Twisted ostastangir

Ég fékk uppskriftina af þessum ostastöngum hjá Ingu dóttur minni fyrir nokkrum árum síðan. Þær eru eitt af því þar sem ástin kviknar við fyrsta bita. Elska að narta í þær eru reyndar með því betra sem ég "dett í" eða þannig. Ef þú ætlar að hvetja Hatara áfram á laugardagskvöldið í Eurovision, er upplagt að vera búin að baka skammt af þessum til að reyna að ráða við taugaveiklunina þangað til úrslitin liggja fyrir. Rosalega einfaldar og æðislegar með góðum drykk í glasi eða ísköldu öli.

Það sem til þarf er:

250 gr. hveiti

150 gr. smjör

200 gr. rifinn Gouda ostur

1 tsk. salt

10 msk. rjómi

50 gr. fín rifinn parmesan ostur

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C. Öllu blandað saman og hnoðað í slétt og fellt deig. Flatt út á hveitistráðu borði og parmesan ostinum stráð yfir. Skorið í lengjur með kleinujárni eða góðum hníf og lengjunum raðað á pappírsklædda ofnplötu. Það er smart að snúa uppá sumar eða allar eftir því hvað þér finnst skemmtilegast. Bakaðar þar til þær eru orðnar gulbrúnar ca. 10-13 mín. Settar á grind og kældar. Geymast í lokuðu boxi í rúma viku, hefur reyndar ekki reynt mikið á það hjá mér hvað þær geymast lengi, klára þær fljótt venjulega.

Verði þér að góðu :-)