Hægelduð lambaslög með rósmarý og sinnepsfræum

Ég var svo heppinn að fá skrokk af nýslátruðu lambi frá tengdasyni mínum og dóttur sem búa fyrir austan fjall. Gómsætt kjöt sem á eftir að leika við bragðlaukana okkar hér heima í vetur. Hvort sem það verður í súpum, kæfu eða einhverri djúsí steik. Svo er gaman að prófa eitthvað nýtt, eins og t.d. þessi steiktu lambaslög. Slög er oftast notuð í rúllupylsu, en eru líka mjög góð steikt, svolítið eins og fá extra stóran skammt af purunni af steikinnni :-) nammi..

Það sem til þarf f. 4 er:

2 lambaslög

4 msk. ferskt rósmarý

3 msk. gul sinnepsfræ

3 msk.fennelfræ

2 msk. hvítlaukssalt

2 msk. sellerýsalt

5 msk. ólífu olía

Meðlæti:

Heimalöguð kartöflumúss með salvíusmjöri, baunir og sulta

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 150°C. Kryddin eru blöndu saman í olíunni. Slögin eru lögð á eldhúsborðið og ristir 5 mm djúpir skurðir í tíglamunstur með beittum hníf í húðina og kryddblöndunni nuddað ofaní skurðina. Það er ekki verra að leyfa þessu að standa á í svolítinn tíma.

Slögin eru sett í ofnskúfuna og steikt í 1 1/2 tíma, eða þar til þau eru ristuð og gegnsteikt. Borin fram með múss úr nýjum kartöflum og salvíusmjöri, baunum og sultu, herramannsmatur.

Verði þér að góðu :-)