1.hluti: Kynning og ágreiningsefni

Stjórnmál fjalla í víðum skilningi um þá þætti í samfélagi sem lýtur að stjórn þess. Spurt er um hver eigi að stjórna samfélaginu, hvers vegna og hvernig á að gera það. Í flestum iðnvæddum samfélögum er lýðræði, sem þýðir að lýðurinn ræður hvað gera skuli. Það hefur síðan þróast yfir í fulltrúalýðræði, þar sem lýðurinn velur sér fulltrúa til að tala sínu máli og taka ákvarðanir fyrir sína hönd. Þessir fulltrúar hafa síðustu áratugina víðast hvar skipað sér í hópa, svonefnda stjórnmálaflokka, þar sem þeir sem eru sammála í meginatriðum starfa saman og bjóða sig fram saman. 

Stjórnmál snúast um framtíðina. Taka þarf ákvarðanir sem eiga að koma tilteknum hópum til góða til framtíðar, allt snýst þetta um að byggja upp samfélagið sem stjórnmálamennirnir búa í. Þar af leiðandi er erfitt að ákvarða t.d. í málefnum eins og aðild að Evrópusambandinu, hvort sé betra fyrir íslenska þjóð, að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það sem gerir þetta enn erfiðara er að samfélagið á erfitt með að meta hvort það sem gert var hafi verið rétt. Hvort aðrar ákvarðanir hefðu komið sér betur fyrir samfélagið. Það er ómögulegt að vita þar sem þær ákvarðanir voru ekki teknar. Þá er líka mjög auðvelt að vera vitur eftir á í stjórnmálalegum skilningi, en það myndi kallast að læra af sögunni. Hver er t.d. hinn sögulegi dómur um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði? Hvernig hafa þær framkvæmdir skilað sér í þjóðarbúið, efnahagslega og samfélagslega?

Stjórnmál út fyrir samfélög eru einnig sístækkandi þáttur í lífi stjórnmálamanna. Utanríkismál eru að verða mikilvægari, sérstaklega með auknum völdum yfirþjóðlegra stofnana eins og Sameinuðu Þjóðanna, Evrópusambandsins, NATÓ, Alþjóðadómstóla og slíkra. Hvernig getum við t.d. metið hvort árásir NATÓ á Líbýu sér réttlætanlegar? Hvað vitum við um hvað er raunverulega að gerast í Líbýu? Almennt spáum við kannski ekki mikið í utanríkismál eða alþjóðastjórnmál en þau eru nauðsynlegur hluti af tilveru okkar og við eigum að hafa skoðun á þeim.

Eðli stjórnmála er að fólk deilir um hvað best sé að gera fyrir tiltekna hópa, oft þjóðir eða hagsmunahópa, stundum sérhagsmunahópa, t.d. starfsstéttir, þjóðfélagsstéttir, kjördæmi eða slíkt. Nýleg íslensk ágreiningsefni eru t.d. ný-einkavæðing fjármálastofnana, sem Eygló Harðardóttir þingkona Framsóknarmanna hefur harðlega gagnrýnt. Einnig óöld í Bretlandi þar sem stjórnmálamenn og almenningur deilir um ástæður þess að óeirðirnar áttu sér stað. Ný stjórnarskrá hefur valdið nokkrum deildum, afstaða kirkjunnar til kynferðisbrota fyrrverandi biskups er dæmi um ágreiningsefni sem hafa áhrif á stjórnmál á þann hátt að umræða um þjóðkirkju, eða ríkisstyrkta kirkju verður æ háværari. Þessi hluti áfangans snýst um að velja sér ágreiningsefni, koma auga á hagsmuni innan ágreiningsefnisins, skoða sem flest sjónarhorn þess og beita rökum með og á móti tilteknu ágreiningsefni.  
Subpages (1): Verkefni 1
Comments