Fréttir

Nýi vefurinn kominn í loftið

posted Aug 26, 2013, 2:26 AM by Hjördís Gísladóttir

Nú hefur verið opnað fyrir nýja Hólavefinn, þrátt fyrir að hann sé enn í vinnslu.
Við munum því hætta að uppfæra þennan fréttavef.
Athugið að nýi vefurinn, www.holar.is, virkar best í Chrome-vafranum.

Drottningin fallin

posted Aug 20, 2013, 9:06 AM by Hjördís Gísladóttir

Þokkabót aðstoðar við sætisæfingar
Þokkabót aðstoðar við sætisæfingar.

Hinn 14. ágúst sl. var drottningin í skólahestahópnum, hún Þokkabót frá Hólum, felld vegna veikinda. Hún eyddi sumrinu eins og venjulega með stóðinu í Hjaltadalnum.

Þokkabót  var fædd 1993, undan Fjölni frá Kópavogi og Þóru frá Hólum. Ferillinn sem kennsluhross hófst ´98 þegar Þorvaldur Kristjánsson frumtamdi hana í námi sínu á Hólum. Guðrún Magnúsdóttir, reiðkennari á Hólum, þjálfaði hana svo á 5.v., áður en Anton Páll Níelson tók við þjálfuninni. Hann sýndi hana seinna í kynbótadómi og keppti einnig á henni, t.d. í fjórgangi á Íslandsmóti, þar sem hún var í úrslitum.

Árið 2000 hóf hún feril sinn sem skólahestur og reyndist mögnuð í því starfi. Hún hefur kennt mörgum margt, frá að geta setið brokk og stökk í sætisæfingum til að geta riðið yfirferðartölt á Hofsafleggjaranum. Ekki síst kenndi hún mörgum auðmýkt og sanngirni. Þokkabót lét ekki valta yfir sig og lét hún greinilega í ljósi, ef henni var misboðið en var eins og ljós ef knapinn gaf réttar og sanngjarnar ábendingar.

Þokkabót var snillingur á stökki, var vandriðin á tölti, en mjög góð ef rétt var farið að, og hafa margir lært á henni listina að ríða hesti fyrst og fremst með fótum og sæti. Dugnaðurinn, úthaldið, harkan var ótrúleg þegar kom að því að standa sig í sætisæfingum, og ómögulegt er að giska á hve marga hringi hún fór eða í hve margar klukkustundir. Þokkabót  var afar vinsæl meðal nemenda, og var alltaf á toppnum á vinsældalistanum þegar nemendur völdu sér hross fyrir próf.

Ösp dóttir Þokkabótar og Mette Mannseth
Ösp og Mette Mannseth.

Annað merkilegt við Þokkabót er að hún á nokkra afkomendur, án þess að hafa átt folöld sjálf. Teknir voru úr henni fósturvísar. Eitt af fyrstu fósturvísafolöldunum sem fæddust á Íslandi er undan henni, Örvar frá Hólum, sem er skólahestur hjá okkur. Einnig átti hún tvíburana Ögra og Ösp frá Hólum. Ögri var frægur keppnishestur, vann t.d. Bautatöltið með Þorsteini Björnssyni, var í úrslitum á Fjórðungsmóti í B-flokki með Ísólfi Líndal og vann Ís-landsmótið á Svínavatni með Sölva Sigurðarsyni. Ösp var hæst dæmda hryssan á Íslandi 2006 og stóð efst í 6 v. flokknum á Landsmótinu, með Mette Mannseth í hnakknum.  Dóttir Aspar, Storð, var svo á Landsmóti 2011 í flokki 4 v og  árið 2012 sem 5 v.

Takk fyrir allt Þokkabót, við munum sakna þín.

Reiðkennarar og starfsmenn Háskólans á Hólum


Frá blóma til botns

posted Aug 20, 2013, 8:45 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Aug 20, 2013, 8:47 AM ]

Dagana 29. júlí til 7. ágúst var haldið námskeið um kolefni og kolefnisflæði sjávar, þar sem áta (dýrasvif) var í brennidepli. Námskeiðið sátu 17 erlendir doktorsnemar í sjávar- og vatnalíffræði og nutu þau leiðsagnar 8 sérfræðinga sem vinna allir að rannsóknum á líf- og vistfræði dýrasvifs eða líkanagerð um ferla kolefnisflæðis vistkerfa sjávar.


Nemendur sátu fyrirlestra heima á Hólum en jafnframt var farið í sýnatökuleiðangra út á Skagafjörð og efniviði safnað, fyrir stutt rannsóknarverkefni sem unnin voru í aðstöðu háskólans í Verinu.

Sýnatöku var valinn staður í Skagafirði nærri Sauðárkróki þar sem dýpi var 80 metrar og aðstoðaði Steindór Árnason, skipstjóri á Hafey SK-10, rannsóknaskipi námskeiðsins, við staðarval.


Námskeiðið hafði alþjóðlegt yfirbragð þar sem nemendur frá 11 þjóðlöndum sóttu námskeiðið og nutu leiðsagnar sérfræðinga frá 7 þjóðlöndum. Alþjóðlegt yfirbragð námskeiðsins skapaði frjóar og fjörugar umræður um rannsóknir, mannlíf og menningu. Frumkvæði að skipulagningu námskeiðsins áttu Sigrún Huld Jónasdóttir og Jörg Dutz sem starfa bæði hjá DTU Aqua í Danmörku og var þetta í annað sinn sem námskeið af þessu tagi er haldið á Íslandi, í samstarfi við Erlu Björk Örnólfsdóttur. Vonir eru bundnar við að námskeiðið stuðli að tengslamyndun sérfræðinga framtíðar við íslenskt rannsóknarsamfélag, auki þekkingu okkar á vistkerfi sjávar við Íslandsstrendur og skapi jafnframt aukin námstækifæri fyrir íslenska doktorsnema í sjávarlíffræði.Námskeiðið var styrkt af EUROCEANS, Kaupfélagi Skagfirðinga, Technical University of Denmark, EURO-BASIN og Háskólanum á Hólum.

Erla Björk ÖrnólfsdóttirRáðstefna um seltuþol og smoltun laxfiska

posted Aug 15, 2013, 3:59 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Aug 15, 2013, 4:00 AM ]

Háskólinn á Hólum og Háskólinn í Gautaborg standa fyrir ráðstefnu um seltuþol og smoltun laxfiska sem haldin er í Reykjavík og á Hólum í Hjaltadal dagana 13-17. ágúst. Sumar tegundir eða afbrigði laxfiska, t.d. Atlantshafslax, urriði (sjóbirtingur) eða sjóbleikja ganga úr fersku vatni í sjó. Áður en fiskarnir geta gengið í sjó þurfa þeir að ganga í gegnum flókið líffræðilegt ferli sem nefnt er smoltun og gerir þeim kleift að ganga tímabundið úr fersku vatni í sjó. Eftir smoltun geta fiskarnir aðlagast seltu jafnframt því sem sundþol fiskanna eykst og atferli breytist. Fyrir villta stofna og sérstaklega fyrir eldisfiska þessarra tegunda skiptir sköpum að smoltunarferlið gangi eðlilega fyrir sig, en mestu afföll í laxfiskastofnum eru talin eiga sér stað á fyrstu dögum sjógöngu.

Eldi, veiðar og framleiðsla á afurðum laxfiska er geysilega mikilvægur atvinnugrein víða um heim. Smoltun laxfiska tengist ekki einungis matfiskeldi, heldur einnig hvernig tekst til með seiðasleppingar í vötn og ár, og getur þá verið um að ræða sleppingar fyrir atvinnu- eða frístundaveiðar, hafbeit, uppbyggingu fiskistofna í útrýmingarhættu, og/eða viðhaldi stofna í ám þar sem stíflur hindra fiskigengd á hrygningarstöðvar.

Hópur sérfræðinga á sviði á sviði smoltunar hittist fjórða hvert ár til þess að fjalla um smoltun, seltuþol og annað efni sem tengist smoltun. Vísindamennirnir koma frá Norðurlöndunum, Bretlandi, Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum og Japan sem leiða rannsóknir á þessu sviði. Ráðstefnan sem nú er haldin á Íslandi er sú níunada í röðinni.

Hér á landi hefur um langt árabil verið unnið að hliðstæðum rannsóknum, einkum á bleikju en einnig á laxi. AVS sjóðurinn hefur stutt þessar rannsóknir. Á ráðstefnunni gefst íslenskum vísindamönnum gott tækifæri til þess að kynnast nýjustu rannsóknum á þessu sviðijafnframt því að kynna eigin rannsóknir og fá viðbrögð helstu sérfræðinga heims.

Helgi Thorarensen

Hross í þjálfun í haust

posted Aug 12, 2013, 8:45 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Aug 12, 2013, 9:35 AM ]

Í júní var opnað fyrir pantanir í fyrir hross í frumtamningu og þjálfun hjá Hólanemum, á fyrri hluta haustannar. Afar mikil eftirspurn hefur reynst vera eftir plássum í frumtamningu, töluvert meiri en hægt verður að sinna. Haft verður samband við eigendur hrossanna á næstu dögum.

Enn eru laus nokkur pláss í þjálfun á umræddu tímabili, 26. ágúst til 19. október. Þjálfunin hentar fyrir (meira) tamin hross á 5. – 12. vetri, af öllu tagi.  Þó eru ekki tekin gölluð hross eða hættuleg (s.s. hrekkir, rokur, slægð, húslestir). Við komuna heim að Hólum þurfa þau að vera í lágmarksþjálfun. Þetta námskeið er alhliða þjálfun reiðhests með áherslu á bætta svörun ábendinga, jafnvægi, hreyfingar og rými á öllum gangtegundum.

Forkröfur: Hrossin þurfa að vera heilbrigð og laus við galla, svo sem slægð, hrekki, húslesti eða áberandi viðkvæmni eða kaldlyndi.

Hross sem koma í  þjálfun skulu skilyrðislaust vera í þjálfun, og járnuð.

Kostnaður - fyrir allt viðkomandi tímabil (ber ekki virðisaukaskatt), er kr.75.000.

Innifalið: Allt uppihald, auk járninga (ef við á) og ormalyfsgjafar.

Þeir sem óska eftir að koma hrossum í þjálfunina, geta lagt inn pöntun hér á vefnum.

Öllum umsækjendum eru færðar bestu þakkir.

Sumarið í Verinu - Summer 2013

posted Aug 9, 2013, 3:59 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Aug 9, 2013, 4:00 AM ]

Í sumar hefur hópur íslenskra og erlendra háskólanema og sjálfboðaliða lagt hönd á plóg við hin ýmsu verkefni sem unnin eru við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum. Á meðfylgjandi mynd má reyndar einnig þekkja eitthvað af gömlu refunum....

Öllu þessu fólki eru færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf og ánægjulega samveru.

An army of international students and volunteers joined us this summer for working/helping out on the different projects led by the Aquaculture and Fish Biology Department at Hólar University College. You will also recognize some old timers among them…

Thank you all for the good work and friendly atmosphere


Hér má sjá flesta þeirra - Here are most of them, from left to right: Nicolas Larrañaga (Fr., doktorsnemi/Ph.D. student), Amy Fingerle (USA, meistaranemi/M.Sc. student), Jacob Metzger (USA, sjálfboðaliði/volunteer), Kathryn Peiman (Can., sjálfboðaliði/volunteer), Katrina Adams (Can., sjálfboðaliði/volunteer), Christian Beuvard (Fr., doktorsnemi/Ph.D. student), Fabien Kaissaris (Fr., M.Sc. verknemi/intern), Romain Theysset (Fr., meistaranemi/M.Sc. student), Doriane Combot (Fr., M.Sc. verknemi/intern). Fremri röð/First row: Camille Leblanc (Fr., nýdoktor/Post-Doc), Megan Heath (Can., sjálfboðaliði/volunteer), Soizic Le Deuff (Fr., starfsmaður/employee), Marion Bigot (Fr., M.Sc. verknemi/intern), Diane Delaigue (Fr., M.Sc. verknemi/intern).

Þessi vantar á myndina /Missing: Antoine Millet (Fr., doktorsnemi/Ph.D. student), Sigurður Árnason (Is., doktorsnemi/Ph.D. student), Dan Govoni (USA, doktorsnemi/Ph.D. student), Stefán Árnason (Is., meistaranemi/M.Sc. student), Jónína Ólafsdóttir (Is.,meistaranemi/M.Sc. student), and Jóhann Þorbjörnsson (Is., meistaranemi/M.Sc. student).

Camille Anna-Lisa Leblanc

Upplýsingar fyrir nýnema

posted Aug 6, 2013, 5:51 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Aug 6, 2013, 5:55 AM ]

Þegar umsækjandi sækir rafrænt um skólavist við Háskólann á Hólum, fær hann (rafræna) kvittun með lykilorði að hans einkasíðu, þar sem hann getur fylgst með framvindunni.
Á þessari sömu síðu eru birtar ýmsar upplýsingar, og meðal annars er umsækjendum bent á að kynna sér upplýsingasíðu fyrir nýnema.
En þrátt fyrir það rignir inn fyrirspurnum um þessa hluti - endilega byrjið á að kynna ykkur upplýsingasíðuna, og hafið svo samband af þið eruð enn engu nær.
Eitthvað af krækjunum virkar einungis fyrir þá sem eru innskráðir á Ugluna. Allir nýnemar sem hafa greitt innritunargjöldin, ættu nú að vera komnir með aðgangsupplýsingarnar að Uglunni - þær  voru sendar með Íslandspósti, á lögheimili skv. þjóðskrá.
Sjáumst í lok ágúst.

Meistari Mette

posted Aug 6, 2013, 4:17 AM by Hjördís Gísladóttir


Nú í byrjun ágúst þreytti einn reyndasti reiðkennari Háskólans á Hólum, Mette Camille Moe Mannseth, meistarapróf Félags tamningamanna og er þar með fyrst kvenna en um leið sjötti einstaklingurinn sem hlýtur titilinn tamningameistari FT.

Prófið tók Mette hér heima á Hólum, og prófhrossin hennar þrjú eru öll frá Þúfum - stóðhestarnir Háttur og Hnokki, og hryssan Ró.
Á meðfylgjandi mynd situr hún hins vegar hryssuna Þrift frá Hólum.

Við óskum Mette innilega til hamingju með áfangann.


Enn af Hólavefnum

posted Aug 1, 2013, 1:10 AM by Hjördís Gísladóttir

Eins og við skýrðum frá fyrr í sumar, hefur Hólavefurinn ítrekað orðið fyrir árásum „hakkara“. Í vor hófst vinna við nýjan vef, en ekki tókst að ljúka henni fyrir sumarleyfi, enda í mörg önnur horn að líta hjá forriturunum okkar. Gamli Hólavefurinn var frystur í lok maí, og við reiknuðum með að hann fengi að vera í friði, óbreyttur.
En því miður gekk það ekki eftir, og hann leiðir fólk nú á villigötur. Við vonumst til að geta komið nýjum vef í loftið fljótlega eftir sumarleyfi.

Á meðan er nemendum og starfsmönnum bent á beinu slóðirnar að
Uglunni: https://ugla.holar.is/
Moodle: https://moodle.holar.is/
Hólapóstinum: https://mail.google.com/a/mail.holar.is/


Sumarleyfi

posted Jul 8, 2013, 4:11 AM by Hjördís Gísladóttir   [ updated Jul 8, 2013, 4:14 AM ]

Því miður hefur gengið hægar en vonast var til að koma nýjum Hólavef í loftið og nú er útséð um að það takist fyrir sumarleyfi. Við munum því enn um sinn þurfa að notast við þennan bráðabirgðavef fyrir fréttir og skilaboð.

Starfsmenn Hólaskóla - Háskólans á Hólum eru teknir að tínast í sumarleyfi. Starfsmenn deilda eiga flestir sumarleyfi í júlí, og þjónustuborðið verður lokað fram yfir verslunarmannahelgi. Starfsemi kennslusviðs liggur að mestu niðri (um óákveðinn tíma), frá og með þriðjudeginum 9. júlí. Þeir nýnemar sem greiða innritunargjaldið fyrir eindaga (10. júlí) munu þó fá aðgangsupplýsingar sínar sendar í næstu viku.

Minnt er á að haustönn hefst mánudaginn 26. ágúst. Í meðfylgjandi skjali er yfirlit um dagsetningar á staðbundnum lotum í ferðamáladeild á haustönn 2013.


1-10 of 27