Framhryggur með vorlauksmúss og sætum sinnepsgljáa

Einfaldur og góður kvöldmatur sem tekur enga stund að koma á boðið, innan við 30 mín. :-)

Það sem til þarf f. 2 er:

Ca. 1/2 kg. kartöflur, skrældar og skornar í stóra bita

3-4 litlir vorlaukar, skornir í bita

Mjólk

Smjör

3-4 framhryggjarbitar

1 1/2 dl. lambakraftur

1/2 tsk. rifshluap

1/2 tsk. grófkorna sinnep

Svona geri ég:

Kartöflurnar eru soðnar í söltu vatni þangað til þær eru meyrar. Vatnið látið leka af þeim og þær eru svo marðar með gaffli eða kartöflu maukarar, slurkur af mjólk og klípa af smjöri bætt við og maukað áfram, saltað og piprað og í lokin er vorlauknum blandað saman við. Mússinni er haldið heitri á meðan þú steikir kjötið. Framhryggurinn er kryddaður með salti og pipar. Klípa af smjöri er brædd á pönnu og sneiðarnar steiktar í 3 mín. á hvorri hlið, brúnaðar að utan og enn bleikar í miðjunni. Svo eru þær teknar af pönnunni og látnar hvílast á disk meðan þú útbýrð gljáann með því að hella soðinu á pönnuna og bæta við sinnepi og rifshlaupi og smakkar til, látið malla þar til soðið er sýrópskennt. Svo er bara að bera herlegheitin fram.

Verði þér að góðu :-)