Flórentínur með súkkulaði & salti

Það sem til þarf er:

ca. 25-30 stk.

75 gr. smjör

5 msk. hrásykur

3 msk. sýróp

3 msk. hveiti

200 gr. salthnetur, grófsaxaðar

100 gr. mjólkursúkkulaði

50 gr. suðusúkkkulaði

Gróft salt (ég nota frá Reykjanesi, það fæst í flestum búðum)

Ég hef nokkrum sinnum farið með kassa af svona heimabökuðum flórentínum, sem gjöf í staðinn fyrir blóm þegar ég er að fara í partý eða matarboð. Mér finnst svo gaman sjálfri að fá eitthvað heimagert frá vinum mínum, og ég er viss um að ég er ekki ein um það. Í dag er hægt að fá svo fallegar umbúðir, kassa, silkiborða, sellófanpoka, silkipappír og allskonar merkimiða, svo það er lítið mál að útbúa persónulega gjöf fyrir góðan vin :-)

En svona bakar þú kökurnar:

Ofninn er hitaður í 180°C. Bökunarplötur gerðar klárar með bökunarpappír. Smjörið og sýróp er hitað í potti með sykrinum þangað til sykurinn er bráðinn. Þá er hveiti og hnetum blandað saman við. 1/2 tsk. af deigi er dreift með góðu millibili (þær renna töluvert) á bökunarplötu og bakað í ca. 7 mín. (ath. hitann á þínum ofni, þær dökkna fljótt). Látnar kólna smástund áður ern þær eru teknar af plötunni og kældar á grind. Súkkulaðið er brætt í vatnsbaði og smurt á kökurnar og salti dreift yfir. Mér finnst íslenska saltið frá Reykjanesi mjög bragðgott, ef þú fær það ekki er Maldon salt fínt. Það er líka siðugt að drussa súkkulaðinu ofaná kökurnar og setja svo saltið á þær.

Verði þér að góðu :-)

Hættulega góðar!