Forsíða

Rafmengunarsíða Sigurðar Guðmundssonar siggi@siggi.is    

Smelltu á táknið ef þér líkar við efnið
Harmonískar yfirsveiflur milli fasa og núll í aðaltöflunni heima hjá mér.  Álagið á heimtauginni var 12A 
(12 A á fasanum, 6,4 A á núllinu og 5,6 A á spennujöfnunartauginni).

INNGANGUR

   Á þessum vef ætla ég að fjalla um rafmengun.  Ég ætla ekki að flækja þetta með flóknum tæknilegum lýsingum fyrir fagmenn.  Þetta á að vera skiljanlegt fyrir þá sem þekkja lítið til rafmagns og rafmengunar.  Þeir sem vilja taka þetta á fræðilegu nótunum, gera það á öðrum vettvangi.
    Rafmengun skiptist í megin atriðum í lágtíðnimengun, hátíðnimengun  og jarðgeislamengun.
    
    Sérstaklega verður fjallað um rafspennu sem spanast upp í líkama fólks þegar það er nálægt  rafbúnaði og rafkerfum bygginga.

      Rafspenna myndast í líkamanum þegar maður er ekki í beinni snertingu við jörðina (beinu jarðsambandi).  Ég ætla að sýna fram á hvernig þessi spenna er mæld, hvaðan hún kemur og hvernig maður getur minnka hana.  Hér er ekki verið að tala um stöðuspennu sem myndast þegar fötin nuddast við sófann, sem síðan kemur fram sem neisti, þegar maður snertir eitthvað.  Hér ætla ég að fjalla um spennu sem spanast upp í líkamanum frá 230 V rafkerfinu sem við erum með allsstaðar í kringum okkur. 
       Einnig ætla ég að sýna truflanir sem eru í rafkerfum á heimilum okkar og vinnustöðum, hvaðan þær koma, hvaða búnaður býr þær til, ásamt því að fjalla um hvernig maður getur minnkað truflanirnar.

    Ég ætla ekki að reyna að sanna það að þessi rafmengun sé skaðleg.  Ég ætla aðeins að fullyrða það að hún er ekki hluti af náttúrunni sem maðurinn hefur þróast í milljónir ára og er örugglega ekki til bóta.

    Ég er búinn að gera tilraunir til þess að minnka rafmengun á heimili mínu og á skrifstofunni þar sem ég held til á daginn.  Ég tók eftir því að sóríasis útbrot sem ég er með á líkamanum hafa minnkað verulega eftir að ég fór að gera þessar tilraunir.  Ég held einnig utan um blóðþrýstingsmælingar sem ég framkvæmi kvölds og morgna.

    Ef þetta vekur áhuga þinn þá er meira um þetta að finna á undirsíðum (sjá flipana hér fyrir ofan).

    Tilraunin hófst eftir að ég las bókina "Earthing: The Most Important Health Discovery Ever? ".  Í bókinni er farið yfir það hvaða áhrif rafmengun getur haft á heilsu manna sem ganga um á gúmmískóm.  Í bókinnni er því haldið fram að menn eigi að ganga um berfættir á jörðinni til þess að komast í samband við hana.  Í stað þess að ganga um berfættur og flokkast þannig undir fólk með hegðunarvandamál, þá ákvað ég að gera þetta öðruvísi. Ég lagði vír út um svefnherbergisgluggann, út í blómabeð, til þess að fá hreint jarðsamband (signal ground), án allra þeirra truflana sem eru á jarðsambandinu í tenglunum í veggjunum.  (Sjá meira um þetta á undirsíðunum).
Comments