16 tíma svínabógur með öllu

Ef við erum að tala um gómsætan en þægilegan helgarmat eða veislumat, þá er hann hér. Ég er búin að elda þennan rétt fyrir mjög marga frá því um jól og allir eru jafn hrifnir. Það besta fyrir kokkinn er, að allt má gera daginn áður, svo það er bara afslöppun á sjálfan daginn. Ég elska þannig mat, verður ekki betra :-)

Það sem til þarf f. 8-10 er:

Svínabógur:

3.6 kg. svínabógur, gott að hafa hann feitan

Fennelfræ

Svört piparkorn

Fersk salvía

gróft sjávarsalt

Rauðvín, ca. 1 flaska

Sellerýrótarmúss:

2 sellerýrætur, skrældar og skornar í stóra bita

400 gr. kartöflur, skrældar og skornar í stóra bita

Salt

Timian

2 dl mjólk eða matr.rjómi

Smjör

Salt og pipar

Smáveigis sítrónusafi

Brúnað salvíusmjör:

250 gr. smjör

1/2 pakki fersk salvia, fínsöxuð

Salt

Súrsætur rauðlaukur með hnetum, chili og rúsínum:

6 rauðlaukar, skornir í geira

50 gr. rúsínur

3 msk. ólífuolía

5 msk. sykur

1 dl hvítvín

1 dl kjúklingasoð

Salt og pipar

6 msk. sherrýedik

50 g. ristaðar cashew hnetur

1/2 rautt chili, fínsaxað með fræum

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 250°C. Kjötið er þerrað með eldhúspappír og með beittum hníf (dúkahníf) eru skurðir skornir þvers og langs ofaní puruna. Slatti af salvíugreinum eu lagðar í botninnn á djúpu steikarfati, ásamt fennelfræum og piparkornum. Steikinni er komið fyrir ofaná kryddinu og puran söltuð með grófu sjávarsalti og rauðvíninu er hellt í borninnn á fatinu. Sett í ofninn á 250°C í 20 mín., þá er hitinn lækkaður í 85°C og steikin látin vera í ofninum í 16 tíma. Tekin út og vökvanum hellt af og hún látin kólna.

Það er upplagt að tímasetja steikina þannig að þú takir hana út úr ofninum að morgni og látir hana svo kólna alveg. Síðan ca. 1 1/2 tíma áður en þú ætlar að bera hana á borð er ofninn hitaður í 180°C og steikin sett á hreint steikarfat og stráð með slatta af grófu salti og hún steikt í ca. 1 tíma og 20 mín. Ef puran er ekki poppuð fullkomlega upp, er grillið sett á hæsta hita og HORFÐU Á HANA MEÐAN HÚN POPPAST, tekur 3-5 mín. Ekki líta af henni svo hún brenni ekki. Núna áttu að vera með alveg fullkomlega poppaða svínasteik :-)

Sellerýrótarmúss: Kartöflurnar og sellerýrótin eru soðnar í söltu vatni og timian þar til þær eru meyrar. Vatninu er hellt af en 1-2 dl af því er geymdur. Kartöflurnar og sellerýæturnar eru maukaðar á meðan þær eru heitar, með smjöri og mjólk og etv. svolitlu af soðvatninu. Smakkað til með sítrónusafa, salti og pipar. Má gera daginn áður eða viku fyrr og frysta.

Brúnað salvíusmjör: Smjörið er brætt á víðri pönnu, og látið brúnast við meðalhita þar til það er orðið millidökkt og farinn að koma hnetuilmur af því. Þá er salvíunni bætt útí og hún steikt með í smástund, smakkað til með salti. Má gera daginn áður.

Súrsætur rauðlaukur með hnetum, chili og rúsínum: Rúsínurnar eru lagðar í bleyti í volgt vatn í smástund. Cashew hneturnar eru ristaðar á þurri pönnu og settar til hliðar. Laukurinn er afhýddur og skorinn í geira svo hann hangi saman á rótinni, alls ekki of smátt. Sykur, olía, soð, chili og laukur er sett á stóra pönnu og látið sjóða á meðalhita þar til vökvinn er gufaður upp, hrært í af og til. Þá er laukurinn látinn brúnast aðeins, síðan er hitinn hækkaður hvítvíninu og edikinu bætt á pönnuna og það látið krauma í smástund. Smakkað til með salti og pipar. Má frysta eða geymist í kæli yfir nótt.

Verði þér að góðu :-)