Smalabaka

Þegar ég elda helgar lambalæri fyrir okkur GM, verður alltaf töluverður afgangur af kjöti. En það er sko ekkert verra, ég nota afganginn til að búa til eitthvað gott í byrjun vikunnar og klára þannig matinn sem ég keypti og eldaði. Frábær, eldsnöggur kósýmatur á köldu kvöldi.

Það er sko engin matarsóun hér!

Það sem til þarf f. 4 er:

400 gr. af elduðu lambakjöti, t.d. afgangur af helgarsteikinni

1 laukur, saxaður

2 púrrur, í sneiðum

2 hvítlauksrif, marin

2 msk. Worchestershire sósa

2 msk. tómatsósa

2 1/2 dl rauðvín

2 dl kjúklingasoð

500 gr. kartöflumús (mauka soðnar gulrætur eða rófur útí kartöflurnar, ef þær eru til)

1 msk. gróft sinnep

2 msk. ólífu olía

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 180°C. Laukurinn er steiktur í olíunni í 4-5 mín. Púrran er skoluð mjög vel og skorin í sneiðar. Henni er bætt útí laukinn ásamt hvítlauknum og mallað í 2-3 mín. Kjötinu er bætt útá pönnuna og öllu blandað vel saman. Worchestershire sósu, tómatsósu, rauðvíni og soði bætt á pönnuna og smakkað til með salti og nýmöluðum pipar. Soðið í 5-7 mín., þar til sósan er oðrðin aðeins þykkari, síðan sett í eldfast mót. Grófa sinnepinu er blandað saman við kartöflu-músina og henni er smurt ofaná kjötið. Gaffli stungið hér og þar í músina til að búa til toppa, stungið í ofninn og bakan er bökuð í 20 mín. Það er gott að hafa soðið grænmeti með eins og t.d. grænar ertur.

Verði þér að góðu :-)