Tómata & geitaosta galette

Það sem til þarf er:

f. 4

1 pakki frosið smjördeig (helst úr bakaríi)

1 eggjarauða

2 msk. vatn

150 gr. geitaostur (í rúllu). Ef þú vilt ekki geitaost er fínt að nota t.d. Camembert í staðinn.

2 vel þroskaðir tómatar, í þunnum sneiðum

2-3 greinar basil lauf

2 msk. extra virgin ólífu olía

Nýmalaður svartur pipar

Meðlæti:

Brakandi ferskt grænt salat

Ólífu olía og balsamic edik

Geitaostur er alltaf að verða algengari á okkar borðum. Það er sagt að annaðhvort hatarðu hann, eða elskar, ég er í seinni hópnum. Þessar litlu fallegu smábökur eru frábærar með fersku grænu salati, sem er létt baðað í góðri olíu og balsamic ediki. Frábærar, hvort sem er smáréttur, forréttur eða kvöldverður á kjötlausa deginum. Hvort ert þú, hatari eða elskari?

Svona geri ég

Ofninn er hitaður í 200°C. Pappírsklædd ofnplata gerð klár. Deigið er flatt út á hveiti-stráðu borði og 4 kökur, ca. 20x20 að stærð, eru skornar út. Eggjarauðan og vatnið eru þeytt saman. Smá kantur er brotinn uppá kantana á deiginu og kökurnar pikkaðar í miðjunni með gaffli og penslaðar með eggjavatninu og bakaðar í 5 mín., þar til þær eru farnar að taka lit. Osturinn er skorinn í 12 sneiðar og þeim ásamt tómatasneiðunum er dreyft ofaná kökurnar í lögum. Bakaðar áfram í ofninum í um 5 mín., þar til osturinn er bráðinn og kökurnar gegnheitar. Ólía og nýmalaður svartur pipar er drussað yfir um leið og þær eru bornar fram með grænu salati.

Verði þér að góðu :-)

Létt og ljúf!