Rolo-kökur með sjávarsalti

Þessar smákökur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur um þessar mundir og ég er búin að baka þær nokkrum sinnum í sumar. Samsetning af súkkulaði, karamellu og salt kemur braðlaukunum á flug ... namm!

Það sem til þarf ca. 40 stk. er:

225 g mjúkt smjör

225 g sykur

2 eggjarauður

2 msk. mjólk

250 g hveiti

30 g kakó

¼ tsk. salt

um 4 pakkar Rolo

Sjávarsalt frá Saltverki eða Maldon salt

Svona bökum við þær:

Smjör og sykur þeytt létt og ljóst í hrærivél. Eggjarauðurnar eru settar í glas og þeyttar létt með gaffli, síðan er þeim bætt útí, smámsaman. Mjólkin er sett í glasið og hrærð lítillega og svo sett útí deigið og hrært áfram. Kakó og hveiti er sigtað saman og hrært varlega útí deigið með sleif. Síðan er deiginu pakkað í plast og það geymt í ísskáp í nokkra tíma eða yfir nótt. Ofninn er hitaður í 180°C, bökunarplötur gerðar klárar með pappír. Deiginu er rúllað á milli handa í kúlu á stærð við valhnetu, gott er að hafa sæmilegt bil á milli kúlnanna af því að kökurnar stækka dálítið. Einum Rolomola er síðan þrýst létt ofan á hverja kúlu og nokkrum kornum af salti sáldrað ofan á. Bakað í 12-15 mínútur eða þar til kakan virkar þurr og svolítið sprungin ofan á. Platan er tekin úr ofninum og látin standa í 5 mínútur áður en kökurnar eru teknar af plötunni og kældar á grind.

Verði þér að góðu :-)