Harissa lamborgarar með feta og klettasalati

Hot, hot... nei, ekki á hesti. En þessi lamborgari er í sterkari kantinum, en samt ekki neitt of mikið. Lambið og harissa maukið eiga rosa vel saman og svalinn á móti kryddinu kemur úr jógúrtinni og brauðinu. Geggjaður á útigrillið eða frábær að steikja borgarann á grillpönnu í eldhúsinu.

Það sem til þarf f. 2 er:

250 gr. lambahakk

1/2 tsk. cumin

Cayannepipar eftir smekk (sterkur)

2 msk. harissa mauk

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

60 gr. fetaostur

Ólífu olía til að pensla með

2 pítubrauð

Klettasalat

Grísk jógurt

Svona geri ég:

Hakkinu og kryddinu er hnoðað vel saman. Deiginu er skipt í tvo jafna hluta. Fetaosturinn er mulinn í miðjuna á hvorum borgara og deiginu vafið utanum ostinn og lokað vel. Grillpanna er hituð á meðalhita, borgarana penslaðir með olíu og steiktir í 5-6 mín. Pítubrauðin eru hituð í brauðristinni. Þau eru svo fyllt með grískri jógúrt, klettasalati og lamborgara. Þessi borgari er frábær á útigrillið. Verði þér að góðu :-)