Námsmat

Námsmat

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er leitast við að hafa námsmatið leiðbeinandi fyrir nemandann og að hann sé vel upplýstur um hvar hann stendur í náminu hverju sinni. Lögð er áhersla á að nemandi geti sýnt þekkingu sína og færni með fjölbreyttum hætti og að nemendur og foreldrar fái upplýsingar um hvað hefur áunnist í náminu og að hverju sé stefnt.

Í kennsluáætlun námsgreina sem birtast á Mentor kemur fram hvaða hæfniviðmið liggja til grundvallar í hverri námsgrein og þar haldast í hendur nám, kennsla og námsmat. Námsmat endurspeglar þá vinnu sem nemandi innir af hendi jafnt og þétt yfir skólaárið og er ávallt sýnilegt nemendum og foreldrum á Mentor.


Hæfniviðmið aðalnámskrár í hverri námsgrein er sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggja á. Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er lögð áhersla á hæfnimiðaða kennslu með fjölbreyttum hætti. Þegar verkefni og kannanir eru lögð fyrir nemendur liggur ljóst fyrir hvaða hæfniviðmið er verið að meta hverju sinni og hvaða matskvarði liggur til grundvallar námsmatinu. Niðurstöðurnar eru birtar á Mentor ásamt þeim hæfniviðmiðum sem unnið var með. Á hæfnikorti nemanda koma fram upplýsingar um framvindu námsins og námslega stöðu hans. Í lok skólaárs hafa safnast saman á hæfnikorti nemanda námsmat tengd þeim hæfniviðmiðum sem unnið hefur verið með í hverri námsgrein. Matskvarði hæfniviðmiða í Grunnskóla Snæfellsbæjar er fimm skala matskvarði.

Leiðsagnarnám

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er verið að innleiða leiðsagnarnám í kennslu sem tekur gildi seinni hluta skólaársins 2020-2021 og er það lagt til grundvallar öllu námsmati. Tilgangur leiðsagnarnáms er að gera nemendur færari um að taka ábyrgð á eigin námi. Forsenda þess er að nemendur séu vel upplýstir um námsmarkmið sín og hvað þarf til að ná settum markmiðum og jafnvel metið eigið vinnuframlag. Hlutverk kennarans er að veita nemendum reglulega endurgjöf eða leiðsögn á meðan á náminu stendur og upplýsa nemandann um það hvort hann hafi náð þeim markmiðum sem lögð voru til grundvallar. Ef nemandi nær ekki þeim markmiðum þá leiðbeinir kennari nemanda um það hvaða leiðir hann getur valið til að ná markmiðum sínum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig leiðsagnarnám er ferli sem miðar að framförum í námi.

Í lok skólaárs er farið markvisst yfir hæfnikort nemanda og dregnar niðurstöður af árangri skólaársins í eina hæfnieinkunn, en lokamat er í formi bókstafa sem raðast á sex stiga hæfnikvarða.


Matskvarði í bókstöfum að vori


A Nemandi sýnir framúrskarandi hæfni með dýpkun eða skapandi nálgun

í námi og sýnir stöðugleika, sjálfstæði og ábyrgð


B Nemandi hefur náð langflestum hæfniviðmiðum í námsgreininni


C Nemandi þarfnast þjálfunar í flestum hæfniviðmiðum í námsgreininni


D Nemandi hefur ekki náð mikilvægum hæfniviðmiðum í námsgreininni


Skólum er heimilt að gefa B+ og C+ ef frammistaða nemanda nær ekki fyllilega matsviðmiðum fyrir A eða B


Matsviðmið við lokamat útskriftar úr 10. bekk grunnskóla og þrep í framhaldsskólum

Nemandi sem hefur náð matsviðmiðum B, B+ og A við útskrift úr 10. bekk grunnskóla færist yfir á 2. þrep framhaldsskóla en nemandi sem hefur náð D, C og C+ byrjar á 1. þrepi framhaldsskóla.

Nemendur sem stunda nám sitt eftir einstaklingsnámskrá í samræmi við metnar sérþarfir fá lokamat í formi bókstafa A,B,C eða D stjörnumerkt * og er gert grein fyrir frávikum frá námskrá í hverju tilviki fyrir sig. Þannig er enn betur tryggt að nemendur sem hafa unnið eftir einstaklingsnámskrá fái námsframboð við hæfi í framhaldsskóla.

Lykilhæfni


Lykilhæfni tengist öllum námsgreinum skólans og vísar til hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum. Mikilvægt er að vinna með lykilhæfni í tengslum við öll námssvið skólans og flétta hana inn í allt nám sem fer fram í skólanum. Þannig byggist lykilhæfni skv. aðalnámskrá grunnskóla á grunnþáttum menntunar og áhersluþáttum grunnskólalaga.

Viðmið um mat á lykilhæfni er sett fram í fimm liðum sem eiga við öll námssvið.


Tjáning og miðlun

Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega og skriflega. Þannig búi nemendur yfir hæfni til að miðla þekkingu og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega ásamt því að taka þátt í samræðum og rökræðum.


Skapandi og gagnrýnin hugsun

Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, geta dregið ályktanir og beitt gagnrýnni hugsun og röksemdafærslu.


Sjálfstæði og samvinna

Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.


Nýting miðla og upplýsinga

Hæfni nemenda til að nýta sér margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun upplýsinga á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.


Ábyrgð og mat á eigin námi

Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi ásamt því að geta lagt mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.


Lykilhæfnin er skilgreind á veggspjaldi frá MMS þar sem nánar er fjallað um einstaka þætti sem liggja til grundvallar mati.

Veggspjald um lykilhæfni má finna hér.


Inn á Mentor birtast allar nánari upplýsingar um viðfangsefni, heimavinnu, ástundun og námsmat sem sýnir mat á árangri nemenda. Því er mikilvægt að foreldrar og nemendur skrái sig reglulega inn á mentor.is til að fá sem besta yfirsýn yfir námið.

Lesfimipróf MMS

Lesferill er staðlað matstæki Menntamálastofnunar sem metur grunnþætti læsis. Prófið veitir upplýsingar um lestrarfærni nemenda og getur gefið vísbendingar um lestrarerfiðleika.

Lesferill skiptist í eftirfarandi þætti:

Lesskimun fyrir 1. bekk er lögð fyrir í október. Skimunin gefur vísbendingar um styrkleika og veikleika varðandi hljóðkerfisvitund, bókstafaþekkingu, umskráningu og málskilning nemenda.

Lesfimi eru raddlestrarpróf fyrir 1.-10. bekk sem prófa hraða og nákvæmnislestur. Prófin eru lögð fyrir þrisvar sinnum á skólaári, í september, janúar og maí. Í viðmiðum Menntamálastofnunar er gert ráð fyrir því að ákveðinn fjöldi orða sé lesinn á mínútu í hverjum árgangi. Viðmiðin miðast við að nemandi hafi náð ákveðinni hæfni í lestri þ.e. hraða og nákvæmni að vori.

Orðarún

Orðarún er staðlað lesskilningspróf fyrir 3. - 9. bekk. Prófið kannar hversu vel nemendur skilja meginefni texta og hugtaka, átta sig á staðreyndum og draga ályktanir. Fyrri hluti prófsins er lagður fyrir í mars og seinni hluti í nóvember. Læsisstefna skólans, Lestur er lykill að ævintýrum lífsins... má finna hér.

Samræmd könnunarpróf

Menntamálastofnun leggur fyrir samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk í september í íslensku og stærðfræði. Nemendur í 9. bekk taka samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku í mars. Niðurstöður þessara kannana eru upplýsandi fyrir nemendur, forráðamenn og kennara en rýnt er í niðurstöður þeirra og þær nýttar til frekari úrvinnslu.