Saltkjöt og baunir

Það sem til þarf er:

Þetta er ekki nákvæm uppskrift, allt ca. :-)

f. ca. 4-6

1 poki gular baunir

Rúmlega 2 kg. saltkjöt, fitumagn eftir þínum smekk

Meðlæti:

Kartöflur, rófur og gulrætur

Ég er ekki fyrir það að breyta því sem mér finnst fulllkomið. Auðvitað eru til margar útfærslur af þessum gamla góða rétti, hvert heimili með sína góðu fjölskyldu útgáfu.

Að mínum smekk og fólksins heima, eru þetta allra besta salkjöt og baunir í heimi, alveg eins og Anna Kidda, amma mín gerði. Svo er að sjá hvað þér finnst :-)

En svona gerði hún amma:

Baunirnar eru lagðar í bleyti í kalt vatn kvöldið áður en á að sjóða þær, passa að vatnið fljóti vel yfir baunirnar. Næsta dag (ég byrja venjulega snemma að morgni) er vatni bætt í pottinn og suðan látin koma upp á baununum, froðunni sem kemur við suðuna er fleytt ofanaf og henni hent, látið malla í um 1 tíma. Það er góð regla að smakka kjötið áður en það fer í pottinn til að vita hversu salt það er. Stundum þarf að skola það, eða jafnvel leggja það í bleyti í smátíma ef það er mjög salt. Kjötið er svo sett útí baunirnar og það þarf örugglega að athuga vatnsmagnið í pottinum (held ég bæti útí ca. 1 L af vatni) og soðið í 1-1 1/2 tíma. Athuga að það kemur líka froða upp þegar kjötið byrjar að sjóða, henni er líka fleytt ofanaf og hent. Ef þú hefur tækifæri til að elda að morgni eða kvöldinu áður, (þetta er einn af þeim réttum sem eldist mjög vel) það er gott að láta súpuna kólna alveg (ég set pottinn út á svalir til að kólna) og hita svo súpuna upp aftur, þá er hún búin að taka sig vel. Gott að athuga hversu þykk súpan er, þegar hún er hituð aftur og bæta í hana vatni ef hún er mjög þykk og þynna hana, því um leið og hún er komin á diskinn byrjar hún að síga saman og þykkna. Svo eru auðvitað soðnar rófur, karföflur og gulrætur með. Ekki gleyma að hafa víðu buxurnar með lausu teygjunni við hendina til að skella sér í eftir matinn, allar líkur á ofáti ;-)

Verði þér og þínum að góðu!

Saltjöt og baunir, túkall!!!