Lokaverkefni nemenda í jákvæðri sálfræði við MTR

Hér gefur að líta nokkur af lokaverkefnum nemenda í áfanganum Jákvæð sálfræði sem kenndur er við Menntaskólann á Tröllaskaga. Nemendur fengu val um að gera listaverk með tilfinningu eða jákvæðnimöppur.

Við sköpun listaverkanna fengu nemendur nokkuð frjálsar hendur hvað framsetningu varðar. Einu staðlarnir sem þurfti að standast voru að gera verk sem táknar og vekur upp jákvæðni, vellíðan og aðrar góðar tilfinningar hjá þeim sjálfum. Þau sögðu svo frá því hvernig listaverkin hafa áhrif á sig, hvernig þau sjálf tengjast þeim, hvernig verkin tengjast námsefninu og fleira. Listaverkin skulu þau svo geyma þar sem þau geta alltaf náð í eða séð svo það minni þau á jákvæðnina þegar á þarf að halda.

Hluti hópsins valdi að vinna jákvæðnimöppur á Google Sites þar sem þau setja saman myndir, tónlist, bækur mat, upplifanir, litlu hlutina, markmiðin sem þau hafa náð, svokölluð „guilty pleasures“ og góðar minningar. Þetta á að vera samansafn þeirra „hluta“ sem gera þau að þeim og láta þeim líða vel. Við hvert atriði þarf að skrifa eitthvað, stutta lýsingu og hvernig atriðin vekja upp þessar tilfinningar, hvað þau þýða fyrir nemendum. Fengu nemendur fyrirmæli um að nýta sér það sem þau höfðu lært hingað til í áfanganum, setja síðuna fallega og frumlega upp og hafa hana bókarmerkta í vöfrum sínum svo auðvelt sé að líta við þegar jákvæðnihlutfallið tekur dýfu. Þessar möppur eru tól til einkanota svo ekki verða þær með hér.

Kennsla og umsjón: Guðbjörn Hólm Veigarsson