Grilluð bláskel með hvítlauksmylsnu

Fersk (lifandi) bláskel er yfirleitt til í fiskbúðum núna, jafnvel í stórmörkuðum. Mest af henni er ræktað í Breiðafirði. Það sem skiptir máli með ferska skel er, að ef hún er opin, áður en þú sýður hana og henni er bankað í borðið og hún lokast ekki, skaltu henda henni. Líka ef hún opnast ekki þegar hún er soðin, þá hendir þú henni.

Það sem til þarf er:

1 net ferskur kræklingur (er um 1 kg.)

1/2 dags gamalt snittubrauð, hakkað

3 hvítlauksrif, fín söxuð

1 lúka steinselja, söxuð

Safi úr 1/2 sítrónu

Salt og pipar

Sítrónusneiðar til að bera fram með skelinni

En svona gerum við:

Þú byrjar á að hreinsa skelina undir köldu rennandi vatni og skrúbbar skelina með bursta. Suðan er látin koma upp á vatni í stórum potti og saltað. Skelin er sett í vatnið og suðan látin koma upp og soðið í 3-4 mín. Þá er vatninu hellt af og skelin kæld. Muna að henda allri skel sem ekki er opin. Efri skelin er brotin af, fiskurinn er losaður með hníf og lagður aftur í hina skelina.

Brauðið er malað í matvinnsluvél. Hvítlauk, sítrónusafa, bræddu smjöri, steinselju, salti og pipar blandað útí. Mylsnan er svo sett ofaná skelina og þrýst létt á svo hún haldist ofaní. Skeljarnar eru svo settar á bökunar-plötu. Þetta má allt gera daginn áður ef þú vilt, þá seturðu plast yfir og geymir í ísskáp. Skelin er svo grilluð í 4-5 mín. þangað til hún er gyllt og falleg. Borið fram með sítrónu-sneiðum og milli þurru hvítvíni.

Verði þér að góðu :-)