólki í úthverfi Lundúna. Og niðurstaðan er - svona er þetta. Það er áhorfandans að draga út niðurstöðuna. Í sögu Mary vantar 1. þátt og 3. þátt. Við sjáum í rauninni aðeins seinni hluta 2. þáttar. Þetta hljómar ekki sem afburðaverk, en gætum að, þessi mynd leynir á sér. 

Eitt vantar sárlega í líf Mary - karlmann. Hún hefur notið samskipta við giftan mann, sem hefur látið hana sigla, og nú hefur hún misst aðdráttaraflið á markaðnum. Hún hefur notið vináttu hjónanna Tom og Gerri, en hún er að detta út úr hringnum hjá þessum elskulegu hjónum. Síðasti prófsteinninn þar er langþráð tengdadóttir, Kathy, sem Mary getur ekki stillt sig um að segja skoðun sína á. Í einu af fjölmörgum átakanlegum samtölum virðist hún vera að daðra við þá hugmynd að hún og Joe, sonurinn, gætu átt eitthvað saman þrátt fyrir aldrusmuninn. Við sjáum það sem líf hennar gæti haft upp á að bjóða, m.a. draum hennar um eigin bíl hverfa milli fingra henni þangað til ekkert er eftir og hún situr uppi með nagandi þrá eftir betra lífi og sambandi við aðra manneskju. Hún grípur síðasta hálmstráið, bróður Tom, Ronnie. sem einnig er kominn á endastöð. En það er ekki aldurinn, sem er óvinurinn. Það er eitthvað annað.

Saga Mary er á sérkennilegan hátt fyllt með sögum hinna persónanna. Þess vegna þurfum við ekki að fá alla sögu hennar. Forsendurnar (1. þátturinn) koma með hjálp Joe og Kathy og uppgjörið (3. þáttur) með Ronnie og fjölskyldu hans. 

Jarðfræðingurinn Tom og eiginkona hans, sálfræðingurinn Gerri, eru í góðum málum og einhverskonar fyrirmyndir í þessari athugun. Þau hafa það sem þau þurfa og hafa fundið jafnvægi, ánægð hvort með annað og líf sitt. Þau eru ánægð í vinnunni, njóta samvista við vini sína, borða og drekka og rækta lífræna ávaxtagarðinn sinn. Þau hafa ekki stórar ófullnægðar langanir. Stóra áhugamálið (hjá Gerri) er að sonurinn Joe nái sér í kvenmann, sem hann gerir. Eina málefnið, sem kemur til umræðu, fyrir utan hversdagslega hluti, er kolefnisfótsporið. Pólitík eða önnur brennandi mál eru víðs fjarri. 

Vinirnir eru ekki eins lánsamir og Tom og Gerri. Mary er eins og hún er og Ken, gamall félagi Tom, hefur sinn sérstaka neysluvanda. Hann getur hvorki hætt að drekka né borða fyrr en honum er bumbult og er bókstaflega sagt að springa. Ronnie kynnumst við eftir að hann hefur grafið eiginkonuna, sem honum virðist hafa verið sama um. Of seinn í athöfnina er sonur þeirra, sem hefur ekki haft samskipti við foreldra sína árum saman og hatar föður sinn af ókunnum ástæðum. Það kviknar örlítið líf í augu Ronnie, þegar minnst er á Stones. Annars virðist hann á leið á eftir eiginkonunni. 

Þessar mannlýsingar koma í framhaldi af myndkafla með nafnlausri konu, í viðtali hjá Gerri, þar sem Geri reynir að fá hana til að hugsa um líf sitt, en hún hefur aðeins áhuga á resepti á svefnlyf. Hámark þessa skemmtilega viðtals, sem leggur línurnar í byrjun myndarinnar, er spurning, sem konan getur ekki svarað, hvenær var hún hamingjusöm? Hún getur ekki munað eftir því. Var hún einhverntíma hamingjusöm án þess að taka eftir því, eða hefur hún aldrei verið hamingjusöm? Aðferð myndarinnar er vinna leikarans við að rannsaka manneskjuna undir stjórn leikstjóra, sem veit hvað hann er að gera. Leiklist eins og hún gerist best. Frásögnin birtist eins og miskunnarlaus rannsókn fremur en greining á ástandinu eða kenningar um eitt eða annað. Þessi aðferð virkjar áhorfandann. Hann þarf að leggja til svolitla andlega vinnu til þess að njóta myndarinnar til fulls. 

Þessi mynd matreiðir ekki skemmtilegan draum, til dæmis um að verða vinur kóngs eða finna ástina eða trúa á lýðræðið. Áhorfandinn er látinn horfa í opna kviku án huggunar. Hann þarf að horfast í augu við tómleika, tilgangsleysi og hamingjuleysi þessa fólks sem er í seinni hluta 2. þáttar í lífi sínu. Það er að koma í ljós að lífið hefur ekki gengið út á neitt. Í samfélagi þar sem allt gengur út á yfirborðsþokka og neyslu er ekkert eftir, þegar einsaklingurinn er búinn að stinga út úr glasinu og hefur misst þokka æskunnar. Og þó myndin gerist á þessu aldursskeiði, þá er einföldun að segja að hún fjalli um það að eldast. En á þessum tímapunkti í lífi þessara einstaklinga kemur í ljós hvaða innstæðu, þeir hafa byggt upp. Þannig séð er myndin um það, hvað hægt er að gera við lífið. Meðgjöfin frá náttúrunni er æskan og kynþokkinn og löngunin til að borða og drekka og eiga samskipti við aðra og þegar æskuljóminn er horfinn og daglega lífið búið að missa spennuna, hvað er þá eftir? Hvað hefur tekist að búa til sem endist lengur en æskuljóminn? Til skoðunar er tímabilið milli tveggja atburða á mannsævinni, samdráttur Joe og Kathy markar upphafið og kveðjustund Ronnie og konu hans lokin - hún dauð, hann lifandi lík. Honum hefur ekki tekist að byggja neitt upp í sínu lífi. Samband hans við soninn er til marks um það. Mary ekki heldur, þó okkur þyki vænt um hana og vorkennum henni vegna þess að við höfum fengið að kynnast hluta af sögu hennar. 

Tom og Gerri hafa byggt upp líf, sem fullnægir þeim. Við getum haft okkar skoðanir á lífi þeirra. Ættu þau að eiga flottara hús, merkilegri garð, vinna skemmtilegri störf, vera yngri, hafa áhuga á pólitík? Þessar spurningar skipta engu máli. Þau eru ekki háð þessum hlutum. Ég ætla að leyfa mér að nefna ekki það, sem þau hafa eignast og verður ekki af þeim tekið.

Leigh hefur lýst því, hvernig hann smíðar myndir sínar. Hann byrjar á því að ákveða persónurnar. Svo kemur sagan í hugmyndavinnu eða spuna með leikurunum. Aðaláherslan er á að skapa sannferðugar persónur og það hefur honum tekist meistaralega. Myndir eins og Secrets and Lies og Happy-go-lucky eru gullmolar. Enn eitt ár er ekki síðri. Sumir gera eitthvað svipað og Leigh og árangurinn er æfing með leikurum. Leigh tekst að lyfta æfingunni, þannig að hún er þrungin meiningu. Hann spinnur laglínuna með þeim hætti að saga persónanna skín í gegn á dempuðum nótum. Spurningar án svara eru jafn mikilvægar og það sem sagt er. 

ÞJ 11/3 2011


Falskur fugl


2013 – Þór Ómar Jónsson

Við fylgjum Adda frá senu númer 2 og til loka myndarinnar. Eina senan sem hann er ekki í, er þegar rannsóknarlögreglan vill ræða við hann. Við sjáum hvað hann er að gera og segja í öllum senum myndarinnar. En fylgjum við honum? Já og nei. Er hann aðalpersónan?

Hvaða skilyrði þarf persóna að uppfylla til að geta talist aðalpersóna? Í sögu aðalpersónunnar þarf hún að axla vandann sem myndin fjallar um. Næsta spurning er þá hver er vandinn, sem myndin fjallar um? Er það að drengjum sé nauðgað? Að ungir menn missi bræður sína? Að ungir menn séu ekki hrifnir af foreldrum sínum og eldri kynslóðinni? Að ungir menn sjúgi kók í nösina? Að ungir menn skjóti þá sem níðast á bræðrum þeirra?

Myndinni lýkur þegar Addi er kominn í mikinn vanda eftir að hann hefur hefnt bróður síns og drepið kennarann, sem níddist á honum og vinkona hans hefur snúið baki við honum. Þarna er orðið áhugavert að fylgjast með því hvernig Addi klórar sér fram úr þessu. En þá er myndin bara búin.

Getur eitthvað annað verið aðalsagan? Tökum möguleikann, þetta er saga um ungan mann sem ánetjast eiturlyfjum. Þá vantar líka framhaldið. Þá er þetta 1. þáttur í þeirri sögu. Addi ánetjast kókinu meir og meir og verður manni að bana í vímunni. Hvað gerir hann svo? Þeirri spurningu er ekki svarað. Myndin búin.

Hvernig sem á þetta er litið, er hér aðeins um 1 þátt að ræða. Í myndina vantar bæði 2 og 3 þátt. En þessi 1 þáttur er alls ekki galinn. Persónan er spennandi og áhorfandinn vill vita hver verða örlög hans. Aukapersónurnar eru líka í góðu lagi og áhugavert að sjá fullorðna fólkið frá bæjardyrum unga fólksins.

Það sem sameinar Málmhaus og Falskan fugl, er að höfundarnir telja að þurfi drastíska atburði - kveikja í kirkju eða drepa mann til að fá hápúnkt í 2. þátt (eða öllu heldur þar sem hápúnktur 2 þáttar ætti að vera skv klukkunni). Báðir atburðirnir eru nær því að vera efni í lok 1 þáttar en hápúnkts 2. þáttar. Ástæðan er sú, að þetta eru atburðir sem koma aðalpersónunni í vandræði. Þeir hafa ekkert með lausn vandans að gera.

ÞJ 9. feb 2014 


Festen

1998 - Thomas Vinterberg

„Veislan” er afmælisveisla með öllum venjum sem tilheyra. Fjölskyldan sýnir veldi sitt og ágæti í faðmi ættingja, vina og starfsfélaga. Myndin á að vera fullkomin. Glæsileg hjón sem njóta virðingar og vinsælda. Hann veitingamaður á glæsilegum herragarði í Danmörku. Það eru einhver smávandræði meðal barnanna - önnur systirin hefur svipt sig lífi - en þessi 60 ára afmælisveisla hans á að sýna að allt er í fullkomnu lagi eins og endranær. 

Aðalpersónan er elsti sonurinn Christian sem hefur sett upp veitingastaði í París. Hann er dulur, og það er sorg og næstum dauði í svip hans. Annar bróðir er Mikael, ofbeldisfullur skapmaður og nasisti. Þegar systirin kemur til veislunnar, finnur hún vísbendingar eins og þau léku sér með sem krakkar í baðherberginu, sem systir hennar drekkti sér í. Vísbendingarnar leiða hana á bréf, sem systir hennar skrifaði sem kveðju.

Veislan hefst með ræðu Christians. Í stað venjulegu ræðunnar segir Christian frá því hvernig pabbi hans misnotaði börnin sín tvö, hann og systur hans. Fjölskyldan tekur þessu eins og hverju öðru uppátæki og pabbinn lætur þetta ekki á sig fá. Christian á það til að vera einkennilegur. Veislan heldur áfram. Christian gerir fleiri atlögur og þær enda á sama hátt. Hann er afgreiddur sem bjáni með falskar minningar og fyrst hann lætur sér ekki segjast og kemur sér í burtu er hann laminn og bundinn við tré úti í skógi. Og við tekur næsta atriði á dagskránni.

Bréfið sýnir fram á að Christian sagði satt og dauði systurinnar var afleiðing misnotkunar pabba. Það þarf utanaðkomandi mann, kærasta systurinnar, sem er svartur og þar af leiðandi óvelkominn í veislunni, til þess að bréfinu sé ekki sópað undir teppið.

Þegar myndin var gerð var kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum enn hálfgert tabú og hugmyndin um að maður af þessu tagi gæti verið barnaníðingur var sprenging. Myndin hafði áhrif á umræðuna og hjálpaði við að taka barnaofbeldi upp á yfirborðið. Kynferðislega ofbeldið er samt ekki efni myndarinnar. Meginefnið er ímyndin sem ekki má spilla. Veislunni skal haldið áfram. Veislugestir sameinast um að sópa öllum óþrifum undir teppið og fallega yfirborðið er mikilvægara en siðferðið, réttlætið og sannleikurinn. Myndin tekur til umfjöllunar, hversu einlægan vilja fjölskyldan og vinirnir hafa til að láta veisluna halda áfram hvað sem það kostar. Þarna verður mikilsvert efni að sprengju í höndum vandaðra fagmanna í kvikmyndum. Handritið er skothelt. Það kemur alls ekki að sök að þekkja má fyrirmynd í veislunni í Godfather. Aðlögunin er gallalaus. Sagan er eins og hún sé sprottin úr notarlegum dönskum veruleika. Myndatakan í hráum og ýktum dogmastíl á rétt á sér vegna þess að hún virkar eins og heimilismynd, sem einhver hefur tekið upp í veislunni. Stíllinn tekur truflunina af tökuliðinu burt á dásamlegan hátt. Leikstjórnin er óaðfinnanleg og klippingin heldur uppi góðum takti og hraða og vinnur með grófleika myndatökunnar (Valdís Óskarsdóttir). Þarna fellur allt saman í eina sannfærandi heild, handritið, leikstjórnin, kvikmyndatakan og klippingin. Klassísk mynd þó hún á yfirborðinu líti út eins og home movie.

ÞJ 9 feb 2012

Til baka
(Die) fetten Jahre sind vorbei (The Edukators)


2004 - Hans WeingartnerEinbýlishúsafólk kemur heim úr fríi og rekur í rogastans. Það er búið að færa húsgögnin og stafla í hrúgur, en engu hefur verið stolið. Jan og Peter eru aktífistar og vilja senda hinum ríku skilaboð og hræða þá. „Feitu dagarnir eru liðnir”. Þetta er hugsjón og Jan reiðist þegar Peter stelur armbandsúri í einni heimsókninni. Peter hittir Julíu og hún kemur til þeirra í litlu kommúnuna. Þegar Peter fer til Spánar tekst samband milli Jans og Júlíu um leið og hún flækist í verkefni þeirra. Þau brjótast inn til eiganda Bens sem hún hefur verið dæmd til að borga vegna umferðaróhapps og mun taka 8 ár af lífi hennar. Innbrotið breytist í ástarleik. Þau forða sér í hasti þegar ljós eru kveikt og sími hennar verður eftir. Þegr þau fara til að sækja símann rekast þau á eigandann. Jan slær hann í hausinn og þau sitja uppi með rotaðan mann eða lík. Þau kalla á Peter sem er kominn frá Spáni. Niðurstaða þeirra verður að ræna eigandanum og keyra í sumarbústað í ölpunum. Þar kynnast þau manninum og hann segir að hann hafi verið eins og þau. Hann er fullur sátta og vill gefa Júlíu eftir að borga bílinn og lofar að senda lögguna ekki á þau. Þau skila honum heim og allt virðist ætla að enda vel. En auðvitað sendir hann á þau lögreglu og þegar sérsveitin kemur eru þau búin að tæma íbúðina og hafa skilið eftir miða. „Sumir breytast aldrei”.

Þetta er skemmtilegt plott. Góð myndataka og klipping. Sleppt úr framvindunni á rétum stöðum þannig að myndin dvelur ekki við vinnulýsingar. Langur aðdragandi að uppgjöri í lokin án orða, þar sem persónurnar eru að hugsa sinn gang og áhorfandinn veit ekki hver verður niðurstaðan. Hver er vinur hvers? Er Bensmaðurinn vinur þrátt fyrir innbrotið? Eru Peter og Jan óvinir út af Jule? Í málið blandast semsagt afbrýðisemi sem fínlega er farið með og vináttan sigrar. Hugsjónin er dýrkuð og það er sett fram tillaga. Pólitíkin virðist svolítið þunglamaleg í samtölum, en réttlætið er til umræðu. Það er erfitt án orða. Kannski er farið yfir strikið.

Jan er aðalpersónan. Rútínan endar þegar hann verður ástfanginn af Jule. Þegar innbrotið til Bensmannsins breytist í ástarleik hefst 2. þáttur. Vandinn er hvað á að gera við líkið/manninn. 2. þáttur virðist enda þegar þau keyra Bensmanninn heim, en viðureignin við hann eða öllu heldur vandinn með hann er ekki leystur. Þau leggja á flótta.

Ef þau hefðu bundið hann og flúið hefði niðurstaðan verið sú sama. Vantar ekki uppgjör og 3. þátt? Áhorfandinn er að vísu ánægður, að þau hafa sloppið, en - Fyrirgefur hann að fá engan 3 þátt? Það er spurning. Hvað með þennan aktívisma og hefur þetta áhrif, góð eða slæm? Er því svarað? Ef þetta er saga um ástarþríhyrning, þá eru lokin þau að Jan, Peter og Jule sættast og ekkert meir um það að segja. En myndin er ekki um það. Hún er um misréttið. Sumir eru óheyrilega ríkir, aðrir fátækir. Hafa hinir ríku enga samvisku? Þetta er efnið sem fjallað er um. Svarið er falið í lok 2. þáttar. Það er nei. Þeir ríku hafa enga samvisku. Þeir ljúga og þeir eru óheiðarlegir. Mér sýnist þetta vera uppgjörið sem myndin býður upp á. Ekki mjög djúp athugun. Einföld neitun við við spurningunni sem lagt er upp með.

Svarið er auðvitað ófullnægjandi. Bensmaðurinn hefði þurft að vera merkilegri pappír og deilan milli þeirra hefði þurft að fá frekari úrvinnslu. Eftir ránið er aðalspurningin, nást þau? Að þau sleppi leysir ekki úr vandanum sem myndin fjallar um, misréttið. Það vantar dýpri umfjöllun um hann. 

ÞJ 140516

Til baka


Fuglarnir

1963 - Hitchcock

Fræg mynd. Ein þeirra sem mest er vitnað til. Bensínstöðvarsenan er meðal þeirra bestu.

Aðalpersónan er Melanie frá San Francisco, sem lifir á eignum föður síns, eiganda stórblaðs, og einsetur sér að ná í að henni finnst sjarmerandi lögfræðing, Mitch. Mitch fæst við að verja morðingja, en dvelur um helgar hjá móður sinni og yngri systur, Kathy, í þorpinu Bodega Bay. Þau Mitch og Melanie þekkjast svolítið eftir einhver samskipti í réttarsal , sem pirruðu Mitch. Í byrjun sögunnar hittast þau af tilviljun í gæludýrabúð, þar sem Mitch spilar svolítið með Melanie án nokkurrar mótstöðu af hennar hálfu og hún heldur brandaranum áfram með því að útvega honum fugla í búri til að gefa Kathy í afmælisgjöf - ástarfugla (lovebirds). Mitch er ekki síður upprifinn af persónu Melanie, en hún af honum, og samband þeirra nær þroska í senu sem ekki er í myndinni, en átti að vera á eftir senu, þar sem mamma hans finnur fyrsta fórnarlamb fuglanna - dauðan bónda á nálægum bæ. Ástarsenan endaði af einhverjum ástæðum í ruslinu. Í senunni á eftir er mamma Mitch komin upp í rúm í sjokki og þau Mitch og Melanie orðinn náin. Þessi verðandi ástarsaga hverfur þarna í baksvið og andstaða móðurinnar við að Mitch tengist konu og ótti hennar við að vera skilin eftir fær svolítið sjúklegt yfirbragð. En við höfum líka heyrt um þetta mál hjá Kennslukonunni, fyrrverandi kærustu Mitch. Önnur og alvarlegri saga tekur athyglina - þessir yndislegu samborgarar mannsins í náttúrunni, fuglarnir, hafa snúist gegn honum. Vangaveltur um ástæðurnar koma í fyrrnefndri óborganlegri senu við bensínstöðina. Fullorðin kona, fuglafræðingur, telur allt gott koma frá fuglunum en mennina vonda. Fyllibytta telur heimsendi í nánd. Öfgasinnaður hægri maður vill drepa alla fugla heimsins. Og móðir, sem óttast um börnin sín, heldur því fram að Melanie hafi komið með þetta vandamál. Umfjöllunin er ekki lengri. Eftir það höfum við stílfærða, næstum því vandræðalega baráttu við að verjast árásum fuglanna. Mitch, Melanie, mömmunni og Kathy tekst að komast undan í bíl og áhorfandinn situr eftir hjá þúsndum fugla, sem hvíla sig áður en næsta árás hefst.

Hvernig mynd átti þetta að vera? Ég var 17 ára þegar myndin var frumsýnd og man eftir markaðssetningunni, þar sem dagblöð og tímarit voru nýtt til hins ýtrasta. Það var spilað á spennuhryllinginn og tæknina. Á þeim tíma var ekki einfalt að búa til senur eins og þegar fuglaskarinn ræðst á skólakrakkana. Litið var á myndina sem tæknilegt afrek. 

En hvað með innihaldið? Ástarsagan gufar upp eins og áður er getið. Mamman er gerð að einhverskonar grýlu án tilefnis. Melanie fer án mótífs  upp á háaloft til þess að lenda í árás fuglanna, svo einhver dæmi séu nefnd. Hins vegar eru aukapersónur vel undirbyggðar, til dæmis Kathy og móðirin í bensínstöðvarsenunni. Eftir senuna sem vantar verður Mitch aðalgerandinn í myndinni sem karlmaðurinn í sambandinu. Verkefnið er að lágmarka skaðann af árásunum, lifa af  og komast í burtu. En Mitch getur ekki talist aðalpersóna í þeim skilningi vegna þess að árásir fuglanna er ekki vandinn, sem sagan fjallar um. Fuglavandinn fær enga úrlausn. Vandinn sem fær umfjöllun (hefði átt að fá umfjöllun?) eru ástamál Mitch og Melanie. Melanie nær í sinn mann og mamman sættist við hana. Þær faðmast í aftursætinu á bílnum, þegar þau flýja. Það er orðin til ný fjölskylda. Handritið að týndu senunni er til. Ég hef ekki lesið það. Kannski lokar það ástarsögunni, en líklegra er að kaflinn hefði ekki dugað. 

Meiningin er niðurstaðan af tiltölulega einfaldri atburðarás (sem kemur ástarsögunni ekki beint við) - stigmagnandi árás fuglanna. Hún er spurningin: Hvað ef náttúran réðist gegn manninum? Spurning er sett fram án þess að minnast einu orði á það, hvernig maðurinn hagar sér í náttúrunni eða hvernig hann fer með dýrin osfrv. Eina hintið er búrfuglarnir. Það er að vísu mjög ákveðin vísbending. Maðurinn kaupir fuglana í búri til að gleðja þá sem honum þykir vænt um á afmælisdaginn. Þeir eru það eina af heimilinu sem fær að vera með í bílnum á flóttanum. Þannig vill maðurinn hafa fuglana (náttúruna) - í búri og undir sinni stjórn. Nú spyrjum við, kemst hann upp með það? En sú spurning var ekki komin á dagskrá 1963.

Við getum farið í gegnum þessa mynd og fundið á henni byggingargalla ef við beinum athyglinni að þessari klisjukenndu ástarsögu og við getum verið hrifin eða ekki hrifin af persónunum  og því sem þær standa fyrir. Í samhenginu verða þetta aukaatriði. Raunar læðist að manni sá grunur, að höfundurinn hafi viljandi skapað kaldar kantaðar persónur og brothætt samfélag til þess að áhorfandinn taki að minnsta kosti að hluta til upp sjónhorn fuglanna. Það skýrir frægt myndskeið í bensínstöðvarsenunni, þar sem brugðið er upp vinkli fuglanna á vígvöllinn. Hugmyndin gæti verið tengund af svartsýni, að þessi heimur mannanna eigi ekki betra skilið. Aðalatriðið er að spurningunni er dúndrað á áhorfandann og hann fer heim í sjokki. Maðurinn er kannski ekki herra jarðarinnar.

ÞJ 2 ágúst 2011 (endurskoðað 14 feb 2012) 


Fúsi


Dagur Kári – 2015

Sögubrotið er ekki átök eða háspenna. Endirinn er á lágum nótum, Fúsi drífur sig í frí til Egyptalands.

Fúsi er maður friðsemdar og sátta og lítið fer fyrir vísbendingum um vilja hans til breytinga nema hann verður ástfanginn af Ölmu, sem vill eitt í dag og annað á morgun. Í lokin biður hún hann um að flytjast inn til sín en skiptir um skoðun og hendir honum út. Sú niðurlæging breytir ekki tilfinningum hans í hennar garð Hann afhendir henni lyklavöld að stað fyrir blómabúð sem á einhverju fyrra augnabliki var hennar heitasti draumur.

Sérstakt við þessa aðalpersónu er það, að hann fer ekki í ágreining þó hann sé órétti beittur. Er hann svona dauflyndur eða er hann þetta miklu fullkomnari en við hin? Af hverju svarar hann ekki fyrir sig? Maður fylgir honum kannski ekki alveg í því að láta eineltið yfir sig ganga, en er hann verri manneskja fyrir það eða ómerkilegri persóna í drama? Átökin geta verið til staðar og tilfinningarnar sárar frá bæjardyrum aðalpersónunnar, þó atburðirnir breyti ekki heiminum.

Að horfa á myndina verður meira í ætt við að fara í dýragarðinn og fylgjast með hegðun homo sapiens heldur en að fylgja honum í tilfinningu. Í Fúsa er dregin upp mynd af fullorðnum homo sapiens sem er eins og barn. Þarna er fullorðinn maður á „þroskastigi“ barns (óskemmdur) og uppsker fyrirlitningu, niðurlægingu, einelti og ofbeldi frá þeim sem eru á „réttu“ þroskastigi. Ekki er farið út í orsakirnar, en hófsamleg viðbrögð hans og fyrirgefning og ást fær okkur til að hugsa, hvað vantar ekki í þessi venjulegu eintök. Sem dæmi um hin venjulegu fáum við strákaklíkuna á vinnustaðnum, sem getur ekki hugsað sér betri skemmtun en að niðurlægja þennan góða dreng. Er manneskjan svona? Er hinn fullorðni (karl)maður siðlaus fantur?

Þessi athugun á manneskjunni er fróðleg og nærandi á þessum tímapunkti í lífi hans, þegar hann er enn heima hjá mömmu að leika með leikföngin sín. Við fáum ekki forsendur eða afleiðingar. Við fáum ástand, litla sneið af 2. þætti sögunnar um það þegar Fúsi fer að heiman og breytist í fullorðinn mann. Það einkennilega er að brotið nægir. Það fær okkur til að hugsa um spurninguna, hvað felst í því að verða fullorðinn og fara að heiman?

Þessi (ó)fullkomna bygging myndarinnar virkar á dularfullan hátt - aðferðin ólík en minnir samt á óvenjulega byggingu í Good Heart, þar sem persónan, sem áhorfandinn fylgir, er drepin til að skaffa hjarta í vinnuveitanda sinn, og söguna um Nóa Albinóa, þar sem vilja eða viljaleysi aðalpersónunnar, sem er annað hvort aumingi eða snillingur, er teflt gegn náttúrunni, sem ræður.


Gaman að sjá þegar leikstjóri hefur aftur og aftur kjark til að gera tilraunir með formið.
ÞJ 14. sept 2015Fyrir framan annað fólk

Óskar Jónasson - 2016


Feiminn teiknari á auglýsingastofu, Hubert (Snorri Engilbertsson), verður ástfanginn af Hönnu (Hafdís Helga Helgadóttir) og Hanna af honum, en Hanna þolir ekki að Hubert hermi eftir henni eða sínu fólki og vill ekkert með hann hafa út af því. Endirinn er sá, að Hubert gefur til kynna að hann ætli að fara í meðferð gegn eftirhermufíkninni.

Þetta er náttúrulega gamanmynd og framan af dugar sagan vel til að halda uppi fyndni og skondinni innsýn í raunveruleika kringum auglýsingastofu. Í stjórnanda hennar, Friðrik (Hilmir Snær Guðnason) er dregin sannfærandi mynd af sölumanni auglýsingaverka, sem hefur þó mestan áhuga á að skemmta sér og vinum sínum með partíum og kynlífspælingum. Hann gefur skemmtanaþrá sinni líka útlit eins og sannur dísæner með tilvísunum í ítalska menningu allt aftur til Rómarveldis. Annar skemmtilegur karakter er pabbi Hönnu, Finnur (Pálmi Gestsson), sem gefur aðalhugmyndinni um að standa aftur upp (gefast ekki upp) dímensjón í gegnum Bubba Mortens og ímyndaða eða raunverulega samsvörun við hann. Hubert hefur fyrir utan feimni þennan hræðilega eiginleika að herma eftir öðru fólki. Í byrjun sambandsins við Hönnu er þetta drepfyndið fyrir áhorfendur og fyrir Hönnu, en svo kárnar gamanið. Hönnu finnst þetta orðið vandamál, þegar fyndnin snýr að henni sjálfri og hennar fólki, jafnvel andlegur sjúkdómur, sem þarnast meðferðar. Hanna er ekki alveg eins þakklátur karakter og Hubert. Hún er næstum því ekki tilbúin í nýtt samband og mikið hik í kringum persónuna, en leikkonan gerir sitt besta þrátt fyrir brotalöm í handritinu.

Við erum með amk þrjár skemmtilegar persónur og uppleggið fyrir gamansöguna virðist í góðu lagi og fyndnin og skemmtilegheitin leiða mann í hlátri og sæluvímu aftur í lok 2. þáttar. Maður er ekkert að pæla of mikið í því hvað er umfjöllunarefnið, því skemmtunin er í háum gæðaflokki. Hubert fær þetta framan í sig, að hann sé vandamál, og enn er það fyndið. Þessi skemmtilegi hæfileiki hans og stolt hefur snúist í andstæðu sína, ógeðslegan kæk, sem hann á að skammast sín fyrir og losa sig við. Maður er svolítið að bíða eftir „alvörunni“, hvað er málið? En smátt og smátt kemur upp úr kafinu að þetta er málið. Myndin snýst um þetta. Þeas eftirhermið er fulltrúi þeirra ótal smáu vandamála, sem geta komið í veg fyrir að ástarfuglar nái saman. Er Hubert í raun og veru um megn að hætta að herma eftir kærustunni? Ætlar Hanna virkilega að láta þetta skemmtilega smáatriði stöðva sig í því að eiga manninn sem hún elskar? Þetta er hápúnktur dramans. Allt veltur á því að Hubert og Hanna missi ekki samúðina og trúverðugleikann.

Það er ekki auðvelt að fylgja Hubert gengum lokin á 2. þætti. Hefur hann stjórn á þessu eða ekki? Er Hönnu alvara eða ekki? Þó viðbrögð hennar séu fyndin gera þau hana að nöldrara. Kannski hefði þurft að taka upp vinkil Hönnu í einhverjum senum til að styrkja hana. Þessi frábæri „mesti vandi“ er orðinn að smávanda í haus áhorfandans. Og fyrir bragðið verður 3. þáttur vandræðalegur, þó þar sé að finna réttu atriðin með endurreisn Finns og sáttum elskendanna á tjarnarbakkanum, stað fyrsta kossins.

Gallarnir í byggingunni eru að við fylgjum ekki ýktum viðbrögðum Hönnu og við viljum ekki að Hubert losi sig við „eiginleikann“ meðan við samþykkjum hann ekki sem vandamál. Líklega hefði hjálpað að alvarlegar afleiðingar hefðu fylgt því að Hubert hermdi eftir t.d. frænkunni eða Finni. Og líklega hefðum við þurft sterkari ástæðu fyrir því að Hubert gat ekki setið á sér. Það hefði réttlætt viðbrögð Hönnu og gert hana sterkari og átökin milli þeirra í lok 2. þáttar trúverðugri.

Hliðarsagan með konunum frá Akureyri, sem létu smáatriði fara í taugarnar á sér, er góð hugmynd, en hefði mátt útfæra betur til að hún bætti einhverju við efnið - vandann á vegi elskenda.

Þetta er skemmtilega samansett mynd með mikið skemmtigildi og vel dregnum persónum og óaðfinnanlegri vinnu við myndun og hljóð og klippingu og leik og leikstjórn. Þessi pæling um mikilvægi hinna ólíklegustu eiginleika í samdrætti karls og konu eru gott stöff fyrir gamanmynd, engin spurning um það. Eftir skemmtunina er svolítið sárt að gráta yfir litlu smáatriði. Með svolítilli viðbótarvinnu við handritið hefði verið hægt að gera mynd upp á 10.


ÞJ 24 mars 2016


Til bakaGaukshreiðrið

1975 - Milos Forman


Saga McMurphy (Jack Nicholsson) endar þar sem hann hefur beðið algeran ósigur. Rached yfirhjúkrunarkona (Louice Fletcher) og læknarnir hafa breytt honum í lifandi lík. Til að ljúka myndinni setur Milos Forman epilog aftan við þar sem risaindíáninn Chief kemur að McMurphy eftir „meðferð“ sérfræðinganna á hælinu og kæfir hann í koddanum, „af kærleika“. Röksemdafærslan gengur því miður ekki upp. Þetta er aulalegur og ófullnægjandi endir. Við trúum ekki að Chief sé maður til að dæma um hvort McMurphy nái sér. Og ef hann hefur einhverja aðra ástæðu, þá vantar í kjötið á persónu Chief. Chief vill flýja og getur vegna krafta sinna tekið McMurphy með sér og séð til, hvort hann hefur það af, ef honum þykir svona vænt um hann. Það er engin lausn að Chief - sá góði - gangi endanlega frá McMurphy. Hvað á að vera hægt að lesa út úr því? Að eftir að kerfið geri útaf við einstaklinginn komi vinirnir og ljúki verkinu!? Þetta er eins og hvert annað bull.


Höfundurinn gerir áhorfandann sem fram að þessu hefur í spenningi fylgt McMurphy og öllum skjólstæðingunum í vonlausri baráttu þeirra undrandi og reiðan. Sagan er á vissan hátt svipt fegurð eða von. Haft er eftir Fletcher, sem vinnur leiksigur í myndinni, að hún geti ekki horft á myndina.


Svona er ekki hægt að skilja við aðalpersónuna. Ekki dauðvona í lok annars þáttar og sleppa svo þriðja þættinum – uppgjörinu. Epilógurinn dugar ekki.


Í þessum endi - eða epilóg - er Chief eiginlega settur í stöðu aðalpersónunnar. Það er Chief sem tekur til sinna ráða til að koma þeim úr vandanum, sem McMurphy gerði ekki, þó hann ljúki ekki verkinu. Við gefum okkur að hann ætli að taka McMurphy með sér á flótta. Raunverulega aðalpersónan í sögunni, McMurphy, hugsaði hins vegar meira um að skemmta sér, og reyndar skjólstæðingunum líka. Þannig kaupir hann fyrir peningana sem hann hefur unnið af félögum sínum í spilum gleðikonuna Candy til að sofa hjá Billy til að losa hann við sjúklega óframfærni, sem móðir hans og Rached hafa ræktað í honum, í stað þess að bjarga sjálfum sér.Þetta er saga McMurphy sem bíður lægri hlut í öllum orustunum en sigrar áhorfandann. Persónan með sjarma sínum og skemmtilega óheiðarlegri einlægni sýnir, að hann hefði átt að sigra og losna af þessu hæli sem frjáls og heilbrigður maður, en þola náttúrulega dóm fyrir það sem hann hafði gert. Þarna á hælinu er hann leiksoppur líkt og borgari í óréttlátu þjóðfélagi, og hann á allt undir stjórnendum þessa samfélags. Maður getur ekki annað en hugsað um klíkuræðið í heimalandi Milosar, Tékkóslóvaíku, sem hann sjálfur flúði.


Og líka um ýmis önnur þjóðfélög. Haft er eftir Forman: „The Communist Party (in Czechoslovakia) was my Nurse Ratched“. Og líkingin á einnig við um ýmsar stofnanir, hvort sem það eru fangelsi, eða sjúkrahús eða skólar eða kirkjur eða ráðuneyti, þar sem stjórnendur, gjarnan einhvers konar fulltrúar almennings eiga það til að misskilja hlutverk sitt og ímynda sér að skjólstæðingar þeirra séu þeim til skemmtunar í einhverju sjúku og ójöfnu valdaspili. Í Gaukshreiðrinu erum við að tala um misnotkun á valdi.


McMurphy kemur í handjárnum á geðveikrahælið eftir dóm fyrir að sofa hjá 15 ára stúlku. Hann er þarna í rannsóknarskyni til að athuga hvort hann sé heilbrigður á geði. McMurphy sameinar á sérstakan hátt að vera óhaminn eins og barn sem hefur aldrei fengið uppeldi og búa yfir samskiptahæfni og samræðulist í háum klassa. Þessi lífsglaði og sjarmerandi maður virðist frá byrjun vera ljúfur skjólstæðingur og ekki annað fyrirséð en hann útskrifist með sóma.


Við kynnumst persónunum á hælinu með augum hans og hann undrast og gerir sínar tilraunir til að blása lífi í skjólstæðingana til dæmis Chief sem þykist vera daufdumbur eða taka umræðu um réttindi þeirra í samtalsmeðferð hjúkunanr Rached. Í gegnum McMurphy kynnumst við líka stjórnendunum, forstjóranum, sem virðist hófsamur og sanngjarn en aðallega þó Rached, sem er harðstjóri og nýtur þess að pína sjúklinga sína andlega og halda þeim niðri og gera þá að mannleysum. Hlutverk Rached er skrifað af sama nakta kulda og hún stafar frá sér. Hún skiptir ekki skapi og hreyfir lítið annað en andlitsvöðvanna en túlkar fullkomlega óttablandna löngun til að ná valdi á skúklingum sínum og kúga þá. Og um leið sýnir persónan okkur inn í fátæklegt tilfinningalíf harðstjórans, sem gleðst við hverja sigraða mótbáru og aukið vald yfir saklausu fólki sem honum er trúað fyrir. Tilraun McMurphy til að fá að horfa á leikinn (eins og starfsliðið) og tilheyrandi atkvæðagreiðsla vísar beint á misnotkun valdsins hjá stjórnendunum yfir þeim óbreyttu. Við getum sett slíka stjórnendur inn fyrir Rached og fengið ógnvænlega mynd af nakinni valdbeitingu að ofan með tiltölulega einföldum ráðum, lyklavöldum, stjórn umræðunnar, kosningablekkingum, og ræktun á ótta við allt utan múranna.


Fyrir utan að vera skoðandi er McMurphy líka katalisator, sem kemur sjúklingunum til að upplifa ýmis ævintýri. Tilraunir hans til að fá dagskrá Rached breytt mistakast, en honum tekst að skipuleggja rútuferð með mannskapinn niður að smábátahöfn og stela bát og fara að fiska, öllum til mikillar ánægju, og honum tekst að setja upp heljarinnar svallveislu eina nóttina með vínföngum og gleðikonum sem nær hámarki í því að Billy kemst yfir kvenmann, sem hefur verið draumur hans og martröð alla ævi. Flótti til Kanada kemur til tals við hinn „daufdumba“ Chief en Chief er ekki tilbúinn.


Í refsingarskyni fyrir svallveisluna fer McMurphy í rafmangsstuð og heilaaðgerðir þar sem hann er sviptur lífskraftinum. Hann er orðinn lifandi lík, þegar Chief er tilbúinn að flýja. Áhorfandinn er í skóm McMurphy alla myndina en þarna er McMurphy úr sögunni og í lokasenunni (epilóknum) er það Indíáninn Chief sem kæfir hann til dauðs.


Klaufalegur endir á hágæðamynd. Boðið var upp á hliðstætt klúður í íslenskri mynd, sem átti annars mjög góða spretti, Eldfjalli eftir Rúnar Rúnarsson (sjá greiningu).


Þrátt fyrir galla hefur myndin slagkraft. Hún er vægðarlaus gagnrýni á aðferðirnar sem beitt var á geðsjúkrahúsum um allan heim. Og ekki er síður ástæða til að tengja hana við aðferð sem tíðkaðist til dæmis í Sovétríkjunum að setja pólitíska andstæðinga á geðveikrahæli. En fyrst og fremst er myndin firnasterk pólitísk ádeila á misnotkun valds hvort sem það er af harðstjórum og öðrum stjórnendum ríkja eða valdafíklum innan opinberra stofnana.


ÞJ 10 feb 2017


Til baka


(The) Good Heart


2009 - Dagur Kári

Jack hefur endað í barholu, þar sem hann uppvartar stamgestina þungur á brún án vina eða fjölskyldu. Nema hann kallar kaffiræktanda sinn í Dóminíkanska lýðveldinu vin. Hann gæti hugsað sér að fara þangað, ef hann væri hraustur, til að giftast mömmu hans. En Jack er einmitt ekki hraustur. Hjartað hefur bilað fimm sinnum. Á sjúkrahúsinu hittir hann, Lucas sem hann vill gera að eftirmanni sínum svo barinn lifi. Lucas er góður og einfaldur og Jack er hrjúfur og illur og kemur fram við alla af hroka og fyrirlitningu. Fram að 55tu mínútu fylgjumst við áhugasöm með því, hvort Jack með vonsku sinni og hroka takist að þjálfa Lucas þetta ljúfmenni sem þjón. Við upplifum söguna frá bæjardyrum Lucasar, og spurningin verður hvernig Lucasi takist til í þessu undarlega hlutverki og hvort hann muni hafa einhver jákvæð áhrif á Jack. Jack stjórnar og hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig bar og allt sem honum tilheyrir á að vera. Deilan milli þeirra hefst út af þreyttu fátæku stúlkunni April, sem Lucas býður að gista og ætlar að kvænast, en Jack vill losna við. Lucas fer eftir rifrildi og Jack brjálast (hendir flösku). Stamgestirnir koma með köku handa Jack á afmælisdaginn og hann tryllist (brýtur gler) og hendir þeim út. Jack biður Lucas að koma aftur, April má fylgja með. En deilan heldur samt áfram. Breytinga verður vart hjá Lucasi. April gerist blíðmál við einn gestinn og Lucas reiðist og hendir henni út. Hann er farinn að taka upp takta Jack. Jack er kallaður í hjartaígræðslu, en tiltæka hjartað reynist ekki nógu gott. Í samtali við skurðlækninn sést að Jack er að mýkjast. Samspil Jacks og Lucasar kristallast skemmtilega í lítilli en örlagaríkri sögu af önd, sem Jack hafði ætlað í jólamatinn. Líf eða dauði andarinnar setur áhrif myndarinnar eiginlega í uppnám. Þegar Lucas er tilbúinn að höggva, vill Jack það ekki. Öndin bjargast undan hnífnum en verður til þess að Lucas lætur líf sitt í bílslysi og Jack fær nýtt hjarta. Vandamálið þarna er að þessi skemmtilega saga um öndina tengist sögunni um vináttuna á óþægilegan hátt fyrir áhorfandann. Þarna stendur Jack eftir sem sigurvegari í sögunni hver lifir og hver deyr og Lucas dauður. Gallinn við að Lucas sé dauður er sá, að áhorfandinn hefur verið í sporum hans. Áhorfandinn missir sinn mann og verður eiginlega reiður. Anda- og hjartamálið truflar söguna um vináttu sem er að verða til milli tveggja gjörólíkra manna með skemmtilegum vangaveltum um góðar og vondar manneskjur. En - ef við bökkum, þá er Lucas í byrjun að reyna að taka líf sitt vegna þess að heimurinn er vondur. Jack var á sinn hátt líka að reyna að taka/eyðileggja líf sitt og spilla með óhollu líferni og fjandsamlegri afstöðu til samborgaranna. Og í þriðja lagi er barinn - aðalatriðið í lífi Jack og þeirra sameiginlega verkefni - er líka í einhverskonar hættu, hvort hann lifir eða deyr. 

Það sem gerist þarna í lokin með persónuna, sem áhorfandinn heldur með, er strangt tekið galli, en alls ekki sorgarefni fyrir áhorfanda sem hefur áhuga á kvikmyndum. Þetta setur áhorfandann í svolítinn vanda, vill hann afneita þessu skemmtilega efni sem búið er að matreiða fyrir hann útaf því að eftirlæti hans í sögunni er látið hverfa? Kannski er það einmanakennd, sem grípur áhorfandann, að hafa ekki hetjuna sína lengur sem leiðbeinanda. Dauða Lucasar má bera saman við uppbrot, sem verður í Eldfjalli (sjá greiningu hér á síðunni), þegar aðalpersónan yfirgefur áhorfandann eða öfugt. Vandinn í Eldfjalli er hins vegar að breytni aðalpersónunnar á ekki augljósa snertifleti við efnið sem á undan er komið.

Jack er aðalpersónan. Hann er gerandinn í vináttusögunni. Aðalvandi hans sem geranda er að halda kránni gangandi og Lucas hefur hlutverk þar. En í lífs eða dauða sögunni er það heilsan sem er aðalvandi Jacks, en í þeirri sögu er hann ekki gerandi. Þar stjórna örlögin. Jack hefur vissa hagsmuni bæði í sambandi við barinn og í sambandi við heilsu sína og í lokin fær hann lausn á heilsumálinu en örlög barsins eru í óvissu. Lucas er erfitt að skilja vegna þess að hann er fremur illa nestaður inn í söguna. Sjálfsmorð vegna þess að hann vill lifa eins og útigangsdýr í samfélagi þar sem gildir survival of the fittest! Annar umhugsunarverður brandari, sem virðist næstum of stór fyrir aðstæðurnar, vegna þess að við vitum ekki á hvaða reynslu Lucas byggir eða hvað það er sem hann túlkar á þennan hátt. Hann er eiginlega eins og hann hafi dottið niður af himnum. Svipað má segja um April. Hún kemur allslaus inn í söguna. Engin fortíð. Jack er sannfærandi fram að hjartaskiptunum, sem klikka. Hann er meira að segja svo sannfærandi að maður fer að sætta sig við, að hann sé vondur - svona eigi menn að vera í þessu umhverfi. Það verða hálfgerð vonbrigði, þegar hann verður góður. Vináttusagan er aðalsagan og hver lifir og hver deyr kemur inn líkt og örlögin í Nóa Albínóa, en þar hlýfa örlögin (snjóflóðið) hetjunni, en hér láta þau Lucas, sem áhorfandinn stendur með, falla. Lífs og dauða sagan kemur eins og hnífur þvert á vináttusöguna og setur áhorfandann í einhvers konar vanda í uppgjörinu, sem er paradísarheimt Jacks undir pálmatrjám. (Draumurinn í Nóa). Hið vonda hefur sigrað. Valdið hefur sigrað. Það hriktir í dramatíska forminu eins og gömlu skipi. Uppnámið verður til þess að maður fer að hugsa, hvernig Jack finnist að hafa hjartað úr vini sínum. Fyndnin í þeim brandara er á skökkum stað sem niðurstaða sögunnar og gildisfellir umfjöllunina um vináttuna fram að því. Þarna kemur ný niðurstaða - óþarfi að leggja sig fram, dauðinn bíður á næsta horni. Svo hugsar maður um myndina næstu daga og vikur og sagan og senurnar lifa og halda áfram að gleðja mann í huganum. Hún er semsagt bæði afburðagott fóður fyrir heilabúið og hefur þetta fína safaríka eftirbragð.

ÞJ 21 Jan 2012

Til baka

Grikkinn Zorba

1964 - Michalis Kakogiannis (skáldsaga Nikos Kazantzakis) 

Myndin kemur skemmtilega fyrir sjónir nú, þegar tíðarandinn er annar. Það er lærdómsríkt að sjá útfærða stúdíólýsingu í þessu grófa umhverfi fátæks fólks á Krít árið 1964. Þarna eru fallegir svarthvítir rammar fullir af tjáningu og ekki gefinn afsláttur nema kannski á skipinu í byrjun myndarinar. Handritið, leikstjórnin og klippingin sleppa líka vel gegnum tískubreytingarnar síðan þá, þó leikur sé sumstaðar kröftugur. En hvers vegna er ég að nefna þessi atriði. Í þessari mynd eru þau svo augljós hluti sögunnar. Myndatakan og leikstjórnin breyta sögunni í stórkostlegt leikrit, sem gerir ekki lítið úr kvikmyndalistinni, heldur lifir sem mikilsverður hluti hennar. Ekki vantar dæmin um myndir, þar sem sviðsleiklistinni er klesst sóðalega upp á tjald. Hér er enginn að biðja um að menn séu að eltast við hversdagsleikann. Við vitum að fólkið er fátækt og byggingarnar að hruni komnar. Þær mega vera leikmynd. Það hæfir persónu Zorba. 

Aðalpersónan, Alexis Zorba (Anthony Quinn), býður fram þjónustu sína þegar rithöfundurinn Basil,(Alan Bates) kemur að vitja eigna sinna á eyjunni Krít. Basil er stífur brilljantínmaður, einhleypur. Zorba aftur á móti hefur átt margar konur og fengist við ýmislegt, meðal annars námugröft, og virðist í fljótu bragði rétti maðurinn fyrir Basil til að setja í gang gömlu námuna. Zorba daðrar við veika franska fyrrverandi vændiskonu, maddömu Hortensu, sem Zorba kallar Búbúlínu, og hefur dagað uppi á eynni eftir að hafa verið ástkona fjögurra aðmírála í blessuðu stríðinu. Hortensa er ástarþurfi og Zorba er of góðhartaður til að neita henni um svolítinn skammt. Síðar vill hann láta gott heita, en Basil stýrir málinu í þann farveg, að Zorba verður að ganga leiðina á enda og lofa að giftast Hortensu og athöfnin fer óðar fram í hópi þeirra þriggja rétt áður en Hortensa gefur upp andann. Zorba lætur virðingu fyrir mannlegum tilfinningum ráða gerðum sínum í þessu máli eins og öðrum áður en hann hugsar um eigin hag. Í sambandi Zorba og Hortensu reynir verulga á mannkosti Zorba og verður það að teljast kjarni myndarinnar. Samband Basil og Zorba er skemmtilegur þráður, þar sem Zorba er lærimeistarinn. Basil heillast af lífskrafti Zorba og Zorba fær að njóta þess að sjá Basil breytast úr þurrum bókamanni og landeiganda og þar með kapitalista í tilfinningaveru. Basil kemur Zorba verulega á óvart með viðbrögðum sínum við katastrófunni í lok myndarinnar, þegar hin stórkostlega áætlun Zorba um rennibraut fyrir timbur, sem á að gera þá ríka, hrinur svo ekki stendur steinn yfir steini. En tap Basil á rennibrautinni er nánast skemmtun og ekki nándar nærri eins alvarlegt og sorg hans og ráðleysi, þegar hann verður óviljandi til þess að ung ekkja, meistaralega leikin án orða af Irenu Papas, ólgandi af fegurð og skapfestu, er drepin í hefndaræði múgsins, eftir að aðdáandi hennar, sonur mikilsháttar manns, stekkur í sjóinn af sorg, þegar hún býður Basil ást sína. Umhverfið er heimska múgsins og fátæktin og draumarnir um stórkostlegar framkvæmdir. Og í leiðinni fær kaþólska kirkjan smásneið, þegar Zorba stríðir munkunum í kirkjunni á hæðinni og skemmtir þeim um leið með því að breyta vatni þeirra í vín. Töfrandi saga, fléttuð saman með húmor og innsæi í manneskjuna og samfélagið. Og á einhvern magnaðan hátt skilur myndin áhorfandann eftir með þau skilaboð, að það sé eitthvað ósagt. Dans þeirra Zorba og Basil er ekki endirinn. Þar er lífskraftur þeirra að fá útrás. Það er óður til mennskunnar með sínum tilfinningum og gleði og sorgum. Báðar ástkonurnar eru farnar. Annar gerði skildu sína, hinn brást. En dansinn er til merkis um að næst er Basil betur undir lífið búinn. Fólkið birtist í sinni nöktu fáfræði og græðgi en það er ekki niðurlægt. Jafnvel faðirinn sem drap saklausa ekkjuna hefur einhverja reisn. Hann hefndi sonar síns, samkvæmt reglum samfélagsins.

ÞJ 15. nóv 2010

Til bakaGríptu mig ef þú getur

Catch Me if You Can
2002 - Steven Spielberg

Þessi mynd er athyglisverð vegna aðalpersónunnar. Ávísanafalsarinn Frank (Capricio) dvelur lengst fyrir framan myndavélina, en FBI löggan Carl Hanraty ( Hanks) er aðalpersónan. Það helgast af því að Frank er ekki dramatísk persóna. Frank lærir að falsa ávísanir fyrst í litlu síðan í stórum fjárhæðum. Reyndar verður hann ástfanginn af stúlku og/eða hugmyndinni um að stofna fjölskydu og/eða verða hluti af fjölskyldu. En hann lætur stúlkuna flakka, eftir að hún svíkur hann á flugvellinum og er hún þar með úr sögunni. Sorg Frank er ekki í frásögur færð og hann heldur áfram á svikabrautinni. Þarna fyrst í kaflanum með stelpunni og fjölskylduföðurnum (Martin Sheen) koma tilfinningar og langanirnar í spilið hjá Frank, en gufa upp aftur. Frank er semsagt fyrirbærið sem Carl þarf að finna og klófesta. Carl neglir hann loks í fæðingarþorpi móður hans í Frakklandi í gamalli prentsmiðju að falsa ávísanir. Svindlið er skemmtilegt og leikur og leikstjórn í góðu lagi, þannig að áhorfandinn skemmtir sér meðan Frank er að þroska sig á glæpabrautinni. Allt er þetta sveipað heilbrigðri sjálfsbjargarviðleitni, þannig að maður stendur með Frank alla leið. Og það gleður marga að stolið sé af bönkum, að minnsta kosti meðan þeir sleppa að hugsa um, hver borgar skaðann að lokum. Annars er þetta gamla upptuggan - ameríski draumurinn - einstaklingurinn sem verður bestur í einhverju og græðir á tá og fingri. Og ekki aðeins það: Frank er svo góður gæi og flinkur að Carl hjálpar honum eins og vini eftir að hafa klófest hann og kemur honum í “gott” fangelsi heima í Bandaríkjunum og nær honum síðan út úr fangelsinu til að vinna fyrir sig hjá FBI. Góðum tíma er varið í að réttlæta ferilinn með frásögn af fjölskyldu Frank með átakanlegum föður hans (Christopher Walken) og mömmu sem hleypur til einhvers ríkari, þegar pabbi fer á hausinn. Þetta er ótrúlegur samsetningur, og það skemmtilega er, að þetta er í grunninum byggt á raunverulegri persónu. En boðskapurinn er annað hvort: 1) Það er allt í lagi að brjóta lögin, ef maður gerir það fallega. 2) Maður getur verið svo góður í einhverju (sem af sérstökum ástæðum er bannað enda þjófnaður) að maður þurfi ekki einu sinni að taka út refsinguna. Þetta er skemmtileg hugmynd eða öllu heldur draumsýn, sem allir geta glaðst yfir og hlegið að. Það er gaman að fara illa með bankana og löggurnar. Og til að gera þetta léttara fyrir áhorfandann er snillingurinn Tom Hanks í hlutverki löggunnar og blandar saman þessu kalda lögguviðmóti og viðkvæmri manneskju.

Þetta er semsagt bull. Sá sem heldur öðru fram er sama fíflið og þeir sem Frank plataði. En það getur verið skemmtilegt að láta spila með sig.

ÞJ 12 nóv 2011

Til baka


Heimsmethafinn í vitanum

2009 - Jón Karl Helgason 

Yfirbragðið er minnisvarði um síðasta vitavörðinn. Er það portret? Nei, eiginlega ekki. Mikil áhersla er á að lýsa starfinu, í fyrsta lagi vinnunni við vitann, í öðru lagi veðurathugunarstörf og í þriðja lagi fuglamerkingar. Hvað er þetta þá? Fræðslumynd? Já. Myndin lýsir þessari þríþættu starfsemi sem fer fram þarna í vitanum og það er einn maður sem sér um það allt. 

Í heimildamyndum vill maður hafa aðalpersónu og drama. Þarna er ekki drama á ferðinni. Hins vegar er er augljós aðalpersóna í þeim skilningi að myndin fylgir einum manni í starfi hans. En það vantar ferð eða markmið eða spurningu, hvað vill aðalpersónan. Hann virðist einfaldlega vera í rútínunni allan tímann. 

Kvikmyndatakan er góð í þeim skilningi að þarna eru fallegar myndir úti og inni. Vitinn gefur tilefni til skemmtilegra mynda með skýjum á fullri ferð eða ljóskeilu að snúast í speglunum og ljósbroti. Þarna skapast skemmtileg stemning í nosturslegum myndum. Margir fallegir rammar. Tónlist er fyrir veðrahljóð. Það kemur vel út sem áhersla í fyrstu, en missir marks þegar það er ofnotað.

En um hvað er myndin? Menn eru að vinna afrek út um land af lítillæti. Við hlustum á vitavörðinn segja frá starfi sínu og þulur blessunarlega fjarri. Sjónvarpsleg viðtöl með veðurstofustjóra, vitamálastjóra og umhverfisstofu eða hvað það var út úr kú. Ég náði ekki mikilvægi kunnuglega goskaflans fyrir þennan mann, en arkífmyndir úr stríðinu voru hluti æsku hans. Í kafla um skólaferðir hans var farið yfir mörkin í sviðsettum hríðarkófsmyndum. Sá kafli útskýrði kannski að stjórnandinn var gerður að leikstjóra sem kemur spánskt fyrir sjónir í heimildamyndum eða fræðslumyndum. 

Gaman að sjá íslenskt fólk og umhverfi, en margar spurningar sitja eftir. Hvernig persóna var þessi maður? Hvað vildi hann? Hvers vegna valdi hann sér þessi störf? Hvers vegna var hann að merkja fugla. í hvaða samneyti var hann við aðra fyrir utan að afhenda gögn og banka á dyr. Að sumu leyti er því svarð. Maðurinn virtist einkar hófsamlegur í framgöngu og ekki líklegur til að troða sér fram fyrir aðra. En samt er einhver ófullnægja í endinum og sonur hans sem tekur við svarar ekki spurningunum sem vaka í lokin. 

Þarna er á ferðinni maður sem hefur unnið þjóð sinni gagn sennilega án þess að hafa verið beðinn um það né þakkað fyrir það. Það er út af fyrir sig merkilegt. Hann er einn af þeim mönnum, sem rækja störf sín af samviskusemi alla ævi og allt í einu tekur einhver eftir því að þeir hafa unnið þrekvirki og fært þekkinguna skref fram á við. Þetta er þörf kvikmynd og mikilvægt framlag til kvikmyndaflórunnar. Á þessum miðum eru verðug verkefni fyrir kvikmyndamenn. 

ÞJ 23. mars 2010 Hrútar

Grímur Hákonarson - 2015

Gummi fjárbóndi í afskekktri sveit rekst á dauða ær hinum megin við girðinguna þar sem bróðir hans, Kristinn, býr, en þeir hafa ekki talast við í 40 ár. Á hrútasýningunni í sveitinni eru þeir bræður efstir, Kiddi bróðir samt númer eitt. Gummi tekur eftir einkennum á hrút bróður síns sem reynast vera ryða. Ákveðið er að skera niður allt féð í dalnum. Gummi drepur féð og hreinsar út úr húsunum eins og til er ætlast en leynir hópi kinda í kjallaranum. Þegar upp um hann kemst verður Kiddi bróðir hinn kátasti með að kynið skuli ekki deyja út og gleymir öllum deilum. Þegar stefnir í að féð verði tekið með aðstoð lögreglu leggja þeir bræður út í vetrarhríð með hópinn upp í Hvannalindir. Í óveðri örmagnast Gummi og Kiddi reynir að hita hann með líkama sínum. Endirinn er vissulega uppgjör í sögunni um þá bræður, en klárar ekki alveg sögunni um kindurnar - eða hvað? Kindurnar hafa svo sannarlega fengið mestan tíma myndarinnar og spurning hvort mynd af hópnum í Hvannalindum án eigendanna hefði linað söknuð áhorfandans.

En skoðum málið betur. Aðalsagan snýst um mann sem reynir að bjarga Fljótshlíðarstofninum og geldur fyrir það með lífi sínu. Aðalpersónan í þeirri sögu er Gummi. Hliðarsagan er um bræður sem sættast fyrst eftir 40 ára deilu í átaki að bjarga Fljótshlíðarstofninum. Aðalpersónan í hliðarsögunni er Kiddi, sem kemur inn sem stjórnandi persóna eftir að hann uppgötvar að Gummi hefur falið kindurnar. Styrkur myndarinnar er að þessar tvær sögur eru einfaldar og skýrar og áhorfandinn á létt með að setja sig í spor Guðmundar bæði í kindasögunni og bræðrasögunni og Kidda í bræðrasögunni. Þær fléttast saman og tengjast fallega í lokin. Þessi smávandi að kindurnar séu skildar eftir og spurningunni um örlög þeirra ósvarað verður til vegna þess að innlifun áhorfandans er sterk eftir fínar senur með Gumma og kindunum, þar sem ást hans leynir sér ekki. Líka má spyrja, hvort hefði þurft endi á slagnum við yfirvaldið í kindamálinu og tilheyrandi uppgjör. En þá hefði hugmyndalegur grunnur myndarinnar færst á tæknilega deilu um hvort eigi að skera. Ég býst við að flestir séu sammála um að hin opinbera ákvörðun hafi verið rétt og nauðsynleg og þar af leiðandi hafi Gummi gert rangt. Málið er bara að honum þótti svo vænt um kindurnar sínar að hann gat ekki annað en óhlíðnast. Fyrst ekki er endað á uppgjöri á deilu um meðferð á sýktum ám fær myndin nýja vídd. Í staðinn fáum við lofgjörð um fallegt samband milli bónda og dýra, þar sem bóndanum þykir vænt um og er stoltur af kvikfénu. Og við getum borið það saman við sálarlausa verksmiðjuframleiðslu eins og allt stefnir í í dag. Semsagt sterkt undirliggjandi þema er samband mannsins við dýrin.

Listagóður leikur Sigurður Sigurjónssonar og Theodórs Júlíussonar gera myndina að hreinni perlu og leikmyndahönnun, hljóð og mynd er allt saman unnið af smekkvísi og nákvæmni og næmi leikstjórans ótrúleg fyrir fyrsta leikna verkefni. Þarna hefur Grímur Hákonarson fundið litlar einfaldar sögur sem hefja sig langt yfir hversdagslega umræðu. Ástæðan er sú að þær eru rótfastar í raunveruleikanum. Ég mundi vilja þakka reynslu hans í heimildamyndum fyrir amk hluta þessa góða árangurs.

ÞJ 14. sept 2015

Til baka

Ikiru


1952 - Akira Kurosava

Sumir halda að Ikiru sé um skrifræði. Hún gerist í umhverfi þar sem skrifræði ríkir. Ef skrifræði væri aðalþemað, væri stóra spurningin hjá Vatanabe tengd skrifræðinu. En stóra spurningin hjá Vatanabe er önnur.

Vatanabe er ekkill. Hann á einn son, sem hefur verið sólargeislinn í lífi hans. Vatanabe hefur hitað stólinn á skrifstofu almannatengsla á bæjarskrifstofunni og gætt þess að gera helst ekki neitt. Borgararnir hafa komið með erindi sín, og hann ásamt samstarfsmönnum hafa vísað erindunum á aðrar deildir. Konur úr hverfinu koma og kvarta yfir drullupytti, sem væri hægt að breyta í leikvöll. Í lok 1. þáttar fær Vatanabe þær fréttir, að hann sé með magakrabba og eigi 6 mánuði eftir ólifaða.

Nú ætti aðalpersónan, Vatanabe, að taka einhverja stefnu og átökin að hefjast. En vandinn er, að Vatanabe veit ekki, hvað hann á að gera. Honum tekst ekki einu sinni að segja syni sínum frá vandanum. Í staðinn fyrir venjubundna byrjun 2. þáttar fáum við tvo innskotskafla, sem leggja fram spurninguna - hvað á Vatanabe að gera? Í fyrri kaflanum prófar höfundur aðra kenninguna - að skemmta sér. Vid förum með Vatanabe gegnum heim skemmtanalífsins. Svarið er neikvætt. Ekki það. Kenningin í seinni innskotskaflanum er: Samband við annan einstakling, væntumþykja eða ást. Sonurinn, sem honum þótti svo vænt um og var sólin í lífi hans, er kominn eitthvað annað. Ævisparnaður hans eru það eina sem sonurinn hugsar um. Hann grípur í haldreipi - stúlkuna af skrifstofunni, sem er svo hrein og bein og segir sannleikqnn á meðan aðrir þora ekki að tala upphátt. Hann nýtur samvistanna við hana, þó tilfinningar hans kveiki ekki nema þreytu hjá henni. Hann kaupir hana til að koma með sér á veitingahús, í skemmtigarða og bíó. En spurningunni er enn ósvarað? Hvað gefur raunverulega lífshamingju? Stúlkan kemur með svarið. Hún hætti á skrifstofunni vegna þess að vinnan var tilgangslaus. Nú vinnur hún við að búa til leikföng. Þau gleðja börnin. Hann getur líka gert eitthvað. Það rennur upp fyrir honum ljós. Á skrifstofunni hefur hann ekki gert annað en að láta pappírsstaflana hrúgast upp.

Vatanabe ákveður að mæta í vinnuna eftir að hafa verið fjarverandi í nokkra daga og afgreiða eitt mál, leikvöllinn. Hann veit hvað hann á að gera og 2. þáttur getur hafist. En sá þáttur kemur ekki strax. Við dettum inn í byrjun 3. þáttar, uppgjörið. Það er erfidrykkjan, þar sem aðstoðarborgarstjórinn, eignar sér heiðurinn af leikvellinum. Eftir að hann er farinn, taka hinir óbreyttu að ræða málið. Varð ekki breyting á Vatanabe fyrir 5 mánuðum. Gat verið að hann hafi vitað um krabbameinið? Gestirnir, starfsmenn skrifstofunnar og lögreglan og konurnar, fylla upp í eyðurnar (2. þáttur) með frásögnum af því hvernig fárveikur maðurinn kom þessum leikvelli á koppinn með þrautseigju og æðruleysi. Hann bauð öllum byrginn, gafst aldrei upp. Og svo var hann látinn sitja einhverstaðar á bak við þegar völlurinn var vígður. Gestirnir drekka sake og verða tilfinningasamir. Þeir ætla að taka Vatanabe sér til fyrirmyndar. Þeir ætla að láta hendur standa fram úr ermum.

Uppgjörið endar hjá starfsmönnum skrifstofunnar. Erindi kemur inn og því er vísað áfram í aðra deild. Þeir líta hver á annann. Eitthvað hefur breyst - eða hvað? Niðurstaðan botnar umfjöllunarefnið - í hverju er gott líf fólgið? Og Kurosava hefur sett fram kenningu.


ÞJ 13. Okt 2011

Il Conformista (Tækifærissinninn)1970 - Bernardo Bertolucci

Ítalski fasistinn Marcello (Jean-Louis Trintignant) efnir til kynna við fyrrum kennara sinn, sem býr í útlegð í París. Hann hrífst af gullfallegri konu hans en það hindrar hann ekki í að skipuleggja morð á þeim báðum. Þegar Il Duce fellur, heldur hann út á götu til að klína morðinu á saklausan vegfaranda, snúa baki við blindum fasistafélaga sínum og hrópa slagorð eins og hann hafi skipt um skoðun.
Fráhrindandi saga og köld en með dýrlegum augnakonfektum, tökustöðum (Nedo Azzini) og kvikmyndatöku (Vittorio Storaro), en tekur áhorfandann, ekki gegnum samlíðan með aðalpersónunni, sem er fúlmenni, heldur vegna þess hve hann er svalur þó hann sé andhetja og hve líf hans virðist fullt af dásemdum og glæsileika. Kannski má kalla hann flottræfil í örlítið beyttri merkingu. Hugsanir eiginkonunnar snúast um svefnherbergið og verslanir. Prófessorinn hefur hirð lærisveina og fjölritunarvél sem eiginkonan snýr. Annars kynnumst við honum lítið. Eiginkonan, Anna (Dominique Sanda) er stærra hlutverk. Hún kennir ballet og hefur stundað vændi (skv Marcello), sem hún mótmælir ekki. Hún veit að hann starfar hjá leynilögreglu Mussolinis, sem vill mann hennar feigan, en það hindrar hana ekki í að svara „sjarmeringum“ hans. Hið undarlegasta samspil, en það virkar samt, og hennar vegna finnur maður til samlíðunar í morðsenunni, sem er teygð út í óþægilega myndasyrpu í svissneskum skógi.
Eftirtektarvert er að í atriðinu þar sem aðalpersónan Marcello er í mestum vanda, þeas ef hann er hrifinn af Önnu, er samúðin með aukapersónunni. Myndin var áhrifarík á sínum tíma og fékk góðar viðtökur hjá okkur nemendum í FAMU í Prag 1970. Við þekktum svona menn í kommúnistaflokknum þar. Og þó dramatíkin sé veik geymir myndin töfra.

24. jan 2016

listi


Innherjinn


The Insider
1999 - Michael Mann 

Í Innherjanum höfum við spillingu, sem allir vita um, en ekki er talað um. Og það er kannski ekki nóg að einhver óbreyttur segi frá. Nógu hátt settur maður verður að gera það. Hrunskýrsla Alþingis hefði dugað. Sannleikurinn verður að koma úr innsta hring. 

Tóbak er vanabindandi og spillir heilsunni. Tóbaksfyrirtækin vinna að því að auka vanabindinguna án tillits til heilsu neytenda. Jeffrey (Russel Crowe) er nýhættur sem yfirmaður hjá einu stærsta tóbaksfyrirtæki heims. Hann hafði þetta hlutverk. 

Sjónvarpsmaðurinn Lowell (Al Pacino) er hugsjónamaður í fréttabransanum og er aðalpersónan í sögunni. Sagan er um trúnað. Jeffrey hefur gert trúnaðarsamning, sem hann ætlar að halda. Hann ætlar ekki að tala um það sem hann hefur komist að í starfinu. 

Nú hefur stjórnin áhyggjur af því að hann muni samt sem áður gera það, og þrýstir á hann að skrifa upp á meira, skilgreina nákvæmlega allt sem hann má ekki tala um. Þá gerir hann uppreisn. Lowell hefur fundið lyktina af þessu máli og bíður. Jeffrey virðist vera með vandann. Á hann að segja frá eða þegja. Það er margt í húfi meðal annars fjölskylda hans. 

Lowell leggur kapp á trúnað við heimildamenn. Hann gefur þá ekki upp og hann skilur þá ekki eftir í kuldanum. Jafnvel ekki þó sjónvarpsstöðin hans sé í húfi. Hann er trúr sínum hugsjónum og sínum reglum og gefur engan afslátt. 

Sagan er lögfrðiþras frá byrjun til enda. Atburðarásin er að mestu í fundum og símtölum. Lowell tjáir sína afstöðu alla myndina, aftur og aftur. Hann svíkur ekki sína heimildamenn. Hann stendur við það sem hann segir. Hann vill fram með sannleikann, hvað sem það kostar. Hann stendur uppi í hárinu á hverjum sem er. Hann er ekki til sölu. Hann ver sitt sjónarmið fyrir bestu vinum sínum. Hann berst og gefst aldrei upp. 

Mestu vandræðin (lowest point) í sögunni er þegar stöðin gefst upp fyrir lögmönnum tóbaksrisanna. Lowell hættir hjá stöðinni. Samt er hann sigurvegari. Stöðinn hefur brugðist, ekki hann. Eiginkonan segir, þú hefur sigrað. Áhorfandinn er ánægður. 

ÞJ Irrational Man (Maður án skynsemi)
2015 - Woody Allen

Jill (Emma Stone) hrífst af nýja heimspekikennaranum Abe, (Joaquin Phoenix) sem finnsst námsefni sitt sjálfsfróun með orðum og lífið drepleiðinlegt. Þau Abe heyra á veitingastað frásögn ókunnrar konu. Illa innrættur dómari er að eyðileggja líf hennar. Abe er fullur hluttekningar, og hans er freistað að losa heiminn við þennan vonda einstakling. Jill stendur frammi fyrir vanda, þegar hún kemst að því að Abe hefur framkvæmt ætlun sína. Og þegar saklaus maður á að sitja inni fyrir morðið, krefst hún þess að Abe gefi sig fram. Abe hefur aftur á móti fengið lífslöngunina og reynir að drepa Jill.

Þarna er á ferðinni svartur húmor – heimspekingur gerir tilraun til að útfæra í veruleikanum glæp, sem er jafn fráleitur fræðilega sem praktískt og væri aðeins hægt að eigna siðlausum manni.

Jill er aðalpersónan og í því skapast strax ójafnvægi vegna þess að Abe er drifkraftur sögunnar og kemur með allt fóðrið. Verkefni Jill er að vera siðferðilegt auga áhorfandans, þó hún fylgi Abe óþægilega langt í akademískri ástarvímu. Það er ekki fyrr en Abe ætlar að hrinda henni niður lyftuop, að töfrarnir falla. Samúðin með Abe dofnar miklu fyrr hjá gagnrýnum áhorfanda, sem veltir fyrir sér ástæðum þess að Abe breytist úr þreyttum útbrenndum prófessor í hressan og líflegan elskhuga og unnanda lífsins við að drepa mann. Svo ekki nú sé minnst á hvernig fræðimaður í heimspeki á að geta drepið mann í nafni réttlætis til að bæta heiminn. Tilvitnanir í Heidegger og Sartre duga skammt til þess. Til þess hefði þurft að gefa sér að hann væri siðlaus og hefði gleymt öllum sínum frðum og til viðbótar vísdómi kynslóðanna. Það reynist sama áhorfanda líka erfitt að sporðrenna því að tilfinningar Abe til Jill (eftir það sem á undan er gengið) risti ekki dýpra en svo að hann fórni henni hugsunarlaust fyrir lífið utan múranna.

Spurning Jill í lok 2 þáttar er þessi, er Abe sekur? Hann reynist sekur, ergo hann er ekki ástar hennar verður. Frá bæjardyrum Abe gæti spurningin verið tilvist, hver er maðurinn eða eitthvað þess háttar, en við þeirri spurningu fást held ég engin svör í myndinni. Eftir situr spurningin um réttlæti. Saga hans er bein lína út af sporinu og ekkert uppgjör. Og hann stendur ekki frammi fyrir neinum vanda í uppgjöri. Hann kemur inn í líf Jill og hagar sér eins og maður út úr heiminum. Umfjöllunarefnið er á einhvern hátt réttlætið, þó það sé illa tengt inn í söguna. Og hvað segir þessi mynd um réttlætið? Ég held það sé ekki mikið. Þessi brandari um heimspeking, sem er freistað að fremja fullkominn glæp í góðu skyni og sleppa, hann virðist því miður ekki standast skoðun.

Woody Allen er óstöðvandi með eina mynd á ári á níræðisaldri. Röðin lengist, en maður saknar mynda af kaliberi Annie Hall, Interiors og Zelig sem standa upp úr.

ÞJ 3 feb 2016

Jóhannes2009 Þorsteinn Gunnar Bjarnason

Fullorðinn karlmaður, Jóhannes (Laddi), hjálpar ungri stúlku, Þóru, með bilaðan bíl. Stúlkan þyggur far til Reykjavíkur og býður honum inn og lætur hann þurrka fötin og fara í bað. Á baðinu upplifir hann spennu og löngun til stúlkunnar. Risið kemur flatt upp á hann og veldur honum miklu hugarangri þarna í einverunni. Þá hringir kærastinn. Hann er kynntur eins og gaur sem er þriggja manna maki og mikið rustamenni. Þóra verður skelfingu lostin og hendir Jóhannesi út alsberum með fötin í faginu. Fullorðinni konu í næstu íbúð tekst að koma auga á lilla og kærir Jóhannes sem pervert. Eiginkonan reiðist. Hvar hefurðu verið, Jóhannes? Nemandi hans kemur honum í klípu hjá skólastjóranum. Kærastinn eltir hann og Jóhannes er kominn á sannkallaðan mega-flótta. Bjargvættur hans á porsinum, Friðrik, reynist eitursali, sem lögreglan er á eftir. Viðureignin við kærastann, þar sem við sögu koma auk Jóhannesar, eiginkonan og Friðrik, startar víkingasveitinni. Í fangelsinu skýrist málið, Jóhannesi er sleppt og hann og konan njóta lífsins í sumarbústaðnum, hann hress og gefandi vegna þess að Þóra hefur vakið hann til lífsins. Niðurstaðan: Þóra hefur óviljandi endurnýjað dauflegt hjónaband Jóhannesar.

Þetta er kannski ekki mjög frumlegur þráður, en dugar samt til að halda uppi skemmtilegri spennu og þægilegu gríni þangað til komið er að endininum - 3. þætti. Ef þetta á að vera endir á sögunni um dauflegt hjónaband Jóhannesar og Signýjar (?), vantar 1 og 2 þátt. Og lokaatriðið er ekki uppgjör heldur niðurstaða á klisjubrandara. Eltingaleikurinn hefði verið ákjósanlegt uppfylliefni í söguna sem er fjarverandi. Umfjöllunin er engin, ef undan er skilin brandarinn með tengdó á ferðalagi í Danmörku ásamt vinkonum sínum og setningar sem hún lætur falla um tengdasoninn. Efnið um aðalpersónu myndarinnar og þennan grínvanda hans er aðeins tveir litlir molar - löngun hans til að verða listamaður og niðurlæging hans sem kennara. Þetta birtist eiginlega eins og aukaefni, sem er ok í gamanmynd. Gallinn er bara sá, að það vantar meira. Og andstæðingurinn (antagonistinn), Signý, er algerlega í myrkri. Fyrir nú utan það, að ekki er sjáanleg nein deila milli þeirra. Þau eru í sama liði. Sem væri ok, ef þetta væri ástarsaga og þau tvö berðust við sameiginlegt verkefni - að sigrast á próbleminu í sambandinu. 

Efni 1 þáttar er mjög takmarkað með þeim afleiðingum að við höfum ekki kynnst Jóhannesi að neinu marki, þegar misskilnings-sagan fer í gang. Til þess að búa til nothæftan 2. þátt hefði þurft meira efni um þau hjónin og heimilishagi þeirra og grínvandamál. Og til þess að fá endi hefði þurft nothæfan 3. þátt (endi) með einhverskonar uppgjöri þeirra hjóna. Eina uppgjörið er milli lögreglunnar og Jóhannesar, en deilan var ekki milli þeirra. Raunverulegi vandinn var heldur ekki sá, að Jóhannes væri pervert eða ofbeldismaður eða á flótta undan lögunum. Þarna eru góðir sprettir í umbúðum en söguna og innihaldið vantar.

Að leiklistin sé ekki 100% kemur ekki að sök. Þarna er einmitt gott dæmi um, að þegar senurnar eru vel skrifaðar gleymir maður næstum alveg smáatriðum eins og leik eða töku eða leikstjórn. Þarna eru margar góðar senur, sem hefðu verið helmingi betri, ef sorgarsagan (dramað) hefði flotið með. Leiknar myndir eru skrifaðar. Þarna er dæmi um það að farið er af stað með óklárað handrit. Nauðsynlegir þættir eru ekki til staðar. Hver einasti leikstjóri eða handritsskrifari hefði getað séð þetta við yfirlestur. Leikna kvikmyndaformið er harður húsbóndi - gamanmyndin ekki síður en sorgarsagan, því um hana gilda öll sömu lögmál.
ÞJ 6 ágúst 2011

Til baka


Jón og séra Jón


2011 - Steinþór Birgisson

Séra Jón Ísleifsson býr í Árnesi og þjónar litlum söfnuði í óþökk safnaðarlima. Sagan er sögð eingöngu frá bæjardyrum Jóns, en andstæðingarnir eru fjarri, nema prófasturinn kemur á einhverskonr dómþing til að taka út staðinn. Jón talar alla myndina mest utan myndar en líka í mynd og klippt milli guðþjónustu, kindahalds, æðarbúskapar og undarlegra viðgerða á tækjum. Öðru hverju heyrast lesnar frásagnir af Jóni sem teknar eru af netinu. 

Þetta er einföld mynd, eins konar portret á þessum tíma þegar söfnuðurinn er að flæma Jón í burtu. Myndin þykist ekki vera annað og meira en hún er. En tilfinningin eftir 90 mínútur er að það hefði verið gaman að sjá meira kjöt. Ekki samt einfalt að segja, hvað það hefdi átt að vera. Fjarvera safnaðarins er vandræðaleg og mörgum spurningum ósvarað um hann. Hvað gerði Jón rangt? Myndin lýsir falslausum ófullkomnum manni, sem fljótt á litið ætti að vera upplagður sálusorgari. Hver var meginvandinn, sem sagan fjallaði um? Var séra Jón ekki nógu flottur eða var það deilan um eyjuna, sem gaf af sér meiri tekjur en afgangurinn af landbúnaðinum í sveitinni? Heimildamyndin þarf ekki að sýna allt eða svara öllum spurngum, en hér er það galli sennilega vegna þess, að maður fær á tilfinninguna að ekki sé öll sagan sögð. Baráttan við söfnuðinn byrjar strax sem einhverskonar innri bárátta aðalpersónunnar - að sætta sig við aðstædur sem hann er kominn í vegna eign galla, sem hann af óskýrðum ástæðum getur ekki bætt úr. Það er ekki á hreinu hvað ræður framkvæmdaleysi hans, meðfæddir eiginleikar eða viljaleysi. Hann hefur krækt í „feitt" embætti og „góðan" stað og getur ekki hugsað sér að hverfa þaðan, en söfnuðurinn vill losna við hann.

En smávægilegar aðfinnslur falla í skuggan hjá stórum kosti. Myndin skartar aðalpersónu, sem áhorfandinn hefur samúð með - persónu sem stendur frammi fyrir raunverulegum vanda.

ÞJ 12 nóv. 2011


Korriró2011 - Björn Hlynur Haraldsson

Meðal stuttmynda ársins 2011 er perla. Í Korrirí er dregin upp mynd af ógæfusamri konu, sem hefur lent utan garðs - góðkunningi lögreglunnar, heimilislaus, í stöðugri leit að brennivíni eða dópi. Við kynnumst henni í fangaklefa, í skýrslutöku og á útibekk, þar sem hún á samræðu við kunningja yfir nokkrum sopum af áfengi. Í þessum senum kemur allt fram sem við þurfum að vita í 1. þætti til að fá samúð með konunni. Hún er útskúfuð úr mannlegu samfélagi og eina gleðin sem hún getur búist við að fá í lífinu er sopi af brennivíni á bekknum hjá góðum félaga. Á rangli sínu um bæinn tekur hún eftir að ríkt fólk er að rjúka að heiman. Hún reynir að kalla til þeirra. Þau gleymdu að loka bílskúrshurðinni. 2. þáttur hefst við hurðina, þar sem freistingin að kanna þessa dýrð hefur sigur yfir góðum venjum borgaranna. Konan ferðast í gegnum þetta himnaríki og nýtur þeirra gæða, sem þar eru daglegt brauð, matar, drykkjar, og tískuvara. Hún er að notfæra sér frið og sælu svefnherbergisins, þegar húsráðendur koma heim. Fullnægjandi 3. þáttur er svo tískuskórnir fyrir utan klefa hennar í fangelsinu.

Þessi mynd stendur upp úr langri röð stuttmynda undanfarinna ára með vandaðri myndrænni frásögn, þar sem mikilvæg saga manneskju fær að njóta sín í meðförum frábærrar leikkonu (Nína Dögg Filipusdóttir). Myndirnar lifa og innihaldið skilar sér til áhorfandans. Þarna er yfirborðsfallega samfélagið okkar tekið í bólinu með kröftugri hljóðri ræðu utan garðs.
ÞJ 25 feb 2012

Til bakaKórinn

Les choristes
2004 - Christophe Barratier 
Hvað er mikilvægast? Sagan, efnið eða meiningin? 
Kórinn vekur til umhugsunar um þetta. Sagan er um þreyttan tónlistarmann, Clement, sem tekur að sér umsjónakenarastarf í skóla fyrir vandræðapilta. Skólastjórinn, Rachin, hefur beitt frumstæðum og óréttlátum aðferðum sem gera þá ennþá forhertari. Clement reynir að beita sanngirni og kveikja á manneskjulegum eiginleikum hjá nemendunum. Starf hans virðist vonlítið og enginn hefur trú á því að hann ráði við piltana. Hann ákveður að gera tilraun og láta þá syngja. Um leið og drengirnir fá verkefni fyllast þeir áhuga. Þeir leggja sig fram og kennarinn skrifar dásamlega tónlist fyrir þennan magnaða kór. Einn drengurinn, Pierre, sem hann hefur átt í sérstökum erfiðleikum með reynist hafa einstæða sönghæfileika. Skólanum er sendur nemandi sem er jafnvel ennþá verri en þeir verstu sem fyrir eru. Kennaranum tekst ekki að tjónka neitt við hann, og skólastjórinn til að bæta gráu ofan á svart kennir þessum erfiða nemanda um þjófnað, sem hann er saklaus af. Honum er refsað með einangrun og brottrekstri. Skólastjórinn er allan tímann á móti kórnum, en sér sér leik á borði að vaxa í augum ríkrar konu, velunnara skólans, með því að eigna sér hugmyndina. Meðan skólastjórinn er í veislu með ríku konunni fer umsjónakennarinn með strákana í skógarferð og sá vondi kveikir í skólanum. Skólastjórinn rekur umsjónarkennarann og leysir kórinn upp. 
Drengirnir halda áfram að syngja sjálfir. Litli drengurinn, Pepinot, sem bjóst alltaf við foreldrum sínum heldur áfram að bíða. Umsjónarkennarinn tekur hann að sér. 
Pepinot, sem fullorðinn maður, heimsækir söngvarann í byrjun myndarinnar, Pierre. Umsjónarkennarinn er dauður og Pepinot er með dagbók hans úr skólanum, sem hann vildi að Pierre eignaðist, en hann hefur orðið hátt skrifaður tónlistarmaður á heimsmælikvarða. 
Réttlætið er efni myndarinnar og saga kennarans varpar ljósi á það. Tónlistin er aukaplott. Kennarinn er aðalpersónan. Áhorfandinn fylgist spenntur með, hvort honum takist að hafa góð áhrif á einstaklingana í hópi nemenda. Hvernig óréttlætið, sem skólastjórinn stendur fyrir í knýjandi löngn sinni eftir viðurkenningu, leiðir af sér uppreisn og hörmungar fyrir alla. Í einni setningu er meiningin eða boðskapur myndarinnar: Óréttlæti leiðir af sér hörmungar. 
Svarið er, sagan, efnið og meiningin er allt saman jafnmikilvægt og verður ekki aðskilið. Miningin verður ekki ljós, nema efninu sé gerð fullnægjandi skil. Niðurstaðan af (meiningin í) sögu aðalpersónunnar er alltaf það sem eftir stendur í huga áhorfandans. Meiningin er ávöxturinn.

ÞJ 7 Janúar 2011

Til baka


Leyndarmál og lygar


(Secrets and lies)

1996 - Mike Leigh

Hortensa þarf að vita hverjir séu foreldar hennar. Sú þörf knýr söguna áfram og því er eðlilegt að líta á Hortensa sem aðalpersónu. Hún er svört og er í góðu starfi og í góðu sambandi við annað fólk. Hana skortir ekkert nema hún hefur misst báða foreldra sína, sem sögðu henni, þegar hún var barn, að hún væri ættleidd. Í nýjum aðstæðum kviknar þessi löngun að vita um uppruna sinn. Svo vill til að lögum hefur nýlega verið breytt, og hún á rétt á því að fá upplýsingar um nöfn kynforeldra sinna.


Ferlinum við að fá upplýsingarnar er lýst í smáatriðum, og Hortensa mannar sig upp í að hringja í móður sína, Sinþíu, og hittir hana á stefnumóti. Sinþía er hvít og af verkamannastétt og ólíklegasta manneskja til að vera móðirin. Sinþía afneitar Hortensu umsvifalaust og bannar henni að hafa samband við sig. Áhorfandanum á óvart (eftir þessi fyrstu viðbrögð) fer hún þó fljótlega að sækjast eftir kynnum við Hortensu. Henni fer að þykja vænt um hana og hún tekur hana inn í líf sitt og heim fjölskyldunanr, sem hefur verið lítill lygavefur gegnum árin.

Líf Sinþíu hefur fram að þessu snúist um að koma í veg fyrir að dóttir hennar Roxanne lendi í því sama og hún - ótímabærum barneignum. Við komu Hortensu í afmæli Roxanne, sem haldið er hjá bróður Sinþíu, ljósmyndaranum Maurice, og óaðfinnanlegri eiginkonu hans, verður eins konar hreinsun í fjölskyldunni. Álögin falla og vefurinn gufar upp og öllum á óvart er hægt að lifa án lyginnar og viðurkenna hvernig allt er í pottinn búið.

Mike Leigh notar spuna í handritsvinnunni. Leikararnir eiga stóran þátt í sköpun persónanna strax á handritsstiginu og Mike Leigh vinnur úr því efni og persónurnar verða safamiklar og trúverðugar. Aukapersónum fylgir átakanleg ævisaga í orðum og gerðum. Og leikurinn er hlaðinn viðbótarorku af því að leikarinn á stóran þátt í að skapa persónurnar og sögu þeirra. Þarna hefur Mike Leigh tekist að þróa skapandi spuna í áhrifamikið verkfæri. Saga Maurice, sem er í rauninni aukapersóna, er dásamlega löng og nákvæm, en hann er eins konar höfuð fjölskyldunnar, og við sjáum Sinþíu eiginlega frá hans sjónhorni. Hann leggur sig fram og hann hefur efnast að mestu fyrir eigin tilverknað. Eina sem skyggir á er að þau hjónin geta ekki eignast barn í sitt fullkomna hús ólíkt hinni frjósömu en peningalitlu Sinþíu. Óborganlegur er gamli ljósmyndarinn, sem Maurice keypti vinnustofuna af og kemur í heimsókn eftir að hafa gefist upp sem ljósmyndari og verið fyllibitta, en reynir að byggja undir stolt sitt sem ljósmyndari þrátt fyrir allt.

Þrátt fyrir vandaðar persónur og myndkafla er veikleiki í byggingu myndarinnar. Hortensa kemur inn með þörfina að fá sannleikann (um kynforeldrana) upp á yfirborðið. Hjá henni er það mikilvægt mál en ekki knýjandi nauðsyn. Líf hennar hefði haldið áfram á svipuðum nótum án þessara upplýsinga. Uppljóstrun hennar veldur hins vegar stórum skjálfta í lífi Sinþíu. Hún er ekki í miklu jafnvægi fyrir, en ástandi hennar eftir áfallið verður ekki lýst nema sem taugaáfalli, og baráttan við að leysa úr vandanum er hennar. Hortensa á ekki í neinni sérstakri baráttu, hvorki við sjálfa sig eða aðra. Þannig séð er hún óspennandi aðalpersóna. Hún er vel gerð manneskja og tekur á málum af yfirvegun og skynsemi og það myndast engin spenna, hvort henni takist eitthvað eða ekki. Í rauninni vitum við ekki nákvæmlega hvað hún vill. Sinþía aftur á móti lendir í því að fá upplýsingar sem breyta lífi hennar. Viðbrögð hennar eru harkaleg í fyrstu en síðan gerist eitthvað í henni, tvenns konar tilfinningar brjótast fram - þörf fyrir félagsskap og móðurtilfinning. Hún tekur dóttur sína Hortensu inn í líf sitt, fyrst sem vinkonu og síðar væntanlega sem alvöru dóttur. Allt er þetta skemmtilegt en í því er lítil eða engin dramatísk spenna. Þegar Sinþía fer að velta upp steinum í sambandi við lygina og fortíðina kemur það áhorfandanum jafn mikið á óvart og persónunum í kringum hana. Frá bæjardyrum Sinþíu er þetta nauðsynlegt til þess að hún geti notið félagsskapar Hortensu. Á þessu stigi er það einmanakennd Sinþíu sem er drifkrafturinn. Hún setur af stað ferlið sem leiðir til uppgjörs og niðurstöðu - frelsi undan lyginni. Sinþía er leiksoppur þangað til í lokin, þar sem hún er orðin virk í því að fá allt upp á borðið. Hlutverki aðalpersónunnar er eiginlega skipt á milli Hortensu og Sinþíu. Sinþía er með endasprettinn. Þetta minnir á hvernig þáttunum 3 er skipt í Enn eitt ár.

Svo má velta fyrir sér, hvort fjarvera dramatískrar spennu sé galli eða ekki í þessari mynd. Þessum dramatíska veikleika fylgja kostir. Brothætt grind dregur úr áhrifamætti frásagnarinnar en bætir við trúverðugleikann. Sagan og persónurnar eru kannski á vissan hátt nær áhorfandanum. Einhverjir myndu tengja þetta við heimildamyndastíl, þ.e. að myndin líkist heimildamynd. En það er eingöngu vegna þess að heimildamyndir hafa eðli sínu samkvæmt lausari dramatíska byggingu en leiknar. En það sem einkennir heimildamyndir fyrst og fremst er það, að enginn er að leika annað en sjálfan sig. Hér er leiklistin hins vegar í aðalhlutverki.

Þetta er frábær saga unnin af smekkvísi og trúverðugleika út í minnstu smáatriði sem öll skipta máli í fallegum vef um líf alþýðufólks í London í dag. Áhorfandinn finnur næstum því á eigin skinni hvernig lygin verður til og viðgengst til þess að raska ekki ró fjölskyldunnar, kannski af tilllitsemi við hina. Meðan ekki er talað út er sannleikurinn eins og steinbarn. Sárindi og reiði og óhamingja fá að krauma, en eiga sér þegar á allt er litið enga réttlætingu.

ÞJ 19. september 2011

Til baka


Mamma Gógó


2010 - Friðrik Þór Friðriksson 

Þarna er aðalpersónuvandi. Ef Gógó er aðalpersónan, er Friðrik of fyrirferðamikill. Kvikmyndaframi hans og fjármál koma alsheimer sjúkdómi mömmu ekki beint við. Nema samband þeirra, blind trú hennar á honum og dugnaður hans við að leita hana uppi og bjarga henni úr vandræðum. Það er skemmtilegt. En “saga” hans skyggir á “sögu” hennar. Gæsalappirnar vegna þess að hvorugri sögunni er fulllokið. Gógó deyr allt í einu og Friðrik gleymist eftir að hafa frétt af því að hann missti af vinning á hlutabréfamarkaðnum. Hvorutveggja út af fyrir sig góð atriði, sérstaklega dauði Gógóar á gröf eiginmannsins sáluga, sem er allstaðar nálægur í draumum hennar. Gógó 'við gröfina verður að lokakafla myndarinnar án þess að vera uppgjör í hennar sögu. Enn meira vantar á sögu Friðriks, sem endar á þessum brandara úr kauphallarbraskinu. Í sambandi Gógóar við afturgönguna er brugðið á leik með því að blanda saman ímyndun og veruleika, sem tekst vel. Persónan Gógó er skemmtileg og frábærlega leikin af Kristbjörgu Kjeld og samklipping með efni úr “79 af stöðinni” er sannfærandi, allavega fyrir þann sem þekkir myndina, en spurning hvernig þetta orkar á áhorfanda sem þekkir ekki samhengið. Kannski vel. 

Hvert er vandamál Gógóar? Hún verður veik og deyr. Við því getur hún ekkert gert. Í þeirri baráttu verða engir sigrar eða ósigrar, baráttan er einhvers konar leið niður brekku, og óvinurinn er óáþreifanlegur eins og örlögin. Hann flokkast eiginlega undir umhverfi eða aðstæður, sem persónan lifir í. Þess vegna er erfitt að búa til drama. 

Samt tekst að skapa tilfinningu í lokaatriðinu, þar sem Gógó deyr á gröf eiginmanns síns. Ástæðan er sú, að manni er farið að þykja vænt um hana sem persónu og maður finnur til með henni. 

Frásögnin er frá sjónarhóli sonarins og því ekki lokið vegna þess að spurningin er vakandi, hvað gerir Friðrik, hvernig verður honum við, hvað hefði verið hægt að gera osfrv. Uppgjörið vantar. Ef vinkillinn hefði verið frá Gógó og sagan í myndinni saga hennar með forsendum, baráttu og uppgjöri, væri endirinn út af fyrir sig eðlilegur. Uppgjörið hefði átt að vera komið á undan. En uppgjörið vantar að undanskildu fallegu atriði, þar sem Friðrik þakkar mömmu sinni með tárin í augunum og hún svarar, í hvaða leikriti erum við að leika? Ég er ekki að biðja um lítið, að gera andlega veika persónu að aðalpersónu, en það er bygging myndarinnar sem krefst þess. Og þar af leiðandi skyggir saga Friðriks á sögu Gógó. Gógó ætti að vera aðalpersónan, en fær ekki að vera það, nema í lokin. En einmitt þar, er kannski fyrst þörf á því að aukapersónan Friðrik taki við hlutverki hennar og ljúki myndinni. 

Lýsingin á Friðrik er út af fyrir sig í lagi. Maður skilur persónuna á vissan hátt og vill vita hvað verður um hann. Reyndar má finna að því að hann virðist ekki hafa vilja til einhvers. Hann lifir í limbói, þar sem hlutirnir eiga að reddast. En hvaða hlutir? Að hann nái sjórn á fjármálum sínum? Að einhver komi að sjá myndirnar hans? Hvaða myndir? Hvernig myndir gerir hann? Hvað vill hann? Hvað er hann að segja í myndum sínum? Ef þetta hefði tengst aðalefninu, sambandi sonar og móður, hefði það lyft myndinni í hæðir. 

Það vantar átakanlega lítið uppá að handritinu og myndinni hefði verið fulllokið, en sú vinna hefði getið af sér enn betri mynd og sannfærandi umfjöllun um kveðjustund sonar og móður. 

ÞJ 18. mars 2010
 

Til baka


Málmhaus


2013 – Ragnar Bragason

Hera missir bróður sinn þegar hún er 12 ára í dráttarvélaslysi. Foreldrarnir og hún losna ekki úr þunglyndinu sem fylgir. Hera gerir nokkrar tilraunir til að fara burt. Það er hoppað nokkur ár fram í tímann og hún klæðist svörtu og spilar þungarokk. Sama þunglyndið og nýi presturinn spyr um slysið. Hjónin átta sig á því að þau verða að „kveðja” son sinn eftir öll þessi ár. Á þessum tímapunkti stelur Hera dráttarvél á næsta bæ og reyni að farga sér. Maður skilur persónuna ekki alveg þó leikkonan (Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir) geri flest eða allt vel. Vandinn er að maður veit ekki nákvæmlega um hvað málið snýst. Maður veit ekki hvað hún vill eða hvers hún þarnast. Í þessari bið eftir að það komi í ljós er reyndar falleg saga milli hennar og bóndasonar í sveitinni. Hún sefur hjá honum fyrir hann og hann trúir að hún sé ástfangin. Allt þeirra samband er fallegt, nema óþarflega löng samtalssena í lokin, þar sem hún hefur sagt honum upp áður en samtalið byrjar.

Á þeim stað í myndinni, þar sem búast mætti við hápúnkti baráttunnar í 2. þætti, er Hera að gera ýmislegt einkennilegt, m.a. kveikja í kirkjunni. Mamman er hætt í sorginni og „kveður” drenginn sinn. Og allt í einu er hún orðin eðlileg manneskja, eiginlega yfirdrifið glöð og hress, meira að segja orðin falleg. Hókus pókus. Ég er ekki viss um að þetta gerist svona hjá venjulegri fjölskyldu og ég held að áhorfandinn sé ekki alveg undirbúinn fyrir þessa bröttu afgreiðslu á sorginni á þessum tímapunkti. Annar vandi í þessu er að það vantar rútínu - það er að segja hvernig var þetta fólk fyrir slysið. Eins og þetta er saman sett virðist mamman bara vera eitthvað veik í höfðinu í byrjun myndarinnar.

Hera hefur verið að æfa tónlist í hlöðunni og maður hefur fengið löngun til að hún nái árangri. Og það koma menn frá útlöndum og þeir vilja gefa hana út, en þeir gleymast eftir að vera hent út úr bíl eftir löngu samtalssenuna milli Heru og bóndasonarins. Og myndin endar á senu eins og hjá Amisfólkinu í Witness – allir að byggja nýja kirkju. Á safnaðarfundi hefur verið ákveðið að breyta sögunni, ekki tiltökumál hjá trúfélagi, og bruninn var slys og mamma dansar og Hera dansar og pabbi kemur líka í dansinn.

Maður verður brjálaður að horfa á þetta, því það er svo margt gott, góðar senur, góðar persónur og tenging við raunveruleikann. Þarna virðist allt til staðar til að gera góða mynd, en það virkar ekki því miður. Ég held að byggingin sé gölluð. Frá því að Hera hoppar um nokkur ár fram að senunni í herbergi drengsins sem pabbi vill breyta í tómstundaherbergi er ekkert í gangi nema tónlistin hjá Heru. Sagan um unglingstúlku á sveitbæ sem finnur sig í þungarokki og ætti heima í einhverjum dimmum klúbbi í stórborginni. Sagan um fjölskylduna sem er að láta sorgina gera útaf við sig er týnd. Hugsanlega hefði verið betra að byrja á Heru í leðrinu og sleppa öllu (ca 10 mín) þar fyrir framan. Þá hefði sagan verið hrein gáta. Og fyrir áhorfandann hefði spurningin verið, hvers vegna er þessi fjölskylda eins og í álögum? Hvað er að éta Heru innan frá? Smám saman hefði verið stungið inn litlum kornum, í samtölum og flassbakki sem hefðu skýrt málið. Þannig hefði baráttan við sorgina orðið aðalsagan eins og hún á að vera. Í þessari útgáfu týnist aðalsagan og hliðarsaga um tónlistarframa verður allt of fyrirferðarmikil (án þess þó að fá niðurstöðu).

Aðalsagan er ung stúlka, sem ofan á vandræðin við að verða fullorðinn í venjulegu íslensku sveitaumhverfi tekst ekki að komast í gegnum sorgina eftir að eldri bróðir hennar deyr í dráttarvélaslysi. Þetta er ekki byltingakennd saga. Hún er einföld og mannleg. Það sem gerir hana sérstaka er áhugi stúlkunnar á þungarokki og einhver sjúkleg uppreisn gegn eiginlega öllu sem gæti alveg tengst sorginni.

Samband hennar við foreldrana er dapurlegt. Þau hrópa hvert á annað og virðast andstæðingar fremur en vinir, þó erfitt sé að koma auga á misklíðarefnið. Hvað vilja foreldrarnir að hún geri? Pabbinn segir af hverju hún komi sér ekki í burtu. Hún gengur ferðbúin út á veg en fer ekki. Þessi brandari lítur líklega betur út á prenti en í mynd. En allavega eitthvað heldur í hana. Ef slysið væri ekki komið, væri þetta gáta fyrir áhorfandann. Hvers vegna fer hún ekki? En eins og það er núna er það eins og einhver sýki í höfðinu.

Önnur hliðarsaga sem truflar og fær ekki niðurstöðu er kirkjuíkveikjan. Hvers vegna kveikir Hera í kirkjunni? Er það vegna þess að hún sá fréttina um stafkirkjubrunann í sjónvarpinu? Er það vegna þess að presturinn vildi hana ekki? Er það vegna þess að hún syrgir bróður sinn? Er það vegna þess að hún hatast við Guð? Það síðastnefnda er sterklega gefið til kynna í bendingunni sem hún gefur altarismyndinni áður en hún kveikir í. En ekkert hefur komið fram um að hún sé trúuð og þess vegna í einhverjum tilfinningatengslum við Guð. Svo erum við allt í einu komin inn í ameríska kvikmynd. Útlagi leggur á flótta upp í fjöll vopnaður haglabyssu. Bílafloti kemur akandi og leggur í fleyg á hlaðinu. Hvort við tökum þessu sem góðri vöru veltur á því hvort við viðurkennum að okkar séríslenska menning sé hluti af amerísku bíómenningunni eða ekki. Að minnsta kosti er hér ekki um grín að ræða á þessum stað í myndinni. Svo taka við fallegar myndir af Heru á leið upp í fjallið meðan annars skemmtileg mynd úr lofti og síðan einhver þjáning og draumfarir í kofanum. Hver er baráttan? Ég get ekki svarað því. Mér finnst þetta þjáningarfulla myndafyllirí innihaldslaust.

Svo kemur fundur í sóknarnefndinni, sem ákveður að lýsa brunann óhapp til að hlýfa foreldrunum. Hera fer í herleiðingu til gamla vinar síns bóndasonarins og pabba hans. Hún gengur inn í sama hlutverk eins og móðir hennar sem húsmóðir/bóndi í sveit. Svo sér hún að hún á ekkert erindi á þessum stað og uppgjörið í sögunni er að fjölskyldan fer að dansa.

Sem áhorfandi er maður skilinn eftir - ekki úti í móa - heldur eiginlega á hálum ís. Það er erfitt að fóta sig. Er þetta saga um trúaða stúlku sem reiðist Guði fyrir að taka frá henni bróður hennar? Eða er þetta saga um stúlku sem langar til að spila þungarokk. Tengist þungarokkið Guði? Einhverjir mundu tengja það við þann vonda. Niðurstaðan þar er að Hera spilar á þorrablótinu. Er fólkið ánægt með tónlistina eða ekki? Eiginlega ekki. Samt er það ekki ósigur í þungarokkinu.

Ég held að höfundur treysti ekki nógu vel aðalsögunni sinni. Hann óttast að hún sé ekki nógu merkileg og setur í forgrunn einhverjar óunnar hugmyndir um Guð og fleira. Og skilaboðin verða óljós eða engin.

Hver er stærsta spurningin í myndinni? Ég held hún sé, hvernig nær fjölskylda sér upp úr sorginni eftir sviplegt slys sonar. Niðurstaðan - köstum sorginni, tíminn læknar ekki sár, komum að dansa - er fremur stuttaraleg, en hefði dugað ef eitthvað bitastætt hefði komið á undan til dæmis í lok 2. þáttar, sem hefði fyllt myndina. Ég held að svo sé ekki. Þessi hamagangur á undan uppgjörinu er fremur til að rugla áhorfandann en að skýra eitthvað fyrir honum.

En þetta góða: Í myndinni eru raunverulegar persónur. Myndin tekur til meðferðar veruleika okkar hér og nú. Í henni er leitað að myndmáli og frásögn sem gæti verið okkar og gæti tilheyrt okkar stað og tíma. Þarna er notað tungumál úr jarðveginum. Myndirnar reka söguna áfram, ekki talaður texti. Við heyrum þarna setningar sem eru sprottnar úr raunverulegum aðstæðunum. Maður finnur að höfundurinn er að reyna sig við stórt verkefni og það vantar ekki mikið upp á að það takist. Það eru margir mjög sannfærandi kaflar, þar sem tónlist og mynd magna hvort annað upp. Mín tilfinning er að annað klipp hefði getað skilað hreinni og betri mynd.

ÞJ 8 mars 2014

Til baka


Múrmeldýradagurinn  (Groundhog day)


1993 - Harlod Ramis (Leikstjóri og höf) Danny Rubin (sagan og hugmyndin). 

Leiðinlegur, sjálfumglaður veðurfréttamaður hjá sjónvarpsstöð, Phil, fer til Groundhog til að taka upp frétt um Múrmeldýradaginn. Með honum er stjórnandi, ung og viðkunnanleg stúlka, Rita, og tökumaður. Eftir upptökuna leggja þau af stað heim. Á þjóðveginum er allt fast út af hálku og lögreglan lokar veginum, vegna væntanlegs bils, sem hann sjálfur spáði. Þau gista. 

Phil vaknar við klukkuna klukkan 6:00 og það er aftur kominn Múrmeldýradagur, sami mánaðardagur og í gær. Aftur og aftur upplifir Phil sama daginn. Það sem hann gerir þurrkast út. Aðrir gera það sama nema við fáum ný viðbrögð þeirra í hvert skipti, en dagarnir þurrkast út, þangað til hann síðasta daginn, hefur loksins lært að koma almennilega fram við fólk, lært að spila á píanó, kynnt sér allt sem verða má samferðamönnum hans til bjargar og hefur tekist að gera Ritu ástfangna af sér. Loks vaknar hann í rúminu með Ritu við hlið sér. 

Þetta er heimspekileg spurning: Hvað ef einstaklingurinn gæti endurtekið daginn og lært af mistökunum og lifað hann aftur, þangað til hann geri allt óaðfinnanlega? 

Svo má spyrja, hvað með það? Niðurstaðan er engin. Ekki önnur en - jú, það væri fyndið. Hún sýnir hvað maðurinn er ófullkominn. Hún fjallar um hversu óundirbúinn maðurinn er að lifa lífinu. Hversu mikið hann þarf að læra. Hvað hann vantar mikið upp á að vera fullkominn. En hver er niðurstaðan? Jú, það væri gaman. 

En það er ekki þannig. Er hægt að færa þessa sögu yfir á veruleikann. Jú, hún hlýtur að vera hvatning til að gera betur, nota tímann betur, vera betri við aðra osfrv. Samt eru einhver vonbrigði sveimandi í lokin. 

Ég held það séu í fyrsta lagi vandræðin við að yfirfæra þessa reynslu yfir á daglega lífið. Í hvaða umhverfi gerist myndin? Hvernig fólk er þetta. Hvaða áhrif hefur það sem gerðist á þetta fólk? 

Og í öðru lagi, hversu djúpar eru breytingarnar: Er hann einhverju nær? Hefur hann bætt sig í raun? Getur persóna bætt sig eins og lýst er í myndinni? Eru breytingarnar aðeins á yfirborðinu? Lendir hann í sama vandanum með morgundaginn og næstu daga? 

Og í þriðja lagi: Kannski er of mörgum spurningum ósvarað. Það er gott að fá áhorfandann til að hugsa, en höfundurinn þarf að koma með einhver bitastæð svör eða tillögur. 

ÞJ 19. apríl 2010


Nói Albinói2003 - Dagur Kári Péturssonr 

Við kynnumst unglingi sem býr í dauflegu samfélagi á Vestfjörðum, Nóa. Nói hefur engan áhuga á náminu, enga drauma, engan vilja. Hann ranglar á milli skólans, sjoppunnar og fornbókabúðarinnar. Heima lokar hann sig niðri í kjallara. Hann býr hjá ömmu sinni. Mamman er hvergi. Pabbinn er drykkjumaður. Nói verður skotinn í stelpu. Hún er dóttir bóksalans. Hann bannar Nóa að koma nálægt henni og henni að vingast við Nóa. Þetta er ömurlegt líf en Nói kvartar ekki og hann gerir heldur ekki neitt í málunum. Skólastjórinn segir að sálfræðingurinn hafi sagt, að Nói sé kannski undrabarn. Er það grín eða alvara? Enginn veit. Stúlkan er góð við hann og segist vilja fara með honum eitthvað burt. Þannig líður tíminn þangað til komið er að lokum myndarinnar. 

Nói fer ofan í kjallarann eftir að hafa gert barnalega tilraun til að ræna banka, stela bíl og bjóða stúlkunni að þau láti sig hverfa saman. Hann kveikir sér í sígarettu og það heyrist titringur, svo drunur, svo ærandi hávaði og svo er allt hljótt og ljósið hefur slokknað. Hann reynir að opna hlemminn, en hann er fastur. Hann kallar en enginn heyrir til hans. Hann kveikir á sígarettukveikjaranum. 

Þegar hlerinn opnast eru björgunarmenn fyrir utan. Hann er staddur í björgunarskýli, þegar nöfn þeirra sem fórust í snjóflóðinu eru lesin upp. Hann sækir afmælisgjöfina sína í kjallarann, stereóskóp með myndum frá Haiti. Sjórinn lifnar bak við pálmatrén. 

Þetta er einföld saga og hún virkar. Það skipti engu máli, hvað hann vildi. Myndin var ekki um það. Hún er um örlögin, tilviljanirnar, jafnvel það sem tekur við, þegar mennirnir ráða ekki lengur við atburðarásina og hætta að skilja. Það verður til tilfinning sem erfitt er að útskýra. Þarna tekst að búa til kvikmyndalist, sem er meira en góð fagmennska. Ekki lengur spurning um magn eða mælanleg gæði. Myndin er galdur. Og ekkert óbragð, engin hégómi, enginn vandræðagangur, engin lygi, enginn að þykjast vera meiri en hann er. Einföld mynd, þar sem hið einfalda verður merkilegt. 

Heimspekin (meiningin) er tekin að láni frá Kirkegaard, þú sérð eftir því hvort sem þú hengir þig eða ekki. Hann, þessi ómerkilegasti meðlimur samfélagsins, er jafngóður og hinir, þegar náttúran (eða örlögin) taka í taumana. 

Myndatakan er einföld, stílhrrein, í bláum grafískum tóni sem hæfir þessu fábrotna lífi. Húmorinn allstaðar nærri. 

Myndin er um manninn í náttúruöflunum. Hvað maðurinn er lítill gagnvart þeim. Meiningin: Þú hengir þig eða hengir þig ekki, þú sérð eftir hvorutveggja. Sagan/líkingin í stuttu máli: Vandræðaunglingur lifir af snjóflóð vegna þess að hann er vanur að loka sig frá samfélaginu niðri í kjallarakompu. 

ÞJ - 18. mars 2010 

Til baka


Nýtt tungl

New Moon
2009 - Chris Weitz

18 ára stúlka, Bella, er ástfangin af fölum, veiklulegum en fallegum manni, Edward, sem segist vera 109 ára en lítur út fyrir að vera 25. Bella óttast að verða gömul meðan Edward heldur æsku sinni. Edward er fljótur, sterkur og gáfaður og hefur yfirnáttúrulega hæfileika, þegar þörf er á. Í slagsmálum er hann betri en enginn, með ofurkraft og snerpu, ósæranlegur að því er virðist. Hann er öðruvísi andlega, laus við mannlegar tilfinningar. Vandi hans er að hann hefur áskapaða löngun til að drekka blóð manna. Sama gildir um fólkið hans. Hann er semsagt ekki maður, þó hann líti út fyrir það, heldur vampíra. 

Edward hefur af einhverjum ástæðum orðið ástfanginn af Bellu meðan hann af náttúrunnar hendi girnist blóð hennar. Þessi ást þeirra er nokkuð stórt vandamál, því samlíf með Edward þýðir að umgangast hans líka, sem myndu ekki láta ástina hindra langanir sínar. 

Hvað er til ráða fyrir okkar konu, Bellu, sem er í stöðu aðalpersónu myndarinnar? Eins einkennileg og það hljómar, vill hún einmitt verða bitin. Það með yrði hún ein af þeim, eins og Edward. Mesta hættan og æðsta óskin virðast eitt og hið sama. 

Edward vill að hafa vit fyrir Bellu og segir henni upp. Hann elskar hana svo mikið að hann vill ekki eyðileggja líf hennar með því að gera hana að vampíru. Hann segir Bellu, að fólkið hans verði að fara og hann elski hana ekki lengur. 

Bella getur ekki á heilli sér tekið eftir að Edward er farinn. 

Edward birtist henni alltaf á hættustund og nú tekur hún til við að stunda glæfra til að framkalla þessar sýnir. Hún leitar til 16 ára vinar síns, Jakobs, að gera upp mótorhjól svo hún geti komist í verulega hættu. Jakob virðist ekki alveg laus við ofurmannlega krafta. Hann sveiflar þungu mótorhjólinu eins og barnakerru. Enda kemur fljótlega í ljós að þar fer úlfur í sauðagæru. Hann er semsagt varúlfur í mannslíki. Bella hjólar þangað til hún missir stjórn á mótorhjólinu og dettur og meiðir sig. En Edward birtist ekki. Hvað hefur klikkað? Jakob er hins vegar betri en enginn og ætlar ekki að láta neitt koma fyrir hana. Hann bjargar henni líka frá drukknun, þegar hún stekkur fram af bjargbrún í sjóinn. 

Nú verður smámisskilningur til þess að Bella og Alice, systir Ewards, ferðast eins og skrattinn sjálfur til Rómar, til að bjarga Edward, sem ætlar að farga sér af því að hann heldur að Bella sé dáin. Hann vill ekki lifa í heimi, þar sem Bellu vantar. Hvað á að geta orðið honum að fjörtjóni, liggur ekki ljóst fyrir. Þarna verða átök sem setja Bellu í hættu og hún fær að sýna hvað hún elskar Edward mikið og hvað hún er “hugrökk”. Það verða átök milli Edwards og Jakobs og allt þetta endar með því að Edward viðurkennir að hafa logið að Bellu og biður hana að giftast sér. Eins konar ljúfur endir, en flestum spurningum ósvarað. 

Myndin er eins konar þáttur í algengri framhaldsseríu. Á undan kemur Ljósaskipti (Twilight 2008), sem skýrir margt fyrir áhorfendum þessarar myndar. Sagan á eftir að lifa áfram í næstu mynd. 

Þarna er samt ýmislegt athyglisvert á ferðinni. Aðalatriðið í myndinni er staða Bellu. “Venjuleg” stúlka þráir að elska og vera elskuð. Henni er vandi á höndum í heimi, þar sem strákarnir, þó þeir líti út fyrir að vera menn, eru í raun og veru vampírur eða úlfar. Þetta er draumurinn um ást út yfir líf og dauða á erfiðum tímum. Að ástin sigri þessar yfirnáttúrulegu ógnir. 

Einn vandinn við að segja þessa sögu felst í skiptingunni milli raunverulega heimsins og hins yfirnáttúrulega. Áhorfandinn þarf að sitja á vagninum í þeim leiðangri. Þar skiptir kannski á milli kynslóða og kvikmyndareynslu. Þeir sem hafa alist upp við tölvuleiki kippa sér ekki upp við yfirnáttúrulegar verur eða atvik sem standast ekki, hinir gera það. En þó yfirnáttúruleg atvik séu út af fyrir sig samþykkt sem aðferð, þá er vandinn enn með dramað. Hvernig á að óttast um mann sem getur ekki dáið? Hvernig getur maður upplifað mann sem breytist í úlf á sekúndubroti? Hvað á maður að halda um stúlku sem vill verða vampíra til þess að nálgast ástmann sinn? Er hún ekki bara fáviti og búið mál? Þarna er á ferð skemmtilegt dæmi um trúnað milli áhorfandans og höfundarins. Hvers vegna sleppur hetjan betur frá bardaganum en óvinirnir? Hann hleypur í gegnum kúlnahríð án þess að fá skrámu meðan óvinurinn fellur alltaf í fyrsta skoti. Það er auðvitað ósk áhorfandans sem er þarna á ferðinni. Hann vill að hetjan sleppi. Með miklum vilja áhorfandans er hægt að sitja á vagninum í Nýju tungli (New Moon 2009) og taka allt gott og gilt. Sérstaklega ef maður hefur séð myndina á undan. Ég tala nú ekki um ef maður hefur lesið bækurnar og er jafnvel aðdáandi vampíruhefðarinnar í bókmenntum og kvikmyndum. 

En eftir situr spurningin, um hvað er myndin? Hver er hinn raunverulegi vandi sem hún fjallar um? Hvað er erfiðasta ákvörðun Bellu, sem er aðalpersónan? Sannleikurinn er sá, að hún tekur enga ákvörðun. Hún er að bregðast við ákvörðunum annarra allan tíman. Þannig séð er hún ekki aðalpersóna myndarinnar. Edward ákveður að segja henni upp til að bjarga henni og hverfur úr sögunni. Þetta reynist röng ákörðun, því hann skilur Bellu eftir í hættu og getur ekki verndað hana. Hann sér villu síns vegar og kemur aftur til að vernda hana og biður hana að giftast sér. Hvað sem um þetta má segja, er það einhver einhver ákvörðun. En við erum allan tímann með vinkil Bellu. Edward ræður ferðinni með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi, Bella er þolandinn. Þetta skapar ófullnægju og næstum leiða. Bella er leiksoppur og gerir ekkert í málunum og hefur auk þess ranghugmundir um hvernig eigi að leysa vandann, þe gerast vampíra. 

En hvað gerir myndina vinsæla? Það er í fyrsta lagi þessi frábæra hugmynd um að venjuleg stúlka verði ástfangin af dularfullum manni, sem er í raun og veru ófreskja og í öðru lagi þessi sterka líking með blóðið. Mennirnir í kringum Bellu eru ófreskjur í dulargervi. Hún hefur þó hún líti ekki út fyrir það þessar sterku tilfinningar og blóð sitt, sem skapa eftirspurn. Mennirnir verða ástfangnir og eða langar í blóðið. Blóðið og ástin sameinast á einhvern dularfullan hátt. 

Myndin fjallar ekki um raunverulegan vanda, nema ef þessi hugmynd, ást á óvini, teljist umfjöllun um það. Söguþráðurinn leiðir ekki til neins og er aðeins skapaður til að halda áhorfandanum í spennu. Og þegar kemur að spurningunni, hvað segir myndin um þennan vanda, þá er líka fátt um svör. Engin boðskapur, engin niðurstaða. Kannski verður hún í næstu mynd eða þarnæstu eða aldrei. En þá er búið að halda hópi áhorfenda í spennu eins og í algengum spennuþætti í sjónvarpi og afraksturinn enginn. Tóm. En kannski er gaman að komast í spennuástand og kannski hugsar einhver, gott að þó maður sitji uppi með erfiða ástmenn og ástkonur, séu þeir ekki eins slæmir og hér er greint frá. 

ÞJ 1. apríl 2010 Ófærð


2016 - Balthasar Kormákur og fleiri

Aðalpersónan er Andri lögreglustjóri (Ólafur Darri Ólafsson) utanbæjarmaður, sem lendir í að rannsaka glæpamál í litlu bæjarfélagi.

Málið er nokkuð flókið, fundur á sundurlimuðu líki sem lítur út fyrir að tengjast komu ferjunnar, árás og íkveikja sem leiðir til dauða Hrafns fyrrum lögreglustjóra, mannsal þar sem einn gerandinn, Lithái, drepur sig í bílslysi á flótta, en mafíósinn þykist vera vélstjóri á ferjunni. Það er í gangi lóðabrask vegna væntanlegrar kínverskrar verksmiðju og þrýstingur Guðna hótelstjóra og Leifs frystihússtjóra á Sigurð hafnarstjóra leiðir ásamt yfirheyrslu óhæfrar yfirlöggu úr Reykjavík til sjálfsmorðs Sigurðar. Allt tengist þetta eldi í byrjun seríunnar þar sem ung stúlka brann inni en ástmanni hennar, Hirti, var bjargað, en síðan dæmdur fyrir að valda brunanum.

Líkið reynist af Geirmundi sem kveikti í þegar kurl koma til grafar og bjargaði Hirti. Morðinginn er rólyndis kona í þorpinu í litlu húsi, María, barnsmóður Geirmundar. Fyrrnefndir toppar bæjarfélagsins, hótelstjórinn, lögreglustjórinn, frystihúseigandinn og hafnarstjórinn koma síðan að því að losa Maríu við líkið enda umhugað um að láta öll merki um brennumanninn hverfa.

Tilviljanir hjálpa til að auka flækjustigið, t.d. að Geirmundur snúi aftur skömmu áður en ferjan kemur með konur í mannsal á vegum hóteleigandans og að Hjörtur sé um borð, dæmdur af bæjarfélaginu. Nú og svo þessi ófærð í marga daga, hún virkar sem þægileg tilviljun fyrir söguna þangað til maður áttar sig á því hvert efnið er. Svo bætist við hjónabandssaga Andra. Andri býr hjá tengdaforeldrunum og fyrrverandi er að koma með nýtt mannsefni að sækja börnin. Hjónabandssagan gerir heilmikið fyrir karakter Andra, en hann bregst við eins og sannur heiðursmaður.

Vægast sagt flókin saga fyrir alla Sherlockana heima við skjáinn, hvern með sína útgáfu af því hvað gerðist og hver er sekur um hvað. Gátan er að mörgu leiti skemmtileg, en maður kemst lengi vel ekkert áfram með vangaveltur um efni myndarinnar. Svarið við spurningunni um efnið er jafn fjarlægt og svarið við glæpagátunni. Hvað er höfundurinn að tala um? Maður hefur ekki einu sinni grun, og þess vegna verða einhverjir þættir í miðjunni heldur langdregnir. En Andri heldur okkur gangandi og hjálparkokkar hans á lögreglustöðinni, og persónurnar í glæpamálinu eru áhugaverðar. Glæpagátan er í forgangi allan tíman og skýrist ekki fyrr en í síðasta þætti. Í ljós kemur að fyrrnefndir toppar hafa sameinast um að semja við glæponinn í þorpinu um að kveikja í frystihúsinu til að svíkja út tryggingarfé.

Í þessari seríu er margt mjög vel gert, þó smáhnökrar skjóti upp kollinum hér og þar. Ef við værum að tala um billega glæpaseríu, væri allt í góðu lagi. En þarna finnur maður vilja til að gera vel og þess vegna fær verkið harðari dóm. Saumaskapurinn á glæpagátunni er að mestu leyti í mjög góðu lagi. Því flóknari gáta, því betra. Veikasti hlekkurinn er morðið á Geirmundi. Þó búið sé að útmála hann sem ofbeldismann og glæpon er vandséð hvers vegna hann kemur eftir nokkurra ára fjarveru og byrjar á því að brjóta upp dyrnar og berja barnsmóður sína Maríu til óbóta svo hún þurfi að verjast með eldhúshníf, áður en hann svo mikið sem lítur á son sinn, sem hann hefur ekki séð í öll þessi ár og hefur hringt í og lofað slökkvibíl. Hins vegar er hægt að kaupa það að þremenningarnir geri það sem hægt er til að fela líkið svo ekki komist upp um íkveikjuna. Hvers vegna Sigurður stekkur út úr þyrlunni er sömuleiðis erfiður biti.

Orsök glæpsins það er að segja gjaldþurrð frystihússins er ekki efni þáttanna. Efnið er einangrun bæjarfélagsins, þar sem freistingar af ýmsu tagi koma upp. Einangrunin í mannlega félaginu speglast svo í áþreifanlegu einangruninni, þegar heiðin lokast vegna vetrarveðurs. Snjókoman með lokun vegarins og yfirvofandi flóðum er sannfærandi myndlíking á einangruninni sem ríkir í bæjarstjórninni, þar sem nokkrir karlar rotta sig saman um það sem gera þarf. Og allt má réttlæta með hag og framtíð byggðalagsins. Nafnið er þannig við hæfi og veðrið mikilvægur þáttur í sögu og efni. Einangrunin er ástæða þess að toppar samfélagins sameinast um tryggingarsvikin og leyna morðinu á íkveikjumanninum. Það er að vissu leyti einnig skýringin á því að þeir þegja um mafíutilburði hóteleigandans Guðna. Að alþjóðleg mafía sé komin með klærnar inn á hótelið með hjálp ferjunnar er líka réttlætanlegt út frá þessu einangrunarmótífi. En tilburðir hinna seku í mafíudæminu verða hálf ankanalegir í litlu bæjarfélagi á Íslandi og hefðu kannski þurft að fá húmorískari vinkil.

Í sjónvarpi verður skemmtunin að vera auðmelt og fjöldanum að skapi. Það liggur í eðli sjónvarps. Þar af leiðandi er viss áhætta að fara djúpt ofan í umdeild efni eins og til dæmis hrunið eða rekstur frystihúsanna eða hvað á að gera fyrir afskekkt byggðarlög. Framleiðendum er vorkun og hendur þeirra að vissu leyti bundnar. Og í slíkri efnisumfjöllun er erfiðara að finna tiltækar margreyndar formúlur. Samt hefði það verið djarft og skemmtilegt markmið.

Að sjá þetta mál frá bæjardyrum lögreglustjórans kann að virðast klisja, en því til réttlætingar er hægt að nefna að Andri er líka í einangrun, sendur úr þéttbýlinu vegna einhvers leiðindamáls þar fyrir sunnan. En vegna lögregluvinkilsins fær „hver er morðinginn“,  mikla áherslu. Orsakir þess að toppar samfélagins tengjast morðinu verður aukaatriði. Lýsingin á gerendunum er fátækleg og það hefði bætt seríuna að nálgast þessa karaktera meir þannig að áhorfandinn stæði jafnvel með þeim og skildi þá, þegar sannleikurinn kemur í ljós í lokin. Lögregluvinkillinn kann líka að útskýra óþarfa eins og þegar Sigurður tekur byssu með sér, þegar hann ætlar að losna við líkið í annað sinn. Hann skýrir líka tilbúinn eltingaleik í staðinn fyrir uppgjör – Guðna hóteleiganda með öflugan riffil og æðisglampa í augum í hlutverki glæpaforingja, sem er engan veginn trúverðugur við bryggjuna í litlu bæjarfélagi fyrir norðan.

Lögregluþátturinn er semsagt á kostnað raunverulega efnisins og innihaldsins, sem er skemmtilegt söguefni, einangrun í litlu bæjarfélagi. Efnið og innihaldið lendir hálfpartinn úti í horni bak við glæpagátuna.

ÞJ 24. febrúar 2016

Til baka

París norðursins


2014 - Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

Aðalpersónan er Hugi (Björn Thors), 37 ára einhleypur kennari á Flateyri. Faðir hans Veigar (Helgi Björnsson), fyllibytta og kvennamaður, stingur undan honum með Ernu sem honum stendur á sama um og Hugi ákveður að fara burt. Þetta hljómar ekki sem efnismikil saga. Í einni af bestu myndum Yasujiro Ozu, Bansun (Síðla vors), fer dóttir frá föður sem hefur misst konuna til að giftast. Það er öll sagan og í myndinni lýsir Ozu menningu og hugsunarhætti Japana gegnum undirbúinginn að hjónabandinu. Þá mynd má bera saman við París norðursins. En er höfundurinn að lýsa einhverju í menningu og hugsunarhætti Íslendinga?

Við erum stödd í jarðvegi kvundagsins og neðri laga þjóðfélagins. Veigar er eignalaus og peningalaus, Hugi á lítið hús og gamlan bíl og honum stendur til boða yfirkennarastaða, ef hann giftist Ernu (Nanna Kristín Magnúsdóttir) og sest að í þorpinu. Hann elskar hins vegar enn Helenu, sem hefur stokkið frá honum til Portúgal.

Þegar Hugi fréttir að Helena er tekin saman við portúgala og pabbinn er búinn að sofa hjá Ernu, þó hann hafi alls ekki heilsu til þess, áveður Hugi að fara burt. Er það flótti eða leit?

Eitt mótífið í myndinni er að menn fari burt og læri ekkert og koma svo heim. Meðal annars er vitnað til Bókarinnar um veginn. Veigar er á sinn hátt að reyna að koma heim, þegar hann gerir sig heimakominn hjá syni sínum á Flateyri eftir að hafa búið uppi á konum í Taílandi og fyrir sunnan. Karlarnir í myndinni eru í leit að „ró“ á sólpalli, réttri hegðun í lífinu á AA fundum, slökun í bjórdrykkju, hassvímu eða reykingum. Lífið og umhverfið veldur þeim pirringi sem verður að sefa. Aðeins AA leiðtoginn og formaður skólanefndar (Sigurður Skúlason) er rótfastur í þorpinu og reynir í örvæntingu að halda þeim (og sjálfum sér) edrú og reyklausum og að allir standi saman og verði um kjurt. Helena fór (skiljanlega). Erna er eftir og virðist fangi þorpsins og bíður eftir karlmanni sem getur fyllt líf hennar. Ég veit ekki hvort hægt er að biðja um kynjajafnvægi í þessari mynd, en allavega er Erna fullgild persóna í kynningu þeirra Veigars og kynlífsatriði, þó hann verði að hafa meira fyrir lífinu, þeas borga reikninginn og standa sig í verklega þættinum.

Þegar Hugi getur hætt að hugsa um Helenu og tekur ákvörðun um að Erna sé ekki málið og kveður vin sinn og son hennar, er ljóst að hann hefur verið að leita að þessum stað sínum í veröldinni, sem vantar nafnorð yfir í málinu - heima. Líta má á myndina sem umfjöllun um fólkið (þjóðina) sem heldur áfram að leita að ró eða því sem gæti verið „heima“ án þess að finna það nokkurntíma. Hugi gæti hafa verið að leita að þessu hjá konunum tveim, Helenu og Ernu. Þegar þeirra kapítuli er að baki, getur hann haldið áfram. Spurningin er hvort hann hafi eitthvað lært. Vonarneistinn er þetta einlæga samband hans við son Ernu, sem er að drepast úr verkefnaleysi í þorpinu og hugsar bara um fótbolta.

Þarna er á ferðinni saga sem nær tökum á áhorfandanum. Áhorfandinn skilur og finnur beint og óbeint hvað er í gangi og fylgir persónunum og þessir ágætu leikarar bæta um betur með ágætum leik. Leikmyndin og kvikmyndatakan lýsa vel nöturleikanum og tóminu í þessum samfélagi og draslinu í þröngum firði. Klippingin hæfir sögunni vel og efninu. Þarna eru skemmtileg samtöl og góðar senur. Og sagan þjónar efninu og kemur meiningunni fallega til skila, skemmtilegum vinkli á hugsunarhátt og menningu þjóðarinnar.

ÞJ 23 september 2014

Til baka
Píanistinn

https://sites.google.com/site/kvikmynd/home/Screen%20Shot%202016-03-21%20at%2016.15.45.png
Roman Polanski – 2002


Pólskur Gyðingur bjargar lífi sínu í sundurskotinni Varsjárborg með því að spila fyrir böðul sinn sónötu Chopins. Uppskrift að leiðindum? Úrdráttur í einni setningu er í besta falli vísbending. Þessi mynd er vel þess virði að skoða.

Vladislaf (Adrien Brody) er frægur konsertpíanisti í Varsjá þegar Þjóðverjar hernema borgina 1939. Í ofsóknum Þjóðverja og síðar útrýmingu á Gyðingum hrekst hann í Gettóið og síðan í vinnubúðir og öll stríðsárin er hann í felum á flótta undan vísum dauða ef hann finnst.

Vandinn hefst á fyrstu mínútunum, þegar þýska herstjórnin byrjar að gefa út tilskipanir, sem
skerða frelsi Gyðinga. 2. þáttur stendur síðan allt til senu alveg aftast í myndinni, þegar þýskur kapteinn kemur í fylgsni hans þar sem hann er að opna  gúrkudós. Við höfum áður heyrt Túnglskinssónötu Beethovens spilaða í húsinu og grunar að spilið tengist þjóðverjanum. Yfirheyrslan endar á því að kapteinninn segir Vladislaf að setjast við hljóðfærið og hann spilar eins og engill ballöðu Chopins nr 1 í G moll. Tónlistin sameinar þessa tvo og bjargar lífi Vladislafs. Kapteinninn gerir ekki skyldu sína að senda kúlu í hausinn á þessum júða. Þess í stað kemur hann með mat og áður en hann hverfur sjálfur á flótta gefur hann honum frakkann sinn. 3. þáttur heldur áfram með senu þar sem Rauði herinn reynir að drepa Vladislaf í þýska frakkanum og senu þar sem Vladislaf berst neyðarkall frá kapteininum í varðhaldi Rauða hersins. Skilaboðin koma of seint, fangabúðirnar eru horfnar og kapteinninn líklegast dauður og undir kreditlistanum renna myndir frá konsert Vladislafs.

Þessi mynd sem lýsir órétti og níðingsverkunum sem Gyðingarnir voru beittir af Þjóðverjum á þessum árum 1939-43 og viðbrögðum þeirra á einkar sannferðugan hátt, hefur sem undirtón sögu um snilling sem lenti í lítið eitt betri stöðu en sauðsvartur almúginn, þar á meðal fjölskylda hans. Honum var forðað frá lestunum sem fluttu Gyðingana til Treblinka og hugdjarfir Pólverjar leyndu honum í íbúðum og gáfu honum mat um tíma. Vinir hans jafnt sem ókunnugir gerðu það sem þeir gátu til að bjarga honum. Í senunni með þýska kapteininum stækkar sagan og skírist. Í húfi er ekki bara einstaklinginn Wladyslav Szpilman, en myndin er byggð á sjálfsævisögu hans, heldur tónlistin með stórum staf og menningin í held sinni. Loksins þarna í lok stríðsins - vitandi um að endirinn er nálægur - sýnir kapteinninn svolitla mannúð og svolitla virðingu fyrir því, sem verður að lifa þó allt annað sé lagt í rúst, menningunni. 

ÞJ 21 mars 2016

Poetry


2010 - Lee Chang-Dong

Mija hefur tekið að sér ömmustrákinn Jongwook, en dóttir hennar (mamman) vill ekkert af honum vita.

Maður kemur að máli við Mija. Ung stúlka, Heejin, hefur fyrirfarið sér, ástæðan er sú að sonur hans og Jongwook og fjórir aðrir strákar hafa nauðgað henni ítrekað. Mija þykir vænt um Jongwook, en hann virðist tilfinningalaust neysludýr. Áhugamálin sjónvarpsgláp og símasamskipti. Hvað gerir Mija? Hún hefur ekki samband við dóttur sína. Hún segir ekkert við Jongwook. Feðurnir vilja safna þrjátíu milljónum til að borga móðurinni skaðabætur og freista þess að synirnir sleppi með það. Vandi Mija virðist að ná í sinn hluta skaðabótanna. Hún fær peningana hjá gömlum manni sem hún fullnægir kynferðislega en hún vinnur hlutastarf við að hjúkra honum. Málið leyst eða ekki? Við dettum óvænt inn í aðra sögu um það hvernig Mija verður að ljóðskáldi. Í byrjun myndarinnar skrifar hún sig inn á námskeið í ljóðagerð. Meistarinn gefur nemendunum ýmis góð ráð. Hann sýnir þeim epli sem hann keypti á leiðinni og spyr hversu oft þau hafi séð epli. Öll hafa séð epli mörgum sinnum. Rangt. Að skrifa ljóð er að sjá hlutinn á nýjan hátt annan en þennan hversdagslega. Mija gengur í gegnum söguna um skaðabótamálið og reynir að sjá eins og ljóðskáld og búa til ljóð. Ljóðið heyrum við ekki fyrr en í lokin, lesið upp af meistaranum fyrir hina nemendurna. Það er um Heejin, stúlkuna sem drengirnir drápu og feðurnir skildu ekki. Stúlkuna sem átti að afgreiða eins og hvert annað rusl sem fellur í ána. Mija hefur gert skyldu sína með því að greiða skaðabæturnar og lögreglumenn sem hún hefur kynnst í ljóðaupplestri koma að sækja Jongwook. Mija hefur tekist að sjá þennan sorglega veruleika og láta þá sem heyra ljóðið skilja. Myndin er aðvörunarskilti. Það er eitthvað mikið að.

ÞJ 140415

Til baka
Rashomon


19
51 - Akira Kurosava 

Maðurinn beitir lygum til að réttlæta misgjörðir sínar. Við sjáum efnið reifað frá bæjardyrum munksins í varðskýlinu, en hann hefur skiljanlegan áhuga á siðferðinu. Og af niðurstöðu skógarhöggsmannsins getum við lesið skilaboðin: Það stendur upp á einstaklinginn að stöðva hringrás siðspillingar og lyga. 

Skógarhöggsmaðurinn hefur vonda samvisku eftir að hafa stolið verðmætum rítingi úr líki fórnarlambsins. Sem aðalvitni felur hann þessa staðreynd og þann hluta atburðarins, þar sem rítingurinn kemur við sögu. Hjá fógeta segist hann hafa séð ummerkin. En undir þaki skýlisins, þar sem hann stendur af sér rigningu ásamt munki og bónda, viðurkennir hann, að hann hafi séð það sem gerðist. Hann segir frá því, en í lokin vantar mikilvægar upplýsingar. Hvað varð um rítinginn. Bóndinn, sem hikar ekki við að stela klæðum nýfædds barns, sem borið hefur verið út, er fljótur að taka eftir því. Þú ert eins og allir hinir, segir hann við skógarhöggsmanninn. 

Í innskotsköflum fáum við söguna í túlkun ræningjans (Mifune) sem girntist eiginkonuna, eiginkonunnar sem féll í freisni, og eiginmannsins niðurlægða og dauða - gegnum miðil. Allir nema eiginmaðurinn/miðillinn fegra sinn hlut og réttlæta misgjörðir sínar með lygum. 

Skógarhöggsmaðurinn segir í byrjun, að hann skilji ekki. Við höldum að hann hafi ekki skilið atburðarásina, sem þarf að greiða úr gegnum lygavef. En það kemur í ljós í lokin, hvað það var sem hann skildi ekki. Hann vissi manna best hvað gerðist. Það er samviskan, sem plagar hann. Hann skildi ekki, hvers vegna hann gerði þetta, sem hann gerði. Hann er þrátt fyrir allt góður og heiðarlegur maður. Hvernig gat hann gert sig að þjófi? Og hann kýs að bæta fyrir það sem hann gerði og reyna að sporna við óréttlætinu og óhamingjunni, sem leiðir af siðleysi mannanna. Hann tekur að sér barnið, sem hefur verið borið út. 

Kurosava hefur þarna ásamt meðhandritshöfundi sínum (Shinobu Hashimoto) búið til meistaralega fléttu, eins og honum er einum lagið, með umfjöllun um siðgæði. Sagan er um þrjá menn, skógarhöggsmann, munk og bónda sem hittast undir varðskýli og rifja upp atburð sem varð í skóginum. Aðalpersónan er skógarhöggsmaðurinn, sem varð vitni að atbuðrinum. Upprifjunin verður til þess að hann verður að horfast í augu við eigin samvisku og finnur fyrir knýjandi þörf að bæta fyrir brot sitt. Hann gerir það með því að taka að sér barnið. 

Efni myndarinnar er siðferðisástandið hjá mannkyninu. Glæpurinn í skóginum er tákn fyrir alla flóruna. Saga skógarhöggsmannsins ber efnið uppi og vefurinn greinist í ótal sögur aukapersónanna, bæði fyndnar og sársaukafullar. Fyrst þegar ég sá myndina, fannst mér augljóst, að hún fjallaði um lygina - eða öllu heldur sannleikann, hversu erfitt sé að höndla sannleikann. En lygin er þarna aukaþema. Hún hefur það hlutverk að breiða yfir siðferðisbrestina í túlkun atburðarins hjá öllum nema eiginmanninum. Hann þarf ekki á henni að halda lengur. Hinir þurfa að fegra hver sinn þátt í atburðinum til að hylja sekt sína. Umfjöllunarefnið er spurningin: Er hægt að stöðva hringrás misgjörða? 

Það skemmtilega við myndina er að sagan um skógarhöggsmanninn, sem byrjar í myrkrinu en sér ljósið, setur áhorfandann í salnum í sömu stöðu og aðalpersónan er í. Áhofandinn sér á tjaldinu flækju af sögum, sem hann þarf að greiða úr til þess að koma auga á söguperluna í myndinni og tileinka sér meininguna, lítinn sannleiksmola sem honum er boðið upp á í lokin. 

ÞJ 6. jan 2011 


Rear Window1954 - Alfred Hitchcock 

Saga Lísu (Grace Kelly), er athyglisverð. Hún vill fá Jeffries (James Stewart) í hjónaband hvað sem tautar og raular, en hann er tregur. Hún kæmi til greina sem aðalpersóna.

Jeffries er bundinn í hjólastól eftir slys og bíður óþolinmóður eftir því að geta tekið til við fyrri iðju, að taka ljósmyndir fyrir tímarit. Við gluggann styttir hann sér stundir við að kynnast nágrönnunum og njósna um líf þeirra. Lisa kemur með mat handa honum og hjúkrunarkonan, Stella, fylgist með líðan hans. Í einni íbúðinni sér hann einkennilega hluti gerast, sem benda til þess að morð hafi verið framið. Hann hringir í vin sinn í lögreglunni, Doyle, sem afgreiðir frásögn hans sem ímyndun. Þetta gæti átt sér eðlilegar skýringar til dæmis þær að eiginkonan sé farin í ferðalag. Lísa og Stella eru sama sinnis. Lísa segir honum að skammast sín fyrir gægjuhneygð sína. 

Jeffries liggur undir því að vera með ímyndanir. Hann verður að komast að því, hvort hann hafi rétt fyrir sér. Hvað vill hann? Þeirri spurningu er varpað fram af sjálfum morðingjanum og Jeffries hefur ekki svar. Kannski að sanna að hann hafi rétt fyrir sér. 

Myndin fjallar ekki um rétt og rangt. Þó kemur fram að menn hafi ýmislegt að fela. Jeffries felur t.d. kærustuna í íbúðinni yfir nótt, þó húseigandinn banni það. Hún fjallar svolítið um gægjuhneygð, að liggja á gægjum og leggja saman tvo og tvo um nágrannana. En fyrst og fremst er efni myndarinnar samband einstaklinganna í þéttbýli og einangrunin í borgum, þar sem hver einstaklingur og hver fjölskylda lifir sínu lokaða einangraða lífi og ein persóna kemur annarri  ekki við. Friðhelgi einkalífsins er þarna til umræðu. Á einstaklingurinn að skipta sér af nágrannanum? Spurningin er lævísari vegna þess að þarna er Jeffries sjálfur að gera eitthvað sem venjulegur borgari fyrirverður sig fyrir og hann hefur ekki þá afsökun að hann sé að bjarga eiginkonunni, því hún er dauð. Hún var í neyð og Jeffries gat ekki gert neitt til að bjarga henni. Á hæðinni fyrir neðan er önnur kona í slíkri örvæntingu að hún er augljóslega að hugsa um að taka líf sitt. Jeffries gerir ekkert. Myndin svarar ekki spurningunni, en Jeffries fær samúð áhorfandans fyrir viðleitnina. Hvað rekur Jeffries áfram? Heilög vandlæting? Sannleiksást? Borgaraleg skylda? Eða einfaldlega löngun til að finna lausnina? Það er ekki á hreinu. En þarna vegur persóna leikarans, James Stewart þungt. Leikarinn hefur skapað kringum hlutverk sín áru sem góður og réttsýnn borgari. Hvað sem öðru líður er hann ekki sáttur fyrr en hann hefur komist að sannleikanum. 2. þáttur, átökin í sögu Jeffries, byrjar eiginlega þegar vinur hans Doyle segir honum að gleyma þessari vitleysu. Uppgjörið, 3. þáttur, er við morðingjann, Thorvald. Í það blandast Lísa, sem lendir í klóm hans og síðan æsileg og ótrúverðug atburðarás, þegar Thorvald ræðst á Jeffries. Augnabliki fyrir fall Jeffries í hjólastólnum fram af svölunum kemur lögreglan til bjargar og Thorvald er handtekinn. 

ÞJ 4. sept. 2010
 

Til baka

Rokland


2011 - Marteinn Þórisson (eftir samnefndri sögu Hallgíms Helgasonar)

Böddi (Ólafur Darri Ólafsson) finnur hjá sér föðurkenndina, þegar lauslát stúlka, kennir honum barn, en í raun og veru er einhver hasshaus faðirinn. Amman slær eign sinni á barnið og okkar maður gefst upp, þegar hann fær bréf frá sýslumanni um faðernið. Hann tryllist og ræðst á diskastæður og leggur af stað til Reykjavíkur á lötum hesti í einhvers konar missjón. Á leiðinni er hann truflaður af bróður sínum. Sá segist hafa gert tiltekna stúlku á póstinum ólétta og fengið hana til að fara í fóstureyðingu. Nú er okkar manni svo brugðið, að hann grípur til byssu, sem hann hefur handbæra úr atriði fyrr í myndinni og drepur bróður sinn eins og hund á staðnum fyrir þessa framgöngu sína. Og okkar maður heldur áfram hestlaus. Nú vill svo heppilega vill til að póststúlkan er einmitt á leið suður í fóstureyðinguna og tekur hann uppí. Okkar maður nefnir ekki hvað er að brjótast í kollinum á honum, hann langar kannski til að verða faðir að þessu væntanlega barni, og aftur grípur hann til byssunnar á sjúkradeildinni og skýtur sér leið að markmiði sínu. Hann er aflífaður af víkingasveitinni eins og tíðkast í myndum af ákveðinni tegund og myndavélin svífur til himins. Ég er ekki að grínast. Þetta er sagan. 

Aðalpersónan, Böddi, hefur áhuga á öðru til viðbótar- að ná sambandi við ákveðinn útgefanda vegna hugsanlegrar útkomu bókar sinnar, „Grettir og Nietsche”. Það mál er komið í gang þegar myndin hefst og þróast ekkert eftir því sem myndinni vindur fram. Vonbrigði Böðvars með að ná ekki sambandi við þennan tiltekna útgefanda bitna á símtækjum og dauðum hlutum. Málið endar sömuleiðis í uppgjöf en byssan ekki látin tala í þessari viðureign. 

Hvorugt þessara áhugamála Bödda ráða gerðum hans, nema hann verði talinn fáviti. En það stingur í stúf við tilgerðarlega kynningu á honum í byrjun myndarinnar sem dugandi kennara. Hann hefði gert eitthvað í föðurmálinu, ef honum hefði þótt svona vænt um barnið. Eitthvað annað en að ráðast á diskahrúguna og ríða suður. Ef alvara hefði verið í bókarmálinu, hefði hann talað við annan útgefanda til dæmis. 

Hvaðan kemur þá þessi niðurstaða hans með ferðalagið og skotárásirnar? Hvorutveggja kemur hreinlega af himnum ofan og getur ekki talist vitsmunaleg niðurstaða eða uppgjör í neinum skilningi. Á þetta sér skýringu í lífinu eða menningunni þarna á Sauðárkróki? Ekki verður það séð. Þarna er einfaldlega um það að ræða, að klisjum úr öðrum myndum eða tegundum mynda er raðað hverri ofan á aðra. Sagan ber ekki í sér umfjöllun um neitt sérstakt efni. Ég veit ekki hver ætti að vera einhverju nær um föðurhlutverkið eða ástina, og niðurstaðan er bull. 

Hvað stendur þá eftir? Hvað er það þá sem myndin ber fram á gnægtarborð íslenskrar menningar? Þessar sérkennilegu óskiljanlegu persónur geta varla talist höfuðinnihald verksins. Samt er mesta furða hvað persónulýsingarnar eru sannfærandi, þegar litið er til efnisleysis sögunnar. Þær gætu allar verið skemmtilegar aukapersónur í nýtilegri sögu. Böddi er skemmtilega óútreiknanlegur. Vandinn er, að hann er aðalpersóna sögunnar og áhorfandinn á geta sett sig í spor hans og farið með honum í gegnum það sem hann vill standa fyrir, þeas föðurhlutvekið eða að elska lítið barn. Lauslát kona er þakkarvert innlegg og tilefni til að láta nokkra brandara fjúka um of eða van í kynlífi persónanna. Karlarnir minna skemmtilega á mismunandi dýrategundir og konurnar eru svarkar, lauslátar eða dularfullar. Dagga segir, að sér finnst hún vera belja, þegar hún er ekki að hjassast með karldýri, sem er skemmtilega óvænt tilsvar. Mamman víkur ekki frá altarinu, sjónvarpinu, jafnvel ekki til að deyja og þessar utanaðkomandi teiknuðu uppákomur eins og þegar mamman hverfur inn í „raunveruleika” sjónvarpsins er fyndið, og svarkurinn, amman, sem slær eign sinni á barnabarnið, líka sannfærandi. Vinna allra leikaranna við að búa til þetta persónugallerí er til fyrirmyndar með einhverjum unandtekningum. 

Mikil alúð er við klám, sóðakjaft og subbulegt líferni persóna. Þessu er lýst af kostgæfni á meðan hvergi ber á neinu til þroska, menningar eða hamingju eða þess vegna til góðs, ef maður má vera svo væminn. Er hugsanlegt að tilgangurinn sé ádeila á subbuhátt? Til þess vantar hins vegar í fyrsta lagi mótorinn - söguna, og áfangastaðinn - meininguna, og kannski jafnvel ennþá sárlegar einlægnina. Á tjaldinu er verið að velta sér upp úr drullunni ógagnrýnum áhorfendum til skemmtunar. Minnistæðast í myndinni er það sem áhorfandinn upplifir sem aðdáun höfundar á subbuskap. 

Leikmyndin er til fyrirmyndar og allt sem henni fylgir. Það er gaman að finna fyrir rigningunni og vindinum. Myndatakan, þeas vinnan við að koma þessum ágætu leikurum í þessum ágætu leikmyndum á skjáinn, er líka góð í vissum skilningi. Ef litið er á myndina sem hundrað auglýsingar væri fátt atugavert við myndatökuna. Sama má segja um klippinguna. Yfirleitt voru myndskeiðin í atriðunum hengd saman á fínlegan hátt, en annað er uppi á teningnum, þegar litið er á heildina, sem skrifast á handritið og hugmyndalega undirstöðu verksins. Það er sagt að kvikmyndalist sé hópvinna, en í þessari mynd er sorglegt að sjá svona marga í hópnum vinna vel, en grindin sem tengja á saman og halda uppi öllum litlu atriðunum - allt sem snertir hlutverk, vinnu og tilgang höfundarins, sem beðinn er um að segja kröftuga sögu um athyglisvert efni með frjórri meiningu, stendur á brauðfótum. 

ÞJ 7. febrúar 2011

Til baka

Ræða konungs


The King's Speech
2010 - Don Hooper

Sagan er um vináttuna. Talkennarinn Lionel Logue (Geoffrey Rush) fær það verkefni að lækna stam hjá kónginum (Colin Firth). Hann nálgast verkefnið eins og reynslan hefur kennt honum að dugar best og byrjar á því að ryðja burt hindrunum á milli kóngsins og almúgamannsins, sem hann er. Lionel er aðalpersónan og persóna hans er vel skrifuð og leikur Rush einkar sannfærandi. Þarna er ekki boðið skráargat inn í konunglega lífið, heldur er sjónum beint að veikleika kóngsins eða staminu. 

Að sjálfur kóngurinn þurfi að læðast til almúgamannsins Lionel, sem er sá eini sem getur læknað veikleika hans, er spennandi. Það virkar eins og tifandi sprengja og heldur uppi spennunni. 

Kóngsfjölskyldan er sveipuð heilagleika og höfundur heldur persónu kóngsins og fjölskyldulima í kurteislegri fjarlægð. Þessi aðferð er ekki án sjarma, en fyrir bragðið nær umfjöllunarefnið ekki dýpt. 

Eftirminnilegast við kónginn er í fyrsta lagi þessi martröð hans að þurfa að verða kóngur og í öðru lagi, hvað hann verður upprifinn yfir því að kynnast almúgamanni. Firth gerir allt vel í þessari sögu. Hann er þó að því leyti ver settur en Rush, að hann hefur úr minna að spila í handritinu. Það fyndna er, að Firth fékk bresku Bafta verðlaunin fyrir aðalhlutverk en Geoffrey Rush fyrir aukahlutverk, þó Lionel sé þarna aðalpersónan. Ofan í kaupið fékk Firth svo Óskarinn fyrir aðalhlutverk. Kóngurinn verður auðvitað að vera fremstur.

Þegar vel er af stað farið vill maður meira, og fælni frá persónulegum þáttum kóngsins er líklega ástæðan þess að svolítið tómahljóð er í myndinni. Það standa eftir einhverjar ósvaraðar spurningar í lokin. Hvernig var þessi vinátta? Hver var orsökin fyrir staminu? Hvað var að gerast í kollinum á kónginum? Hægt er að tína til ýmislegt, en yfir þessu öllu saman er einhver þoka. Gefið er til kynna, að eitthvað vont eða brothætt hafi gerst í fortíðinni. Stamið byrjar 4-5 ára, en þá var kóngur beittur harðræði af bróður sínum, föður og barnapíu. Reyndar kemur Lionel sjálfur með skýringu, sem er ekki síðri, að kóngurinn sé hræddur við skuggann af sjálfum sér - að þurfa að vera kóngur. Lionel tekst að ýta til hliðar þessum ótta, sem er í vissri þoku, með því að fá kónginn til að gleyma því, að hann sé kóngur og gera ýmislegt sem kóngi ekki sæmir. Lækningin er að niðurlægja kónginn og reita hann til reiði, og fá hann til að vera manneskja með beiskju og ótta  

Gaman hefði verið að fara dýpra, en á móti má halda því fram að persóna kóngsin hefði misst trúverðugleika, ef hann hefði verið sýndur eins og brothætt manneskja. Hann fær að halda hluta af skelinni. 

Fyrir bragðið er meiri þungi á sensasjóninni - að leikari, sem enginn vill og vinnur fyrir sér sem talkennari, skuli geta orðið vinur kóngsins! Þarna er enn verið að selja drauminn um að duglegur og hjartahreinn almúgamaður geti orðið númer hjá yfirstéttinni, komist í snertingu við eitthvað jafn stórkostlegt og konungdóm. Hann fær að vísu ekki prinsessuna en riddaratign og gott betur ef ég tók rétt eftir.

ÞJ 13 Mars 2011

Sabrina

1956 - Billy Wilder

Hver er aðalpersónan? Sabrina (Audrey Hepburn) vill Davíð (Öskubuska vill prinsinn). Davíð er er flagari og annar bróðirinn í ríkri fjölskyldu. Linus (Humprey Bogart), sem sér um rekstur fjölskyldufyrirtækisins vill að Davíð kvænist Elísabetu. Hún er dóttir væntanlegs viðskiptafélaga, sem á að skaffa plast í væntanlegt gróðabrall. Til þess að Sabrina gleymi Davíð er hún send til Parísar. Parísarferðin hefur gagnstæð áhrif, því Sabrina kemur heim ósigrandi fegurðardís og Davíð fellur gersamlega fyrir henni. Hún er draumurinn um hina fullkomnu konu. Þó hún sé dóttir bílstjóra er hún jafnoki ríka fólksins. Hún er falleg, kann að klæða sig og eiga samræður. Hún sjarmerar hvaða karlmann sem er. Fyrir utan að þroskast hefur hún lært að útvega sér falleg föt og farða sig og greiða. Töfrar Parísartískunnar eru ekkert grín. Engum sögum fer af hæfileikum hennar eða afrekum á öðru sviði. Sabrina er semsagt orðin hin fullkomna eiginkona fyrir hvern sem er, þess vegna sjálfan prinsinn. Þessi yfirborðslega mynd af konunni dugar fyrir þessa sögu vegna þess að í raun og veru fjallar sagan um drauminn.

Nú eru viðskiptaplönin í uppnámi og Linus verður persónulega að fá Sabrinu til að hugsa um eitthvað annað, en við þá iðju verður hann sjálfur ástfanginn.

Linus er eki augljósi vonbiðillinn í upphafi, en hann hefur ýmsa eiginkeika sem góðan karlmann mega príða. Hann er ríkur, duglegur, hugmyndaríkur, húmoristi og svo hefur hann lent í sorg, sem væntanleg eiginkona getur læknað. Fyrirtækjarekstri hans er lýst sem mikilli hugsjónatarfsemi, þar sem fátækt fólk fær vinnu og efnast í þúsundatali. Peningar skipta hann engu máli frekar en aðra sem hafa nóg af þeim. Myndin er dásamlega hafin yfir hversdagslega hluti eins og réttlæti, rétt og rangt eða jöfnuð. Þó kemur upp einkennileg umræða um lýðræði á einum stað.

Línus er aðalpersónan í sögunni um viðskiptafléttuna. Hann stendur frammi fyrir þeim vanda, að Davíð er að ganga úr skaftinu. Sabrina er vandamálið. Sabrine er aftur á móti aðalpersónan í sögunni hver fær prinsinn. Og við erum í sporum hennar. Viðskiptasaga Linusar er í raun og veru fléttuð inn í aðalsöguna. Efnið er því hver fær prinsinn (og hver er hinn raunverulegi prins). Prinsinn reynist nefnilega ekki flagarinn Davíð heldur forkurinn Linus.

1. þáttur endar þegar Sabrine kemur heim frá París og sér að hún getur eignast hvaða mann sem hún kýs, þar á meðal Davíð. 2 þáttur er innri barátta hennar - tekst henni að átta sig á því hvern hún raunverulega elskar (á að elska). Vandinn var að Davíð hefði nefnilega kysst Sabrinu, þegr þau voru unglingar og kossinn hafði þessar afleiðingr að hún "taldi" sig ástfangna af Davíð, þó allar bjöllur hingdu og hann hafði engan áhuga á henni. Þessi áhugi Sabrinu á Davíð er óskiljanlegur fyrir áhorfandann. Áhorfandinn bíður spenntur eftir því, að Sabrine sjái, að Davíð er ómögulegur. Linus kemur inn í söguna vegna þess að Sabrina kemur upp í stað Elísabetar. Stóri samrunafundurinn markar endi 2. þáttur og byrjun 3 þáttar. Davíð fær Linus til að viðurkenna fyrir framan alla þessa miklu menn að hann sé ástfanginn af Öskubusku - sigraður. Síðan er ekki þörf á löngum 3 þætti, elskendurnir þurfa aðeins að hittast og sættast á skipinu sem átti að sigla með Sabrinu burt og allir glaðir.

Gamanmyndin hefur gamlar klisjur og fastar hugmyndir sem grunn. Fyndnin verður til við hverja nýja útfærslu . Öskubuska leiðir áhorfandann áfram í þessari sögu. Prinsinn skal það vera. Ágæti hans þarf ekki að útskýra fyrir áhorfandanum. Að Sabrine þurfi að búa yfir einfeldni í ríkum mæli til að girnast Davíð verður alls ekki til þess að áhorfandinn kaupi ekki söguna. Þar hjálpar gamla Öskubuska. Billi Wilder er þekktur fyrir Some Like it Hot og Irma la Douce. Hérna tekst honum þrátt fyrir einfaldanir að gera klassíska gamanmynd, sem virkar ljómandi vel enn í dag.

ÞJ 120213


Shouting in the dark


2012 - May Ying Welch

Þessi sjóvarpsmynd er skýrsla um uppreisnina í Bahrein 2011 sem gleymdist. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að fréttir bárust ekki frá henni. Bahrein er eitt af furstadæmunum við Persaflóa og konungsætt súnní muslima stjórnar þar með harðri hendi. Þegar almenningur í landinu reis upp líkt og í Líbíú, Alsír, Túnis, Egyptalandi og Sýrlandi með friðsamlegum mótmælum og kröfum um lýðræði var hreyfingin barnin niður af miskunnarlausri hörku af konungsættinni með barsmíðum, fangelsunum, skothríð og morðum. Aðgerðirnar beindust ekki aðeins gegn almenningi í landinu heldur einnig gegn erlendum blaðamönnum, sem ekki var leyft að starfa og voru reknir úr landi.


May Ying Welch frá Al Jaessera var að gera mynd um ástandið, þegar uppreisnin braust út og fór í felur ásamt tökumanni frá Bahrein. Að minnsta kosti tvisvar þurftu þau að flýja af hótelinu undan lögreglunni sem hundelti þau. Síðar kom í ljós að þau voru einu blaðamennirnir sem myduðu það sem fram fór.


Myndin fylgir nokkrum persónum t.d. mótmælanda sem var handtekinn og pyntaður og dó í fangelsi. Þau fylgja læknum, sem sekir voru um að taka á móti særðum mótmælendum, og biðu sýndarréttarhalda. Þau mynduðu atburðiði ummerki og ræddu við þá fáu sem höfðu kjark til að segja frá. Margir þurftu að greiða fyrir það með fangelsun og pyntingum.


Stjórn fjölskyldunnar virtist alger. Leynilögregla þeirra gekk að fólki á heimilum sínum eða annarstaðar. Þetta var hugrökk blaðamennska þar sem staðreyndir voru látnar tala. Blaðamennska í hæsta gæðaflokki í leit að sannleikanum.


Höfundurinn reynir að túlka raddir þjóðarinnar á hlutlægan hátt. Afstaðan er með fólkinu, móti valdhöfunum. En andstaðan við valdhafana er ekki tilbúin fyrirfram heldur byggist á því sem þeir framkvæma. Hvernig þeir beita valdi sínu til að berja niður réttláta uppreisn gegn spillingu, ofbeldi, mannréttindabrotum og ránum á eigum almennings.


Myndin sýnir hugrekki þeirra sem tóku þátt í þessum friðsamlegu mótmælum og réttlátum kröfum um lýðræði og mannréttindi. Þeir voru í vonlausri stöðu í landi, þar sem ríkissjónvarpið birti tilbúnar fréttir og lögreglan sendi vopnaða æsingamenn til að hleypa upp friðsamlegum mótmælum. Upphlaupið síðan notað til að réttlæta ofbeldi gagnvart mótmælendum.

Átökin voru milli fámennar konungsættar og þjóðarinnar - þeirra sem rændu og þeirra sem voru rændir, og maður kemst ekki hjá því að spyrja hvernig fjölskyldan fær lögreglu og her til að ráðast á vopnlausan friðsaman almenning. Því efni er ekki gerð sérstök skil, en bent á trúarbrögðin. Með súnní lögreglu- og herliði, sem hata shia mótmælendur.


Í Bahrein er það fámenn valdastétt súnní muslima sem ráða en shía múslimar eru valdalausir. Og eins og heimatilbúna ofbeldið sé ekki nóg þá kallar konungsættin til herflokk súnní muslima frá Saudí Arabíu til að berja á sigruðum shía múslimum. Trúarbrögðin eru töfrabrögð. Það þarf ekki að sannfæra súnní menn um að shía fólkið eigi ekkert betra skilið en pyntingar og dauða. Þannig eru trúarbrögðin notuð sem vopn í vopnaðri árás á almenning í landinu.


Hvers vegna var nánast ekkert sagt frá þessari uppreisn á Vesturlöndum? Hverns vegna eru þessar konungsættir og ekki síst valdhafarnir í Sádí-Arabíu friðhelgar á Vesturlöndum? Eru þetta heilagir menn? Þó þeir séu staðnir að ránum, ofbeldi og morðum?

ÞJ 170403

Til baka


(The) Social Network

2010 - David Fincher

Erica segir upp ungum manni, Mark, ekki vegna þess að hann sé nörd heldur vegna þess að hann er andstyggilegur. Í samtali þeirra kemur til tals fínn klúbbur, sem Mark getur ekki orðið félagi í. Mark fer í tölvuna og setur saman síðu til að dæma kynþokka stúlkna í skólanum. Vefsíðan slær náttúrulega öll met og rústar kerfið í Harvard. Ríkra manna synir í eldri bekk og fína klúbbnum biðja hann um að setja saman fyrir sig samskiptasíðu. Hann tekur að sér verkið, en í stað þess að vinna fyrir þá, gerir hann samskiptasíðu á eigin vegum, facebook. Hann fær gamlan vin sinn, Eduardo, til að hjálpa sér með peningahliðina og vefsíðan hittir í mark. Hugmyndin er einföld, samskiptasíða þar sem þú samþykkir gesti. Þú ræður vinahópnum og ert stjórinn í eigin klúbbi.

Mark vill stækka fyrirtækið. Þeir byrja á öðrum skólum og síðan færa þeir út kvíjarnar til heimsins, og niðurstaðan er skrifaður í mannkynssöguna.

Mark er snillingur, bráðgáfaður og klár í forritun og hefur nef fyrir því sem fjöldinn vill. Hvað hann lætur fyrir peningana er ekki gefið upp, en Mark eignast milljarð. Peningar af himnum ofan!

Myndin rennur liðugt með mátulegri blöndu af hröðum og gáfulegum samtölum með tónlistarbanki undir og villtum partíum. Mark heldur sig við tölvuna, hinir djamma.

Mark vill ná í Eriku eða að minnsta kosti sanna sig í hennar augum. Þegar sigrinum er náð, reynir hann að tengjast henni. Hann langar ekki í frægð og peninga umfram aðra menn. Hann lendir bara í hvortu tveggja vegna hæfileika sinna og dugnaðar. Gamli draumurinn aftur.

Eduardo aftur á móti gerir mistök. Hann fer að safna auglýsingum, sem gengur ekki, og Mark er fljótur að vinna úr því. Auðvitað er kúl að hafa engar auglýsingar. Mark fær til liðs við sig litríkan karakter, Sean, sem setur upp partí og skapar tengsl við vogunarsjóði. Sean hrekur Eduardo úr fyrirtækinu með samþykki Mark.

Vandamálin sem Mark þarf að yfirstíga eru í aðalatriðum samstarfsmenn. Hann þarf að losa sig við vin sinn Eduardo (væntanlega til að eiga stærri hlut sjálfur) og hann þarf að bíta af sér náúngana, sem réðu hann til að gera samskiptavef fyrir skólann, en þeir hafa alveg efni á því að standa í málaferlum. Á endanum þarf hann að punga út skitnum 65 milljónum dala.

Nú um hvað er myndin, og hver eru skilaboðin? Hún gægist inn í háskólaumhverfi og sýnir að bloggið og samskiptasíðurnar leika stórt hlutverk í félagslífinu þar. Samt er ekki hægt að segja að myndin fjalli um bloggið eða tölvulífið. Hins vegar fer stór hluti sögunnar í lögfræðiþrætur. Fyrst er þrætan við ríku strákana og síðan deila við Eduardo. Af ótta við að þessar þrætur hægi á sögunni eru þær klipptar inn í þráðinn sem rekur þróun facebook hugmyndarinnar. Þessi þáttur klippingarinnar fær það hlutverk að tengja saman, útskýra og stundum bæta við söguna sem er í forgrunni. Það er eiginlega alveg hægt að líta þannig á að klipt sé framm í tíman, en áhrifin eru þau sömu og í flassbakki. Þetta virkar ljómandi (sem bygging) og er í vissu samræmi við hraða tölvu- og samskiptaheims háskólafólksins. Vandinn er hins vegar sá, að þessi þáttur, sem hefði kannski átt að vera alvöru umfjöllun um vinaslit vegna peninga er léttvæg og yfirborðskennd kannski svolítið eins og setningakast í facebook. Hver sagði hvað við hvern hvenær? Söguþræðinum er pússlað saman, en hann svarar engum alvöruspurningum. Höfundurinn reynir það ekki, eins og hann hafi haldið að hans hlutverk hafi verið að auglýsa facebook.

Persóna Mark (og sama á við um Eduardo og Sean) er einhvernvegin kjötlaus. Hvað vill hann og hvaða tilfinningar hefur hann t.d. til Eriku, eða Eduardo. Mark sveik Eduardo, fannst honum það leitt, eða ekki? Var hann ástfanginn af Eriku? Hvernig persóna er hann fyrir utan að vera tölvufrík og hraðgáfaður? Vantar kannski eitthvað meira efni í forsendurnar í 1. þætti til þess að áhorfandinn fylgi honum? Og uppgjörið í 3. þætti er vægt til orða tekið fátæklegt. Það er svolítið asnalegt að standa upp frá sögu um mann sem breytir mannkynssögunni með hugsunina, hvað með það.

ÞJ 22 mars 2011


Sólskinsdrengurinn2009 Friðrik Þór Friðriksson 

Einhverfa er alvarlegur sjúkdómur sem kemur fram hjá börnum eftir að þau hafa lifað eðlilegu lífi í einhver ár. Í myndinni er fræðsla um sjúkdóminn, bæði hvað vitað er um hann og hvað ekki. Dreginn er saman vitnisburður fólks í Bandaríkjunum um hve lítið sé gert fyrir einhverfa, en þeir geti lifað eðlilegu lífi og jafnvel blómstrað sem snillingar fái þeir rétta meðferð. Þetta er fræðslumynd gerð í áróðursskyni. Tilgangurinn passar inn í tilfinningar almennings. Allir styðja þennan góðan málstað. 

En hvernig er verkið sem kvikmynd? Við sjáum einhverfa drenginn, Kela, í hópi barna þar sem hann er utangátta. Tilfinningin er að hann hafi verið settur í hópinn án þess að eiga þar heima. Senurnar eru minnisstæðar en líklega ekki á réttum stað til að hafa áhrif. Móðir hans fer með hann í Bláa lónið og gengur um umhverfi þess. Mæðginin fara í Dimmuborgir eða álíka umhverfi og ganga þar. Semsagt, fólk frá eldfjallaeyjunni Íslandi. Varla ferðamenn. Stærstur hluti myndarinnar er ferð þeirra til Bandaríkjanna, þar sem þau eða raunar mamman hittir ýmsar fjölskyldur, sem hafa barist við sjúkdóminn, til dæmis hestaþjálfara, sem hefur sigrast á sjúkdómnum og heldur langa ræðu, sem dreift er á marga staði í ferðinni, sennilga til að þreyta áheyrandann ekki um of. Þau koma í skóla, þar sem einhverfir fá meðferð og kennslu, og að lokum sækja þau heim indverskan kennara með aðferð til að ná sambandi við einhverfa sem annars sýna ekki hæfni til að eiga samskipti. Þetta er alltsaman fróðlegt út af fyrir sig. 

Hver er aðalpersónan? Það er mamman. Hún tekur ákvarðanir og framkvæmir, þó það sé að mestu utan myndar. Keli er fjarlægur og lokaður í sínum heimi eðli málsins samkvæmt. Áhorfandinn kemst ekki nálægt honum eins og persónu, þó áhorfandinn finni til með honum og vilji honum vel. Hlutur mömmunnar í myndinni er annars vegar fólginn í því að sitja og hlusta á ræður um einhverfu og hins vegar upplestur á eigin texta, sem er bæði vandræðalega orðaður og ósannfærandi í flutningi. Fyrir bragðið er lítið tilfinningasamband við hana. Hún er næstum jafn fjarlæg og Keli. 

Tíminn að lokum myndarinnar verður því langur fyrir áhorfandann nema hann hafi því meiri áhuga á málefninu. Að Keli skuli sýna viðbrögð við kennslu indversku konunnar snertir harðasta hjarta, en þurfti allar þessar útskýringar á undan til þess? Varla. Að nota fræg tónlistarnöfn, sem passa ekki í þessa mynd frekar en einhverja aðra, gefur markaðsgildi en ekki gæði. (Sama gildir um fræga leikkonu til að lesa vitnisburð mömmunnar á ensku). Höfundurinn treystir ekki myndunum og áhorfandinn finnur það. Stíllinn miðar að því að setja myndina fram eins og dramatíska leikna mynd og teygja hana í þá lengd, þó efnið og efnistökin séu fræðslumynd. Höfundurinn er kallaður leikstjóri, sem er á mörkunum í heimildamynd hvað þá fræðslumynd. 
 Í lokin reynir á klippinguna. Þar hefði mátt vinna betur - eitthvað af óþarfa efnivið eða illa staðsettum og niðurstaðan því teygður lopi. 

ÞJ 14. apríl 2010 

Til baka


Svefnlaus í Seattle


Sleepless in Seattle
1993 - Nora Epron

Við erum með tvær persónur sem mætast í ástinni. Það er eitthvert óskiljanlegt aðdráttarafl, sem virðir engin landamæri og er ótengt allri skynsemi. Anna (Meg Ryan) er á leið í hjónaband með yndislegum manni sem hún er fullkomlega sátt við. Hinum megin í USA býr Sam, (Tom Hanks) sem hefur misst eiginkonuna fyrir einu og hálfu ári, með syni sínum og fær að heyra að líf sitt sé ekki í lagi. 

Vandi Önnu er að hún er á leið í fullkomið hjónaband og vandi Sam er að hann finnur ekki þá einu réttu númer tvö. Myndin fjallar um muninn á þessu yfirnáttúrulega sambandi manns og konu, þar sem hin töfrum hlaðna ást er allt um lykjandi, og hins vegar þessari öruggu, skynsamlegu og sjálfsögðu ást, þar sem allt er fullkomið en engin spenna. Konan situr uppi með vandann og telst því aðalpersónan í sögunni. Á leið til hins fullkomna væntanlega brúðguma lendir hún í því að hlusta á útvarpsþátt, þar sem sonur Sam, Jonah, er að kvarta yfir föður sínum við þáttastjórnandann. Hann er fastur í þunglyndi og svefnleysi síðan mamma dó. Sam kemur inn í samtalið og lýsir tilfinningum sínum til hinnar látnu og tómleikanum nú. Þetta þáttarbrot breytir lífi Önnu. Hún getur ekki hætt að hugsa um þennan dásamlega föður, sem elskaði konu sína svona mikið og getur ekki hugsað sér að fara aftur út á markaðinn. Röddin, orðin, persónuleikinn, sagan skila sér þvert yfir Bandaríkin og kveikja í henni tilfinningar, sem fara að stjórna gerðum hennar upp frá því. Og hún er ekki ein um það, hann heillar allar konurnar þvers og krus um Bandaríkin. Þetta er flott hugmynd og vel skrifuð saga og sviðsett með mátulegum húmor og tilfinningu fyrir rómantík. Um leið lýsir hún skemmtilega ólíkri afstöðu kynjanna til sambanda og ástarinnar. Karlmennirnir fá auðvitað lélega einkunn. Handritið notar allar klisjurnar á sniðugan hátt, sérstaklega kvenkyns persónurnar. Þær eru skondnar, allt frá vinkonunnunni, sem gerir meira en allt fyrir Önnu, yfir í mömmuna, sem upplifði fyrstu ástartöfrana við snertingu, til vinkonu Jonah, sem ere búin að læra á allt tólf ára. Þáttur 2 er barátta konunnar við þessar tilfinningar og hann endar, þegar hún segir herra fullkomna frá þessu öllu og skilar hringnum og hættir við brúðkaupið, sem hefur verið undirbúið í smáatriðum, og heldur á stefnumót sem Jonah hefur skipulagt. Ef hægt er að tala um 3. þátt er það sonurinn að fylgjast með Sam og Önnu horfandi hvort á annað á leið niður úr útsýnispallinum á Empire State. Tilfinningasemin út yfir allar flóðgáttir, en það er ekki hægt að kvarta, því myndin er um einmitt þetta. Er þetta sönn ást eða ekki? Það á væntanlega eftir að koma í ljós. En á þessu augnabliki leyfist höfundinum og áhorfandanum að láta tilfinningasemina hríslast um sig. 

Skemmtilegur þáttur í myndinni er hlutur sonarins og vinkonu hans, en þau koma inn í söguna sem persónur framkvæmda, þegar faðirinn er sokkinn í svartasta þunglyndi og ætlar að fara að byggja upp samband með algerri herfu og heldur að hann eigi engan annan sjens. Sonurinn heldur dómgreindinni og hann og vinkonan leggja línurnar fyrir stefnumót á útsýnissvölunum á Emire State. Hann flýgur þangað sem „barn án fylgdar” til að hitta Önnu. 

Það sem gerir myndina sérstaka er vinkill konunnar. Epron notar öll trix í bransanum og kann að skrifa og leikstýra, en treystir á sitt kvenlega innsæi í stað þess að fara í gömul karlahjólför. Það lyftir þessari mynd vel yfir meðallagið í rómantísku konumyndunum. 

ÞJ 26 feb 2011


Sveitabrúðkaup2008 - Valdís Óskarsdóttir

Ertu að grínast, er uppahaldssetningin. Samtölin snúast um þetta verklega næst á undan brúðkaupsathöfninni - að komast á staðinn, þar sem athöfnin á að fara fram. Af ókunnum ástæðum ætla brúðhjónin að giftast og af ókunnum ástæðum ætla þau að giftast í sveitakirkju og af ýmsum tilgreindum ástæðum eru ólíkir karakterar meðal gesta. Við sitjum uppi með skemmtilegt gallerí af veislugestum og grínútgáfu af presti. Og einn dreifbýlismaður kemur við sögu.

Stóra gervivandamálið er að finna kirkjuna. Á meðan ná veislugestir að kynnast svolítið og átta sig á því að hinir eru pakk og hommar og geðveikir. Persónulegar væntingar nokkurra veislugesta fá útrás en viðskipti þeirra fá engar lyktir. Brúðhjónin ná svolítið saman sitjandi á bekk fyrir utan kirkjuna í lokin. Þau fá löngun til að koma þessu verkefni sínu í framkvæmd - jafnvel án gestanna.

Undirtónninn er spurningin, hvort eitthvað verði úr brúðkaupinu. Brúðkaupið í myndinni er þá líking fyrir afrek sem hópar manna reyna að koma í framkvæmd. En hvað er umræðuefnið? Það er alls ekki ljóst. Er þetta -hvort takist að finna kirkjuna - nógu áhugavert til að halda uppi heilli bíómynd?

Ef við spyrjum um aðalpersónuna, þá er hún vandfundin. Áherslan er eiginlega ekki á neinum sérstökum einstaklingi í myndinni. Amman er í eigin heimi að leita að verslunum. Brúðguminn hefur mestan áhuga á hæpnum karlkynsvinum sínum. Brúðurin er móðursjúk út af búnaði sínum, eyrnalokkum, skóm og slíku. Móðir brúðgumans er sjúklega afbrýðisöm, ekki vegna eiginmannsins, heldur einkennilegs athafnamanns, sem virðist elskhugi hennar. Pabbi brúðarinnar er áfengissjúklingur, eiginkona hans finnur honum flest til afskökunar. Minni persónur eru allar á sínum stað með sóma. Svo er þarna gamalt tabú sem kemur upp á yfirborðið. Frændinn og homminn nýkominn frá útlöndum reynist faðir systur brúðurinnar. Uppljóstrunin veldur áfalli hjá föður stúlkunnar. Það verða slagsmál út af einhverju sem ég missti af, þar sem allir tuskast í góða stund. Þar tekst að koma besta vini brúðgumans ofan í skurð.

Margt af þessu er fyndið og fyrir marga er þetta allt saman fyndið og gaman að horfa á það. Líka vegna þess að leikararnir eru góðir og skemmtilegir og uppákomurnar eru í sjálfu sér fyndnar. Sagan um hommann (Víkingur Kristjánsson), sem veit ekki hvort hann er hommi, er óaðfinnanleg.

Er þetta mynd af íslendingum? Á þetta að vera spegill, sem segir við íslendinginn: Svona ertu. Þá veltir íslenski áhofandinn fyrir sér, hvort það sé þannig eða ekki og lítið meira um það að segja. En eins og hver? Engin aðalpersóna! Er þetta einhver boðskapur um brúðkaup, ástina, fjölskylduna? Ég get ekki lesið neitt. Ef höfundurinn hefur eitthvert erindi, einhvern sannleika, einhverja hugmynd til að skjóta að áhorfandanum fyrir utan þessar litlu skrýtnu sögur, sem tengjast aðeins í því að farþegarnir eru á sömu leið, fór það framhjá mér.

Í myndinni er að finna fullkominn lággróður fyrir fyndna sögu með skemmtilegri persónu, sem væri í skemmtilegum vanda sem skaffaði áhorfandanum eitthvað veganesti. En slíka sögu er hvergi að finna. Og þar með vantar kjarnann í þessa mynd. Þetta er ástæða þess, að maður fær lítil svör við spurningum eins og, hvað er innihaldið? Hvað gerir myndina þess virði að horfa á? Er þetta ekki bara grín og gaman? Ertu ekki að grínast?

Fyrir áhorfanda, sem biður ekki um meira, uppfyllir myndin væntingar. Fyrir hinn, sem vill sjá raunverulega ástæðu fyrir gerð myndarinnar, er hún vonbrigði. Sá sem þykir vænt um kvikmyndalistina vill meira. Hann ætlast til að fá eitthvað innihald líka í gamanmyndum. Kvikmynd án innihalds er tóm tunna.

Þessi árangur vekur til umhugsunar um tvennt. Hvernig stendur á því að leikararnir eru óaðfinnanlegir með sinn ónóga efnivið, en stjórn á höfundarverkinu og kvikmyndahliðinni er illa leyst. Íslenskir leikarar hafa búið við menntun á háu stigi í meir en áratug, en menntun í kvikmyndum hefur verið í skötulíki. Síðustu árin eru að skapast skilyrði fyrir kvikmyndamenntun í Kvikmyndaskóla Íslands. En það hefur ekki verið fram að þessu. Til viðbótar hefur á Íslandi tíðkast fyrirlitning á menntun og aðdáun á fúski og amatörisma í kvikmyndum. Og það litla sem eldri kvikmyndamenn á Íslandi hafa lært flyst ekki áfram til yngri kynslóðarinnar. Nýjir leikstjórar fá tækifæri til að busla í sama grugginu og gera sömu mistökin. Niðurstaðan er að við fáum nýja og nýja kynslóð að herma eftir hinum ýmsu bylgjum sem eru í tísku í útlöndum á hverjum tíma. Við sköpum ekki okkar stíl né okkar eigin menningarlegu einkenni.

Í leikarastétt eru heldur ekki allir snillingar, en heildin er mjög sannfærandi. Hún er það t.d. í þessari mynd. Sama má segja um nýlegar kvikmyndir sem eru algerlega ónýtar sem kvikmyndir. Það bitastæða í þessari mynd kemur fyrst og fremst frá leikurunum.

Hitt umhugsunarefnið er tilgangurinn með þessari framleiðslu. Nú er búið að sanna svo margt. Við getum gert kvikmyndir. Hjóðið er skýrt. Við getum gert senur. En mynd með enga aðalpersónu, enga sögu, engan vanda, enga meiningu getur ekki orðið annað en bull. Þetta vita allir. Og svo spyrja kvikmyndamenn af hverju geta íslendingar ekki endað sínar kvikmyndir? Hvernig er hægt að enda sögu sem aldrei byrjar? Í sumum íslenskum myndum byrjar sagan, en hún gleymist áður en að úrvinnslunni í 2. þætti kemur. Ástæðan gæti verið kjarkleysi að fást við alvöruspurningar - venjan að sópa vandanum undir teppið og tala um smjörklípur. Hvers vegna gerum við kvikmyndir? Er það til að þreyja frítímann, eða hefur kvikmyndin íslenska feitara hlutverk?

ÞJ 24 júlí 2011
Svínastían


2010 - Pernilla August

Saga Leenu er sögð á tveim aldrusstigum. Gallinn er sá að þetta virðist ekki vera sama persónan. Yngri og eldri eru eins og tvær ólíkar persónur.

Í fyrri sögunni er Leena uþb 12 ára dóttir drykkjufólks, sem reynir að gæta litla bróður síns og forða honum undan átökum foreldranna. Í seinni sögunni er Leena fullorðin kona, sem hefur lokað á öll tengsl við móður sína. Hvernig það hefur gerst kemur ekki fram. Pabbinn er dauður og nú liggur móðirin fyrir dauðanum - hún hefur eyðilagt sig á drykkju - og vill hitta Leenu. Leena vill ekki hitta hana. Eiginmaðurinn fær hana til þess.

Móðirin tjáir ást sína á manninum sem eyðilagdi líf þeirra. Þá hrekkur Leena í baklás og hleypur frá deyjandi móður sinni. Aðalpersónan bregst í sinni mestu raun. Af hverju kemur þessi stúlka sem stendur sig svona vel í barnahlutanum svona fram fullorðin við gömlu konuna á dauðastundinni? Í framhaldinu ræðst Leena á þá sem henni þykir vænst um eiginmanninn og börnin. Það má kannski segja, að svona nokkuð geti gerst í raunveruleikanum og allt í lagi með það. En þetta er ekki endir á dramatískri sögu. Svona endir kallar á fleiri spurningar í stað þess að ljúka sögunni. Þarna vantar uppgjörið til þess að sögunni sé lokið af höfundarins hálfu. Þetta er ekki dramatískt. Dúndrandi tónlist og hopp með tökuvélina breytir engu. Tvö aðalatriði eru fjarverandi - tilfinning og niðurstaða.

Athyglisverð er ógnandi nærvera pabbans. Sá vondi er frábærlega leikinn af næmum leikara (Ville Virtanen).

ÞJ 12. nóv 2011

Til baka


Submarino


2010 - Thomas Vinterberg 

Nick er nýkomin úr fangelsi og lifir tilgangslausu lífi í blokk innan um annað utangarðsfólk, stundar kynlíf með lauslátri konu á ganginum og bolast á nágranna, sem honum þykir hafa of hátt í útvarpi. Hann hittir gamlan félaga, sem nokkrar blaðsíður vantar í, liggjandi í götunni og í samtali við hann kemur fram sitthvað um fortíðina, misheppnað ástarsamband, en um það allt er maðurinn þögull og lætur ekki tilfinningar í ljósi nema hann ræðst á almenningssíma eftir að hafa heyrt í ungum frænda sínum, Martin, heima hjá yngri bróður sínum. Þetta reiðikast kemur áhorfandanum nokkuð á óvart, og skýrist ekki fyrr en í seinni hluta myndarinnar. Nick og vinurinn eiga einhverjar stundir saman og það kemur í ljós, að vinurinn er pervert og hættulegur þegar konur eru annars vegar. Þegar Nick fer að tékka á bróður sínum á heimili hans er hann horfinn. 

Þarna er bakkað í tíma yfir til bróðurins, sem hefur fengið að hafa dreng sinn Martin eftir að móðir hans hefur fallið frá af slysförum. Bróðirinn er eiturnotandi og reynir að leyna því fyrir barnaverndarnefnd til þess að halda drengnum, sem hann “elskar afskaplega mikið”, en “eðlilega” hefur eitrið forgang. Gæsalappirnar skýrast síðar. 

Nick lætur lögregluna handtaka sig í stað félagans, sem hefur drepið þá lauslátu. Í fangelsinu hittir Nick yngri bróður sinn og finnst að þeir eigi að byrja á því að umgangast meira, en sá er einmitt að kveðja. Það næsta sem fréttist er að hann hefur fargað sér. 

Nú er Nick einn eftir. Áður hafði móðir þeirra farið á brennivínsþambi og líf hennar kynnt sem minna en einskisvert og engin skýring á því. 

Þrátt fyrir allt þetta er heiðríkja yfir svipnum á þessum manni, þegar hann sleppur úr fangelsinu, enda hefði hann ekki getað drepið konuna með aðra höndina ónýta. Í jarðarför bróður hans myndast samband milli hans og litla drengsins Martins og áhorfandinn trúir því, að nú sé sagan að hefjast - sagan um samband þeirra Nick og Martins, enda hafði Nick alltaf haft áhuga á börnum og sýnt það í verki sem 12 ára, þegar hann reyndi að halda lífi í yngsta bróður sínum nýfæddum, sem móðirin sinnti ekkert um. 

Allt er þetta með miklum ólíkindum en á einhvern hátt gengur sagan upp. Mest er það fyrir afburðaleik og góða töku, klippingu og leikstjórn. Það vantar reyndar eitthvað upp á að sagan haldi allt til loka myndarinnar, en það skrifast á þennan langa innskotskafla með yngri bróðurnum, þar sem hann með skáldaleyfi er sýndur sem ástríkur faðir að sinna skyldum sínum á heimilinu og leikskólanum milli þess sem hann útvegar sér efni og sprautar sig. Í raun og veru er þetta forleikur að sögunni um Nick og Martin, sem er ekki sögð í myndinni. Myndin endar í blábyrjun 2. þáttar í þeirri sögu, sem við skynjum að er saga aðalpersónunnar Nick. Sú saga fær okkur til að fyrirgefa að Nick virðist ekki hafa neinn vilja alla myndina og eina sem veldur honum áhyggjum eru afdrif Martins, en þannig verður að skilja þesssa einkennilegu árás hans á almenningssímann framarlega í myndinni. Að tilfinningahluti myndarinnar gerist hjá yngri bróðurnum, sem er dópisti í hröðum spíral til dauðans, er ástæðan fyrir því að þessi uppsetning pirrar áhorfandann. Nick ætti að gera eitthvað í málinu, en gerir ekkert. Hvers vegna, er hvergi útskýrt. Hann gefur litla bróður sínum sinn hluta arfsins handa drengnum vitandi að bróðir hans er dópisti. Nick er ekki svona heimskur. Hann er heldur ekki svo vitlaus að hann skilji pervertinn eftir hjá stúlkunni. Allt yfirbragð pesónunnar er í einhverri andstöðu við gerðir hans og aðgerðarleysi. Við eigum að vita, að hann hefur verið eyðilagður strax í uppeldinu, sem ekkert var. Og við eigum að trúa því að eitthvað upprunalega gott hafi leynst í honum gegnum glæpaferil og fangelsi. Og við trúum því, þök sé þessum frábæra leikara. Það er fyrst þegar staðið er upp frá myndinni, að maður fer að hugsa, nei þetta stenst ekki. Það ískrar svolítið í þessu öllu. Vandinn er ekki síst sá að umhverfi myndarinnar er fíkniefnaheimurinn. Hvernig á edrú áhorfandi að setja sig inn í eiturvímuna og dauðaspíralinn? Þetta er leyst með ýmsum hugmyndum, sem verða viðteknar í kvikmyndum, en standast kannski ekki próf raunveruleikans. Sama vandamál kemur upp með persónu sem er drukkin, svo ekki sé talað um persónu sem ekki hefur verið edrú árum saman, eins og gefið er í skyn með móðurina. Hvernig er tilfinningalíf fíkilsins á þessu stigi í neyslunni og á þessu stigi áhrifanna osfrv. Þetta verður ekki leyst nema með einföldunum og í þessari mynd er ekki reynt að fara einföldustu leið. Þess vegna gæsalappirnar. Þrátt fyrir þetta er lýsingin á heimi utangarðsfólks í Kaupmannahöfn sannfærandi sögusvið myndarinnar. 

Sá hluti sögu aðalpersónunnar sem myndin rekur er skemmtilega rammaður með brotum frá því drengirnir voru að bjástra með barnið, m.a. að skýra það, skömmu áður en það dó. Þó 3. þáttinn vanti er meining myndarinnar ma þess vegna alveg skýr. Foreldrarnir, sem elska ekki börnin sín, eru rót vandans. Þess vegna er þessi draumsýn um dópistann sem ástríkan föður eiginlega bæði fáránleg og sniðug á sama tíma. Í sögum erum við gjarnan með afbragðsfólk, og þó sagan um yngri bóðurinn sé svo ótrúleg, að maður hætti að taka hana alvarlega, virkar hún samt. Hvað ef? Hvað ef það tækist? Og eins og hjá Nick, þá er leikurinn svo sannfærandi að maður vill trúa. Og það gildir um myndina þrátt fyrir allt, að hún skilur áhorfandann eftir í sjokki. Og áhorfandinn vill trúa, að einhverstaðar sé ljósgeisli fyrir þá Martin og Nick í sögunni, sem heldur áfram eftir að kreditlistanum er lokið. 

ÞJ 7. jan 2011Taxi Driver


1976 - Martin Scorsese

Taxi Driver er varða í kvikmyndasögunni. Myndin er merkileg fyrir það, að hún sannar kenningu handritshöfundarins Paul Schrader, sem hann kenndi í USA og ég var svo heppinn að heyra hann útskýra á námskeiði í Kaupmannahöfn 1995. Þetta var þreytulegur miðaldra maður með þunnt grátt hár og skegg. Hann leit á sig sem fulltrúa menningarinnar, einhvers konar existeníalista. Hann sagðist gera myndir um efni og leitaði að líkingum (metafórum), nokkuð sem Frank Daniel sagði að væri ekki hægt. (Frank var talinn fremsti handritakennari heims og ég var líka svo heppinn að kynnast honum og læra af honum á námskeiðií Velen 1993). En hvað um það, kenning Schraders: Ef sagan (líkingin) nær því að fjalla um efnið (vandann, þemað) verður að neista á milli. Fjarlægðin þarf að vera rétt. Það má ekki verða stöðugur straumur og ekki heldur of langt fyrir neista. Sagan í Taxi Driver - leigubílstjórinn sem keyrir á nóttunni vegna þess að hann getur ekki sofið - segir eitthvað um efnið - einmanakennd í stórborg. Einmana gamall maður innilokaður í íbúð væri of nálægt og t.d. lögga sem lemdi eiginkonuna og börnin sín mundi ekki tengja við efnið, þó ástæðan væri hugsanlega einsemd. Með Taxi Driver og myndum eins og Raging Bull og American Gigolo prófaði Schrader á gólfinu það sem hann kenndi. Í skólanum bað hann áhugasama kannski 1000 nemendur að láta sig hafa hugmynd að sögu og valdi 10 af þeim til að útfæra sem handrit. Í vel heppnuðum dramatískum verkum - skáldsögum, leikritum og kvikmyndum - finnur maður þessa uppsetningu, hvort sem höfundarnir beita henni meðvitað eða ekki.

Taxi Driver er skrifuð bæði með hliðsjón af skáldskaparfræðum Aristotelesar og þessari kenningu. Það eru ekki veilur í dramatískri byggingu hennar. Þess vegna er merkilegt hvesu illa hún ber aldurinn. Hve hinn einmana og óþroskaði Travis (Robert DeNiro) er langt frá því að gefa manni svörin 2012. Sjarminn kringum Travis, sem að stórum hluta er afrek hins unga DeNiro, hefur dofnað nóg til þess að maður dvelur við innviði persónunnar, sjúkt óþroska barn í líkama fullorðins manns hættulegt sjálfum sér og umhverfi sínu. Í byrjun myndarinnar virðist Travis búa yfir einhverju. En bið verður á því að þetta „eitthvað” komi í ljós. Í lokin hefur hann afhjúpað sig sem útgáfu af hinum norska Brevik en er í eigin augum alþýðuhetja.

Travis hrífst af stúlkunni Betsy (Sybill Shepherd) sem vinnur á skrifstofu frambjóðanda. Hann klúðrar fyrsta stefnumótinu við hana með því að bjóða henni á klámsýningu. Henni er misboðið og honum finnst hann ranglega dæmdur. Hann ekur um og finnur að eitthvað er að þarna á götunum. En hann skilur ekki hvað það er og hann skilur ekki aðrar persónur, hvorki Betsy, frambjóðandann, né melluna Irisi. Hann finnur að hann er einangraður og lítils virði og vill breyta því. Fyrsta sem honum dettur í hug - dæmigert fyrir bandaríkjamann - að grípa til byssunnar. Mótífið vantar algjörlega. Fara út að skjóta eins og veiðimaður sem fer út í skóg. Nema Travis hefur tapað tilganginum með veiðunum (að ná sér í mat). Eina uppeldið sem hann hefur fengið er þjálfunin í hernum. Hann æfir sig í hernaðardyggðum - meðferð vopna og líkamþjálfun. Svo heldur hann út á götu vopnaður ekki lakar en Egill Skallagrímsson mutatis mutandis. Hver fyrir árásinni verður virðist tilviljun. Frambjóðandinn á torginu sleppur og næst eru það vændissölumennirnir. Hann skýtur niður nokkra slíka og “bjargar” úr hreiðri þeirra barnungri stúlku Iris (Jodie Foster), sem þeir hafa platað í vændi. Gæsalappirnar vegna þess að Travis orkar á saklausan áhorfanda eins og geðsjúkur maður, fremur en hann sé meðvitað að vinna þetta björgunarafrek. Og getur það talist góðverk að skjóta niður nokkra menn sem virtust skíthælar við fyrstu sýn? Á maður kannskiað ganga inn í lélegustu tegund af móral og taka þetta gott og gilt? Þessum viðbjóði í mynd fylgir góður skammtur af sóðakjafti, sem íslenskur foringi í tossaklíku gæti verið fullsæmdur af. Tvöfeldnin er teiknuð á veggina með blóði. Það sem höfundurinn hefur að segja um einsemd í borginni drukknar í þessari sjálfumglöðu tjáningin á siðleysi og ofbeldi. Höfundurinn býður áhorfandanum upp á að reka andlit sitt ofan í sorann sér og höfundinum til skemmtunar. Hvað segir þessi blóðslettusýning um einsemd í stórborgum?

Í uppgjörinu fær Travis hjartnæmt bréf frá foreldrum stúlkunnar, sem þakka honum fyrir hjálpina. Stúlkan skilaði sér heim til foreldranna og allir glaðir. En Travis er á sama stað. Hjá honum hefur ekkert breyst. Nema hann lítur á sig sem hetju fyrir að láta vopnin tala þarna í fátæktarhverfinu, og þegar Betsy, sem vildi hann ekki kannski vegna þess að hann var nobody, virðist hafa fengið áhugann aftur, hefur hetjan Travis misst hann.

Við endurmat á þessari sögu er þetta náttúrulega tómt bull og stenst enga skoðun.

Á þeim tíma sem myndin kemur út er mikil aðdáun á Ameríku um alla Evrópu og marga dreymir um framtíð þar. New York er í stjörnuljóma meðal borga heimsins og svo skeður það skondna að úthverfan á lífinu í New York - dapurleikinn á gangstéttunum þar sem fátækt og réttlaust fólk er í örvæntingu að reyna að hafa í sig og á með því að selja það eina sem það á, líkama sinn - verður söluvara og andlag hégóma hjá aðdáendum Ameríku handan hafsins. Núna 35 árum síðar er hægt að skoða myndina ferskum augum framhjá hrifningu tíðarandans 1976 og horfa inn í svarta kvikuna á áferðarfallegri en þunnri tálsýn.

Fróðlegt er að rifja upp umræðu um aðra mynd á námskeiðinu í Kbh 1995. Schrader fannst Pulp Fiction hræðilega erfiður biti að kingja. Ástæðan var sú, að myndin var svo góð. Hún hefur breytt kvikmyndunum, sagði Schrader. Málið var ekki að hún væri dýpri eða merkilegri en myndir fram að því, heldur voru gerðir persóna innan gæsalappa. Að drepa var ekki að drepa. Tarantino sneri öllu við í kvikmyndunum. Hann kom með veruleika tölvuleikjanna inn í kvikmyndirnar. Tarantino var ógnun við Schrader. Ef þetta var það sem koma skal, var ekkert pláss fyrir menn eins og Schrader.

ÞJ 25 Jan 2012

Til baka

Um dreng

About a Boy
2002 Chris og Paul Weitz (skáldsaga Nick Hornby) 

Við kynnumst Will, sem á það sem hugur hans girnist en gerir ekkert og er ekkert, eins og hann orðar það sjálfur. Það er ekki fyrr en í lok myndarinnar að rennur upp fyrir honum, að hann geti (eigi, verði) að breyta lífi sínu. Hann fer að sinna dreng, sem hann hefur kynnst og þarf á honum að halda. Drengurinn er ráðagóður og vel gefinn, en býr við erfitt fjölskyldulíf, með einstæðri móður sinni, sem er sjúklega þunglynd og reynir að farga sér með vissu millibili. 

Drengurinn, Marcus, er skemmtilega sköpuð persóna, sem auðvelt er að skilja og tengjast. Öðru máli gegnir um aðalpersónu myndarinnar, Will. Hann er ósannfærandi og ónothæfur sem aðalpersóna af ýmsum ástæðum. Hann hefur engan „farangur”, ef undan er skilinn brandarinn um látinn föður sem samdi eitt hittlag, sem enn er spilað og heldur honum uppi. Hann býr í hannaðri íbúð og ekur í dýrum sportbíl og eyðir tímanum á hárgreiðslustofum og fyrir framan sjónvarpið. Hann hefur engin sérstök einkenni né hefur hann reynslu af neinu tagi. Hvað hefur mótað hann? Hvar hefur hann alið manninn? Hverjir eru vinir hans? Röð ósvaraðra spurninga og klisjumynd af systur og eiginmanni hennar. Will hugsar upp bragð til að komast í kynni við konur. Það dugar ekki og honum virðist sama. Hann finnur einhveja vöntun, að hann þarf á einhverju öðru að halda - að tengjast manneskju. 

Niðurstaðan er fyrirséð og umfjöllunin um þennan tómlega neysluborgara jafn innantóm og hann er sjálfur. Jólaboðið í lok myndarinnar bætir engu við. Þannig séð endar hún eftir 1. Þátt. Forsendurnar eru komnar og hann veit hvað hann þarf að gera en myndinni lýkur fyrir átök annars þáttar og uppgjör þriðja þáttar. 

Athyglisverður er leikur Hugh Grant, þar sem honum tekst að halda spennu í því, hvað Will gerir - aðallega hvað hann segir og hvernig hann bregst við - þegar lygar hans uppgötvast. Með sínum persónulega sjarma tekst honum að halda athygli áhorfandans án þess að hann taki strax eftir því, hversu ófullnægjandi persónan er. En svo koma eðlegu viðbrögðin - nú gerir hann það? Það er ekki hægt að fá samúð með honum. 

ÞJ 5. október 2010


Til baka

Uppfrá og niðurfrá 

Tengoku to jigoku / High and Low


Athyglisvert er hvernig efnið rís úr sögunni - úr einfaldri sögu um mannrán í átakanlega umfjöllun um ábyrgð manna hvers á öðrum.

Upphafið fjallar um, hvernig á að reka og efla stórfyrirtæki þar með talda listina að stýra yfitöku. Myndkaflinn snýst um yfirráð yfir fyrirtækinu.

Gondó, stór eigandi í skóverksmiðju, vill framleiða skó sem endast. Það skilar hagnaði til lengri tíma litið, segir hann. Hinir hluthafarnir vilja framleiða ódýra tískuskó og selja fleiri pör. Hinir hluthafarnir bjóða Gondó að vera með. Hann hefur undirbúið sig með því að kaupa hlutabréf og nú er hann að skuldsetja sig í botn til að ná meirihluta.

Leikurinn snýst um hver sigrar í hörðum leik viðskipanna. Og Gondo er keppnismaður. Að sigra eða vera sigraður. Það kennir Gondo syni sínum, og fyrir það stendur hann, að vera „maður” og sigra.

Hann er með tékkann í höndunum, þegar síminn hringir. Röddin segist hafa rænt syni hans og krefst lausnarfjár, ef hann vill sjá son sinn aftur lifandi. Gondó samþykkir að láta féð af hendi til að endurheimta son sinn, þó það þýði fullkominn viðsnúning á viðskiptunum, endalok hans í fyrirtækinu og kannski gjaldþrot. Sonur hans er öllu öðru mikilvægara.

Sonurinn birtist á gólfinu heill á húfi, en sonur bílstjórans er horfinn. Síminn hringir. Röddin segir þetta engu breyta. Sonur bílstjórans verði drepinn nema Gondo borgi upphæðina.

1. þætti í sögu Gondo er lokið. Hann situr uppi með spurninguna, ber hann ábyrgð á lífi sonar bílstjóra síns?

Gondo snýr við blaðinu. Hann hringir í lögregluna. Hann borgar auðvitað ekki.

Lögreglumenn koma dulbúnir eins og flutningamenn undir stjórn Tokura yfirleynilögreguþjóns. Yfirtakan hverfur í baksvið og málið snýst um það, hversu mikils virði líf sonar bílstjórans sé. Óendanlega mikils virði fyrir bílstjórann, en ekki fyrir Gondo. Hins vegar getur bílstjórinn ekki bjargað syni sínum. Gondo getur það. Gondu stendur frammi fyrir spurningunni: Ber hann ábyrgð á lífi annarrar manneskju.

Tokura biður hann um að þykjast ætla að borga til að gefa lögreglunni tækifæri að finna ræningjann. Gondo samþykkir það, og á endanum ákveður hann þrátt fyrir allt að greiða féð.

Yfirtakan kemur aftur í fókus augnablik. Hægri hönd Gondo í fyrirtækinu hefur svikið hann og nú kemur hann og býður Gondo stöðu, ef hann vinni með nýju eigendunum. Gondo rekur hann út og kallar hann mannleysu.

Nú er sæmdin orðin mikilvægari en að sigra. Gondo vill heldur gjaldþrot en málamiðlun með framleiðsluna. Aðstoðarmaður hans fyrrverandi hefur selt sálu sína og er ekki „maður”. Gondó er rekinn úr fyrirtækinu og hann er gerður gjaldþrota.

2 þætti í sögu Gondo virðist lokið með „ósigri” og nú tekur við langur kafli, sem lýsir vinnu Tokura við að finna ræningjann. Tokura verður gerandinn í myndinni og við fáum nokkuð nákvæma útekt á því hvernig lögreglan fer að því að finna ræningjann þrátt fyrir fáar vísbendingar. Lykliatriði er skemtmtilegur brandari, þar sem bleikur reykur liðast upp úr skorsteini í borginni í þessari svarthvítu mynd og vísar á hinn seka - svolítil stríðni Kurosawa, honum hefur kannski fundist menn nota hina nýju tækni litinn án merkingar.

Þegar ræninginn finnst er Tokura ekki sáttur við að ræninginn fái aðeins 13 ár fyrir fjárkúgun meðan Gondo tekur í raun út lífstíðardóm. Hann leggur því gildru fyrir ræningjann til að sanna á hann morð. Fyrir það verður hann dæmdur til hengingar. Það gengur eftir og lýkur þar þessum innskotskafla, sögu Tokura.

Gondo hefur fengið mikla samúð, blaðamenn hafa unnið með lögreglunni til að finna ræningjann og neytendur hafa bundist samtökum um að kaupa ekki skó af nýju eigendum skóverksmiðjunnar. Gondo hefur stofnað nýtt fyrirtæki þar sem hann ætlar að framleiða vandaða skó. Þetta er seinni hlutinn af 2. þætti í sögu Gondo og lýkur eiginlega með sigri. Hann hefur á vissan hátt sigrað þrátt fyrir gjaldþrotið. Hann hefur staðið undir 1) sæmdinni sem maður 2) félagslegu ábyrgðinni sem borgari, og 3) meginreglum sem vandaður fagmaður (skósmiður).

Síðasta ósk ræningjans er að hitta Gondo. Í byrjun fjallar samtalið um pólitík - muninn á þeim tveimur. Annar hefur alist upp í eymd og fátækt í hitasvækju neðsta hverfis. Hinn býr í vellystingum í andvaranum uppi á hæðinni. Ræninginn hefur horft á hann úr holu sinni og fóstrað með sér óendanlegt hatur á þessum ríka manni í einbýlishúsinu á hæðinni.

Ræninginn vill sýna Gondo, að Gondo hafi ekki sigrað. hann segist ekki hræðast dauðann. En hann getur ekki staðið við orð sín. Hann brotnar og brestur í grát.

Í lokakaflanum tekur höfundur enn heljarstökk yfir á pólitískt plan og í framhaldi af því yfir á siðferðislega spurningu. Annar hefur notað stöðu sína (gáfur og hæfni) til að taka sér vald yfir lífi og dauða drengsins (og nokkurra eiturdjönkara) til að refsa hinum ríka, hinn hefur notað auð sinn og frama til að bjarga lífi saklauss drengs. Ræninginn er knúinn af hatri og frumstæðri pólitík en Gondó af sæmd og mannúð.

Efnið - spurningin um ábyrgð okkar á lífi annarra, hefur farið í gegnum umfjöllun á yfirtökutaktík, vörugæðum eða gróða, mennsku (að vera maður), sæmd, pólitík og siðfræði.

Og til viðbótar er siðfræðin í sögu Tokura, sem kemur eins og fleygur inn í lok 2. þáttar í sögu Gondo og tengist uppgjörinu í 3. þætti milli Gondo og ræningjans og fjallar um rétt og rangt frá bæjardyrum samfélagsins. Á ræninginn að hanga eða ekki?

Sagan er um Gondo, sem svarar spurningunni um ábyrgð sína á meðbræðrum sínum með því að fórna öllu sem hann hafði unnið í keppninni um auð og völd og kemst að því að „maður” er ekki sá sem sigrar, heldur sá sem stendur og fellur með sannfæringu sinni.

Það er athyglisvert að siðrænu prinsippin eru ekki aðeins ábyrgðin gagnvart öðrum, heldur líka vandaðir skór.

Aukasagan sem flýtur með, saga Tokuru, er um mann sem er ekki sáttur við að refsingar séu samkvæmt bókinni, þetta mörg ár fyrir mannrán, þetta fyrir fjárkúgun osfrv. Hann vill að stærð refsingarinnar fari eftir „illsku” brotsins og hverjum er brotið gegn.

Þannig nær hann fram sínu persónulega réttlæti, sem áhorfandinn út af fyrir sig samþykkir eða ekki. Svo er auðvitað önnur spurning, hvort lögreglumönnum sé treystandi til að fara með slíkt persónulegt réttlæti.

Enn einn aukabónus er skemmtileg skráning á vinnumenningu Japana, þar sem hópurinn í lögreglunni vinnur eins og einn maður og engin togstreita milli stjórnenda og óbreyttra.

ÞJ endurskoðað 18 sep 2015

 


Vegurinn

The Road 
2009 - John Hillcoat (saga Comack McCarty)

Í auðn þar sem mannlegt samfélag er horfið og náttúran dauð eru faðir og sonur á ferð. Þeir eru matarlausir og klæðalitlir og hætturnar á leiðinni eru glæpagengi, sem halda í sér lífinu á mannáti. Móðirin hafði gefist upp og gengið út í myrkrið til að deyja. Dauðinn er orðinn hið eftirsóknarverða í lífinu. Þeir hafa byssu og tvær kúlur til að farga sér, ef þeir nást af mannætum. 

Vandinn er vissulega stór en þetta er hvorki ævintýrasaga né spennusaga í hefðbundinni merkingu. Faðirinn samþykkir ekki lausn móðurinnar. Hún segir honum að fara til strandar. Hann einsetur sér að leysa óyfirstíganlegt verkefni, að komast með drenginn þangað. Honum tekst það eftir að ganga gegnum hrylling og hann deyr í fjörunni. Samskipti föðurins og sonarins fjalla um góða og vonda fólkið. Faðirinn útskýrir muninn. Þeir eru góða fólkið og þeir hafa eldinn í brjóstinu. Hann brýnir fyrir drengnum að finna góða fólkið. Vandinn er hvernig. 


Faðirinn er farinn að haga sér svolítið eins og vonda fólkið undir lokin. Hann vill ekki gefa blinda manninum af matnum þeirra og hann skilur þjófinn eftir berstrípaðan í fjörunni. Drengurinn hefur lært og ekki spillst af harðneskjunni í umhverfinu. Hann er ekki sáttur við hvernig faðirinn kemur fram við þessa menn. Hverng fer fyrir drengnum? Út úr þokunni birtist maður með byssu. Hann reynist vera með konu og tvö börn og hund og þau hafa elt feðgana af einhverjum ástæðum. Drengurinn er heppinn, maðurinn reynist tilheyra hinum góðu. 

Þetta hljómar eins og ódýr hryllingsmynd, en hún orkaði ekki þannig á mig. Það er hugsun á bak við þessa vinnu. Höfundarnir hafa ekki tekið að sér að búa til skemmtiefni handa fólki, sem langar að hverfa úr sínum eigin veruleika í annan meira krassandi. 

Kosturinn við myndina er hveru strípuð hún er. Þráðurinn er eins og leikmyndin, auð jörð og fáein brunnin tré. Faðirinn þraukar út stríðið og á litla sigra og fellur í gildrur. Við óttumst um hann og stöndum með honum. Hann bíður ósigur fyrir hungrinu og sjúkdómunum, ekki vonleysinu og ekki mannætunum. Hann tapar mannúð sinni að nokkru, en drengurinn varðveitir sinn eld í brjóstinu. Vonin sem kemur í lokin er þó tímabundin, því ekkert bendir til að framundan sé betri tíð. 

Sem dæmi má nefna atriðið í sveitahúsinu. Faðirinn finnur falinn inngang að kjallara. Í kjallaranum hefur verið komið fyrir fólki, sem íbúarnir ætla sér að éta. Mannæturnar koma og faðirinn og sonurinn forða sér upp á loft. Á klósettinu gerir faðirinn sig kláran að skjóta drenginn í hausinn. En heppnin er með þeim. Áður en þeir finnast, reyna fangarnir að flýja og í upplausninni tekst þeim að flýja. 

Leikmyndin er einföld næstum því eins og í leikhúsi og hófstemdur leikur Mortensen litast af því og myndin í heild fær á sig leikhúslegan blæ. En það kemur ekki að sök. Þetta er dæmisaga, og ég sætti mig við að hún sé sögð sem slík. Ég þarf ekki að detta inn í myndina og gleyma mér í spennu. Hún virkar án þess. 

Það merkilga við myndina er, að hún fjallar eiginlega um það sem vantar. Áhrifin eru djúpur söknuður eftir þessu tvennu, sem var nefnt fjarverandi í byrjun, mannlegt samfélag og náttúran. Hvorutveggja jafn sterkt. Þarna sjáum við manninn, þegar hann er búinn að eyðileggja jörðina og gera hana óbyggilega. Það er kannski búið að berjast um verðmætin og eyða þeim öllum. Þeir, sem eftir eru, lifa á því að éta hverjir aðra. Við sjáum næstum því eins og gesti nokkra fulltrúa “góða fólksins” sem bráðum verða étnir líka, nema þeim takist að drepa sig fyrst. 

ÞJ 7. sept 2010 

Vonarstræti


2014 - Baldvin Zophoniasson

Eik (Hera Hilmarsdóttir) er móðir 8 ára stúlkubarns og leikskólakennari og „hamingjusöm“ mella í aukavinnu á kvöldin. Hún nýtur starfsins og aukavinnunnar og uppeldisins. Eina sem kemur henni úr jafnvægi er afi hennar, sem hún vill ekki að komi nálægt dótturinni, mann grunar hvers vegna. Hún er beðin um að skreppa til Flórida að þjóna íslenskum bankamönnum og vantar pössun. Þá er afinn (reyndar dauðvona) líka í gistingu hjá pabba og mömmu. Frekar lætur hún fyllibyttuna og rithöfundinn Móra (Þorstein Backman) gæta stúlkunnar úr því að þannig er ástatt. Móri dettur íða eins og búast mátti við og stúlkan út á götu um nóttina og fær kast og allt í vitleysu þegar Eik kemur úr vinnuferðinni. Afi liggur fyrir dauðanum og hennar bíða skilaboð að hann vilji sjá hana. Hann er hins vegar í dái, þegar hún kemur og hún spyr líflaust andlitið, hvort hann vilji biðjast afsökunar á því að hafa misnotað sig frá 6 ára aldri. Mamma verður fyrir áfalli og sagan búin, nema það kemur útfærsla á organistasenunni í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness og Móri selur húsið og leggur inn á reikning Eikar.

Eik er aðalpersónan. Erfiðasta ákvörðun hennar er hvort hún eigi að heimsækja afa sinn. Hún gerir það og lætur hann „heyra“ það dauðan eða hálfdauðan en mamma heyrir. Það er allt uppgjörið.

Snýst myndin um þetta vandamál? Ekki verður það séð. Eik hefur á einhverju stigi átt verulega bágt og þetta ógeðslega ofbeldi afa hennar hefur haft afleiðingar, en það er utan myndarinnar. Staðan í tíma myndarinnar er einhverskonar jafnvægi. Að minnsta kosti verður ekki annað séð en að Eik sé sátt. Í myndinni er hún því komin yfir vandamálin nema smá yfirdrátt í bankanum, og hún er opin fyrir lífinu og getur gert þessa skítugu og úfnu örlagafyllibyttu að vini sínum.

Hugmyndin hefur kannski verið að sýna áhorfandanum hvað býr að baki hamingjusömu andliti hóru sem selur hvaða drusludela líkama sinn. Það virkar bara ekki, vegna þess að áhorfandinn fær ekki tilfinninguna fyrir því hvernig ástatt er fyrr en í lokin. Leikkonan þarf að koma tilfinningunni til skila gegnum leik áður en skilningur áhorfandans er til staðar. Þannig er myndin eiginlega frá upphafi og einnig í mikilvægri sögu Móra, en kurl koma ekki til grafar þar fyrr en í lokin, þeas hvers vegna hann drekkur svona ótæpilega. Önnur aukasaga, saga Sölva, er öðruvísi, þar fylgjast að upplifun áhorfandans og persónunnar og þar er hægt að fylgja persónunni og skilja hana, eftir því sem sagan gefur tilefni til. En Sölvi lærir það í sinni sögu, að best sé að þegja yfir leyndamálunum og láta sem þau séu ekki til og birsta sig ef einhver möglar. Niðurstaða sem er sérkennileg í tengslum við aðalsöguna.

Hitt er svo annað mál að allar sögurnar þrjár, Eikar, Móra og Sölva, hafa sameiginleg einkenni, þær eru eins og afsakanir fyrir rangri hegðun. Eik er mella. Það er vegna þess að afi hennar misnotaði hana. Móri er fyllibytta. Það er vegna þess að hann fór að rífast við eiginkonuna og stúlkubarn þeirra hljóp út á veikan ís á tjörninni. Sölvi er (eða verður) fjárglæframaður. Það er vegna þess að hann hélt/var plataður til að halda framhjá. Fyrri tvær eru gamalkunnar og sumir mundu flokka þær sem klisjur, en sú síðasta er að minnsta kosti óvenjuleg. En Þessar sögur eru eiginlega fremur bakgrunnur heldur en saga. Segja má að söguna sjálfa vanti.

Þegar söguna og efnið vantar í handritið er erfitt að gera kröfu til leikara. Því er að mörgu leyti aðdáunarvert hversu vel Þorsteinn Backman og Hera Himarsdóttir komast frá sínum hlutverkum á sjarmanum þar sem handritið hjálpar þeim ekki.

Vonbrigðin yfir að geta ekki lifað sig inn í söguna líða hjá á einum degi og þá er hægt að hugsa um hvernig þetta gæti verið öðruvísi. Sagan liggur í baráttu og uppgjöri Eikar við afa sinn. Hún er í útfærslu myndarinnar afgreidd í 1) tveimur reiðiköstum Eikar og flótta í framhaldi af því og 2) í heimsókn hennar á sjúkrahúsið, þegar engin viðureign getur farið fram. Ef Eik hefði mætt afa sínum framar í myndinni og við hefðum kynnst honum sem ábyrgum borgara og fjölskyldumanni og við hefðum fengið söguna um viðbrögð hans og kannski tilraunir pabba og mömmu til að sópa öllu undir teppið og almennilegt uppgjör, þá væri þetta mynd með slagkrafti og meiningu, sem fengi áhorfandann til að lifa sig í gegnum söguna og verða einhverju nær í meðfylgjandi umfjöllun. Við þetta myndi saga góða Móra verða áhrifameiri, persónan sem fljótt á litið virðist líklegur til að vera það sem afinn er. Svo ekki sé nú talað um ef framlag hans í sögunni myndi hjálpa Eik í stóra vandanum, en peningar gera það held ég ekki. Handritið hefði getað farið í gegnum eina lagfæringu til viðbótar og þá væri á ferðinni mynd í háum (jafnvel hæsta) gæðaflokki, því margt er vel gert.

ÞJ 23 sep 2014 - endurskoðað 16 feb 2015

Til baka


Xl


2013 - Marteinn Þórisson


Flokksbróðir og forsætisráðherra vill að Leifur fari í áfengismeðferð. Myndin lýsir atburðum á leið Leifs, sem er í góðri stöðu, áður en hægt er að koma fyrir hann vitinu og loka hann inni í meðferð. Mest eru það ódramatískar tökur af neyslu áfengra drykkja, reykingum og mismunandi varíöntum af ástlausu kynlífi. Tökurnar þróa söguna ekki áfram og þær lýsa ekki aðalpersónunni umfram myndefnið í fyrstu fimm mínútunum. Ef áhorfandi hefur komið til að sjá leikna kvikmynd með sögu og efni er líklegt að honum leiðist. Hér er á ferðinni kvikmynd þar sem sagan er aukaatriði.

Ef litið er á byggingu myndarinnar, þá má taka tilmæli ráðherrans um að Leifur (Ólafur Darri Ólafsson) fari í meðferð sem lok 1. þáttar og nú taki við barátta Leifs við einhverja eða eitthvað um að komast í þessa meðferð eða ekki. En fyrir utan samtal við mömmuna sem einnig er alki, (Margrét Helga Jóhannsdóttir) og vill að hann ansi þessu ekki og samtal við fulltrúa meðferðarstofnunarinnar verður ekki vart við neina slíka baráttu. Eftir allt sukkið er hann tekinn af lögreglunni, og látinn fara í þessa meðferð (eins og það bjargi honum). Úr meðferðinni kemur hann þveginn og strokinn með sigurbros fram í kastljósþætti og þarf ekki lengur gleraugu. Söguefnið er að öðru leyti utan myndar. Í stað baráttu í 2 þætti kemur þetta fræðsluefni um ástlaust kynlíf og neyslu áfengra drykkja og enginn 3 þáttur.

Eina sem kemur Leifi úr jafnvægi í þessari löngu drykkjuvímu er hvarf dóttur hans af heimili eiginkonunnar, en hún hefur lent í sambandi við hugmyndalistamann og tekur þátt í gjörningi hans, þar sem Leifur er áhorfandi. Leifur sleppir sér alveg og ræðst á listamanninn, sem er með gervitippi bundið framan á sig í listrænum tilgangi. Átök þessi eru fremur óljós og sömuleiðis óljóst hver niðurstaðan er eða hvernig þetta tengist áfengissýkinni.

Leifur er í stöðu aðalpersónu. Hann fær athyglina og tekið er upp hans sjónhorn. Leifur er haldinn kvenfyrirlitningu og líka fyrirlitningu á sjálfum sér og samfélaginu og í rauninni lífinu öllu. Ærinn tími gefst til að kynnast fábrotnum áhugamálum þessa karakters, sem býr ekki yfir neinu og hefur lítinn eða engan vilja og er úr öllum tengslum við líkama sinn þó hann sé þingmaður og þvælist um ýmsar vistarverur við að þjóna frumþörfum og tilbúnum þörfum líkamans og svolgra í sig þessi líka kynstur af vökva. Hann hefur ekki lært umgengni við siðaða menn og tekur ekki ábyrgð á eigin hegðun. Hann er viljalaus hlutur á aumasta stað neyslumenningarinnar þar sem tilgangurinn er einn, að deyfa eða eyða tilfinningum og fegurð og virðingu og öllu því sem gefur mannlegu lífi gildi. Það þarf að fara lengra en ég þekki niður virðingarstigann í dýraríkinu til að finna hliðstæðu. Venjulegur heimilishundur mundi standa sig betur. Konurnar eru hórur og Leifur og félagar hans hórukaupendur og enginn nýr vinkill á það mál. Eiginkonan fyrrverandi (Nanna Kristín Magnúsdóttir) er eina skiljanlega persónan, og leikkonan gefur sannfærandi mynd af henni í þeim senubrotum sem hún fær. Í þessu söguleysi og efnisleysi er sukkað í löngum slarksenum og ekkert slugs í sambandi við myndvinnslu eða hljóðvinnslu og handlipur klippari hefur klippt efnið sundur og saman og slengt því fram og aftur til þess að geta notað það aftur og aftur í nýjum tilbrigðum en meiningin með þeirri vinnu er jafn óljós og niðurstaðan úr myndinni. Ef baráttan við fíknina hefði verið efnið, hefðum við þurft að finna fyrir baráttunni sem persónan á í við sjálfan sig. Og við þyrftum að kynnast þeirri persónu sem býr undir brennivínsyfirborðinu.

Það er hægt að velta fyrir sér hvað eigi að vera innihald þessarar kvikmyndar. Er það einhvers konar pólitík eða siðferðileg gildi eða lífsskoðanir? Með góðum vilja getur maður spurt, hvort þarna sé um að ræða ádeilu á neyslumenninguna. En til þess að svo sé fá söluhlutirnir einkennilega athygli og aðdáun. Bíl aðalpersónunnar er meira að segja stillt upp eins og í auglýsingaljósmynd og símar og vínflöskur, sígarettur og annað eftirlæti þessa fólks í upphöfnum bjarma allan tímann. Á mig orkar þetta eins og auglýsing á þessum neysluvörum og sukkinu þeim tilheyrandi. Ég fæ þá tilfinningu að einhver sé að hvetja mig til að vera eins og þetta fólk. Uppeldið og reynslan hindra mig í að gangast inn á þá áskorun. Þetta orkar svipað og þegar dælt er yfir mann auglýsingum frá Vífilfelli. Mann fer að langa í kók, þó maður hafi enga þörf fyrir það, vilji það ekki og viti að í því er alls konar óþverri.

Semsagt maður er engu nær. Hvað er það eiginlega sem áhorfandinn á að fá út úr þessari sýningu? Einhver mundi segja klám fyrir listaelítuna. Þarna er hægt að horfa á klám af ýmsum gerðum undir því yfirskyni að maður sé að horfa á listbrögð. Mér finnst það ófullnægjandi skýring, þegar elítan getur sótt sér það klám sem henni líkar á netinu. Er þetta fyrir fólk sem hefur þá kennd að sækjast í að horfa á samfarir með ókunnugu fólki í bíósal? Hver er málstaðurinn sem höfundurinn er að verja? Er það neyslan og sukkið? Hvað er þess virði að segja frá því? Hvað er það merkilgasta sem lífið hefur upp á að bjóða? Er verið að brjóta einhverja múra? Vantar eitthvað upp á frelsið til að nota klám undir yfirskyni listrænnar upplifunar? Mér er ekki kunnugt um það. En þegar menn nýta sér það, færi líka vel á því að það ætti sér einhvern stað í sögu og efni myndarinnar.

Í myndinni er að finna „listræn” brögð, þeas brögð sem oft er beitt í tilraunamyndum og „listrænum” myndum. Það er hoppað aftur og fram í tíma, og þarna er samtalstækni eins og í vönduðum kvikmyndum. Senan milli Leifs og ráðherrans er ágætt dæmi. Fín sena ef hún væri hluti af sögu. Það er beitt skapandi kvikmyndatöku og skapandi hljóðsetningu. Það er ekkert út á leik Ólafs Darra að setja með þennan fátæklega eintóna vilja persónunnar að vinna úr. Myndin er á háu plani ef talað er um kvikmyndatöku og hljóðsetningu. Í tónlistinni er einnig margt vel gert.

En nægja tæknileg gæði og utanaðkomandi tónlist til að gera kvikmynd að menningu, ef allt annað skortir? Ég segi nei.

Svo er önnur hætta, vegna þess að hluti þjóðarinnar gerir kröfur til kvikmynda, hvort sem þær eru íslenskar eða erlendar. Kröfuharðir áhorfendur gætu leitt þessa stefnu hjá sér og hugsað sem svo: Svona eru íslenskar kvikmyndir, myndasukk með engu efni og engri sögu. Ég er öðruvísi þenkjandi og við eigum ekki samleið. Það væri dapurleg niðurstaða.

Reynslan sýnir að áhrifamiklu sögurnar hafa byggingu, þar sem vissum grunnþörfum er fullægt eða ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Kvikmyndir þurfa að hafa sögu. Sagan þarf að fjalla um efni og sagan er einhvers konar vinkill á efnið eða flytur með sér skilaboð eða meiningu sem afleiðingu af þeim atburðum sem sagan greinir frá. Saga þarf að hafa aðalpersónu sem stendur frammi fyrir stóru spurningunni, sem efnið fjallar um. Aðalpersónan lendir eða kemur sér í þær aðstæður að hann þarf að gera eitthvað í málinu, fara í baráttu fyrir lausn vandans eða gátunnar. Lok sögunnar er einhvers konar mat á útkomunni eða lærdómar af baráttunni eða viðbrögð hinna við baráttu hetjunnar. Rannsóknir á söguþræði kvikmynda sýna að þetta er skilyrði þess að sagan geti haft tilfinningaleg áhrif. Áhorfandinn setur sig í spor hetjunnar og fer með henni í gegnum baráttuna og kemur út reynslunni ríkari og fær að launum niðurstöður hetjunnar, án þess að hafa þurft að fara í gegnum erfiðleikana og hætturnar, sem geta verið umtalsverðar. Þessar aðferðir eru ekki tilviljun. Þær hafa verið reyndar frá því að maðurinn byrjaði að segja sögur. Þær hafa verið fullkomnaðar í ýmsum greinum bókmennta og kvikmynda og líkt og með bulluhreyfilinn hefur ekkert slegið þær út.

Það er allt í lagi að reyna eitthvað nýtt. Menn gera tilraunamyndir og gengur misvel. Ég held að við séum ekki að upplifa slíka tilraun hér.

Ein nagandi hugsun fylgdi mér út úr bíósalnum. Vonandi er hún ekki rétt. Að það sé skyldleiki með aðferð höfundarins og aðferð Leifs í lífinu, stundum kallað alkohólismi. Aðferðinni má lýsa með einu orði - flótti. Leifur er á flótta undan lífinu og sjálfum sér. Kvikmyndahöfundurinn er á flótta frá hlutverki sínu, sem er það skapandi starf að búa til kvikmynd með áhugaverðri persónu í skemmtilegri sögu með mikilsverðu innihaldi (meiningu) um eitthvert efni. Meiningin er óljós, ekki verður séð hvert efnið er, söguna vantar og persónan er óspennandi. Ástæðan fyrir því að manni ekki aðeins leiðist heldur líður illa er sú, að með því að sitja kyrr er maður meðvirkur.


ÞJ 6 mars 2014

Til bakaÆvintýrið


1960 - Michelangelo Antonini

Tvær vinkonur fara í ferð með ríku fólki á skemmtibát. Anna er ástkona kvennabósans Sandro, en óánægð með sambandið. Í eyjunni hverfur Anna. Sandro reynir við vinkonuna, Claudiu (Monica Vitti), sem finnst það ekki viðeigandi fyrsta daginn, en fellur svo fyrir þessum óspennandi gaur.

Þarna er til dæmis atriðið á torginu í Palermo. Claudia vill ekki inn á einhverja skrifstofu með Sandro og bíður fyrir utan. Karlmenn snúa sér við. Fyrst þrír fjórir, svo fleiri. Maður á reiðhjóli, maður með handvagn. Allir stíga þeir fram eins og á leiksviði úr skúmaskotum eða fram á svalir. Claudia fer inn í verslun. Sandro finnur hana þar. Hún segist ekki þola þennan feluleik.

Í öðru atriði ræða Claudia og Sandro málin á þaki klausturs. Claudia rekur sig í bönd sem hanga úr kólfum klukknanna. Klukka hljómar fyrir ofan þau og annar klukkuhljómur berst til þeirra eins og bergmál. Hún áttar sig á því að það er ekki bergmál heldur svar. Hún togar aftur í bandið og svarið kemur strax. . Hún sér kirkju út við sjóndeildarhring.

Ég heillaðist af myndatökunni, þegar ég sá myndina fyrst. Á sýningunni í Kvikmyndasafninu var skorið ofan af og neðan, svo myndirnar nutu sín ekki. Í sannleika sagt var myndin ekkert lík minningunni, hvort sem það var röngum skurði að kenna eða ekki.

Persónurnar hreyfast um sviðið eins og dúkkur, taka sér stöður og taka sig út eins og þær séu að sýna föt. Monica Vitti hleypur um göturnar í þröngu pilsi og buslar í sjónum á klettunum. Í samanburði við hina leikarana er hún lifandi manneskja, en samt er einhver dauði í þessari mynd - uppstilltur veruleiki eins og kyrrmynd af gömlum ávaxtadiski. Og sagan er eiginlega ekki neitt.

Á sínum tíma var eitthvað hrífandi við myndina. Þá var hún eins og ferskur andblær við hlið amerísku myndanna 60-70. Það er átakanlegt að horfa á mainstream ameríska mynd frá þessum tíma núna, en maður átti ekki von á áfalli við að líta aftur á Antonioni. Gat mynd sem var bara tíska og stemningar heillað menningarelítuna í kvikmyndaklúbbunum upp úr skónum? Kannski er þarna eitthvað, en hvað?

ÞJ 3 okt 2007