Rósir‎ > ‎

Rósarækt á Íslandi

Það er ekki hægt að segja að á Íslandi séu kjöraðstæður fyrir rósarækt og takmarkast ræktun rósa hérlendis að mestu leiti við ræktun runnarósa. 
Fjölbreytnin hefur þó aukist til muna á síðustu árum og má að stórum hluta þakka það tilkomu Rósaklúbbs Garðyrkjufélagsins.  Mikill fjöldi sorta hefur verið fluttur inn á vegum rósaklúbbsins og hafa margar af þeim reynst vel.  Ég vonast til þess að sem flestar þeirra rósa sem prófaðar hafa verið eigi eftir að rata inn á þessar síður. 
 
Til þess að ræktunin takist sem best er mikilvægt að velja rósinni réttan stað í garðinum.  Til þess þarf að hafa eftirfarandi atriði í huga:
 
1.  Vaxtarlag 
 
 
 
4. Jarðvegur og áburðargjöf:
 
Flestar rósir þurfa nokkuð frjóan jarðveg og fæstar kunna við sig í þéttum, klesstum jarðvegi sem hlýnar seint á vorin.  Runnarósir þurfa almennt ekki mikla áburðargjöf og margar villirósir þrífast í nokkuð rýrum jarðvegi.  Til dæmis þrífast þyrnirósirnar best í frekar rýrum, sendnum jarðvegi og blómstra ekki vel fái þær of mikinn áburð.
 
Beðrósir þurfa úrvals gróðurmold til að þrífast vel, loftmikla og nærringarríka.  Eðalrósirnar eru þurftafrekastar og þurfa töluvert mikla áburðargjöf.

Dekurmeðferð fyrir prímadonnur (eðalrósir)

Fyrir þá sem dreymir um að rækta stórblóma eðalrósir úti í garði er úrvalið minna.  Flest allar eðalrósir eiga erfitt uppdráttar hér og ná ekki að sýna sitt besta nema í gróðurhúsum eða gróðurskálum.  Það eru þó undantekningar á öllum reglum og það finnast slíkar rósir sem geta plumað sig úti á sólríkum og skjólsælum stað í garðinum, t.d. við suðurvegg.  
 
Með nokkurri vinnu og nostri má kreista út nokkur blóm á sumri úr sumum af þeim prímadonnum sem annars ættu heima í gróðurhúsi.  Slík dekurmeðferð felur í sér:
 
    1. Vetrarskýli.  Þó að flestar af þeim rósum sem fást hér eigi að þola talsvert meira frost en við eigum að venjast á venjulegum vetri, a.m.k. hér á suðvesturhorninu, segir það ekki alla söguna.   Rósirnar þola illa umhleypinga og napra vinda og því er nauðsynlegt að skýla þeim, t.d. með striga eða jafnvel steinull.  Það gerir ekki mikið til þó að rósir sem blómstra á nývöxt kali eitthvað,  þær eru hvort sem er klipptar frekar mikið að vori.  Það er verra með rósir sem blómstra á eldri greinar.  Mikið kal kemur þá í veg fyrir blómgun það árið.
 
    2. Gott start að vori.  Þó að rósin hafi náð að tóra yfir veturinn er björninn ekki unninn, því okkar íslensku sumur er bæði styttri og svalari en rósirnar eiga að venjast.  Án aðstoðar eru allar líkur á að rósin verði þakin knúppum sem eru um það bil að opnast þegar fyrstu haustfrostin skella á.  Það er lítið varið í það.  Með því að setja plastskýli yfir rósina í maí má flýta blómgun um mánuð og er þá nokkuð tryggt að rósin nái að blómstra a.m.k. nokkrum blómum áður en sumarið er búið.  Þetta er tiltölulega einfalt í framkvæmd, hægt er að nota glæra plastpoka úr þykku plasti (t.d. undan vikri eða sandi).  Þá eru hornin klippt af til að það lofti um plöntuna og þeir síðan festir niður með tveim bambusstöngum.  Það er hægt að klippa stuttar raufar í hliðarnar á pokunum og þræða bambustöngina í gegnum þær (passa bara að þær verði ekki of rúmar).  Þá fýkur pokinn ekki út í veður og vind í fyrstu golu.
 
    3.  Vökvun með volgu vatni.  Með því að vökva með volgu vatni kólnar moldin ekki og plantan nær að vaxa betur þessa fáu daga sem sumarið varir.
 
Svo má líka hugsa sér að rækta viðkvæmari rósir í pottum, geyma í köldu gróðurhúsi yfir veturinn (eða jafnvel í bílskúr) og hafa úti á sólpalli yfir hásumarið.
 
 
 
Comments