2. hluti - samskipti

Þessi kafli fjallar að mestu um hin afar hversdagslegu samskipti. Með hugtakinu félagsleg samskipti er átt við þau viðbrögð sem við sýnum hegðun annarra og sem aðrir sýna okkur. Þessi gagnvirka hegðun myndar síðan samfélag sem vísar til þeirra samskiptahátta sem tengja saman fólk með sömu menningu. 

a) Samskipti með og án orða (bls. 145-154)

Öll félagsleg tengsl fela í sér óyrt samskipti. Með því er átt við að einstaklingar tjái sig með svipbrigðum, látbragði, fjarlægð, hljómfalli, þögn, hreyfingum eða annarri líkamsbeitingu. Þannig getur líkamsbeiting eða hreyfingar t.d. komið upp um þann sem er að ljúga. 
Paul Ekman hefur dregið fram fjóra þætti þegar framkoma er skoðuð:

1. Orð. Því flóknari sem lygin er því líklegra er að lygaranum verði á mistök í orðavali, segi t.d. hann í staðinn fyrir hún.
2. Rödd. Erfitt er að stjórna tónhæð og raddblæbrigðum. Geðshræring leynir sér ekki í tali fólks.
3. Líkamsmál. T.d. gefa snöggar og taugaveiklaðar hreyfingar oft taugaóstyrk til kynna.
4. Svipbrigði. Sorgmæddur maður á erfitt með að þykjast glaður eða ánægður. 

Hægt er að lesa í líðan einstaklings og koma upp um lygar eða blekkingar með því að lesa í líkamstjáningu. Þó eru margir ansi vel þjálfaðir í blekkingum og erfitt er að koma upp um þá sem eru færir í því. 
Augnsamband er annað atriði sem hefur áhrif á samskipti. Ef starað er í augu viðkomandi getur það þýtt annarsvegar mikinn áhuga en hins vegar fjandskap eða ógnun. Augnsamband getur valdið miklum misskilningi.

Tilfinningar

b) Nálægð, snerting og tungumál (bls. 154-167)

Hver kannast ekki við að tala við fólk sem því þykir vera of nálægt sér? Fólk á sitt persónulega svæði sem það hleypir aðeins örfáum inn á. Annar verða óþægindi. Þetta persónulega svæði er mjög misstórt eftir menningarheimum. Í S-Ameríku er persónulega svæðið minna og meira um líkamlega snertingu milli jafnvel óskyldra aðila. T.d. eru kossar merki um virðingu í sumum menningarheimum en öðrum þykja þeir óþægilegir nema milli náinna aðila. 

Persónulegt svæði
Innst er nánasta svæðið, að um hálfum metra, þ.e. svæði sem aðeins nánustu vinir og ættingjar mega koma í og þeir sem mega snerta einstaklinginn. Foreldrar, börn, makar og slíkir mega koma inn á þetta svæði. Næst er vina- og kunningjasvæðið, frá hálfum og upp í einn metra. Þriðja svæðið er formlega svæðið en það nær frá rúmum metra upp í 3-4 metra. Loks er það opinbera svæðið sem er frá 3-4 metrum og nánast upp í hið óendanlega. Það er t.d. þegar ræðumaður vill greina sig frá áhorfendum. 

Stundum gerist það að fólk fer inn á óviðeigandi svæði einstaklings. Oft á það sér stað þar sem um samskipti yfirmanns og undirmanns er að ræða, eða jafnvel kennara og nemanda. Sá sem verður fyrir því þarf þá að bregðast við, annað hvort með því að biðja hann að færa sig, stara á hann eða bakka sjálfur. Fólk getur verið viðkvæmt fyrir þessu en sumir hafa einmitt enga skynjun gagnvart persónulegu svæði annarra. 

Ekki má gleyma því að kynferði hefur áhrif á nálægð milli einstaklinga. Karlar þurfa vanalega stærra svæði en konur en mun algengara er að karlar ryðjist inn á persónuleg svæði kvenna en öfugt. Skýring á því getur verið að í uppeldi og félagsmótun þeirra er lögð áhersla á frumkvæði og ágengni. Ef konur gerðu slíkt hið sama myndu karlar hiklaust túlka það sem kynferðislega nálgun. 

Snerting
Ólíkar tegundir snertingar eru mikilvæg skilaboð í samfélagi okkar. Þær geta verið jákvæðar, gáskafullar, stjórnandi, kurteisar eða verkefnatengdar. Þá eru líka til neikvæðar snertingar, árásargjarnar snertingar eða "óvart" snertingar. Rannsóknir hafa sýnt að lítil snerting getur haft jákvæðar afleiðingar. Einnig hafa rannsóknir sýnt að báðum kynjum finnst óþægilegra að láta einstakling af sama kyni snerta sig en ef um var að ræða ókunnugt fólk þá kunnu karlar vel við að vera snertir af ókunnugum konum en konum fannst ekki gott að láta ókunnuga karla snerta sig. Þá voru karlar líklegri til að mistúlka snertingu frá gagnstæðu kyni. 

Félagsleg túlkun á veruleikanum
Að lýsa hvernig fólk skapar félagslegan veruleika með samskiptum og mynda grunn að kenningum um táknræn samskipti. Í öllum samskiptum felst samkomulag á milli fólks um túlkun þess sem er að gerast og það er félagsmótun sem skapar þessa túlkun. Viðbrögðin fara eftir merkingunni sem er lögð í samskiptin.

Táknræn samskipti (bls. 122-127)

Samskipti eru hornsteinn samfélaga. Félagsleg samskipti eru viðbrögð við ótal gjörðum og mynda saman samfélagið. Tákn fylgja samskiptum og standa fyrir ákveðna merkingu sem fólk lærir að skilja. Líkt og samfélög eru sammála um skilning og merkingu vissra orða í tungumáli þá hafa tákn álíka merkingu. Tungumálið í sjálfu sér er táknkerfi og séu tákn ekki notuð með tungumáli er mun hættara við misskilningi eins og sést oft í óbeinum samskiptum, sms og netsamskiptum þar sem tákn fylgja ekki endilega tungumálinu.

Rökfræðileg raunhyggja byggist annars vegar á því að öll þekking byggist á skynreynslu, einhverju sem einstaklingurinn hefur skynjað og reynt. Gert er ráð fyrir því að staðreyndir hafi aðeins merkingu gagnvart þeirri reynslu sem gerir þær sannar eða ósannar. Ekkert er til sem einstaklingurinn hefur ekki séð, skynjað eða reynt sjálfur. Inntak eða merking hluta er ekki eðlislæg heldur fer hún eftir því hvernig einstaklingurinn hegðar sér gagnvart hlutnum. Þannig hefur stóll eða hnífur ekki sérstaka merkingu nema honum sé gefið tiltekið hlutverk. Hníf er hægt að nota til að skera grænmeti en líka sem morðvopn.

Félagsháttafræði (bls. 127-130)

Félagsháttarfræði fæst við skilgreiningar á samskiptum og rannsóknir á því hvernig fólk skynjar líf sitt og umhverfi. Stór hluti samskipta er "sjálfvirkur", t.d. kveðjur og slíkt og rannsóknir í félagsháttafræði ganga út á að brjóta þessar sjálfvirku samskiptareglur og velta fyrir sér viðbrögðunum.

Hugmyndir um sjálfið (bls. 130-137)

Sjálfið er túlkað á mismunandi hátt eftir fræðigreinum og ólíkum hugmyndum fræðimanna. T.d. má túlka sjálfið sem meðvitaðan skilning á eigin persónu, hugmyndir, þekkingu, stjórnun og afstöðu til sjálfs sín. Sjálfið er kannski það sem manni finnst vera maður sjálfur. Spegilsjálf er þegar einstaklingur speglar sig í öðru fólki og reynir að komast að því hvernig hann lítur út í þeirra augum. Þá reynir einstaklingurinn að komast að því hvernig aðrir meta hann og loks eru þessi tvö atriði sett saman í spegilsjálf.
George Herbert Mead þróaði kenningar um sjálfið, "ég" og "mig". Ég býr yfir óheftri, óyfirvegaðri, sjálfselskri skynjun sem stýrist af eigin löngunum án tillits til umhverfisins. Mig er það sem tekur tillit til umhverfisins og er félagsmótað og kurteist (hjá flestum).

Leikræn greining (bls. 137-145)

Öll samkipti eru eins og leikrit þar sem stöðum og hlutverkum er skipt á milli fólks. Öllum stöðum fylgja hlutverk, t.d. hefur staðan sölumaðurinn hlutverkið að selja vörur. Staðan sonur hefur það hlutverk gagnvart foreldrum sínum að vera stilltur og prúður og laga til í herberginu sínu. Staðan nemandi hefur það hlutverk að gera eins og kennarinn segir. Þá er hæglega hægt að nota ýmsa leikmuni til að ýkja upp myndina sem maður vill draga upp af sjálfum sér.

Efnisatriði fyrir kaflapróf

samskipti með og án orða
óyrt samskipti
Kenningar Paul Ekman

Nálægð snerting og tungumál
- persónuleg svæði og snerting

Kenningar Peter Berger og Thomas Luckmann

Táknræn samskipti
Rökfræðileg raunhyggja

Kenningar William I Thomas
Kenningar Harold Garfinkel

Hugmyndir um sjálfið - spegilsjálfið

Kenningar George Herbert Mead - tilraun Ivan Pavlov
Ég/Mig hugmyndirnar

Kenningar Charles Horton Cooley

Hlutverk og staða og leikræn greining - Erving Goffman


Comments