Bakað Butternutsquash

Aðalleikarinn í þessari uppskrift er butternut grasker, sem mér finnst vera hluti af haustmatnum, eins og villibráð og slátur. Ég er mjög hrifin að því að borða árstíða bundinn mat Það er endalaust hægt að gera við grasker t.d. nota í fyllingu í böku, baka úr því köku, mússa og hafa með steikinni eða búa úr því súpu. Hér er það í aðalhlutverki, bakað og fyllt með hýðisgrjónum, baconi og fetaosti, hollt og fullt af góu bragð :-)

Það sem til þarf f. 4 er:

2 meðalstór butternut grasker, langsum skorin í tvennt og fræhreinsuð

4 msk. ólífu olía

100 gr. hýðishrísgrjón eða barley

Tæplega 1 L grænmetissoð

6 vænar sneiðar bacon

1 laukur, saxaður

1 hvítlauksrif, marið

2 msk. fersk söxuð steinselja

100 gr. fetakubbur gróf mulinn milli fingra

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C. Graskerið er sett í eldfast fat með skornu hliðina upp, 2 msk. af olíunni er smurt í sárið, saltað og piprað, og graskerið bakað í 35-45 mín., eða þar til það er mjúkt og fullbakað (fer svolítið eftir stærð). Á meðan eru hýðisgrjónin soðin í grænmetissoðinu í 30-40 mín. Um 10 mín. áður en grjónin eru soðin, er restin af olíunnni hituð á pönnu og baconið steikt þar til það er stökkt. Þá er lauk og hvítlauk bætt á pönnuna og steikt áfram í 5-7 mín. Þegar grjóninn eru soðin er vökvanum hellt vel af og þeim bætt á pönnuna með baconinu, ásamt fetaostinum og steinseljunni, saltað og piprað eftir smekk. Graskerin eru tekin úr ofninum og fyllingunni skipt á milli þeirra og þau bökuð áfram í 8-10 mín., þar til þau eu gyllt og osturinn farinn að bráðna. Borin rjúkandi heit á borð.

Verði þér að góðu :-)