Súkkulaði- og perubaka frá Toscana

Ég reif þessa uppskrift úr ensku tískublaði fyrir ca. 25 árum... :-O Ég horfði oft og lengi á hana áður en ég lagði í að baka hana, ég hélt að hún væri svo flókin og ég, ekki reyndur bakari. En svo var ekkert mál að baka hana, hún var svo auðveld og þægileg í alla staði. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við hana er, að það er þunn stökk skorpa sem bakast ofaná fyllingunni, en svo þegar þú skerð í gegnum hana er fyllingin lungamjúk, næstum eins og frauð, með perubita og undirtón af marmelaðinu. Bakan er mjög góð sem eftirréttur, eða lítill lúxus biti með góðum kaffibolla, hún dekrar við súkkulaðifíkilinn í manni ;-)

Það sem til þarf f. 6-8 er:

120 gr. smjör

200 gr. hveiti

1 egg, þeytt

120 gr. sykur

50 gr. kákó

2 1/2 msk. marmelaði (appelsíu eða apríkósu)

2 perur

Í fyllinguna:

100 gr. 70% súkkulaði

60 gr. smjör

2 egg, aðskilin

100 gr. sykur

Til skrauts:

Flórsykur

En þá í baksturinn:

Ofninnn er hitaður í 180°C, 20 cm. lausbotna bökuform er smurt og hveitistráð. Deigið er hnoðað saman úr smjöri, sykri, eggi, hveiti og kakói. Ég gerði það í matvinnsluvél. Formið er klætt að innan með deiginu og smurt í botninn með marmelaðinu. Perurnar eru skrældar, kjarnhreinsaðar og skornar í 4 bita hver, og komið fallega fyrir í forminu. Þá er fyllingin búin til með því að bræða súkkulaðið og smjörið við lágan hita, tekið af hitanum og látið kólna. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar, en eggjarauðurnar og sykurinn er þeytt létt og ljóst. Súkkulaðinu er hrært útí eggjarauðurnar og að lokum er þeyttu eggjahvítunum hrært varlega samanvið. Súkkulaðifrauðinu er hellt í formið með perunum og bakað í 40 mín. Bakan er látin kólna áður en hún er losuð varlega úr forminu og sett á disk. Létt þeyttur rjómi skemmir ekki sem meðlæti. Ég hef ekki prófað það, en ég ímynda mér lítið glas af dökku púrtvíni eða sætu desertvíni sé mjög gott með, ef þú notar bökuna sem eftirrétt.

Verði þér að góðu :-)