UT á unglingastigi

Upplýsingatækni á unglingastigi í Foldaskóla

Upplýsingatækni á unglingastigi í Foldaskóla er kennd sem sérstök námsgrein í 8. bekk. Í faginu er leitast eftir að nemendur læri að nota fjölbreytt forrit og aðferðir til að afla sér þekkingar, vinna úr upplýsingum og miðla þekkingu.

Nemendur vinna verkefni í tímum og ætlast er til að þeir skili öllum verkefnum til kennara. Það er því mikilvægt að nýta tímann í kennslustundum vel og tileinka sér stjálfstæð vinnubrögð. Munið að lesa/hlusta/horfa alltaf á fyrirmæli ÁÐUR en þið biðjið um aðstoð og ef kennari kemst ekki strax til að aðstoða skuluð þið halda áfram að reyna við efnið meðan þið bíðið. Þannig lærið þið best :)

Nemendur mega ekki fara í leiki eða inn á vefsíður sem tengjast ekki námsefninu enda dregur það úr athygli frá náminu. Líkt og í öðrum kennslustundum þá er notkun síma einnig bönnuð.

Ef nemendur missa úr tíma eða hafa einhverra hluta vegna ekki náð að klára verkefni í tíma þá getur borgað sig að vinna það heima til að dragast ekki aftur úr.

Aðgangur að Office á netinu

Allir nemendur hafa aðgangað Office pakkanum á netinu og þurfa að nota hann í verkefnavinnu.

Eftirfarandi skref eru til að komast inn á Office á netinu

 • Farðu inn á office.com
 • Veldu Sign in
 • Notendanafn er það sama og inn í tölvukerfi skólans + @rvkskolar.is. Dæmi: guto06@rvkskolar.is
 • Lykilorð er sama og inn í tölvukerfi skólans
office-innskra.mp4

Úr aðalnámskrá grunnskóla

Megintilgangur kennslu í upplýsinga- og tæknimennt er að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi.

Tæknifærnin felur m.a. í sér getu til að nýta ýmis tæki, tæknibúnað og fjölbreyttar úrvinnsluleiðir, tæknilæsi að nýta tækjabúnað til að afla sér þekkingar og miðla henni, upplýsingalæsi felur í sér hæfni í að afla, flokka og vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt og miðlalæsi felur í sér hæfni til að greina, ná í, meta og búa til miðlaskilaboð. Nemendur verða þannig læsir á texta, myndir og töluleg gögn, ná góðri tæknifærni, fingrasetningu og hæfni á sviði upplýsinga- og miðlalæsis.

Gert er ráð fyrir að nemendur hafi öðlast víðtæka hæfni á sviði upplýsinga- og miðlalæsis við lok grunnskóla.

Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir eigin námsframvindu og sýna hæfni í vinnubrögðum, bæði í sjálfstæðri vinnu og samvinnu.

Upplýsingamennt er mikilvæg fyrir virkan þjóðfélagsþegn í lýðræðisþjóðfélagi og aðstoðar hann við að standa vörð um hvers konar mannréttindi og að koma sjónarmiðum sínum þar að lútandi á framfæri á fjölbreyttan hátt.

Upplýsingatækni stuðlar að sveigjanleika, jafnrétti í námi og gefur rými til sköpunar á mörgum sviðum.

Hæfniviðmið

Við lok 10. bekkjar getur nemandi:

Vinnulag og vinnubrögð

 • nýtt upplýsingaverið á fjölbreyttan hátt til þekkingaröflunar og miðlunar,
 • unnið sjálfstætt og tekið ábyrgð á eigin námsframvindu
 • unnið á skapandi og gagnrýninn hátt, sjálfstætt og með öðrum,
 • nýtt sér til fullnustu möguleika margvíslegs tæknibúnaðar á hagkvæman og markvissan hátt,
 • beitt réttri fingrasetningu.

Upplýsingaöflun og úrvinnsla

 • nýtt efni á margvíslegu formi og rafrænan stuðning, s.s. ítarefni, efni úr fjölmiðlum, orðabækur, veforðasöfn, leiðréttingarforrit, tungumálaforrit og leitarforrit og umgengist þau af gagnrýni,
 • beitt gagnrýnni hugsun við að vega og meta upplýsingar með tilliti til gæða og efnismeðferðar þeirra,
 • unnið með heimildir, virt siðferði í heimildavinnu og sett fram heimildaskrá samkvæmt viðurkenndum aðferðum
 • nýtt hugbúnað og forrit við uppsetningu ritgerða og ritsmíða samkvæmt viðmiðum um uppsetningu og frágang
 • nýtt hugbúnað/forrit við framsetningu á tölulegum gögnum.

Tækni og búnaður

 • nýtt hugbúnað/forrit við flókna framsetningu ritunarverkefna og tölulegra gagna
 • nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, hljóðvinnslu og gerð myndbanda,
 • nýtt hugbúnað/forrit við fjölbreyttar vefsmíðar

Sköpun og miðlun

 • útskýrt einfaldan hugbúnað, eðli og uppbyggingu tölvu,
 • nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt

Siðferði og öryggismál

 • sýnt ábyrgð við meðferð og dreifingu upplýsinga hvort sem er til persónulegra nota eða heimilda- og verkefnavinnu,
 • nýtt rafrænar leiðir og samskiptamiðla af ábyrgð, unnið í samræmi við reglur um ábyrga netnotkun og er meðvitaður um eigin siðferðislega ábyrgð