[Stuttmyndaval]
GRV
Áfangalýsing
Í stuttmyndavali læra nemendur að búa til mismunandi tegundir stuttmynda frá grunni. Farið yfir grunnatriði í stuttmyndagerð og handritagerð. Unnið með þemu þar sem ákveðnar tæknibrellur eru teknar fyrir. Gerð er krafa um nákvæmni, vandvirkni metnað og lögð áhersla á skapandi hugsun og fá nemendur að framleiða meistarverk í öllum stærðum og gerðum í hverri viku!
Allskonar mjög mikilvægt
Erkitýpan
Erkitýpur eru persónur eins og gamli vitringurinn, hetjan, hinn ráðagóði, besti vinur aðal, meyjan, hinn vondi og eilífðarbarnið. Erkitýpur eru mun áhugaverðari sögupersónur en staðalímyndir sem hafa mun þrengri skýrskotun og tengjast frekar ákveðnum menningarheimi eða afkima og í sumum tilvikum ranghugmyndum fólks úr einum menningarheimi um fólk úr öðrum. Mjög ákveðnar útlitshugmyndir eru tengdar staðalímyndum og þær byggja oft á fordómum. Erktýpur eru alla jafna dýpri persónur en staðalímyndir og gera því söguna áhugaverðari.
Heimildarmyndir
Nokkrar almennar reglur er gott að hafa í huga þegar gera á heimildarmynd. Það er mjög mikilvægt í upphafi myndar að varpa fram staðhæfingu eða spurningu sem gefur áhorfandanum fyrirheit um það sem koma skal. Við þurfum líka miðju sem fylgir þeim fyrirheitum sem gefin voru og svarar þeim spurningum sem varpað var fram. Við þurfum að lokum endi sem tekur saman og lokar því sem fjallað var um.
Söguborð eða storyboard
Söguborð bæta hlutum eins og sjónarhornum og hreyfingu myndavélar við handritið. Það má vel hugsa sér að handrit að stuttum atriðum, auglýsingum eða ákveðnum senum séu unnin sem söguborð frá upphafi. Það er ekki endilega nauðsynlegt að vera frábær teiknari til að geta rissað upp söguborð. Óli prik getur dugað ágætlega á þessu stigi. Það eru mörg form til fyrir söguborð og einnig er hægt að finna sérhæfðan hugbúnað sem hjálpar til við að leysa þetta.