Fersk aspas bruchetta

Það er nauðsynlegt að eiga eitthvað gott að narta í þegar maður kemur þreyttur heim í lok langrar og oft strangrar vinnuviku. Þessi bruschetta er einföld og frábærlega góð. Ég fékk þessa uppskrift hjá Ingu dóttur minni sem býr í Ásrósum. Hún hefur oft gert þessa bruschettu þegar hún hefur verið heima, og alltaf gert stomandi lukku, svo ég plataði hana til að gefa mér uppskriftina. Góða helgi allir.

Það sem til þarf er:

1/2 búnt ferskur aspas, skáskorinn í 2 cm sneiðar

1/4 rauðlaukur, fíntsaxaður

1/2 box kirsuberjatómatar, skornir í 4 hluta

Salt og pipar

Rautt pestó

Ferskur parmesan, rifinn

Snittubrauð

Olía til að steikja úr

En í matreiðsluna:

Ofninn er hitaður í 200° C, og pappír settur á bökunarplötu. Brauðið er skáskorið í sneiðar og þær smurðar með pestóinu. Aspasinn og laukurinn eru ristuð í olíu á snarpheitri pönnu í stuttan tíma, og síðan er tómötunum bætt útá í restina og þeir hitaðir án þess að elda þá, saltað og piprað. Grænmetinu er skipt á milli brauðsneiðanna og parmesan rifinn yfir. Bakað í ofninfum þar til osturinn er bráðinn og brauðið gyllt á litinn.

Verði þér að góðu :-)