Önd með pipar & vanillu

Það sem til þarf er:

f. 2-3

2 andabringur

1 msk. svört piparkorn, marin gróft í mortéli

Sjávarsalt

85 g bacon í bitum

1 pakki blandaðir villisveppir

2-4 msk. Marsala eða Púrtvín

100 g grænar ertur, afþýddar

1 dl kjúklingasoð

Í kartöflumaukið:

½ kg kartöflur, afhýddar og skornar í stóra jafna bita

2-4 msk. rjómi

½ vanillustöng

Góð klípa af smjöri

Salt og pipar

Þegar blaðamaður Vikunnar hafði samband við mig og bað mig að koma með nokkrar uppáhalds uppskriftirnar mínar var ég ekki lengi að hugsa mig um og þegar ég fór að hugleiða hvaða kjötrétt ég ætti að hafa var það ekki spurning, það er þessi hérna :-)

En svona er rétturinn gerður:

Mér finnst best að taka öndina úr frysti 2 dögum áður en ég ætla að nota hana. Kvöldinu áður en ég elda hana set ég bringurnar á grind með skinnið upp. Svo sýð ég vatn í katlinum og helli sjóðandi vatni yfir skinnið. Það er svo þerrað vel, og bringurnar settar á disk, óvarðar og geymdar þannig í ísskáp yfir nótt. Þannig þornar húðin vel og verður stökkt við steikingu. Bringurnar eru saltaðar vel báðum megin og piparnum þrýst ofan í húðina. Bringurnar eru settar á kalda pönnu á lágan, miðlungs hita. Það er best að bringurnar malli rólega svo húðin verði sem best. Bringurnar eru steiktar í 12-15 mín., eða þar til húðin verður mahognay brún og stökk. Þá er bringunum snúið og þær steiktar á hinni hliðinni í 10-12 mín., svona steiktar eru bringurnar ljósbleikar í miðunni. Teknar af pönnunni og látnar hvílast í 10 mín. áður en þær eru skornar.Allri fitunni, nema 1-2 msk. af andafitunni er hellt af og baconið steikt stökkt í restinni af fitunni. Þá er hitinn hækkaður og sveppirnir steiktir í 2-3 mín., þá er víninu hellt á pönnuna, soðinu og baununum og látið malla í 2-3 mín. Öllum safa sem kemur af bringunum er hellt saman við.Kartöflurnar eru soðnar í saltvatni í 10 mín. eða þar til þær eru meyrar. Kornin eru skafin úr vanillustönginni og blandað út í rjómann sem er hitaður í potti í smástund. Vatninu er hellt af kartöflunum og þær maukaðar, vanillu-rjómanum er blandað samanvið ásamt klípu af smjöri. Saltað og piprað. Mér finnst fallegast að bera andabringurnar fram skornar í nokkuð þunnar sneiðar, 3-4 á hvern disk með skeið af kartöflumauki og 2-3 skeiðum af ragout.

Verði þér að góðu :-)

Dásamleg!