Spare ribs

Við Guðjón buðum nokkrum úr hestahópnum okkar í bústaðinn til okkar í sumar. Við ætluðum að fara í skemmtilega hestaferð þá helgina. Veðurguðirnir voru með annað plan:-( Það rigndi eins og aldrei áður, en við sáum við því, það rignir nebblega ekki inni, svo við slóum bara í partý, með regnvotu grilli, gítarspili, söng og gleði fram á nótt. Ég bauð m.a. uppá Spare ribs og ég var í skýjunum því þau sögðu að væru þau bestu sem þau hefðu smakkað, það er stórt hrós frá þessum eðalkokkum :-) Með rifjunum hafði ég með Coleslaw, Gillbrauð með basil og pestó og kryddmauki sem ég kalla Relish no. 2. Fátt gleður eldabuskuna meira en tómir diskar, stunur og dæs við borðið, og ég var sannarlega ánægð með viðtökurnar hjá hópnum.

Það sem til þarf f. 4 er:

2 síður af grísa spare ribs, hver síða skorin í 2 hluta

Marinering:

4 msk. sojasósa

2 msk. tómatsósa

2-4 marin og söxuð hvítlauksrif

2 msk. Golden sýróp

2 tsk. Dijon sinnep

4 msk. dökkur muscavado sykur

4 msk. rauðvínsedik

Salt og pipar

Meðlæti:

Coleslaw

Relish no. 2

Grillbrauð með basil og rauðu pestó

Hérna er aðferðin:

Öllu í marineringuna er blandað saman í skál. Mér finnst best að leggja rifin í ofnskúkffuna, marineringunni er smurt vel á rifin og skúffunni pakkað vel í plast og marinerað í allavega 24 tíma BEST er að marinera í 48 tíma, rifjunum er snúið og þeim velt uppúr marin-eringunni 1 sinni á sólarhring svo þau kryddist jafnt. Ofninn er hitaður í 170°C. Rifjunum er lyft uppúr marineringunni og þau lögð í einfalt lag á grind í ofninum með hreina ofnskúffu undir, EKKI HENDA MARINERINGUNNI henni er hellt í pott og hún geymd. Rifin eru bökuð í ofninum í 1 tíma og 20-30 mín., þar til þau eru gegnsteikt og verulega meyr, snúið einu sinni á steikingartímanum, öllum steikarsafa er hellt í pottinn með marineringunni. Þetta er hægt gera fyrr um daginn.

Þegar þú ert tilbúin að borða er kveikt á grillinu og rifin steikt þar til þau eru vel ristuð og heit í gegn, passa að þau brenni ekki. Síðan er skorið niður með hverju rifi og þau losuð í sundur og sett á stórt fat, marineringin er soðin niður um helming og henni hellt yfir rifin og þeim velt uppúr henni. Borið á borð, með coleslaw (afsakið sletturnar), Relish No.2 og grilluðu brauði með basil og pestó. Svo er nauðsynlegt að hafa fullt af stórum servíettum hjá diskunum, puttarnir verða klístraðir :-) Þarf nokkuð að nefna að hafa 1-2 ískalda á hliðarlínunni, ha?

Verði þér að góðu :-)