Heimalestrarverkefni


Minnkandi lestur nemenda á miðstigi hefur verið mörgum áhyggjuefni. Nemendum grunnskólans hefur yfirleitt verið gert að lesa 20 mínútur á dag og foreldrar fengnir til að kvitta fyrir heimalesturinn. Þetta hefur reynst nokkuð vel á yngsta stigi en svo þegar nemendur eldast, fer að gæta þreytu og leiða.  

Við vildum breyta til og freista þess að halda nemendur lengur við bókina og nýta lesturinn á margvíslegri hátt.  Mér datt því í hug að prófa að bjóða upp  á fjölbreytt verkefni sem tengdust heimalestrinum til að hann yrði markvissari og gerði okkur um leið kleift að fylgjast með framvindu og virkni nemenda í lestri.  

Þessi verkefni mæltust vel fyrir hjá nemendum og foreldrum og því sótti ég um styrk til að þróa og semja fleiri verkefni sem aðrir kennarar gætu nýtt sér fyrir sína nemendur í lestrinum. Verkefnin tengjast ýmist lestrinum sjálfum og lestrarlagi, málfræði, stafsetningu og bókmenntum. Ég leitast við að hafa verkefnin fjölbreytt og stundum jafnvel svolítið fyndin, því það er gaman að lesa og þessi verkefni eiga ekki að vera kvöð, heldur stuðla að lestraránægju og aukinni færni í lestri. 

í þessu þróunarverkefni er boðið upp á fjölmörg verkefni sem hægt er að hlaða upp eða prenta út og nýta sem viðbót við heimalestur nemenda.  Nánari útfærslu má sjá undir flipanum  sem á stendur: kennsluleiðbeiningar.