Steikt hrogn með blómkálsmauki og kryddsalati

Mér finnst alveg nauðsynlegt að borða það sem er ferskast á hverjum árstíma. Þorskhrognin eru eitt af því sem er "in season" hjá okkur íslendingum núna, fyrsti vorboðinn má segja. Ég er vön því að borða þau á gamla mátann, soðin með lifrarbita, ýsu og kartöflum. Mér finnst það ágætt, þannig séð, en ég hef verið að leita að nýjum leiðum til að nýta þetta ágæta og holla hráefni. Ég prófaði þennan rétt um daginn og ég varð mjög hrifin af honum. Ef þú ert í stuði til að prófa eitthað nýtt, er þessi réttur vel þess virði og fer vel með budduna.

Það sem til þarf f. 4 er:

2 meðalstórar hrogna "buxur"

Olía og smjör til að steikja uppúr

1 blómkálshöfuð

1 dl mjólk

1 dl rjómi

Salt og pipar

1 poki salatlauf

Sítróna

Mynta, basillauf, sítrónumelissa og/eða aðrar grænar jurtir, saxaðar meðalgróft

Svona gerði ég:

Blómkálið er brotið í klasa og soðið í mjólk og rjóma þar til það er meyrt, þá er það maukað (með vökvanum) í matvinnsluvél

eða töfrasprota, saltað og smakkað til með smjöri og sítrónusafa, geymt og hitað upp þegar hrognin eru steikt. Hrognin eru sett í pott með köldu söltu vatni. Suðan er látin koma rólega upp og soðið rólega í 5 mín. Hrognin tekin úr pottinum og kæld. Þau eru síðan skáskorin í þykkar sneiðar og steikt á pönnu í blöndu af góðri olíu og smjöri þar til þau eru gyllt og gegnsteikt, saltað og piprar. Salatlaufunum er velt uppúr sítrónusafa (ca. 1 /2 sítróna) nokkrum saltkornum og 2-3 msk. af bræddu smjöri. Kryddjurtirnar eru grófsaxaðar, blandað saman og settar til hliðar. Þegar hrognin eru borin fram er hrúgu af dressuðu salati komið fyrir á miðjum disknum, 2 sneiðar af steiktum hrognum fara ofaná salatið, nokkrar skeiðar af heitu blómkálsmauki settar ofaná hrognin og kryddjurtablandan sett í topp ofaná. Frábært að hafa svolítið auka brætt smjör og sítrónubáta með, að ég tali nú ekki um glas af köldu þurru hvítvíni....

Verði þér að góðu :-)