Beikon-Stout-súkkulaði ostakaka

Ég fann þessa uppskrift á netinu um daginn, ég var nokkuð viss um að kakan væri hreint út sagt vond og óæt. En ég hef alltaf gaman af óvenjulegum bragð samsetningum svo ég bakaði hana bara vegna þess að hún er sérstök, og stundum gaman að prófa einhverja samsetningu sem maður sér ekki fyrir sér að gangi upp, surprise faktorinn. Og það kom mér verulega á óvart hvað hún var rosalega góð. Eina sem ég mundi breyta næst er að ég mundi ekki setja beikonmulninginn ofaná hana, persónulega fannst mér það of mikið. Íslensku brugghúsin eru farin að brugga allavega skemmtilegan bjór, ég keypti tvennskonar týpur til að prófa íslenskan og útlendan, og mér fannst íslenski GÆÐINGURinn bestur, gott bragð og fylling með súkkulaðikeim. Kakan er reyndar eins og töluð út úr karlmanns hjarta, þeir eru ekki margir sem fúlsa við bjór, beikoni, saltstöngum, osti osfrv.,.... En allavega er minn kall "Bolur inn við bein", og stoltur af því" eins og segir í laginu hans Bo Halldórs, svo ég segi bara: Elsku Bolurinn minn, hér er kakan þín, njóttu vel...:-**

Það sem til þarf er:

Í bjór kandíserað beikon:

500 gr. beikon

1/2 bolli púðursykur

1/4 bolli + 2 msk. Stout bjór

(ég notaði Gæðing)

Í botninn:

4 graham kexkökur

1 bolli stórar saltstangir

2 msk. sykur

6 msk. smjör, bráðið

Í fyllinguna:

220 gr. suðusúkkulaði (60%)

1 bolli Stout bjór (Gæðingur er góður)

250 gr. rjómaostur, mjúkur

1 1/4 bolli sykur

3 egg

2 msk. hveiti

1/3 bolli kakó

1 tsk. expressó kaffiduft

3/4 bolli bjór kandíserað beikon

Í toppinn:

2/3 bolli heit karamellusósa (ég notað frá Kjörís)

50 gr. suðusúkkulaði

1/2 bolli kandíserað beikon, fín saxað

1 bolli rjómi

2 msk. sykur

Bjór kandíserað beikon:

Ofninn er hitaður í 200°C. Sykri og bjór er blandað saman þar til sykurinn er uppleystur, og blandan er sýrópskennd. Álklædd ofnskúffa er sett í ofninn og beikonið er lagt á bökunargrind fyrir ofan og steikt í 10 mín. Þá er beikonið tekið úr og penslað með bjórsýrópinu beggja vegna og sett aftur í ofninn í 10 mín., og svo er þetta endurtekið þar til beikonið er stökkt og sýrópið er búið.

Botninn:

Ofninn er hitaður í 180°C, vatn er sett í ofnskúffuna og grind í miðjan ofninn. Grahamskex, saltstangir og sykur eru sett í matvinnsluvél og malað i milligrófa mylsnu, þá er bræddu smjöri bætt útí og blandað þar til þetta líkist blautum sandi. 23 cm lausbotna form er spreyjað með olíu og mylsnunni er hellt í formið. Gott að nota glas með flötum botni til að pressa myslnuna í botninn, þarf að gera það þétt.

Fyllingin:

Súkkulaði og bjór er brætt saman í potti á lágum hita, kælt. Rjómostur og sykur er hrært vel saman í hrærivél. Eggjunum er bætt útí einu í einu og þeytt vel á milli. Kældri súkkulaðiblöndunni er hrært útí, blanda vel saman. Þá er slökkt á vélinnni og hveiti, kakói, kaffi og beikoni hrært útí á mjög lágum hraða, þangað til það er rétt blandað saman. Fyllingunni er hellt í formið. Formið er svo sett í miðjan ofninn sem er tilbúinn með vatnsbaði. Kakan er bökuð þar til hún virkar þétt ef formið er hrist til, ca. 45-50 mín. ( ég varð að bæta 30 mín. við tímann, svo þú þarft að athuga hjá þér hvernig kökunni gengur í ofninum). Það dugar ekki að nota prjón til að athuga með bökunina, kakan þarf að vera rétt sest til í miðjunni áður en hún er tekin úr ofninum og látin kólna, hún heldur áfram að setjast til á meðan hún kólnar. Það er gott að leyfa kökunni að kólna áður en þú tekur hana úr forminu.

Toppurinn:

Karamellusósan er hituð í potti á lágum hita og leyfðu súkkulaðinu að bráðna með. Smurt varlega yfir ostakökuna og svo er beikoninu dreyft yfir og látið standa og setjast til í 15 mín. Rjóminn er þeyttur með sykrinum og sprautað á kantinn á kökunni. Svo er ekki verra að bera þeyttan og sykraðan rjóma með. Geymist í kæli.

Verði þér að góðu :-)