Kúmen- og bjórbakaðir svínaskankar

Það sem til þarf er:

f. 4

2 tsk. sjávarsalt í flögum

1 tsk. kúmen

2 hvítlauksrif, rifin

2 svínaskankar

2 laukar, í þykkum sneiðum

2 epli, kjarnhreinsuð og skorin í 4 hluta

4 bökunarkartöflur, í stórum bátum

1/2 L góður dökkur bjór eða Lager (ekki Stout)

1/2 L sjóðandi vatn

Ég heyrði auglýst um daginn að það væri gott verð á svínaskönkum núna. Mér finnst áhugavert að búa til eitthvað spennandi úr ódýrari kjötbitum, þeir eru oft vanmetnir. Þar sem ég hef oft staðið við kjötborðið og velt því fyrir mér hvernig maður eldar svínaskanka, ákvað ég að kaupa þá og prófa. Ég fann þessa uppskrift frá Nigellu Lawson. Hún var mjög góð, kúmenið gefur kjötinu skemmtilegt bragð, svo skemmir ekki að húðin verður stökk eins og á purusteik.

En svona er aðferðin:

Ofninnn er hitaður í 220°C. Skurði eru skornir í húðina eins og á purusteik. Salti, kúmeni og hvítlauk er blandað saman í skál og síðan nuddað á skankana. Passa að allt fari vel inní skurðina á húðinni. Lauksneiðunum er komið fyrir í botninum á steikarfati, og skankarnir settir ofaná þær, svo sneiðarnar myndi einskonar sæti fyrir skankana. Þeir eru steiktir í ofninum í 30. mín. Þá er fatið tekið úr ofninum og kartöflu- og eplabátum komið fyrir í kringum skankana. Helmingnum af bjórnum er hellt yfir þá og fatinu svo stungið aftur í ofninn hitinn lækkaður í 170°C og bakað áfram á í 2 klst. Hitinn er svo hækkaður aftur í 220°C og restinni af bjórnum er hellt yfir skankana og þeir bakaðir áfram í 30 mín. Fatið er tekið úr ofninum og epla- og kartöflubátunum er komið fyrir í skál, skankarnir eru færðir á skurðarbretti. Sjóðandi vatrni er hellt í fatið með steikar-safanum og lauknum, og það soðið niður til að búa til lauksósu. Þegar þú berð skankana fram er puran skorin af og sett til hliðar. Kjötið er skorið niður og borið fram með purunni, epla- og kartöflubáunum og lauksósunni. Frábært að hafa þýskt sinnep með.

Verð þér að góðu :-)

Frábær matur og ódýr!