mitt LKL brauð

Hálfur heimurinn og amma hans eru að spara við sig kolvetni, eru á LKL eða keto mataræði og ég er auðvitað ein af þeim. Ég elska brauð, því miður elskar það mig ekki, ég þoli ekki mikið mjöl. En, ég saknaði þess að fá ekki brauð svo það var eins og himnasending að detta niður á uppskrift sem mér fannst góð, með ekki of miklu eggjabragði eins og er af svo mörgum LKL brauðum. Það er stappfullt af trefjum og góðum vítamínum. Ég er búin að laga uppskriftina mínum þörfum og er mjög sátt við útkomuna. Brauðið geymist vel í ísskáp, alveg í viku, svo er auka bónus að það er mjög gott að rista það og hafa með tebollanum á morgnana. Endilega prófaðu og sjáðu hvað þér finnst.

Það sem til þarf er:

1 brauð


4 stór egg

1 bolli möluð hörfræ (milled flax seed)

3 msk. vatn

1/2 bolli möndlumjöl

1 tsk. lyftiduft (má vera rétt rúmlega)

1/2 tsk. salt

1 msk. kúmen (má sleppa)

Smjör til að smyrja formið með

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C. Álform er smurt að innan með smjöri. Eggin eru broti í skál og þeytt með písk með vatninu og salti. Mjölið, lyftiduftið og kúmenið ersett í araská og blandað vel saman með höndunum. Eggjunum er hellt útí mjölið og blandað saman þar til það er rétt samlagað, ekki hræra óþarflega mikið í því. Deginu er hellt í formið og bakað í 22-25 mín. Það eru sjálfsögð réttindi bakarans, að fá eina sjóðheita brauðsneið með smjöri eftir erfiðið.

Veði þér að góðu :-)

ATH. Ef þú notar álform eins og ég, er upplagt að nota það oft og þvo það milli bakstra. Minni sóun ;-D