Klassísk bolla

Þetta er gamalreynd uppskrift frá mömmu sem er snillingur að baka. Ég hef hingað til komið mér undan því að baka bollur, en fannst tímabært að takast á við þær núna, ekkert múður meira. Þær heppnuðust svona líka vel, þannig að ég kvíði ekki næsta bolludegi :-D

Það sem til þarf 25-30 stk. er:

100 gr. smjör

2 1/2 dl vatn

100 gr. hveiti

3 egg (ekki stór)

Salt

Fylling og glassúr:

Jarðarberjasulta

Rjómi, þeyttur

1/2 plata suðusúkkulaði

1 tsk. smjör

En svona gerir mamma:

Ofninn er hitaður í 200°C (180°C á blæstri). Vatn og smjör er hitað að suðu. Hveitinu er svo hrært útí með sleif þar til deigið er laust frá hliðunum á pottinum, þá er smá salti stráð yfir og degið látið kólna aðeins. Síðan er eggjunum hrært útí með rafmagnsþeytara, einu í einu, þeytt vel á milli. Deigið má ekki vera of lint, getur þurft að bæta smá hveiti í til að það standi þokkalega vel. Bökunarpappír er settur á plötu og deigið sett með tveim teskeiðum á plötuna með góðu bili á milli. Bollurnar eru bakaðar í miðjum ofninum í 25-30 mín. Það er mikilvægt að OPNA EKKI OFNINN fyrstu 20 mín. Kældar og fylltar eftir þínum smekk. Ef þú vilt fá gljáa á bollurnar er gott að pensla þær með þeyttu eggi. Ég fyllti mínar með heimagerðri Jarðarberjasulta , rjóma og súkkulaði ofaná (suðusúkkulaði ca. 1/2 plata og 1 tsk. smjör brætt yfir vatnsbaði, og svo smurt á bollurnar), líka með flórsykri ferskum jarðarberjum og sultunni góðu. Ég gerði líka bollur með Hindberjarjóma uppskriftin af þeim er á síðunni. Svo er um að gera að hafa gaman af þessu og vera frumlegur í vali á fyllingum, endalausir möguleikar.

Verði þér að góðu :-)