Jarðarberja- og Mascarpone ostakaka

Enn og aftur er Anna lata á ferð og nældi sér í tilbúna bökuskel :-) Um að gera að stytta sér leið í góðgætið. Fyllingin og sósan eru samt heimagerð, svo dásamleg og fersk með örlítið súrsætri jarðarberjasósunni, jummý....

Það sem til þarf f. ca. 8 er:

1 óbökuð bökuskel (fæst í Kosti) eða þína bestu uppskrift af bökuskel, bakað skv. leiðb. á pakka

250 gr. mascarpone ostur

150 gr. grísk jógurt

150 ml óþeyttur rjómi

3 msk. flórsykur

2 tsk. vanilludropar

2 blöð matarlím

Ofaná og til að skreyta með:

750 gr. sæt jarðarber, topphreinsuð og skorin í tvennt

En svona gerum við:

Bökuskelin er bökuð skv. leiðbeiningum á pakkningu, gott er að pensla óbakaða skel með létt þeyttri eggjahvítu, kælt.Mascarpone osturinn er þeyttur í hrærivél þar til hann er mjúkur og kekkjalaus, þá er grísku jógurtinni bætt úti, ásamt rjóma, vanillu og 1 tsk. af flórsykrinum. Þeytt vel saman þar til þetta er orðið virkilega þykkt, þá er hræran sett í skelina og jöfnuð út. Þakið yfir með jarðarberjum og kælt í a.m.k. 2 tíma. Restin af jarðarberjunum er sett í blandara með 2 msk. af flórsykrinum og maukað. Ostakakan er svo borin fram með jarðarberjasósunni.

Verði þér að góðu :-)

A.T.H.

Þar sem mér finnst finnst fyllingin ekki halda stífleikanum nógu vel hef ég bætt 2 matarlímsblöðum við uppskriftina. 2 blöð af matarlími eru bleytt upp i köldu vatni. brædd yfir vatnsbaði. 1-2 msk. af fyllingunni er hrært útí hana og svo er því blandað saman við restina af fyllingunni.