Fréttir

Heil og sæl kæru foreldrar!

Góðri og annasamri viku er nú senn að ljúka hjá 5. PR.

Hápunktur vikunnar var að sjálfsögðu samstundin hjá 5. PR og þótt ég segi sjálf frá þá tókst hún frábærlega!  Krakkarnir voru dugleg að æfa enda var útkoman í samræmi við það, til hamingju krakkar!  Mig langar líka að þakka fyrir frábæra mætingu foreldra og annarra ættingja á samstundina.

Samstundin var tekin upp á myndband er hægt að finna myndbönd og myndir hér á síðunni undir myndir.

Að öðru leyti fór nýttum við tímann í vikunni í lestrar- , skriftar-, og stafsetningarpróf. Nemendur fóru líka í samvinnupróf í stærðfræði.  Mjög margir luku við málfræðibókina og eru langt komnir með Geisla – stærðfræðibókina.  Einnig var samvinnuverkefni  í íslensku.

Í næstu viku verður málfræðipróf á þriðjudag og fóru krakkarnir með málfræðibókina heim til að geta rifjað upp fyrir prófið.  Muna þarf að koma með bókina í skólann á mánudeginum J

Á föstudag verður bókmenntapróf í fyrsta sinn.  Það er svipað prófinu úr Leifi Eiríkssyni sem var fyrr í vetur en nemendur eiga að lesa ákveðnar sögur og svo verður spurt úr þeim.  Hægt er að hlusta á sögurnar inn á nams.is.  Leitið að Blákápa-hljóðbók.    Sögurnar sem eru til prófs eru:

Sossa og Setta bls. 17-22

Ásdís og Tóta bls. 29-34

Hér segir frá Títusi bls. 37-43

Með ósk um góða helgi, Paloma.


Samstund

Þann 6. maí var samstund hjá 5. PR.  Tókst hún frábærlega hjá nemendum og stóðu sig allir eins og hetjur.  Hér má sjá mynd af hópnum í upphafi samstundar:


Spurningakeppnin Lesum meira

Í dag þriðjudaginn 28. janúar tók 5. PR þátt í spurningakeppninni Lesum meira.  Þau gerðu sér lítið fyrir og sigruðu 7.ÞS í æsispennandi keppni.  Keppnin var jöfn og hrikalega spennandi og fjörug þökk sé frábærum stuðningsmönnum.  Hér eru nokkrar myndir af keppninni.  Til hamingju!

Lesum meira


aÍ næstu viku taka nemendur í PR þátt í spurningakeppninni Lesum meira.  Riðlakeppnin hefst í næstu viku og keppum við, við 7. ÞS. Hér er mynd af liðinu okkar. Það eru þau Laufey, María Ósk, Veigar Elí, Gabríel, Friðrik Ómar og Daníel Dagur.  Við óskum þeim góðs gengis í keppninni.
Jól í 5.PR

Í dag 16. desember bjuggum við til jólatré með pappírsbroti (origami).  Hér má sjá nokkur sýnishorn.  Brynjar Bjarmi var sannkallaður meistari origamisins í dag því hann braut saman5 jólatré!  Einnig er hér mynd af Veigari Elí sem brá sér í gervi brjálaðs vísindamanns.  Gleraugun kubbaði hann sjálfur :-)Sæl og blessuð öll.

Vikan hjá okkur hefur verið einstaklega ljúf og góð. 

Nemendur hafa verið duglegir og áhugasamir og unnið sín verkefni vel.  Við höfum varið drjúgum tíma í að ljúka við verkefnabækur og flestir langt komnir með það.

Í vikunni höfum við verið að fjalla um ástæður þess að Eiríkur Rauði flúði Íslands og fann því Grænland.  Nemendur bjuggu til myndasögu þar sem segir frá þessu ferðalagi og fóru einhverjir með myndasöguna heim því þeir hreinlega gátu ekki hætt að semja og vildu ólmir bæta við.

Í bókmenntum höfum við verið að fjalla um Æsi, goð og gyðjur og nú í vikunni höfum við verið að hlusta svolítið á Skálmöld.  Skálmöld er íslensk þungarokkshljómsveit með þjóðlaga áhrifum en textar laganna segja frá persónum íslensku goðafræðinnar.  Tónlist Skálmaldar hefur því hljómað í 5.PR í bland við hugljúf jólalög.

Í næstu viku setjum við í jólagírinn og leggjum meiri áherslu á verkefni tengd jólum.  Gott væri ef farið yrði yfir pennaveski til að tryggja að allir nemendur eigi enn lím og skæri, því það eru nauðsynleg tól við hvers kyns föndurgerð. 

Dagskrá menningardaga er komin inn á heimasíðu Lindaskóla en þeir hefjast  16. desember  og lýkur þann 20. desember með jólastund í skólanum.  Nánar um það síðar.

Með von um að þið njótið aðventunnar , kær kveðja, Paloma.

Má til með að láta eitt Skálmaldarlag fylgja með en þetta hefur ómað alla vikuna hjá okkur og svo er verið að syngja þetta lag í kórnum okkar :-)

Narfi - Skálmöld


                                                                                                                        

Í dag 27. nóvember kom Hilmar aðstoðarskólastjóri færandi hendi og gaf nemendum glæsilega kortabók.  Nemendur fengu að fara með bækurnar heim til að sýna foreldrum en eiga á skólatíma að geyma þær í skólanum þar sem þær koma að góðum notum við ýmsa verkefnavinnu.  Hér má sjá myndir af afhendingunni :-)

Kortagjöf


18. - 22. nóvember.

Kæru foreldrar!

Vikan hefur verið einstaklega indæl hjá 5. PR.  Nemendur verið vinnusamir og vinnufriður góður.

Næsta vika verður svolítið á annan veg en venjulega því við verðum með leynivinadaga.  Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um vikuna.

Í næstu viku verður heimanám einnig með öðru sniði en nú eiga nemendur um að finna eftirlætisuppskriftina sína og senda mér hana í tölvupósti.  Þar sem nemendur eru ekki allir með tölvupóstfang biðjum við foreldra um aðstoð við að senda póstinn.  Póstfangið er paloma@lindaskoli.is.

Heimalestur er auðvitað í heimanámi eins og venjulega.

Leynivinaupplýsingabréf

Heil og sæl!

Í næstu viku verða leynivinadagar  í 5. bekk.  Í dag föstudag drógu leynivinir nafn vinar síns og hafa nú nokkra daga til að undirbúa vinadaga.  Vinadagarnir hefjast síðan á þriðjudag og þeim lýkur á föstudag með sameiginlegum kósý-vinadegi hjá öllum í 5. bekk.

Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem við höldum leynivinadaga þá fórum við yfir það með nemendum hvernig svona dagar færu fram og hvert hlutverk leynivinar væri.  Meðal þess sem var rætt var:

Gaman er ef leynivinur gleður vin sinn a.m.k 1x -2x yfir daginn.  Ef veikindi koma upp og leynivinur getur ekki sinnt leynivinasambandi gerir umsjónarkennari viðeigandi ráðstafanir.

Hófsemi skal gæta við leynivinagjafir enda á kostnaður við leynivinadaga ekki að vera neinn.  Leynivinir mega þó nýta í litlar gjafir það sem til er heima t.d perla mynd, búa til vinabönd, föndra eitthvað fallegt eða gefa nokkra sælgætismola eða smákökur þar sem nú fer í garð tími smákökubaksturs J

Leynivinagjafir geta einnig verið í formi mynda, orðsendinga, hróss, góðsemi, ljóða o.s.frv.  

Gott er að hafa foreldra með sér í liði við að finna hugmyndir eða koma þeim í framkvæmd.  Einnig biðjum við foreldra að vera á vaktinni og sjá til þess að börnin þeirra sinni sínum leynivini.  Stundum þurfum við nefnilega hvatningu til góðra verka og æfingu í því að gleðja aðra.

Umsjónarkennari verður milligöngumaður með leynivinasendingum.

Á föstudag verður síðan upplýst hverjir eru leynivinir og við gerum okkur glaðan dag.  Þann dag ætlum við að mæta í náttfötum og nemendur mega koma með sparinesti.  Nemendur mega einnig koma með spil eða dót í skólann. 

Með ósk um góða samvinnu, Margrét, Nanna Þóra og Paloma.


23. - 25. október

Heil og sæl

Stuttri vinnuviku er nú lokið í 5. PR og helgin framundan.

Leifur heppni og sagan af honum hefur tekið drjúgan tíma hjá okkur í vikunni.  Við fræddumst um það þegar Eiríkur Rauði, faðir Leifs kynnist móður Leifs henni Þjóðhildi og svo segir frá fæðingu Leifs sjálfs.  Við horfðum á skemmtilegt myndband um víkinga og ferðir þeirra frá Skandinavíu bæði suður og norður á bóginn.

Vinnufriður hefur verið með eindæmum góður í vikunni og var í dag veitt hrós fyrir vinnusemi.

Ég hvet foreldra til að halda áfram að kemba reglulega svo hún Lúsý nái sér ekki á strik J

Munið kæru nemendur að vera dugleg að lesa heima.

Bestu kveðjur og óskir um  góða helgi, Paloma.


14. - 18. október


Heil og sæl kæru foreldrar.


Ég vil byrja á því að þakka ykkur kærlega fyrir komuna í foreldra- og nemendaviðtölin.  Mér fannst ákaflega gaman og gott að hitta ykkur öll.

Þessa vikuna höfum við eytt drjúgum tíma í að æfa og rifja upp það sem upp á vantaði í námsmatsverkefnunum.  Áherslan var á deilingu og mælingar.

Í vikunni fengu nokkrir nemendur viðurkenningu fyrir dugnað í heimalestri.  Þessir nemendur hafa lesið heima yfir 25 sinnum það sem af er vetri. Vel gert krakkar!

Í ensku höfum við verið að læra orð um tómstundir, íþróttir o.þh.

Í hverri viku vinnum við hin ýmsu verkefni í lesskilningi.  Aðallega erum við þó að lesa Snorra-Eddu í endursögn Iðunnar Steinsdóttur.  Þar er að finna góðar lýsingar á ásatrú þar sem segir frá Óðni og bræðrum hans, hrímþursum og jötnum, örlaganornum og sköpun heimsins.  Lýsingarnar í bókinni eru margar sérlega mergjaðar og skemmtilegar. Í vikunni vorum við t.d að lesa og vinna verkefni um það þegar Æsir sköpuðu Valhöll, bústað Ása.

Þó ótrúlegt megi virðast þá er vetrarfrí í skólanum í næstu viku, já svona líður tíminn fljótt.  Ætli það verði ekki komin jól áður en við vitum af.  Vetrarfríið er mánudag og þriðjudag 21.-22. okt.

Ekkert heimanám er í næstu viku.  

Ég vona að allir hafi það gott um helgina og eigi yndislega frídaga.

Kær kveðja, Paloma                      

7. - 11. október

Kæru foreldrar.

Ánægjuleg vika er að baki og yndisleg helgi framundan. 

Vikan hefur verið viðburðarík hjá okkur.

Fyrsti snjórinn lét dagsins ljós við mikla gleði nemenda. 

Fyrsta bekkjarkvöld vetrarins var haldið undir dyggri stjórn Helgu og Eddu.  Fengu þær Spilavini til liðs við sig sem kenndu okkur á hin ýmsu spil.   Úr var hin besta skemmtun og þökkum við fyrir skemmtilegt kvöld og góða mætingu.

Við fengum að gjöf nokkrar gæsalappir og eyddum góðri stund í að fræðast um gæsir og endur, heyra hljóðin og skoða myndir.  Einnig prýðir stofuna okkar órói með nokkrum skíðishvölum við Ísland og nýttum við okkur tæknina og skoðuðum hvalavefinn og lásum og skoðuðum myndbönd af steypireyð og hnúfubak. 

Við gáfum okkur einnig góðan tíma í að vinna nokkrar kannanir og verkefni.

Í dag föstudag var mikið um að vera hjá okkur.  Nemendur tóku þátt í UMSK hlaupinu og fór það fram í Mosfellsbæ.  Einnig var bleikur dagur í Lindaskóla.

Ég má til með að koma því á framfæri að verkgreinakennarar hafa komið að máli við mig nokkrum sinnum það sem af er vetri og hefur nemendum verið hrósað í hástert af þeim, fyrir ljúfa og fallega framkomu sem og góðan vinnufrið.  Virkilega ánægjulegt að heyra.

Lús hefur fundist í 5. bekk.  Nú taka allir höndum saman og kemba. Samhent náum við árangri!

Foreldraviðtöl hefjast í næstu viku.  Ég hlakka til að sjá ykkur.

Bestu kveðjur og góða helgi, Paloma.Hér birtist ljóð sem Agnes Lína samdi í vikunni.  

Flott hjá þér!


Kyrrð og ró

Ég sit hér ein uppi á steini,

læt mig dreyma í eigin heimi.

Sátt og sæl með djús í flösku,

einnig er ég með ferðatösku.


Ég leggst í grasið og fæ mér lúr

og ekkert fólk í göngutúr.

Engin hljóð úr krökkum heyrast,

nema þegar krakkar meiðast.

                                      Höf. Agnes Lína 7.okt 2013
Vikan 30. sept. - 3. október

Kæru foreldrar

Styttri skólaviku er nú lokið hjá 5. PR þar sem kennsla verður ekki á morgun föstudag.  Helgast það af sameiginlegum skipulagsdegi kennara í Kópavogi.

Vikan hjá okkur var frekar hefðbundin með hringekju, verkgreinum, íþróttum og tilheyrandi.  Stundum er rútínan góð og þægileg.  Vinnufriður hefur verið með eindæmum góður þessa vikuna enda hefur hrós dagsins verið tileinkað þeim sem leggja sig fram í náminu og einbeita sér.

Í vikunni fengum við í heimsókn, Solveigu Helgu af bókasafninu.  Hún kynnti fyrir okkur  spurningakeppnina Lesum meira sem 5. – 7. bekkur tekur þátt í.  Keppnin gengur út á það að nemendur lesa bækur sem eru fyrirfram ákveðnar og svo keppir lið úr hverjum bekk í spurningakeppni þar sem  spurt er út í efni bókanna.  Nú eru flestir búnir að velja sér fyrstu bókina  og fengu nemendur leyfi til að nýta þá bók einnig í heimalestri.  Gert er ráð fyrir að spurningakeppnin verði svo í janúar.  Ég hvet svo nemendur í 5. PR til að vera duglega að lesa.

Í vikunni fóru nemendur í lestrarpróf.  Í næstu viku notum við hringekjutímann til að mæla kunnáttu í hinum ýmsum þáttum. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur þurfi sérstaklega að undirbúa sig nema fyrir ensku, en það sakar auðvitað aldrei að rifja upp það sem nemendur hafa lært þannig að ég sendi heim bæði enskubækurnar og stærðfræðibókina ef einhverjir vilja rifja upp heima.

Stærðfræði - margföldun, deiling og mælingar (mismunandi mælieiningar, ummál og flatarmál).

Íslensku - málfræði (nafnorð, kyn, tala, fall), lýsingarorð (stigbreyting).  Stafsetn. (stór/lítill stafur, n-nn, ng/ng, einf/tvöfaldan samhljóða). Lesskilningur.

Ensku – Kafli/unit 2 og glósur úr honum aftast í pupils book.

Minni líka á að nú styttist í foreldraviðtöl en þau verða vikuna 14. – 18. október. Nánari tímasetning verður send heim hið fyrsta.

Góða helgi og hafið það gott, kv, Paloma.Vikan 23.-27. september

Kæru foreldrar.

Margt hefur verið brallað í vikunni hjá 5 PR en upp úr stendur þó evrópski tungumáladagurinn sem var fimmtudaginn 26. september.  Við fjölluðum um Evrópu og löndin sem henni tilheyra, unnum fánaverkefni sem við hengdum upp í stofunni okkar og svo gerðum við tungumálaverkefni í samvinnu við upplýsinga og tæknimennt þar sem við þýddum nokkur orð úr íslensku yfir á hin ýmsu tungumál í Evrópu. 

Við gerðum könnun á því til hvaða Evrópulanda krakkarnir í bekknum hefðu komið  og  í ljós kom að þeir hafa komið til 17 Evrópulanda þ.e  Stóra-Bretlands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Lettlands, Póllands, Tékklands, Tyrklands, Ítalíu, Þýskalands, Austurríkis, Hollands, Belgíu, Lúxembúrgar, Frakklands, Spánar og Portúgals.  Greinilega víðförlir krakkar J

Mig langar að segja ykkur líka frá því að Ólöf tölvukennari kom til okkar og hrósaði krökkunum í bekknum í hástert fyrir vandaða og góða vinnu við myndasöguverkefni sem þeir eru að vinna í tengslum við verkefni okkar um Leif Eiríksson.  Hún var sérlega ánægð með áhugasemina hjá krökkunum.  Frábært krakkar!  Verið er að leggja lokahönd á myndasögurnar og verða þær prentaðar út í næstu viku og svo setjum við þær á bekkjarsíðuna okkar.

Ég minni á að nemendur eiga að lesa reglulega heima auk annars heimanáms.

Í næstu viku, föstudaginn 4. október er skipulagsdagur í Lindaskóla.  Kennsla fellur niður þann dag.

Kær kveðja og góða helgi, Paloma.

Kæru foreldrar

Skólavikan er nú á enda og nemendur eflaust óþreyjufullir að fara í helgarfrí eftir annasama viku.

Námsefniskynning var á þriðjudag og tókst hún mjög vel enda sáu nemendur að mestu um framkvæmd hennar.  Umsjónarkennari fékk svo að spjalla í lokin við foreldra og þótti honum það gaman og gott.

Í vikunni hafa nemendur verið einstaklega dugleg við að vinna að verkefninu  um Leif heppna.  Ólöf tölvukennari tók á móti þeim og gerðu þeir myndasögu um víkinga í forritinu comic life.  Einnig skrifuðu þeir dagbók um ferðina frá Noregi til Íslands.

Lýsingarorð og margföldun hafa einnig tekið drjúgan tíma sem og enska.

Í íþróttum var svo farið í skemmtilegan ratleik.

Við tókum þátt í kosningu á nafni á útikennslustofu Lindaskóla og verða úrslit kynnt í næstu viku.  

Í heimanámi á að vinna mælingablað í stærðfræði og gera verkefni um nöfn í íslensku.  Upplýsingar um nöfn er að finna inn á Snara.is eða í bókinni Nöfn Íslendinga.

Hafið það yndislegt um helgina, kær kveðja, Paloma.Námsefniskynning í 5. bekk

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Hjartans þakkir fyrir komuna á námsefniskynninguna í morgun.  Það var okkur sönn ánægja að taka á móti ykkur og gefa ykkur innsýn í skólastarfið í Lindaskóla.  Það er von okkar að þið hafið haft gagn og gaman af.

Bestu þakkir til þeirra foreldra sem buðu sig fram sem bekkjarfulltrúa í sínum bekkjum.  Markmiðið er að halda a.m.k eitt sameiginlegt bekkjarkvöld fyrir allan árganginn.

Bekkjarfulltrúar í 5. bekk skólaárið 2013-2014 eru:

Helga Tómasdóttir helgatom@simnet.is og Edda Hlín Gunnarsdóttir halloedda@gmail.com  Í 5. PR.

Elva Hrund Ágústsdóttir elvaha@gmail.com  og Stella María Ármann stelarma@gmail.com  í 5. MÁ.

Svava Kristín Sigurðardóttir svava75@gmail.com  og Þorgerður Marínósdóttir gerda@lv.is  í 5. NJ.

Í lok vikunnar verða námsvísar aðgengilegir á heimasíðu Lindaskóla.

Við minnum líka á bekkjarsíður bekkjanna sem hægt  er að komast inn á í gegnum heimasíðu skólans undir bekkjarsíður.

Í einum bekknum fór af stað umræða um afmæli.  Við leggjum út frá því líkt og verið hefur í Lindaskóla að þess sé gætt að þegar boðið sé í afmæli innan bekkjarins að enginn sé skilinn útundan, hvort sem stelpunum/strákunum sé boðið eða öllum bekknum.  Vilji nemendur bæta við einstaka vinum úr öðrum bekkjum er ekkert við það að athuga. 

Bestu kveðjur, Margrét, Nanna Þóra og Paloma.

Vikan 9. - 13. september


Kæru foreldrar

Fjörug og skemmtileg skólavika er á enda. 

Við höfum verið afskaplega dugleg að vinna að verkefninu okkar í samfélagsfræði um ævi Leifs heppna.  Í vikunni kláruðum við að búa til risastóran knörr sem nú prýðir vegg í stofunni okkar. Knörrinn er nú orðinn stútfullur af vistum og dýrum sem fara eiga í langt ferðalag yfir hafið frá Noregi til Íslands.  Eins höfum við með okkur mikið safn vopna og klæða.

Í stærðfræði höfum við verið að rifja upp mælingar og margföldun.  Í móðurmáli höfum við verið að rifja upp stafsetningaæfingar og nafnorð og lýsingarorð.

Fyrsti sundtími vetrarins var í vikunni og gekk hann vel.

Í næstu viku verður námsefniskynning hjá 5. PR.  Munu nemendur sjá um kynninguna og svo fá foreldrar og nemendur tækifæri til að kynnast starfinu í 5. bekk í hringekju.

Að lokinni kynningu og stöðvavinnu fara nemendur í útivist og umsjónarkennari og foreldrar fá tækifæri til að hittast og ræða saman.

Við hlökkum til að hitta ykkur þriðjudaginn 17. september kl. 8:10-9:30.

Bestu kveðjur og góða helgi.

Hér sjáið þið knörrinn góða sem hefur fengið nafnið Drekaeldur.Vikan 2. - 6. september

Kæru foreldrar!


Góð vika er nú að baki í 5.PR.


Nemendur hafa verið duglegir að vinna við ýmiss konar mælingar, bæði lengdar og þyngdarmælingar.  Þeir hafa líka m.a æft sig talsvert í ensku og svo gerðu þeir klippiverkefni í stafsetningu.

Í síðustu viku byrjuðum við að fjalla um ævi Leifs Eiríkssonar þess fræga landkönnuðar.  Við héldum áfram verkefninu í þessari viku.  Í dag voru nemendur t.d að útbúa og teikna það sem fólk þurfti að hafa með sér þegar það flutti frá Noregi til Íslands á 9. öld.  Meðal þess sem mun prýða veggi skólastofunnar okkar er 3ja metra langur Knörr! 

Við vorum svo heppin að fá boð frá litlum skóla í Þýskalandi, nánar tiltekið frá Mügeln, um að gerast vinabekkur þeirra.  Það þáðum við með þökkum. Við sömdum því bréf í vikunni, þar sem við sögðum aðeins frá okkur og útbjuggum spjöld með upplýsingum á ensku og mynd af okkur.  Vonandi fáum við svo fljótlega bréf frá þeim.

Í vikunni byrjuðum við með hrós dagsins og var í þessari viku hrósað fyrir hjálpsemi :-)

Ég minni á heimasíðuna okkar 4pr.lindaskoli.com og heimanám á mentor.is

Bestu kveðjur og góða helgi :-), Paloma.Heil og sæl kæru foreldrar.

Nú er liðin fyrsta vika þessa skólavetrar og allt hefur gengið vel.

Nemendur hafa verið með eindæmum duglegir til vinnu og tekist á við verkefnin með bros á vör. Vinnufriður hefur einnig verið með eindæmum góður.

Í vikunni höfum við verið reglulega í hópefli og í lífsleikni höfum við farið í á hverjum degi.  Það er  gert til að endurnýja kynni við gamla bekkjarfélaga og kynnast nýjum, byggja upp bekkjaranda og leggja línurnar varðandi bekkjarstarfið í vetur varðandi hegðun og samskipti.

Við fórum í hringekju í vikunni og þar fórum við í ensku, ýmsar stærðfræðiþrautir úti og inni og hönnunarvinnu þar sem nemendur hönnuðu turna.  Sjá má myndir frá hringekjutímunum á heimasíðunni okkar, 4pr.lindaskoli.com (sökum anna hefur tölvudeildin ekki náð að breyta nafninu í 5pr, læt vita þegar það gengur í gegn).

Nemendur fóru einnig í verk- og listgreinar ásamt íþróttum og tónmennt.  Sund féll niður þar sem heitavatnslaust var í Salahverfi.

Nú fer heimavinna heim í fyrsta sinn í vetur.  Heimavinna verður nú sett inn á mentor en líka er hægt að nálgast heimavinnuáætlun á bekkjarsíðunni.  Í þessari viku fer heim blað með stærðfræðiþrautum sem skila á í síðasta lagi á þriðjudag.

Í dag fengu nemendur heim blað vegna skráningar í skólakórinn.  Skólakórinn er fyrir 2. -3. bekk og   4. – 5. bekk.  Kórinn æfir á fimmtudögum kl. 9:50 og hvet ég alla sem hafa áhuga, að taka þátt í þessu stórskemmtilega starfi.  Jóhanna Halldórsdóttir stýrir sem fyrr kórstarfinu.

Með kærri kveðju og ósk um indæla helgi, Paloma.

Heil og sæl!

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn en nemendur úr 4. bekk í Smáraskóla komu og kynntu fyrir okkur verkefni sitt um umhverfisvernd.  Það var virkilega skemmtilegt að fá krakkana í heimsókn og vonandi eigum við eftir að hitta þau oftar! Hér koma myndir frá heimsókninni.

Heimsókn úr Smáraskóla

Kæru foreldrar!

Á mánudag er II í Hvítasunnu og þá er frí í skólanum.  

Á miðvikudag förum við í vettvangsferð í Fræðasetrið í Sandgerði.  Lagt verður af stað með rútu kl. 8:20 og komum við heim um kl. 12.  Mæting er samkvæmt stundarskrá þennan dag.  Mikilvægt er að nemendur komi klæddir í takt við veður og veðurspá.

Bestu kveðjur og góða Eurovisionhelgi :-), kv, Paloma.


Heil og sæl!

Í  vikunni lærðum við m.a um faldheiti í stærðfræði, lásum sögu um óskir og bjuggum til óskasteina.  Þá var einnig unnið með nafnorð og lýsingarorð í náttúrunni í útikennslu.  Í dag föstudag enduðum við daginn á enskubingói sem var mjög skemmtilegt og spennandi.

Í næstu viku byrjum við í prófum sem dreifast á næstu tvær vikur. 

Í þeirri viku verður prófað í hraðlestri, lesskilningi og skrift og í næstu viku verður farið í stærðfræði, stafsetningu og málfræði/móðurmál. Við sendum núna heim blað þar sem tilgreind eru þau atriði sem prófað verður í.  Einnig bendum við á veffang Sprota sem er http://vefir.nams.is/sproti/index.html.  Þar er að finna ýmis aukaverkefni t.d ef farið er inn á slóðir og inn í Sprota í Noregi.

Í næstu viku þann 9. maí verður frí í skólanum vegna Uppstigningardags.   

Átakið göngum í skólann fer ágætlega af stað og allflestir sem ganga í skólann.

 Kærar kveðjur og bestu óskir um góða helgi.

 

Hér má sjá hina frábæru mynd Bergþóru Sólar sem hún teiknaði fyrir teiknimyndasamkeppni MS.  Til hamingju Bergþóra Sól!

Vikan 15. - 19. apríl.

 

Heil og sæl!

 

Í vikunni nýttum við tímann m.a í hringekju. 

Nemendur unnu í stærðfræði og lærðu að reikna út flatarmál.  Í ensku var unnið með tímatal og svo voru unnin verkefni í íslensku um samsett orð og lýsingarorð.  Það er alltaf gott og gaman að fara í hringekju því þá er öllum nemendum í 4. bekk blandað saman og myndaðir nýir hópar.

Nemendur halda áfram að vinna í mannkynssöguverkefninu, bæði í heimastofum og í tölvustofu.

Við höfum líka verið dugleg að lesa í skólanum og minnum nemendur á að vera það einnig heima við enda líður að síðasta lestrarprófi vetrarins.

Í vikunni var samstund hjá 4. PR.  Myndir af samstundinni eru komnar inn á heimasíðuna okkar.

Á fimmtudaginn í næstu viku er Sumardagurinn fyrsti.  Þá er frí í skólanum.

 

 

Friðrik Ómar var staddur á bókamarkaðnum í Perlunni um daginn og var svo heppinn að lenda í sjónvarpsviðtali.  Hér sjáum við þetta flotta viðtal við hann:

http://www.visir.is/krossgatublod-og-andres-ond-i-perlunni/article/2013130229456

 

Vikan hjá 4. PR 26. - 1. mars.

Kæru foreldrar.

Vonandi var vetrarfríið yndislegt hjá öllum í 4. bekk.

Eftir vetrarfrí mættu eldhressir nemendur sem endranær sem voru duglegir eins og flesta daga.

Í vikunni byrjuðum við að huga að menningu Egypta til forna og héldum áfram að fylla upp í tímalínuna sem nú er komin upp á vegg í skólastofunni.  Egyptar voru og eru spennandi viðfangsefni með píramídana, faraóana og Sfinxinn svo einhver dæmi séu tekin.

Í stærðfræði æfðu nemendur sig á því að vinna með samlagningu og frádrátt sem andhverfar aðgerðir.

Nemendur fóru í könnun á stafsetningu/upplestur og héldu áfram að vinna með einstök málfræðiatriði í Málrækt.

Næstum á hverjum morgni fá nemendur 10-15 mínútna næðisstund sem við nýtum í lestur í hljóði.  Mikilvægt er þó að sleppa ekki heimalestrinum því hann er einnig æfing í því að lesa upphátt sem er ekki síður mikilvægur lestrarmáti.

Þriðjudaginn 5. mars fá nemendur með sér heim vitnisburðarblöð.  Þar er að finna lokaeinkunnir úr þeim verkgreinum sem nemendur hafa lokið við ásamt miðsvetrarmati. 

Á næstunni eru foreldra- og nemendaviðtöl og verða vitnisburðablöðin m.a notuð sem grundvöllur umræðna um námið sem og leiðsagnarmatið sem þið þekkið orðið allvel.

Við minnum alla einnig á að aðstoða börn sín við leiðsagnarmat en það lokast fyrir það 4. mars.

Miðvikudaginn 6. mars er skipulagsdagur í skólanum og er frí þann dag. Dægradvöl verður opin að venju.

Góða helgi og bestu kveðjur, Nanna Hlín, Nanna Þóra og Paloma.

 

Kæru foreldrar.

Fjörugri og skemmtilegri viku er nú lokið. 

Upp úr stendur þó stórskemmtilegur dagur á öskudag.  Þá mættu nemendur og kennarar í alls kyns búningum og gerðu sér glaðan dag.

Í vikunni fóru nemendur einnig í hraðapróf í lestri, lesskilningskönnun og málfræðikönnun.

Í heimanámi verðum við með síðari vikuna í stafsetningarátakinu og minnum á að ekki þarf að skila fyrr en eftir vetrarfrí.

Við minnum á vetrarfrísdagana 22. febrúar og 25. febrúar.  Þá er frí í skólanum og dægradvöl.

Við vonum að allir hafi það yndislegt í vetrarfríinu.

Kær kveðja, Nanna Hlín, Nanna Þóra og Paloma.

 

 

 

 

Komið þið sæl kæru foreldrar.

 

Námsvikan í 4. bekk leið eins og hendi væri veifað.  Janúar rétt nýbyrjaður þegar febrúar heilsaði með snjókomu og frosti

 

Við látum ekki deigan síga í og erum byrjuð að kanna námslega stöðu nemenda með könnunum og verkefnum í tíma.  Í vikunni fóru flestir nemendur í stutta stærðfræðikönnun þar sem farið var í efni vetrarins til þessa. 

 

Í málrækt æfðum við okkur á að syngja þjóðsönginn okkar – Lofsönginn.  Það var virkilega skemmtilegt og ánægjulegt að heyra hversu margir kunna þjóðsönginn okkar.

Í næstu viku verða lestrarpróf bæði hraðlestrar- og lesskilnings.

Þá verður einnig lögð fyrir málfræðikönnun. 

 

Næst er mannkynssaga á dagskrá hjá okkur í samfélagsfræði og ætlum við að takast á við hana í góðri samvinnu við Ólöfu kennara í upplýsingatækni. 

Í lok vikunnar fengum við að sjá stuttmyndina Töfrahluturinn sem nokkrar vaskar stúlkur í bekknum bjuggu til.  Var myndin skemmtileg og spennandi og uppskáru kvikmyndagerðamennirnir mikið lófaklapp eftir sýningu myndarinnar.  Ég fékk leyfir höfunda til að setja myndina á síðuna okkar.

 

tofrahluturinn.wmv

 

 

Næsta mánudag verður bolludagur og mega nemendur koma með bollu í skólann af því tilefni. 

Á mánudaginn fá nemendur í 4. bekk að fara í íþróttir í Fífuna.  Nemendur fara með íþróttakennara í rútu og hefst tíminn kl. 8:10 þennan dag.  Mikilvægt er að nemendur séu mættir kl. 8:00 í skólann því rútan fer 8:10 frá skólanum.

 

Á öskudag miðvikudaginn 13. febrúar n.k. ætlum við bregða á leik í skólanum. Skólastarfið hefst 8:10 eins og venjulega en skóladegi lýkur að lokinni dagskrá kl. 11:30 hjá 5.-7. bekk og kl. 12:30 hjá 1.-4. bekk.  Dægradvölin verður opin fyrir þá sem þar eru skráðir. Við hvetjum alla til að koma í grímubúningi. Ef vopn fylgja búningum eru nemendur beðnir um að geyma þau heima. Nemendur mega koma með sparinesti (bakkelsi og safi).  Í stað hefðbundinnar stundatöflu verður boðið upp á hinar ýmsu stöðvar sem nemendur geta valið eftir áhuga. Má þar nefna:
.    Íþróttafjör

.    Keppnisþrautir, limbó o.fl.
.    Öskupokagerð
.    Vídeó
.    Singstar
.    Tölvuleikir
.    Poppland-heimilisfræði
.    Minute to win it
.    Diskótek
Spákonur verða á staðnum og spá fyrir þeim sem hafa áhuga á að skyggnast inn í framtíðina.

Nemendur í 7. bekk bjóða upp á andlitsmálun.

 

Kær kveðja, Paloma.

 

 

Fréttir úr 4. PR í fyrstu viku desembermánaðar.

Heil og sæl kæru foreldrar.

Skemmtileg vika er nú að baki í 4. bekk.  Það sem hæst ber er að við byrjuðum á jólahringekju og þar fá nemendur að föndra og spreyta sig á ýmsum jólaverkefnum. 

4. bekkur mun sjá um helgileikinn að venju og búið er að draga í hlutverk og æfingar eru hafnar.  Helgileikurinn verður sýndur á stóru samstund sem verður 18. desember.  Foreldrar mega að sjálfsögðu koma að horfa á.

Á fimmtudag fengum við góðan gest í heimsókn en þá kom rithöfundurinn Ólafur Gunnar Guðlaugsson í heimsókn og las fyrir

1. -4. bekk upp úr bók sinni um Benedikt búálf sem margir þekkja.  Bókin sem hann las uppúr heitir Runni risi.

Í næstu viku hefjast menningardagar í skólanum og látum við dagskrá dagana fylgja með sem viðhengi.

Í anda jólanna langar mig til að nota tækifærið og hrósa börnunum ykkar.  Dag eftir dag sýna þau mér og öðru starfsfólki Lindaskóla allt það fallega sem til er í fari mannfólksins með hjálpsemi sinni, kurteisi, umburðarlyndi og jákvæðni.  Það er mikil blessun að mega starfa með börnunum ykkar og ég er þakklát fyrir að fá að vinna með þeim.

Njótið aðventunnar og eigið indæla helgi!

Paloma.

Hva! Tvíburar í 4. PR - Gaman að þessu!  Friðrik Ómar og Benedikt Kristinn flottir á föstudegi!
 
Fréttir vikunnar 26. - 30. nóvember

Heil og sæl kæru foreldrar.

Vikan hjá 4. bekk hefur svo sannarlega verið viðburðarrík og fjölbreytt.

Á milli skriflegra verkefna, lesturs, talnaglöggvunar og annarrar skólavinnu nýttum við tímann í leggja lokahönd á Japansverkefni vetrarins. 

Það gerðum við á samstund þar sem við kynntum fyrir foreldrum og 3. bekkingum verkefnið okkar.  Samstundin tókst frábærlega í alla staði og kennararnir í 4. bekk voru einstaklega ánægðir með hana sem og verkefnið allt.  Við þökkum nemendum kærlega fyrir áhugann og vinnusemina. 

Myndir er að finna á heimasíðu bekkjanna og skólans.

Í vikunni vorum við líka svo heppin að fá til okkar góðan gest.  Jón Pétur Úlfljótsson danskennari sótti okkur heim og dansaði og sprellaði með okkur.  Það var svo sannarlega líf og fjör hjá okkur og allir dönsuðu af hjartans lyst.

Við héldum svo áfram að dansa út vikuna!

Myndir frá heimsókninni er líka að finna á heimasíðu bekkjanna sem og heimasíðu skólans.

Jóladagatal Umferðarstofu verður á www.umferd.is frá 1.-24. desember. Þar geta skólabörn svarað skemmtilegum og fræðandi spurningu á hverjum degi og komist  í verðlaunapott. Tveir heppnir þátttakendur verða dregnir út á hverjum degi og fá þeir tvo bíómiða hvor. Einnig er hægt að merkja svörin með nafni bekkjar og komast í sérstakan bekkjarverðlaunapott. Einhverjir bekkir vinna pítsuveislu.

 

Við minnum einnig á endurskinsmerkin!

 

Njótið aðventunnar!

Nanna Hlín, Nanna Þóra og Paloma.

 

 

Friðrik Ómar í viðtali

posted Mar 13, 2013, 1:19 AM by Paloma Ruiz Martinez

Friðrik Ómar var staddur á bókamarkaði Perlunnar um daginn og lenti þar í sjónvarpsviðtali.  Hann stóð sig vel eins og hans er von og vísa.  Hér er hægt að sjá þetta skemmtilega viðtal.  Þú ert flottur Friðrik Ómar:

Vikan 21. - 25. janúar

posted Jan 25, 2013, 2:30 AM by Paloma Ruiz Martinez

Komið þið sæl kæru foreldrar.

Allt gengur sinn vanagang hjá 4. bekk þessa dagana.  Í vikunni fórum við í hringekju og fórum í málfræði, námundun og stafsetningu svo eitthvað sé nefnt.

Við höfum reynt að gera Eldgosinu í Eyjum góð skil í vikunni.  Við horfðum á myndbönd frá gosinu, sungum Eyjalög í samstund og ræddum og fræddumst um eldgos og jarðskjálfta.

Nú eru allir komnir á gott skrið í nýjum verkgreinahópum og ganga tímarnir vel.

Í vikunni lukum við lestri á nestissögunni okkar um nornirnar eftir Roald Dahl.  Við lásum söguna á mettíma enda var hún ákaflega spennandi.  Svo mikill var spenningurinn að við sagan var lesin í öllum götum og aukatímum sem gáfust.  Að lestri loknum horfðum við svo á kvikmyndina sem byggð var á bókinni.  Hún var ekki síður skemmtileg.
Við ræðum vikulega og stundum daglega leiðir til að auka lífsleikni okkar.  Í þessari viku ræddum við um mikilvægi þessa að tala vel um aðra og ef við hefðum eitthvað við annað fólk að athuga þá væri besta leiðin að koma því til skila með því að ræða það beint við þann aðila.
Eftirfarandi fannst okkur mjög mikilvægt:
Ef þú talar vel um aðra þá er líklegra að aðrir tali vel og fallega um þig.
Ef þú ert góð/ur við aðra og hjálpsöm/samur þá er líklegra að aðrir séu líka góðir og hjálpsamir við þig.
Við minnum nemendur og foreldra á að vera dugleg að lesa heima í heimalestri.

Með bestu óskum um góða helgi,  Paloma.

Helgileikur

posted Dec 18, 2012, 6:38 AM by Paloma Ruiz Martinez   [ updated Dec 18, 2012, 6:39 AM ]

Þessi fallega mynd var tekin á stóru samstund 18. desember 2012.  Myndina tók Vignir pabbi Söru Jónu.

19. - 23. nóvember

posted Nov 23, 2012, 5:22 AM by Paloma Ruiz Martinez

Heil og sæl kæru foreldrar.

Margt hefur verið gert í vikunni í 4. bekk en upp úr stendur Japansdagur sem haldinn var á fimmtudag.

Þá unnum við ýmis verkefni í tengslum við Japan.  Það sem var í boði var t.d að fræðast um íþróttir, hús eða búa til japanska Kimmidoll.  Við notuðum íþróttatímann í karateæfingu sem Nanna Hlín kennari sá um með aðstoða Daníels Dags og Arons Hafliða.  Nemendur skrifuðu niður óskir sem settar voru á japanska óskatréð okkar. Nemendur bjuggu til sushi og svo var sushiveisla í lok dagsins.  Þetta var einkar ánægjulegur dagur og nemendur einstaklega duglegir og áhugasamir.

Í næstu viku miðvikudaginn 28. nóvember verður sameiginleg samstund hjá 4. bekk.  Samstundin hefst kl. 12:10. 

Nemendur munu þá kynna Japan fyrir foreldrum. 

Við bjóðum foreldra hjartanlega velkomna í nýjan samstundarsal á neðri hæð á yngra gangi.  Salurinn er í fyrstu stofunum vinstra megin, gengið inn frá yngra inngangi.
Góða helgi, Paloma.

Fréttir vikunnar 12. - 16. nóvember

posted Nov 16, 2012, 5:14 AM by Paloma Ruiz Martinez   [ updated Nov 16, 2012, 5:20 AM ]

Heil og sæl foreldrar góðir.

Nýliðin vika var fljót að líða við leik og störf í 4. bekk.

Í hringekju var á dagskrá að gera verkefni í stærðfræði um hliðrun, speglun og snúning hjá Nönnu Þóru.  Í ensku voru líkamshlutar  á dagskrá hjá Nönnu Hlín og nemendur tóku þátt í teiknimyndasamkeppni Mjólkursamsölunnar hjá Palomu.

Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember fögnuðum við afmælisdegi stórskáldsins Jónasar Hallgrímssonar með því að fara með ljóðin hans og vinna verkefni tengd þeim. Við ræddum einnig um mikilvægi íslenskrar tungu og hve sérstök okkar tunga er enda eru fáir í heiminum sem tala hana.

Við lásum álfa og dvergasögur í bókmenntum og bjuggum til sögur eða ljóð tengt því í framhaldi.
Undanfarnar vikur höfum við fengið góða gesti í heimsókn, en fyrrum nemendur í 4. PR hafa heimsótt okkur og varið með okkur dagsparti.  Í síðustu viku kom Andrea Thelma í heimsókn og í þessari viku kíkti Viktor Elmar á okkur.  Við þökkum þeim kærlega fyrir heimsóknina og vonum að þau komi sem oftast.
Við fengum hjúkrunarfræðing skólans hana Þorgerði í heimsókn og hún fræddi okkur um heilbrigði og heilsufar.  Við þökkum henni fyrir heimsóknina.
Við hvetjum ykkur til að muna eftir sultukrukku til að koma með í skólann, enn eru þó nokkrir sem eiga það eftir

Mánudaginn 19. nóvember verður starfsdagur í Lindaskóla og því engin kennsla.  Dægradvöl er opin fyrir þá sem eru skráðir í hana.

Bestu kveðjur Paloma.

Fréttir vikunnar í 4. PR

posted Nov 9, 2012, 2:33 AM by Paloma Ruiz Martinez

Sæl og blessuð kæru foreldrar.

Vikan hefur hefur verið skemmtileg og fjölbreytt.

Í samfélagsfræði héldum við áfram að vinna alls kyns verkefni tengd Japan.  Nemendur brutu Origami hjá Palomu, sömdu hækur (japanskt ljóðaform) hjá Nönnu Hlín og bjuggu til japönsk bókamerki og hlustuðu á japanska þjóðsögu hjá Nönnu Þóru. 

Í stærðfræði gerðum við verkefni um grömm og kílógrömm og erum að æfa okkur að margfalda með heilum tug eða hundraði, t.d 10x40 eða 100x400. 

Við æfum okkur líka vikulega í deilingu og gerum ýmis stærðfræðiverkefni í Sprota.

Í vikunni vorum við einnig að æfa okkur í ritun og skapandi skrifum.

Í bókmenntum fræddumst við um Landvætti Íslands.  Unnum einnig ljóðaverkefni þar sem við lærðum um ljóðstafi og ortum um leið ljóð um 4. PR sem er svona:
Um 4. PR
Þessi bekkur þögull er,
þá er hann svo stilltur.
Frábærlega flottur her,
fyndnum krökkum fylltur.
Höf: 4. PR.

8. nóvember var alþjóðlegur dagur gegn einelti og gerðum við deginum góð skil í 4. bekk.  Auk þess að ræða töluvert um einelti, endurtekna stríðni og afleiðingar þess fórum við í vinaleiki og nokkrar stelpur í bekknum fluttu atriði þar sem fjölbreytileika fólks var fagnað.  Skólastjórar komu í heimsókn til okkar og gáfu okkur armband þar sem minnt var á jákvæð samskipti.

Í vikunni var haldið bekkjarkvöld hjá 4. PR.  Spiluð var félagsvist og snæddar dýrindis kræsingar.  Við þökkum Helgu og Salah fyrir að skipuleggja þetta kvöld fyrir okkur og Einari fyrir að sjá um og kenna okkur félagsvist.

Bestu kveðjur Paloma.

Vikan hjá okkur í 4. PR

posted Oct 26, 2012, 6:11 AM by Paloma Ruiz Martinez

Skemmtileg en stutt vika er nú að baki í 4. bekk.  Vonandi eru allir endurnærðir eftir vetrarfríið.

Í vikunni fengum við til okkar góðan gest Fjólu Ágústsdóttur sem sagði okkur frá dvöl sinni í Japan.  Hún sýndi okkur myndir frá heimsókninni og muni sem hún eignaðist þar.  Var virkilega skemmtilegt að heyra hana segja frá upplifun sinni á Japan.  Nemendur í 4.bekk voru ósparir á spurningar og greinilegt að þeir vildu vita sem mest um Japan enda landið um margt mjög ólíkt Íslandi.

Hægt er að skoða myndir á heimasíðum bekkjanna.

Ég vil þakka nemendum fyrir vel unnið verkefni í heimanámi varðandi orðskýringar.  Upp á vegg hanga nú öll nýju orðin sem við höfum lært hvert af öðru.

Bestu kveðjur og óskir um yndislega helgi, Paloma.

15. - 19. október í 4. PR

posted Oct 19, 2012, 1:43 AM by Paloma Ruiz Martinez

Fréttir vikunnar

Það sem uppúr stendur í þessari viku er stórskemmtilegt verkefni um Japan sem við höldum síðan áfram að vinna í á næstu vikum.

Í þessari viku var hægt að gera verkefni á þremur stöðvum.  Á fyrstu stöðinni var hægt að læra japönsku og japanskt lag, á annari stöðinni var japanski fáninn búinn til og landfræðilegt kort af Japan og á þriðju stöðinni fræddust nemendur um veðurfar og árstíðirnar.

Ég vil þakka þeim nemendum sem komu með japanska hluti og bækur að heiman til að sýna okkur.

Gaman væri að heyra ef einhverjir foreldrar eða nátengdir hefðu komið til Japans og gætu kannski frætt okkur um ferðina J

Ég er einstaklega ánægð með það hversu nemendur eru duglegir að nýta bókasafnið í frjálslestrarstund og hvetjum nemendur til að gera það áfram.

Vetrarfrí verður í skólanum 22. og 23. október (mánud. og þriðjud.) og vonum við að nemendur njóti þess í hvívetna með fjölskyldunni.

Bestu kveðjur og óskir um yndislega helgi, Paloma

Vikan sem var í 4. PR

posted Oct 12, 2012, 7:21 AM by Paloma Ruiz Martinez

Fréttir vikunnar

Mikið er nú lífið skemmtilegt hjá okkur í 4. bekk.  Við höfum nóg að gera, fáum að læra á hverjum degi, leika okkur, taka þátt í alls kyns tómstundastarfi og eigum marga að sem við elskum og elska okkur.  Þetta er meðal annars það sem við ræðum í lífsleikni í vetur.  Það er að vera þakklát fyrir það sem við eigum.

Í vikunni undirbjuggum við okkur fyrir næsta samfélagsfræðiverkefni en nú ætlum við að fræðast um Japan.  Nemendur fengu hugstormun í einum tímanum og fæddust mörg skemmtileg verkefni sem unnin verða á næstu vikum.  Nemendur í 4. bekk vilja t.d læra japönsku, að syngja japönsk lög, landafræði Japans,  um íþróttir Japana og siðir og venjur þar í landi.  Nemendur vilja líka fræðast um fatnað, húsnæði og mat Japana.  Þeir vilja gjarnan læra að brjóta origami og föndra.  Einhverjir mundu eftir því að í Japan var sprengd fyrsta kjarnorkusprengjan á borgina Hirosima.  Þetta verður örugglega skemmtilegt og spennandi verkefni.

Í smíði hafa nemendur verið að búa til fallega óróa og verkefni á hjólum og í textíl hafa nemendur verið að sauma bangsa og sauma út í dúk.

Ég minni á að foreldraviðtöl verða eftir skóla í næstu viku og þarnæstu. 

Vetrarfrí verður í skólanum 22. og 23. október.

Bestu kveðjur og óskir um yndislega helgi, Paloma.

        

1. - 5. október.

posted Oct 5, 2012, 6:15 AM by Paloma Ruiz Martinez

Fréttir vikunnar

Ánægjulegri viku er nú lokið í 4. bekk. 

Í stærðfræði höfum við verið að æfa okkur í því að nota ýmsar aðferðir í stærðfræði við að leysa dæmi.  Það eykur skilning okkar á tölum og talnahugtökunum.

Í ensku æfðum við okkur á tölunum.

Í bókmenntum lásum við spennandi og ótrúlega frásögn Haraldar Arnar Ólafssonar um ferð hans á Norðurpólinn.  Við skoðuðum einnig myndbönd af slíkum leiðöngrum.  Undanfarnar vikur hefur okkur einnig verið tíðrætt um ferð hans á Everestfjall og við horft á myndbönd af slíkum afrekum.

Nemendur fá reglulega hrós dagsins.  Í þessari viku fengu nemendur hrós fyrir ýmislegt t.d að ganga hljóðlega um í og úr kennslu, hjálpsemi í matsal sem og við einstaka bekkjarfélaga og fyrir að hrósa hver öðrum.

Í vikunni fóru allir nemendur í tölvustofuna og tóku könnun um eigin líðan, skólann og samskiptin í skólanum.  Niðurstöður könnunarinnar verða síðan ræddar í fyrsta foreldraviðtali vetrarins.

Á mentor er nú búið að opna fyrir leiðsagnarmat og hvet ég foreldra til að setjast niður með barninu sínu, ræða markmið og framvindu námsins.

Í dag föstudag tókum við þátt í skólahlaupi UMSK.  Fór það fram á Kópavogsvelli í blíðskaparveðri og gekk vel í alla staði.

Bestu kveðjur, Paloma.

1-10 of 74