Skeljar með vanillukremi, heslihnetum og hindberjum

Ef einhver hefur tekið eftir því að ég nota filodeig mikið, er það vegna þess að ég er svo hrifin af öllu því sem má gera því. Eins og t.d. þessar litlu sætu skeljar sem eru fylltar með eggja-vanillukremi, heslihnetum og hindberjum, dásamlegar.

Það sem til þarf er 48 stk. mini skeljar (um 4 cm í þermál):

1 vanillustöng

5 dl rjómi

6 eggjarauður

1 dl sykur

3/4 dl maismjöl

2 msk. hveiti

250 gr. hindber

100 gr. ristaðar heslihnetu, grófsaxaðar

250 gr. filodeig, skorið í 24 jafnstóra ferninga

100 gr. brætt smjör

2 msk. flórsykur

Svona gerum við:

Vanillustöngin er klofin í tvennt langsum og kornin skafin úr. Rjóminn og vanillukornin eru hituð saman í þykkbotna potti. Eggjarauðurnar og sykurinn er þeytt létt og ljóst í hrærivél, síðan er hveiti og maismjöli hrært útí. Heitum rjómanum er hellt varlega útí eggjahræruna og þeytt stöðugt á meðan. Hellt í pottinnn og hitað þar til kremið fer að þykkna. Látið malla mjög rólega i ca. 5-10 mín., hrært í á meðan. Tekið af hitanum sett í skál og plastfilma lögð ofaná kremið svo það komi ekki skán á það, kælt.

Filodeigblað er penslað með bræddu smjöri og annað blað lagt ofaná. Deighringur eða glas sem er um helmingi stærra en botninn á forminu er skorinn út úr deginu og lagt í botninn og upp með hliðunum á litlum muffin formum. Vanillukreminu er jafnað á milli deigskeljanna síðan er hindberjum og heslihnetum dreift ofaná. Bakað í ofni við 180°C í um 10 mín., þar til deigið er ljósgullið og bakað. Kælt og flósykri stráð yfir þegar skeljarnar eru bornar á borð. Má baka daginn áður, geymdar í kæli, en látnar standa óvarðar útá borði í 30 mín., áður en þær eru borðaðar.

Verði þér að góðu :-)