Grísalundir Provence með bökuðum tómötum

Það sem til þarf er:

f. 6

2 vænar grísalundir, snyrtar og skornar í þykkar steikur

300 gr. beikon, sneiðarnar skornar í 3 bita hver

300 gr. sveppir í sneiðum

1-1 1/2 dl rauðvín

1/2 L rjómi

Hvítlauksduft

Salt og pipar

Herbes de Provance frá Pottagöldrum

Eðal kjúklingakrydd frá Pottagöldrum

Smjör og olía til að steikja úr

Bakaðir tómatar:

6 tómatar

3 msk. smjör

2 msk. söxuð steinselja

Salt, pipar og hvítlauksduft

Meðlæti:

Hvítlauksbrauð

Hrísgrjón

Strengjabaunir

Þessi réttur er byggður á uppskrift úr gömlum Gestgjafa. Hann er einn af þessum réttum sem maður gerir aftur og aftur, enda klikkar hann ekki.

En svona er aðferðin:

Lundirnar eru snyrtar og skornar í þykkar steikur og flattar lítillega með hnúunum, svo eru þær kryddaðar með hvítlauksdufti, Herbes de Provance, kjúklingakryddinu, salti og pipar. Það er ágætt að láta þær standa með kryddinu í svolítinn tíma ef þú getur. Steikurnar eru svo brúnaðar á báðum hliðum á vel heitri pönnu uppúr blöndu af smjöri og olíu, svo eru þær teknar af pönnunni og geymdar í eldföstu fati. Á sömu pönnu er beikonið brúnað í smástund, og það svo tekið af pönnunni og dreyft ofaná steikurnar, og að síðustu eru sveppirnir steiktir á pönnunni og settir ofaná beikonið. Rauðvíninu er hellt á heita pönnuna og soðið miður um helming, og passaðu að skrapa allt sem er fast á pönnunni vel upp í rauðvínið svo ekkert fari til spillis af góða bragðinu. Svo er hitinn lækkaður og rjómanum bætt útí og soðið niður í smástund, smakkað til með kryddi og svo hellt yfir kjötið. Svona getur þú látið réttinn bíða í ísskáp til kvölds, ef þú gerir hann fyrirfram. Ofninn er hitaður í 180°C og rétturinn bakaður í 20 mín.

Tómatar:

Tómatarnir eru þvegnir og skornir í tvennt. Kryddað ofaní sárið með salti, pipar og hvítlauksdufti, svo er klípu af smjöri og steinselju dreyft yfir. Bakað í sér fati um leið og þú bakar lundirnar í ofninum.

Borið fram með hvítlauksbrauði, soðnum hrísgrjónum og strengjabaunum.

Verði þér að góðu :-)

Veisla!