Sellerýrótarsúpa með höpuskel

Það er komið haust, svona formlega, er það nokkuð? Eru ekki allaveg 2-3 helgar eftir, þar sem maður getur kreist fram nokkra sumardaga í viðbót? Ég ætla allavega að trúa því :-)

En mér var samt hálfkalt í gær svo ég eldaði þessa súpu handa okkur Guðjóni. Hún er ekki beint sumarleg og ekki heldur vetrarleg, (sem sagt haustleg). Hún féll vel í kramið hjá okkur. Svo var ekki verra að hún var einföld að elda.

Það sem til þarf f. 4 er:

2 msk. olía

1 stór laukur, saxaður

500 gr. sellerírót, skræld í stórum bitum

1 stór mjölmikil kartalfa, skræld og grófsöxuð

8 1/2 dl grænmetissoð (ég nota duft frá Oscar og vatn)

1 lárviðarlauf

6 msk. matreiðslurjómi

1 msk. smjör

1 poki stór hörpuskel (ca. 300 gr), afþýdd

Salt og pipar

Steinselja

Meðlæti:

Nokkrar sneiðar af uppáhalds brauðinu þínu

Svona gerði ég:

Olían er hituð á stórum potti, og laukurinn steiktur þar til hann er mjúkur og glær. Þá er kartöflunni, sellerírótinni og lárviðarlaufinu bætt í pottinn ásamt soði, salti og pipar og mallað rólega undir loki í 25 mín., eða þar til grænmetið er meyrt, tekið af hitanum. Það er gott að láta grænmetið kólna aðeins áður en öllu er skutlað í matvinnsluvél, eða töfrasprotinn er settur í pottinn og súpan þeytt þar til allt er maukað og flauelsmjúkt. Súpan er sett í pottinn aftur og 4 msk. af rjómanum hrært útí og súpan hituð varlega aftur og krydduð til, ef þarf. Hörpuskelin er skorin í báta og ristuð í smjörinu á snarpheitri pönnu í örstutta stund. Súpunni er ausið í volgar skálar, og restinni af rjómanum lauslega blandað útí, síðan er hörpuskelinni og steinselju dreyft ofaná. Við nutum súpunnar, ég vona að þú gerir það líka.

Verði þér að góðu :-)

Brauðið:

Skorið í sneiðar, þær eru settar í brauðristina og ristaðar, nuddaðar með sárinu á skrældu hvítlauksrifi sem er skorið í tvennt, síðan smurðar og þurrum parmesan dreift yfir.. jumm :-)